Af árinu 1807

Ekki eru upplýsingar um tíðarfar ársins 1807 mjög ítarlegar, en harðindaár virðist það hafa verið - sérstaklega norðanlands. Samantektir byggja mjög á tíðarvísum þeirra Þórarins Jónssonar í Múla og Jóns Hjaltalín sem og árbókum Jóns Espólín sýslumanns í Skagafirði. Við nána athugun kemur hins vegar í ljós að tíðarvísurnar eru mjög almennar og Jón sýslumaður er nokkuð þungorður um tíðina. Björn á Brandstöðum er vægari í orðalagi - Þorvaldur Thoroddsen virðist ekki hafa séð þann annál og ekki vitnar hann heldur í bréf Geirs biskups Vídalín - sem síðar voru notuð í Annál Reykjavíkur. 

Fleiri upplýsingar eru fyrir hendi, dagbækur Jóns á Möðrufelli, illlæsilegar að vanda (ritstjóra hungurdiska) og (stopular) mælingar Sveins Pálssonar í Kotmúla í Fljótshlíð. Í september hófust svo samfelldar mælingar danska strandmælingaflokksins á Akureyri. Fleiri hitamælar voru í landinu, en ekkert hefur fundist skráð. Ein tala þó nefnd, -26°R (=-32,5°C) á mæli Séra Péturs Péturssonar á Miklabæ í Skagafirði. Ekki er útilokað að frost hafi í raun orðið svo mikið þar - en dagsetningar er ekki getið.

Áætlanir um meðalhita sem gerðar hafa verið út frá mælingunum í Kotmúla og á Akureyri segja okkur að árið hafi verið kalt - giskað á 2,7 stig í Reykjavík. Sé eitthvað vit í því er þetta eitt af köldustu árum þar um slóðir - ívið kaldara en 1979. Febrúar var sérlega kaldur. Einhverjar upplýsingar eru til um að hafís hafi truflað siglingar verulega við Norður- og Austurland þetta sumar. Þorvaldur Thoroddsen segir t.d. að von Scheel sem var einn strandmælingamannanna hafi ekki komist til Akureyrar fyrr en 22. september, eftir 3 vikna hrakninga í þoku og ís undan Norðausturlandi - og 6 vikna ferð frá Kaupmannahöfn. 

Við lítum fyrst á samantekt séra Péturs í Grímsey í annál 19.aldar. Takið eftir því að Pétur efast um frásögn Espólín af Akureyrarferð Grímseyinga.  

Annáll nítjándu aldar:

Frá nýári var allgóð tíð til kyndilmessu [2.febrúar], svo hörð til miðgóu. Kom þá góð hláka, en kólnaði brátt aftur. Var mest frost á Miklabæ í Blönduhlíð, 26°R, en einu stigi minna í Hofsós. Vorið var kalt og hafþök af ís í kringum land allt, nema Faxafjörð (svo) að nokkru leyti. Var þar þó svo mikill lagís að eigi varð róið. Fyrir norðan land sá enginn út yfir hafísinn af háfjöllum, og Espólín segir að Grímseyingar hafi komið á honum inn á Akureyri, en þó er mjög ólíklegt að nokkur hafi dirfst að áræða slíkt. Sumarið var mjög kalt og gróðurlaust öndvert, tók af nautajörð í Skagafirði í júlí. Síðan varð óveðrasamt og hríðar, er verst þótti gegna og varð nýting hin bágasta norðanlands. Seint í ágúst og snemma í september lagði að með frosti og fjúki, og því meir sem norðar kom. Urðu þá fjárskaðar miklir; bæði voru heyin lítil og ill nyrðra, en fyrir suðaustan var nýting allgóð. Síðan var haustveðrátta bærileg, en þó norðlæg og köld, og stórhríð um allraheilagramessu [1.nóvember], þó létti brátt af aftur, en gekk á með umhleypingum allt til ársloka. 

Þenna vetur rak mergð mikla af dauðum svartfugli milli Langaness og Hrútafjarðar og hrönnum fannst hann dauður suður um fjöll og heiðar. Líks fugladauða er getið árið 1327 og aftur 1797. 

Þvínæst förum við yfir það sem Espólín hefur að segja um árið - og er ekkert að draga úr. Eins og sjá má er annálssamantektin að mestu fengin frá honum. Athyglisvert er það sem hann segir um vestanáttina - ef rétt er. 

X. Kap. Sá vetur var stríður ok harður, með miklum hörkum, og var mælt frostið at Miklabæ í Blönduhlíð 26 tröppur, eftir hitamæli Réaumurs, en einni tröppu minna í Hofsós; þar var þá Jakob Havstein faktor; voru hafísar svo miklir, at enginn mundi þá slíka, og komu þeir helst með vestan átt, þeirri er löngum hafði við haldist, síðan snjóaveturinn mikla, er þá var kallaður, og verið hafði þá fyrir 5 sumrum [1802]; var hafþök fyrir norðan og vestan og austan land, og svo fyrir sunnan, nema nokkuð af Faxafirði var autt; voru þar svo miklir lagnaðarísar, að ekki varð róið, en fyrir norðan land sá enginn út fyrir ísinn af háfjöllum, og komu Grímseyingar á honum í land, og inn á Akureyri, og sögðu hafþök fyrir utan Grímsey; lítt var þó gagn að honum, nema það, at höfrungar nokkrir voru drepnir á Eyjafirði, og var illt at bjarga sér um vorið, komust og eigi skip að landinu. (s 8).

Var vor hart og gjörði felli mikinn á peningum í Múlasýslu, hlífði það eitt við felli í Norðurlandi, at menn höfðu miklu skammtlegar sett á en fyrrum; og voru þessi ár hingað til engu betri syðra en nyrðra, en héðan af tók að skipta um það og harðna æ miklu meir norðanlands. (s 8).

XIII. Kap. Mjög var þá illt sumar, kalt og gróðurlaust öndvert, og tók af nautjörð í Skagafirði í Julio, en síðan voru jafnan óvedur og gjörði hríðir þá verst gegndi, og hin versta var nýting norðanlands, þangað til er seint í Augusto og öndverðum Septembri lagði að með frostum og fjúkum, og því verra sem norður kom, urðu þar stórir fjárskaðar, og bæði lítil og ill heyin; en fyrir suðaustan land var allgóð nýting; stigu þá æ jafnan vörur Dana á samt í verði, en ei hinar íslensku. (s 10).

XIV. Kap. Frá miðjum septembermánuði voru ýmist regn eða snjóar með frostum, og leit þá út til hinna mestu harðinda í öllum sveitum fyrir norðan land, urðu sumir sauðlausir þegar um haustið, en margir felldu kýr til helminga, og þó enginn meir en þurfti. Á því hausti rak upp 147 hnýðinga eða marsvín á Þingeyrasandi, og höfðu margir menn gagn af í Húnavatnsþingi. (s 11). XV. Kap. Var þá öndverður vetur þegar eigi góður, en menn undirbúnir hið versta, spurðist það úr Þingeyjarþingi, að þangað var komið margt umferðarfólk austan að. (s 13).

a1807_hiti

Myndin sýnir kvöldhitamælingar Sveins Pálssonar í Kotmúla í Fljótshlíð (grátt) og mælingar strandmælingamanna á Akureyri (rautt) - einnig kvöldhiti. Í janúar er hitinn sitt hvoru megin frostmarks. Frosthörkur eru með köflum í febrúar - en í lok mars virðist sem gert hafi nokkuð eindregna hláku. Lítið hefur verið um hlý sumarkvöld fyrr en í ágúst, en að vísu eru mælingarnar mjög gisnar yfir sumarið og segja kannski ekki svo mikið. Upplýsingar eru samfelldar frá 1.september og þá daga sem athugað er á báðum stöðum ber tölum ekki illa saman, töluverð frost síðari hluta nóvember og síðan hláku um miðjan desember, en mikil frost undir áramótin. 

Í veðurdagbók Sveins er getið um næturfrost 11., 12. og 13.ágúst og aftur þann 23., 26. og 27. Flóð segir hann hafa orðið í ám í hlákunni um 10.desember. 

Við skulum athuga hvernig Brandstaðaannál ber saman við þetta: 

Á nýársdag ofsaveður og rigning mikil, svo alveg tók upp fönnina. Eftir það góð tíð og jörð auð til 16. jan. að snjóakafli varð til 28. jan., en eftir þetta var óstöðugt með köföldum og blotum og sterkum frostum á milli, einkum fyrstu vikur góu hörkur og hreinviðri, þó meðfram góðir dagar nokkrir. Sunnudag annan í góu yfirtaksveður og hláka mikil, svo vel tók upp svellalögin; eftir það góðviðri; aftur landnyrðingur og bitur frost á auðri jörð síðustu viku góu.

Hér skulum við taka sérstaklega eftir því að talað er um hörkur og hreinviðri fyrstu viku góu - síðan ofsaveður og loks góða hláku í framhaldi af því í sennilega hálfan mánuð - svo aftur frost. 

Þá með einmánuði góð vortíð, svo vinna mátti á túnum, þó snjó legði á í miðjan einmánuð, sem hélst um 10 daga. Á vetrinum var alls 3 vikna jarðleysi og þar að auki 15 innistöður. Útigönguhross góð voru ei tekin inn allvíða, en allmargir hýstu þau lengi og borga þau oft fóðrið með áburðinum, sem þanninn fæst af ónýtu moðrusli og úrgangi frá fé og kúm. Lagnaðarís og hafís lá mikill við Norðurland.

Einmánaðartíðina góðu sjáum við á hitamælingum Sveins - og líka kastið í miðjum þeim mánuði sem Björn segir hafa staðið í 10 daga, e.t.v. eitthvað skemur syðra, hjá Sveini. 

Vorið var stillt og þurrt, en oft næturfrost. Greri seint, svo fyrst í fardögum spratt lauf á hrísi og var sífellt kalsaveður til útsveita. Í júlí næturfrost og smáhret. Alltaf rigningarlaust um vorið, en oft þokur og varð nú grasbrestur mikill á túni og harðlendi, en hálsa og flóaland betra. Sláttur byrjaði í 14. viku sumars. Varð nú taða á óræktartúnum hálfu minni en undanfarin 2 ár. Fylgdu nú þokur og þerrileysi, er hélst til 11. ágúst og eftir það nýting allgóð, þó rekjusamt.

Með september gerði eitthvert mesta hret. Varð í lágsveitum ei hrært við heyi 4 daga, en i uppsveitum varð hagleysa þann tíma og kýr inni í viku. Var þar víða lokið heyskap og sumstaðar tók ei upp af heyi, er var með brekku eða í gili og varð á útsveitum heyleysisneyð, en þar á móti hálsaheyskapur fremra í meðallagi. Eftir seinni göngur var að venju kauptíð og fjártaka í annað sinn í Höfða. Gerði þar þá hríð mikla, fönn og storku, svo fólk tók út þraut mikla. Nokkrir luku ferð sinni af um göngurnar, en í (s54) þeim gaf vel. Eftir jafndægur varð ekki gert að torfverkum vegna frosta. Þó var veður stillt, norðlægt og snjólítið neðra til allraheilagramessu.

Í nóvember voru snjóar, þó ei miklir og oft hörkur. Þar á milli blotar, er gengu hart á jörð og áfreða og hagleysi til fjallabyggða. Hrakaði fé mjög, þó ei væri gefið, því lítil voru heyin. 9. des. kom bati góður og 15. góð hláka, er varaði til jóla. Tók þá að nokkru snjó, er kom til fjalla á slætti. Eftir jólin mikið frost og hríð ytra. Var þá ákomið hallæri og komu sumir þar ám í fóður fram til dalanna, en dalamenn bjuggu að allmiklum heyfyrningum. Í framsveitum var velmegun allgóð. (s55)

 

Björn og mælingar eru sammála um desemberhlákuna - og síðan hörkuna í árslokin. 

a1807_pp

Myndin sýnir loftþrýsting í Kotmúla og á Akureyri. Geta verður þess að loftvog Sveins (rauður ferill) var illa kvörðuð - en ætti samt að sýna breytileika frá degi til dags allvel, sem og tímabil þegar þrýstingur var óvenjuhár eða lágur. Ekki er mikið af lágum loftþrýstingi í athugunum og verulegur háþrýstingur var ekki algengur heldur ef undan er skilin góan. Þá hefur mikið háþrýstisvæði verið í námunda við landið (hreinviðri og hörkur, en síðan góð tíð). 

Syðra skrifar Geir Vídalín biskup. Hann segir meðal annars frá lagnaðarísum við Reykjavík. Þeir eru trúlega órækt merki um mikla frosthörku í nokkra daga að minnsta kosti. Annars er lítið vitað um skilyrði til myndunar ísalaga á þessum slóðum (full ástæða er til að velta vöngum yfir því - en verður ekki gert hér):

Reykjavík 17-4 1807: Með nýári gjörði góðan bata, en veður spilltist aftur seint í janúar. Rak þá niður svo mikinn snjó fyrir austan fjall, að varla var komist milli næstu bæja. Tók þar og víðast fyrir jarðir, en hér um kring voru alltaf snöp nokkur, en gaf sjaldan að standa á. Frost voru þá bæði hörð og langvinn, svo lagði alla firði, og af Valhúsinu sást hvergi í auðan sjó. Riðu menn þá og runnu alla firði innanverða þvers og langs. Þessi veðurátt varðaði allt fram að jafndægrum, þá kom æskilegur bati, og hefur það góða veður varað allt til fyrir skemmstu. Nú eru aftur komin frost og kuldar. Á þorra kom svo mikill hafís norðanlands, að nálega fyllt hverja vík. ...

(s71) Verði ekki vorið því harðara, er hér ekkert peningatjón að óttast sunnanlands, og víst er, að markir munu fyrna hey til muna. Ekki get eg kallað þennan vetur þann harðasta, en víst hefur hann verið í harðara lagi. En það er satt að miklu skiptir, hvernig vorið verður. Í norður parti Strandasýslu, Þingeyjar- og Múlasýslum var mesta vætusumar [1806], svo í Krossvík voru ekki alhirt tún um Mikjálsmessu [haustið 1806]. ... En Múlasýslumenn hafa flestir oftraust á guði, þegar þeir eru búnir að koma fé upp. Vetur var þar harður, allt fram yfir jól, og mjög óttast eg, að menn hafi misst eða missi þar stórum fé, hafi veðurátt hagað sér þar eins og hér. (s72)

Skemmtileg athugsemd hjá biskupi um bændur í Múlasýslum (varla hann eigi við sýslumennina sjálfa[. 

Um haustið skrifar Geir og lofar sumarið í Reykjavík:

Reykjavík 14-9 1807: Veðurátt hagstæð og nýting góð á heyjum, svo eg held hér verði heyskapur í meðallagi, þó grasvöxturinn væri eigi stór. ... Fyrir norðan land hefur sumarið verði óþurrkasamt og þar hjá mikið grasleysi, en miklu betra í Múlasýslu. (s86)

Tíðarvísur Þórarins og Jóns eru oft skýrari í veðurlýsingum en þetta ár. Hér að neðan er að finna aðeins úrval úr bálkunum. 

Ritstjóri hungurdiska þykist helst lesa í dagbókum Jóns á Möðrufelli - til viðbótar því sem að ofan er nefnt að fyrsta vika ársins hafi þar verið stillt og góð, en síðan hafi orðið harðara. Jarðir hafi þó verið sæmilegar bæði í janúar og framan af febrúar. Sá mánuður hafi þó verið með grimmilega frostamikill. Maí hafi verið mjög kaldur og bágur og júní þurr en andkaldur mjög. Frosta er þá getið seint í mánuðinum. September var stórlega harður nema fyrsta vikan. Snjó hafi tekið upp í desember. Hafísþök hafi verið dæmalaus á árinu. 

Brot úr tíðavísum Þórarins Jónssonar í Múla í Suður-Þingeyjarsýslu 1807:

Fannar-hökli fast á hlóð,
fjánum ók til bana;
Herklædd jökli storðin stóð,
stormar skóku hana.

Sjórinn flestum mjög til meins,
meður krafa slökum,
norðan, vestan, austan eins,
undir hafís þökum.

Ísa þök um ufsa beð
ollu stærstum föllum;
auða vök gat enginn séð
af þeim hæstu fjöllum.

Storma rosa stór við él
stakt þó reynast megi,
að átta frosið hafi' í hel
hestar á einum degi,

Ísa mikil lög um lá
loksins gliðna fóru;
sextán vikur sumars þá
síðst afliðnar vóru.

Sjaldan hlýtt, en fjúkafar,
fjalla niður af brúnum,
greri lítt og grátlegt var
grasleysið á túnum.

Hér í sveit við höfgan slátt
hófust baggar stærri,
kulda-bleytur þungar þrátt,
en þerrir daga færri.

Tíðum virtist töpuð stoð
tíman stutta þenna;
túnin hirt en töðumoð
tók heim flutt að brenna.

Horfði kviku fullt til falls
í fóður pressum stumri
þegar vikur átján alls
af vóru þessu sumri.

Fyrri tíða fáleg regn
fólki kvíða jóku,
en snjóhríða áköf megn
yfir síðast tóku.

Byggð um víða bundin ei
búið að slá og raka
urðu síðast úti hey
undir bláum klaka.

Síðan koma fréttir af eldgosi - sem hvergi virðist annars staðar getið. Þorvaldur Thoroddsen giskar helst á Vatnajökul. Sigurður Þórarinsson setur líka spurningarmerki [Vötnin stríð], en nefnir þó þann möguleika að gos hafi orðið í Vatnajökli eða norðan við hann þá um haustið. 

Angursboðið ei sig fól,
illt sem leiða kunni:
Eldi roðin sýndist sól
sveima í heiðríkjunni.

Banvæn sýra brennisteins,
böli menguð hríðar
jörð og dýrin undir eins
auglýst fengu síðar.

Bein með hnútum blaut og þunn,
bagi fóður-tanna,
leit eins út og lýð fyrr kunn
leif eld-móðu hranna.

Þórarinn segir svo að minna hafi orðið úr tjóni en menn óttuðust. Ekki er ótrúlegt að almennur eldgosaótti hafi enn ríkt í landinu um þetta leyti, enda aðeins liðin rúm 20 ár frá móðuharðindunum. 

Oss má fæðast af því traust,
einna mest líðandi,
að sumar er gæða sagt og haust
á Suður- og Vestur-landi.

Brot úr tíðarvísum Jóns Hjaltalín um árið 1807:

Vetrartíðin kulda kennd
kafaði snjó á jörðu,
mörg var hríðin sveitum send,
svana hlíðin ísum rennd.

Vorið nærði vetur stór,
varnaði hafís gróða,
Lýð þó hrærði lagar jór,
lítinn færði afla sjór.

Töðubrestur víðast varð,
vallar sinu blandað,
reifi mest með rýran arð
rubbaðist flest í soltinn garð.

Frera brautum fönn út bar,
fjúk á slætti nyrðra,
féð í lautum fennti þar,
fóður nautum gefið var.

Haustveðráttan hefur góð,
hörð þó norðan kylja,
hrini þrátt um haf og flóð,
heita mátt á ísaslóð.

Annáll 19. aldar greinir frá ýmsum slysum og óhöppum,sum þeirra eru greinilega eitthvað tengd veðri en lítið er um dagsetningar. Hér skal þó nefnt að maður hafi farist ofan um ís við Víðines í Kollafirði syðra og að gamlan mann hafi kalið til bana á Kópavogshálsi og annan á Álftanesi (sá var að koma úr gildi). 

Sumarið 1807 var þurrt á Bretlandi, en september var þar í hópi hinna allraköldustu sem vitað er um og talað er um gróðurskemmdir vegna frosta. 

Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir uppskrift á Brandstaðaannál og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir tölvusetningu árbóka Espólíns (ritstjóri hnikaði stafsetningu til nútímaháttar - mistök við þá aðgerð eru hans). 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 1934
  • Frá upphafi: 2412598

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1687
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband