Áratugurinn 1881 til 1890

Áður en haldið verður áfram að rekja veður frá ári til árs á milli 1880 og 1890 er rétt að líta örstutt á hitafar þessa afspyrnukalda áratugar í heild. Við byrjum á því að líta á mynd sem sýnir 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Reykjavík og á landinu í heild.

w-blogg160518-hiti1880-91

Ártöl eru á lárétta ásnum. Hiti í Reykjavík er sýndur með rauðum ferli, en landsmeðaltalið með bláum, kvarði til vinstri. Græni ferillinn sýnir mismun hinna tveggja - kvarðinn sem á við hann er til hægri á myndinni. 

Við sjáum frostaveturinn mikla 1880 til 1881 vel. Tólf mánaða meðaltal byggða landsins fór þá niður fyrir frostmark, en niður í 2,1 stig í Reykjavík. Eftir þetta hækkaði hitinn nokkuð, mjög kalt var að vísu 1882, en síðan heldur skárra árin 1883 og 1884. Þá náði landshitinn um það bil upp í meðalhita áranna 1961-1990 (blá strikalína þvert um myndina). Í Reykjavík náði hitinn hins vegar ekki sama meðaltali. Meðalhiti í Reykjavík síðustu tíu árin (2008 til 2017) er svo hár að hann kemst ekki inn á þessa mynd. 

Á árinu 1885 kólnaði snögglega aftur og við tók fjögurra ára mjög kalt skeið, öll árin 1885, 1886, 1887 og 1888. Árið 1889 hlýnaði hins vegar að mun. Áður hefur verið á það bent hér á hungurdiskum að Reykjavíkursvæðið er tiltölulega vel varið fyrir áhrifum hafískulda - betur heldur en flest önnur svæði landsins. Því er það gjarnan svo að sé hafís við land munar miklu á Reykjavíkurhita og landshita. Á þessari mynd sjáum við að miklu munar bæði árin 1881 og 1882, minna árin næstu, en svo koma aftur tveir toppar á mismunarferlinum, báðir sýna hafíshámörk. 

Sé munur landshita og Reykjavíkurhita minni en að meðaltali má oftast kenna vestankuldum. 

w-blogg160518-sjavarh1880-90

Myndin sýnir 12-mánaðakeðjur sjávarhita í Vestmannaeyjum (rauður ferill) og í Grímsey (blár). Græni ferillinn sýnir mismuninn. Rauða strikið sýnir meðalsjávarhita við Vestmannaeyjar síðustu 10 árin (2008 til 2017), en það bláa meðalsjávarhita í Grímsey á sama tíma. Sjávarhitinn í Grímsey sveiflast býsna mikið - ekki var hægt að mæla sjávarhita þar samfellt allt árið 1881 vegna ágangs hafíss. Í Vestmannaeyjum féll sjávarhitinn hægt og bítandi allt til þess að viðsnúningur varð 1889. 

Mikill munur á sjávarhita þessara tveggja staða er oftast vísbending um hafís - eða þá kulda nyrðra vegna bráðnandi íss fyrir norðan land. Ísahámörkin 1882 og 1885 til 1886 koma hér vel fram, en hámarkið 1888 síður. Skýringin á því er einfaldlega sú að þá komst ísinn vestur með suðurströndinni og vestur fyrir Eyrarbakka. Kaldur sjór að austan fór vestur með allri ströndinni vestur að Reykjanesi. Nægilega mikið var af köldum sjó og hafís til að halda sjávarhitanum niðri langtímum saman. Umhugsunarvert ástand. 

Næsta mynd á að gefa yfirlit um landshitann frá mánuði til mánaðar allan áratuginn. Tölurnar sýna í hvaða sæti hiti mánaðarins raðast meðal almanaksbræðra tímabilsins frá 1823 til 2017, 195 ár alls. Talan 195 þýðir að um kaldasta mánuð sé að ræða, en talan 1 er sett við þann hlýjasta.

w-blogg160518a

Sé mánuðurinn meðal þeirra tíu hlýjustu er dökkrauður litur notaður til áherslu, en dökkblár sé hann meðal þeirra tíu köldustu. Afgangi mánaðanna er skipt á þrjú litabil, bleikt er sett við hlýjasta þriðjung afgangsins, en blár við þann kaldasta. 

Sé rýnt í mynd sem þessa fyrir allt tímabilið frá 1823 kemur í ljós að þau ár sem er alveg án mánaðar í bleikum eða rauðum lit eru sárafá. Á þessum áratug sem hér er fjallað um eru þau t.d. „aðeins“ tvö, 1887 og 1888. Þá liðu 30 mánuðir án þess að einn einasti hlýr birtist. 

Kuldakastið langa sem við sáum á fyrstu myndinni, byrjaði með febrúar 1885, þá komu 13 kaldir mánuðir í röð áður en einn náði upp í meðalflokk (mars 1886), sá rétt slapp inn í meðallagið - og október sama ár rétt nær að verða bleikur á myndinni. 

Árið 1880 var hins vegar sérlega hlýtt, það hlýjasta á síðari hluta 19.aldar. Þá komu þrír mánuðir sem enn eru meðal tíu hlýjustu almanaksbræðra. Umskiptin voru gríðarleg, fimm mánuðir í röð, frá nóvember 1880 til og með mars 1881 eru í kaldasta flokknum, bæði desember 1880 og mars 1881 með töluna 195 - þá lægstu hugsanlegu í þessu uppgjöri. 

En það komu samt tveir mánuðir 1881 sem teljast hlýir, september og nóvember. Árið eftir, 1882 á fjóra mánuði í kaldasta flokki, þar á meðal júní, júlí og ágúst. En, einn mánuður náði að verða hlýr, október. 

Umskiptin vorið 1889 voru mikil, þá komu allt í einu fjórir hlýir mánuðir í röð og svo tveir til viðbótar um haustið. Árið 1889 var breytilegra. 

w-blogg160518b

Hér má sjá meðalloftþrýstingi mánaða raðað á sama veg, nema hvað hæsta möguleg tala er 196 (lægstur þrýstingur). Gulu og brúnu litirnir tákna háþrýsting. Hér er nokkuð mikið bland í poka, en þó má sjá að þrýstingur var óvenju hár langtímum saman árin 1887 og 1888. Sömuleiðis eru tveir sérlegir háþrýstimánuðir haust og vetur 1880 til 1881. Mikið stökk var á milli febrúar og mars 1883. Ágústmánuðir áranna 1884 og 1886 eru nærri botni, en ágúst 1885 aftur á móti á toppnum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 75
  • Sl. sólarhring: 154
  • Sl. viku: 1996
  • Frá upphafi: 2412660

Annað

  • Innlit í dag: 73
  • Innlit sl. viku: 1747
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 65

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband