15.5.2018 | 22:41
Þrálát staða
Tíðin fyrstu viku maímánaðar var heldur leiðinleg hér um landið sunnan- og vestanvert en varla er hægt að kvarta undan veðrinu síðan. Það er þó enn stutt í kulda vesturundan og staðan getur á skammri stund snúist upp í frekari leiðindi. Spár gera líka ráð fyrir nokkuð snörpum lægðagangi í námunda við landið næstu vikuna.
Fyrir nokkru [3.maí] var hér á hungurdiskum fjallað um veðurflokkunarkerfi sem kennt er við danska veðurfræðinginn Ernest Hovmøller. Það var í upphafi ætlað til aðstoðar við veðurspár og var um stund gagnlegt á þeim vettvangi. Það er ómaksins vert fyrir veðuráhugamenn að kynna sér þetta kerfi en með því má á einfaldan hátt flokka veðrið í 27 mismunandi veðurgerðir eða flokka. Reyndar geta flokkarnir verið fleiri eða færri æski notendur þess.
Rétt eins og nota má aðferðina til að flokka veður einstaka daga ræður hún einnig við veður lengri tíma, hvort sem er viku, mánuð eða ár. Þetta auðveldar mjög leit að sambærilegri stöðu háloftakerfa í fortíðinni. Við getum t.d. spurt hvort veðurlag hafi einhvern tíma verið með svipuðum hætti og nú í maímánuði.
Nú er það auðvitað svo að varla er nema hálfur maí liðinn - og margt getur breyst til mánaðamóta, og svo er veðrið heldur aldrei eins. Þó 27 flokkar virðist í fljótu bragði vera nokkur býsn er veðurfarið í raun miklu fjölbreyttara en svo að það úrval nægi. Einnig geta mánaðameðaltöl leynt ýmsu - sérstaklega þegar mánuður endar í heild nærri meðallagi.
Við getum því ekki enn með nokkurri fullvissu gefið maímánuði 2018 þann veðurflokk sem hann mun á endanum lenda í. Samt er það svo að fyrri hluti mánaðarins er mjög eindreginn. Suðvestanáttin hefur verið mjög sterk í háloftunum og loftþrýstingur hefur verið með allralægsta móti að meðaltali. Hefur aðeins örfáum sinnum áður verið ámóta lágur þennan sama hálfa mánuð.
Flokkurinn sem hefur verið ríkjandi ber einkennistöluna 336 í kerfi Hovmøllers. Talan 3 í fyrsta sæti segir að vestanáttin hafi verið vel yfir meðallagi, talan 3 í öðru sæti að sunnanáttin hafi líka verið vel yfir meðallagi og að lokum segir talan 6 í síðasta sætinu að 500 hPa-flöturinn hafi staðið venju fremur lágt. [Nánar má lesa um flokkunina í áðurnefndum pistli hungurdiska. Þar má einnig í (allstóru) viðhengi finna lýsingu Hovmøllers á öllum flokkunum 27].
Ritstjóri hungurdiska hefur skipað öllum mánuðum síðustu 140 ára rúmra til flokks. Upplýsingar frá því fyrir 1949 eru þó ekki alltaf sérlega áreiðanlegar - og fyrir 1920 eru mánuðir líklegri til að lenda nær meðallaginu en raunverulega getur hafa verið. En þar sem við erum ekki í alvarlegum vísindalegum hugleiðingum skulum við ekki hafa mjög miklar áhyggjur af slíku.
Hvaða maímánuðir eru það sem fá þessa einkennistölu - og hvernig var veðurlagi þeirra lýst?
Við finnum strax 6 maímánuði fortíðar sem eiga töluna 336, árin 1934, 1943, 1978, 1989, 1992 og 2000. Almenn lýsing á þessum mánuðum er í textahnotskurn hungurdiska:
1934: Óhagstæð tíð, óstöðug og úrkomusöm. Gæftir stopular. Hiti nærri meðallagi.
1943: Fremur kalt var lengt af og óvenju óhagstætt tíðarfar. Sáralítill gróður og gæftir tregar.
1978: Fremur óhagstæð tíð. Úrkomusamt, einkum á Suður- og Vesturlandi. Hiti var yfir meðallagi.
1989: Umhleypingasöm tíð og óhagstæð nema sums staðar austanlands. Hiti var í meðallagi.
1992: Nokkuð hagstæð tíð einkum síðari hlutann. Hiti var nærri meðallagi.
2000: Skiptist í tvo mjög ólíka kafla. Fyrri hlutinn var hlýr, þá rigndi syðra, en góðir dagar voru norðanlands. Síðari hlutinn var kaldur og gróðri fór lítið fram.
Ekki eru þessir mánuðir eins, en samt bera lýsingarnar nokkurn svip af því sem nú hefur verið. Fram kemur að maí árið 2000 var eitthvað tvískiptur, en maí 1992 sá eini sem kallaður er nokkuð hagstæður (einkum síðari hlutann). Maí 1943 leynir afspyrnuslæmu og köldu hreti, mjög ólíku því sem nú hefur (enn) verið.
Eins og áður hefur komið fram hefur loftþrýstingur verið sérlega lágur þennan fyrri helming maímánaðar - og svo virðist eiga að vera áfram. Enn eru það þó fáeinir almanaksbræður hans á fyrri tíð sem eiga ámóta lágan loftþrýsting. Það eru (í augnablikinu) 1934, 1956, 1963 og 1964. Af þessum ártölum hefur 1934 áður verið nefnt, en hin ekki. Í hvaða Hovmøllerflokkum lentu þessir mánuðir? Við vitum um 1934, það var 336, en 1956 er 326 - það er einn af nágrönnum 336, en sunnanáttin er meðalsterk en ekki sterk eins og nú virðist helst stefna í. Maí 1963 er hins vegar merktur sem 226, vestan- og sunnaáttir eru í meðallagi. Maí 1964 var hins vegar annað - merktur sem 126. Þá voru austanáttir ríkjandi í háloftum.
Lýsingarnar á 1956, 1963 og 1964 eru svona:
1956: Óvenju illviðrasamt miðað við árstíma fór gróðri hægt fram. Hiti var yfir meðallagi.
1963: Kalt og hretviðrasamt lengst af. Gróðurlítið var í mánaðarlok. Hiti var undir meðallagi.
1964: Hagstæð tíð. Gróðri fór þó hægt fram sökum minniháttar hreta. Gæftir góðar. Hlýtt.
Í maí 1964 urðu talsverð umskipti um og fyrir miðjan mánuð. Fyrri hlutinn var þrálát norðan- og norðaustanátt ríkjandi, nokkuð hvöss með köflum, en ekki samt mjög köld. Síðan brá til betri tíðar.
Miðað við spá næstu tíu daga gæti vel farið svo að meðalþrýstingur mánaðarins verði nærri meti. Gamla metið fyrir mánuðinn er 1000,3 hPa, sett 1875 (óvissa er þó um 1 hPa), en næstlægsta gildið er 1001,2 hPa, meðaltal maímánaðar 1963.
Meðalsjávarmálsþrýstingur fyrstu 15 daga maímánaðar nú er 995,8 hPa, var 994,8 hPa sömu daga 1963, 996,1 hPa 1964 og 996,4 hPa 1956. Samkeppnin á botninum nokkuð hörð.
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 15 daga mánaðarins er 5,0 stig, -0,2 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1961-1990 og -1,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn þennan hálfa mánuð er í 13.hlýjasta sæti á öldinni (af 18). Á langa listanum er hitinn í 82. sæti af 142. Hlýjastir voru þessir dagar 1960, meðalhiti 9,4 stig, en kaldastir voru þeir 1979, þá var meðalhiti aðeins 0,3 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta maímánaðar nú 5,8 stig, +0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Að tiltölu hefur mánuðurinn til þessa verið hlýjastur á Skjaldþingsstöðum, +1,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið í Árnesi þar sem hiti hefur verið -1,9 stig neðan meðallags sömu ára. Hiti er almennt ofan meðallags norðaustan- og austanlands.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 43,1 mm og er það um 80 prósent umfram meðallag. Magnið er það fjórðamesta á öldinni, sömu almanaksdaga. Sólskinsstundir eru orðnar 80 í Reykjavík, og er það rétt neðan meðallags.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 16.5.2018 kl. 16:44 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 78
- Sl. sólarhring: 148
- Sl. viku: 1999
- Frá upphafi: 2412663
Annað
- Innlit í dag: 76
- Innlit sl. viku: 1750
- Gestir í dag: 73
- IP-tölur í dag: 68
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Ávallt sæll, Trausti og þakkir fyrir áhugaverðan maípistil.
"Miðað við spá næstu tíu daga gæti vel farið svo að meðalþrýstingur mánaðarins verði nærri meti. Gamla metið fyrir mánuðinn er 1000,3 hPa, sett 1875 (óvissa er þó um 1 hPa), en næstlægsta gildið er 1001,2 hPa, meðaltal maímánaðar 1963."
Er það ekki nokkuð nærri lagi að bæði árin, 1875 og 1963 hafi borið upp á kuldatímabilum? Undarleg tilviljun, ekki satt?
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 16.5.2018 kl. 22:02
Það er nú stutt í maí 1934 og 1956 - hlýskeiðamánuði, nánast tilviljun hver er lægstur.
Trausti Jónsson, 17.5.2018 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.