13.5.2018 | 19:18
Af árinu 1895
Árið 1895 telst eitt þeirra hagstæðari á síðari hluta 19. aldar - alla vega í huga samtíðarmanna, en var lítillega kaldara heldur en árið á undan. En ekki var það veðurtíðindalaust frekar en önnur.
Góð eftirmæli fær árið hjá Ísafold (4.janúar 1896):
Eitthvert besta árið á öldinni að tíðarfari hér á landi. Veturinn í fyrra óvenju-blíður, líkari vori en vetri. Sumarið fagurt og hagstætt víðast um land; að eins óþerrar talsverðir á Suðurlandsundirlendinu fyrri hluta heyskapartímans, og á Austurlandi meiri hluta hans. En grasspretta góð nær um land allt, víða jafnvel frábær, og nýting með besta móti. Einkum voru minnisstæð blíðviðri og bjartviðri bæði sunnanlands og norðan frá því snemma i águstmánuði og nokkuð fram í september. Fyrst 1.október gerði óvenjusnöggva og snarpa kafaldshríð, sem olli talsverðu tjóni bæði á sjó og landi, einkum um austursýslurnar norðanlands; en vægði þegar aftur, og hægviðri úr því yfirleitt til ársloka.
Skepnuhöld all-ill að vorinu sunnanlands einkanlega, þrátt fyrir öndvegisvetur, og var um kennt mest illum heyjum og ónýtum frá sumrinu áður. Sjávarafli nauða rýr allt árið við eina aðal-fiskistöð landsins, Faxaflóa, en sæmilegur annarsstaðar, jafnvel ágætur á Austfjörðum sumarið og haustið.
Febrúar, maí og júní teljast hlýir á landsvísu, en janúar, apríl, október og desember kaldir, október kaldastur að tiltölu. Að þessu sinni var ekki afgerandi munur milli landshluta í einstökum mánuðum eins og stundum áður. Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal á Efra-Fjalli 4.júlí, 25,8 stig, en þar sem þetta er á þeim árum þegar Möðrudalssumarhámarkshitinn var almennt of hár skulum við trúa því varlega. Það næsthæsta sem fréttist af eru 24,3 stig sem mældust á Stóra-Núpi þann 22.júní. Lægsti hiti ársins mældist í Möðrudal 27.janúar, -27,2 stig.
Talsverð næturfrost gerði inn til landsins í lok ágústmánaðar og í byrjun september. Dægurlágmörk 28. ágúst, 1. og 2. september standa enn í Reykjavík. Annars teljast aðeins fjórir dagar í Reykjavík kaldir, tveir í janúar og tveir í ágúst. Í Stykkishólmi er kaldi dagurinn aðeins einn, 25.janúar. Má af þessu sjá að árið hefur farið allvel með. Mjög hlýir dagar voru fimm í Reykjavík, 25. og 27. júní og 4., 16. og 19. ágúst (einkum vegna hlýrra nátta). Einn dagur telst hlýr í Stykkishólmi, 4.júlí.
Hér má sjá daglegan hámarks- og lágmarkshita í Reykjavík árið 1895. Hitasveiflur voru miklar fram yfir miðjan febrúar og aftur þegar kom fram á haustið. Það sem vekur einna mesta athygli er kuldakastið eftir 20.ágúst þegar lágmarkshiti næturinnar var nær alla daga undir 5 stigum í meir en hálfan mánuð og var við frostmark eða neðan þess þrisvar. Rétt sæmilega hlýtt var að deginum - en almennt var þessum kafla samt hrósað fyrir þurrk og blíðviðri.
Lægsti þrýstingur ársins mældist á Teigarhorni 2.desember, 950,6 hPa, en sá hæsti á Akureyri, 1044,5 hPa þann 20.október og jafnaði þar með landsháþrýstimet októbermánaðar sem sett var 1883. Þetta met stendur enn.
Janúar: Hagstæð tíð og hægviðrasöm.
Ekki var mikið um tíðina talað í blöðunum fyrstu tvo mánuði ársins, hún virðist hafa verið mein- og skaðalítil, þrátt fyrir nokkurn breytileika frá degi til dags og viku til viku.
Þjóðviljinn ungi segir frá 22. og 31.janúar.
[22.] Síðasta viku tíma hafa oftast verið stillur og hreinviðri en frost nokkurt, stundum allt að 10 gráður Reaumur.
[31.] Síðan síðasta blað vort kom út, hefir alloftast vorið stillt veðrátta, og frost nokkur, uns 28.þ.m. sneri til suðvestanáttar, og gerði hér talsverðan blota í fyrradag, gær og í dag.
Ísafold segir 2.mars frá bréfi úr Strandasýslu 28.janúar:
Tíðarfar var mjög óstillt á jólaföstunni og fram yfir nýárið; þó voru hagar alltaf til muna og eru nokkrir enn, en fremur litlir vegna áfreða, enda hafa nú um tíma verið of miklar hálkur til þess hagar verði að fullum notum. Sauðfé mun víðast gefin full gjöf, en hrossum alstaðar beitt.
Þjóðólfur birti 22.febrúar bréf úr Húnavatnssýslu dagsett 30.janúar:
Tíðarfar hefur verið með betra móti, það sem af er vetrar, þó heldur umhleypingasamt, snjóleysi óvanalegt, en svellalög mikil og það svo, að nú um tíma hefur verið hart
á jörð. í dag góð hláka.
Febrúar: Mjög hagstæð og góðviðrasöm tíð. Fremur hlýtt.
Austri segir þann 11.febrúar að tíðarfar hafi verið óstillt og hríðasamt nú um nokkurn tíma.
Þjóðviljinn ungi á Ísafirði segir frá veðri þann 11., 22. og 28.:
[11.] Framan af þessum mánuði var einmuna góð tíð hér vestra, stillur og hreinviðri, og frostlítið; en að kvöldi 6. þ.m. gekk hann upp með norðanhvassviðri, sem síðan hafa haldist öðru hvoru, með smá-hríðaréljum, en vægu frosti.
[22.] Tíðarfar. 14.-16.þ.m. gerði suðvestan rosa með allmikilli rigningu, en síðan hafa haldist hér blíðviðri, eins og á vordegi.
[28.] Hér hélst besta veðrátta og öndvegistíð, uns í gær gerði útsunnanstorm með hríðaréljum.
Ísafold birti 23.mars bréf úr Strandasýslu (miðri) dagsett 28.febrúar (lítillega stytt hér):
... var fram yfir hátíðar mjög óstillt veður og stormasamt, og kafaldsbyljir með köflum. Var þá orðið hér haglaust eins og vant er að vera þegar komið er frameftir janúarmánuði, voru frost og kaföld öðru hvoru, og yfir höfuð að tala venjuleg vetrarveðrátta. En eftir 25. jan. skipti algjörlega um veðráttu, og hefir síðan verið sumartíð, hægviðrishlákur og blíða; jörð er því nálega alauð, betur en oft i fardögum. Þessi þorri, sem nú er liðinn, er eflaust sá besti og blíðasti, sem komið hefur hér um langan aldur, því hann hafði ekki einn einasta kafaldsdag, gjörði aðeins einu sinni grátt í rót; þíddi allan vetrarsnjóinn og leysti alla ísa, er komnir voru; og góa er nú byrjuð eins og þorri endaði.
Í sama blaði er bréf úr Skagafirði dagsett 26.febrúar: Veðráttan svo ágæt að fá eru dæmi slíks hér. Sífellt þítt og jörð alrauð.
Mars: Hagstæð tíð framan af, en lagðist í norðanhríðar í lokin.
Þann 8. mars segir Þjóðviljinn ungi að tíðarfarið hafi verið fremur óstöðugt það sem af er mars, oftast suðvestanhvassviðri og rigningar. Tíð sé hlý. Í suðvestanhvassviðrinu þann 4. hafi bát hvolft undan Óshlíð og drukknuðu þrír, en einn komst af.
Þjóðviljinn ungi segir einnig frá tíð þann 16. og 23.mars:
[16.] Einstök veðurblíða hefir haldist hér vestra á degi hverjum, síðan síðasta blað vort kom út, og hefir því góan, það sem af er, verið ennþá blíðari en þorrinn.
[23.] Síðan síðasta blað vort kom út, hefir oftast verið norðanhrinugarður, en snjókomu og frosta-lítið.
Austri birtir 8. apríl fréttir úr Húnavatnssýslu dagsettar 8.mars:
Veturinn hefir verið svo góður til þessa, að fáir hafa slíkir vetrar komið hér norðanlands langa lengi. Nú alauð jörð, svo sem á vori væri milli sumarmála og krossmessu. Sjaldan frost að mun.
Ísafold birtir 23.mars fréttir úr Árnessýslu dagsettar á Eyrarbakka þann 17. (nokkuð styttar hér). Er hér athyglisverð frásögn af áhrifum veðurs á sjósókn:
Um langan tíma hefir verið hér hin sama veðurblíða, með hægu frosti öðru hvoru. Sjógæftir hafa verið stirðar til þessa, og getur eigi heitið að fram til þessa hafi verið gott sjóveður nema svo sem 2 daga. Í gær [16.] reri almenningur 2 róðra, en litilli stundu eftir að allir voru rónir í seinna skiptið brimaði svo á örstuttum tíma, svo sem 15 mínútum, að öll sund álitust ófær, og var skipum vísað frá með því að draga upp flagg á tilteknum stað. Aðeins 2 skip náðu hér lendingu og 8 á Stokkseyri; hin öll, um 50, þar af 1 frá Loftstöðum, hleyptu til Þorlákshafnar og náðu þar lendingu með mestu naumindum, því brim var þá orðið svo mikið, að elstu menn muna ekki eftir að þar hafi verið lent skipum í jafnstórkostlegu brimi; myrkur var í vændum og sjór óðum að versna, og 6070 skip ólent, (því Þorlákshafnarmenn voru ekki lentir heldur).
Sýndi það sig þá sem oftar, að sjómenn hér milli ánna eiga góðan landmann í Þorlákshöfn, þar sem er Jón kaupmaður og dbrm. Árnason; hafði hann látið hella nær tveimur tunnum af lýsi i sjóinn, sem lægði brimofsann svo, að allur sá fjöldi, sem úti fyrir lá, náði landi um kvöldið lífs og heill á hófi. Höfðu og margir hinna betri sjómanna sýnt frábæran dugnað og ósérplægni í því að bjarga mönnum og skipum i lendingunni: tekið hvert skipið af öðru undir eins og þau kenndu grynninga og dregið upp ... Skip brotnuðu meir og minna, þó að eins eitt svo, að ekki verður hægt að gera við það. ... Á Loftstöðum náðu öll skip góðri lendingu, nema þetta eina, sem fór til Þorlákshafnar. En úr Selvogi hefir borist, að þar hafi brotnað í spón 2 skip og 1 maður drukknað.
Í Herdísarvík ganga 7 skip, sem öll voru á sjó þennan dag; náðu 2 af þeim landi um daginn, en hin 5 náðu í frakkneskar fiskiskútur þar skammt í frá og voru þar um nóttina, 4 skipshafnir á annarri, en 1 á hinni; var formaður fyrir því skipi Björn Eyjólfsson í Herdísarvík. Var hann með sinum hásetum fluttur til lands daginn eftir og komst það með heilu og höldnu. Hin skútan sigldi með þær 4 skipshafnir, er hún hafði innanborðs, suður i Hafnir. Voru þeir sóttir þaðan og fluttir þar á land. Skip þeirra höfðu verið fest í skútuna, en af stormi, sem gerði um nóttina, höfðu 2 af þeim losnað frá, og var þeim bjargað úr Grindavík lítt skemmdum. Hin 2 liðuðust að mestu í sundur.
Austri segir þann 29.mars: Eftir miðjan þ.m. hafa gengið töluverðar hríðar og sett niður allmikinn snjó.
Þann 24. mars féllu snjóflóð á Austfjörðum (Austri 8.apríl) - svo er getið um hafís:
Nýlega fórust karlmaður og kvenmaður í Vattarnesskriðum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Þann 24.[mars] féll snjóflóð á bæinn Stórudali í Mjóafirði og braut þar bæði búr og eldhús og skemmdi í matvæli, það braut og fjárhús á túninu og drap 4 kindur. Annað snjóflóð féll samdægurs á næsta bæ, Grund, og hefir víst gjört mikinn skaða á túni.
Þjóðviljinn ungi segir líka frá norðangarði í pistli þann 30.mars:
Síðan síðasta blað vort kom út, hefir stöðugt verið aftaka norðangarður, með mikilli snjókomu, en litlu frosti; 28.þ.m, tók þó garðinn að lina, og hefir verið besta veður
í dag og i gær. Hafís: Nokkra hafísjaka rak hér inn í Djúpið i norðangarðinum, en að öðru leyti sjást þó engin deili til þess, að hafís sé úti fyrir til muna.
Þann 18.apríl segir Þjóðviljinn ungi:
Í byrjun norðanhretsins, um [20.mars] varð úti Jón bóndi á Þambárvöllum í Tungusveit i Strandasýslu; hann var á leið heim til sin frá Heydalsseli, sem er skammt frá Þambárvöllum.
Í sama tölublaði er frétt úr Þingeyjarsýslu dagsett 2.apríl:
Hér hafa mannfundir og mannaferðir gjörsamlega teppst og farist fyrir um talsverðan tíma fyrir fannkomur og hríðarveður.
Í Ísafold þann 17.apríl má lesa bréf úr Rangárvallasýslu (Landsveit) þar sem greinir frá góðum vetri, en þó illu veðri og sandbyl þann 24.mars:
Vetur sá, sem nú er að líða, hefir verið einhver hinn besti, er menn muna, frostvægur mjög, hæst 14 stig á R, en oft svo, að glugga mót norðri hefir eigi lagt. Snjóaföll mjög lítil, oftast nær auð jörð, og þó að snjóa hafi gjört, hafa þeir jafnan legið mjög stutt yfir. Sunnudaginn 24. mars var hér hið mesta hvassveður, sem komið hefir á vetrinum, af norðaustri; var þá svo mikil sandhríð, að jafnt var myrkt sem í dimmasta snjóbyl, og fengu menn sumstaðar með naumindum komist til fjár og gegnt öðrum útiverkum. Í sandroki þessu skemmdust ýmsar jarðir í sveitinni, þar á meðal kirkjustaðurinn Skarð; þar var sandhríðin svo mikil, að ekki var borið við að taka af baðstofuglugga um daginn, því að hann fylltist jafnóðum af sandi.
Jörðin Mörk, sem fyrrum var eitt höfuðból sveitarinnar, er alveg af, að öðru leyti en því, að þar hafast við 3 menn i hrörlegum bæ, hálf-sokknum í sand; þar sést engin grasrót nokkursstaðar í landareigninni, og túnið sjálft, sem var, er að blása upp. Bóndinn, sem þar er, hefir beitarland annarrar eyðijarðar, sem liggur þar nærri, til afnota fyrir skepnur sínar, og hefir þess vegna haldist við til þessa, á þessari óbyggilegu jörð. Á Tjörfastöðum eru og sandfannir víða á túninu og við bæinn. Á mörgum jörðum öðrum skemmdust hagaspildur allmjög er lágu með fram sandgárunum, en jörð öll varð hæst og þurr og nærfellt banvæn fyrir skepnur, nema þær gætu náð í vatn og hefðu gjöf.
Sandfokið er búið að leika þessa kjarngóðu sveit næsta hart, og get ég til, að mörgum mundi þykja fróðlegt, að sjá lýsing hennar, í því tilliti, fyrrum og nú. Ugglaust hefði í fyrstunni mátt, að nokkru leyti, stemma stigu fyrir sandfokinu, ef menn þá hefðu skeytt nokkuð um það, og þekking manna þá verið komin svo langt; því að óbrigðul reynsla er fengin fyrir því, að sá megi melkorni i sandgárana, og á sumum.stöðum kynnu grjótgarðar að vera til varnar um stund; vatnsveitingar eru og taldar góðar, en þeim verður hér eigi við komið, nema þá með ókleyfum kostnaði. En, eins og komið er, er lítt hugsanlegt, að hægt yrði að græða upp allar sandeyðimerkur sveitarinnar, því að þótt enda talsverð fjárveiting kynni að fást, til að byrja á fyrirtækinu, (hugmyndin er góð), þá vantar samt að hefta vindana, en slík vindveiting mun ómöguleg. Því miður þykjast sumir sjá fyrir forlög Kartagó-borgar.
Apríl: Talsverðar frosthörkur með köflum, en mun betri tíð á milli. Kalt.
Austri segir þann 8. apríl að tíðarfar sé viðvarandi sjóasamt og óstillt. Hafíshröngl hafi sést útaf Héraðsflóða og fáeinir jakar á Borgarfirði. Þann 18. segir blaðið töluverðan ís útaf Austurlandi og að í gær [17.] hafi verið hríðarhraglandi, en annars blíðviðri undanfarna daga. Snjóþyngsli séu töluverð á Úthéraði og sumstaðar á fjörðunum. Þann 29. segir blaðið töluverðan ís útifyrir og inni á fjörðum, en veður sé blítt.
Ísafold getur þess þann 13.apríl að dálítils hafíshroða hafi orðið vart á Húnaflóa í mars og að ís hafi sést frá Grímsey daginn fyrir þorra - en hann hafi þá horfið þegar aftur.
Bréf úr Bjarnarfirði dagsett 25.apríl birtist í Þjóðólfi 31.maí:
... fram yfir nýár var umhleypingasamt, oftast með bleytukafaldi af norðri; skipti þá um aftur til sunnanáttar með leysingu, og mátti heita eins og besta sumarveðurátta, allan febrúar og framan af mars, stöðugar sunnan- og vestanáttir, og alauð jörð, sem er mjög óvanalegt hér, í slíku harðindaplássi, um þann tíma; 14. mars skipti um með norðankafaldi, sem hélst í hálfan mánuð, og var snjókoman orðin svo mikil seinni part hretsins að varla sást neinstaðar til jarðar, t.d. í Bjarnarfirðinum á sumum bæjum varð naumlega vitjað húsa, vegna fanndýpi;í þessu hreti var mest frost 56 stig á Reaumur; einnig rak hér inn hafíshroða, en þó ekki að neinum mun; 29. mars var besta veður, gekk síðan til vestanáttar með þíðviðri í 2 daga, svo upp kom jörð á stöku stað, hljóp svo um með norðankafaldsharðneskju, sem hélst til 9. apríl. Frost var miklu skarpara í þessu síðara hreti, mest 1011 stig; 11. apríl gekk veðuráttan til suðurs með þíðviðri.
Maí: Góð tíð. Úrkomusamt, einkum syðra. Fremur hlýtt.
Ísafold segir þann 8.maí:
Aðfaranótt föstudags 3.þ.m. sleit upp kaupskip á Þorlákshöfn, [Kepler] ... og rak á grynningar, nýkomið frá Khöfn með vörur til Jóns kaupm. Árnasonar og Christensens verslunar á Eyrarbakka. Eftir margar atrennur tókst að ná skipshöfninni á land á áttæring um kveldið eftir við illan leik, með formennsku Helga Jónssonar.
Austri segir þann 11.maí frá Seyðisfirði að síðustu dagana hafi tíð verið mjög blíð í allhvassri landátt. Ísinn sé allur horfinn að þessu sinni. En þann 18. segir áfram frá blíðri tíð, en þó hafi í gær gert ákaft norðanhret.
Þann 14.maí segir Þjóðólfur frá því að hafís hafi sést af Siglunesi eftir nýárið og nú fyrir mánaðamótin rak hroða inn á Skjálfanda og Eyjafjörð.
Tíð í apríl og maí er lýst í bréfi úr Vestmannaeyjum sem Ísafold birti þann 15.júní:
Í aprílmánuði var veðrátta mjög þurrviðrasöm og fremur köld, einkum voru næturfrost tíð. Í maímánuði var veðrið ávallt vel hlýtt nema þann 17. og 18. Með lokum aprílmánaðar brá til nokkuð meiri votviðra, og síðan 20. maí hefir verið versti rosi, svo síðan hefir einn einasti þurr dagur komið; ekkert verður þurrkað, og mjög er hætt við að maturtagarðar spillist í þessum sífelldu úrhellum.
Þjóðólfur birti 20.júní bréf úr Húnavatnssýslu dagsett 30.maí:
Veturinn kvaddi oss mildilega og vel, og sumarið heilsaði sólbjart og blítt, og hefur hinn liðni tími þess mátt heita hagstæður og góður, þar eð engin stórhret hafa komið. Grasvöxtur er þó fremur lítill, enda hafa eigi verið hitar að staðaldri og vætur fremur miklar.
Júní: Góð tíð. Úrkomusamt syðra, einkum framan af. Fremur hlýtt.
Þjóðviljinn ungi (Ísafirði) segir þann 15.:
Tíðarfar hefir verið óstöðugt og næðingasamt að undanförnu; 10. þ.m. varð hvítt af snjó ofan i miðjar fjallshlíðar, og nokkur snjór féll í byggðum, en bráðnaði jafn harðan; hinn 11. fór svo að þorna upp, og hefir haldist besti þerrir síðan.
Ísafold segir af tiðinni þann 22.júní:
Það er dýrmæt veðráttan hér um þessar mundir: megn sumarhiti með glaðasólskini dag eftir dag, en dögg á nóttu, ofan á óvanalegar vætur áður í vor. Gróðurinn þýtur upp og þróast nær óðfluga. Viðlíka árgæsku á landi að frétta hvaðanæva. Heldur þurrkasamt að vísu nyrðra, meðan hér gengu rigningar fyrr í vor; en líklega komið vætur þar, er hér þornaði.
Júlí: Stopulir þurrkar sunnanlands, góðir þurrkkaflar á Vesturlandi, en þurrt fyrir norðan og austan. Fremur kalt.
Austri segir þann 10.júlí:
Veðurlag hefir að undanförnu verið mjög þurrt og heitt, svo tún hafa víða brunnið á Héraði. Í fyrrinótt rigndi loks töluvert og mun það vera mikil bót.
Ágúst:: Nokkuð góð tíð og fremur þurr, einkum þegar á leið. Kvartað var um rigningar austanlands og sunnan fram eftir mánuði. Fremur kalt.
Ísafold birtir þann 28. bréf dagsett á Vopnafirði þann 5.:
Héðan heldur gott að frétta; grasvöxtur nokkurn veginn í meðallagi, en síðan túnasláttur hófst hafa verið þokusúldrur, svo flestir bændur eiga mikið úti af töðum sínum.
Austri segir þann 10. og 20.:
[10.] Tíðarfar hefir verið fremur óstillt og vætusamt að undanförnu, svo bændur hafa fengið fremur illan þurrk á töðu og sjávarbændur ekki getað þurrkað fisk sinn.
[20.] Tíðarfar hefir allt til þessa verið mjög votviðrasamt, svo töður hafa víða stórum skemmst, og lítið sem ekkert ennþá náðst inn af útheyi.
Ísafold kvartar þann 14.:
Ágætisveðráttu er að frétta að norðan og austan, grassprettu góða og nýting eftir því. En um Suðurlandsundirlendið mestallt (Vestur-Skaptafellssýslu, Rangárvalla- og meiri hluta Árnessýslu) hafa verið afleitir óþurrkar frá því um sláttarbyrjun; taða ónýt orðin (möðkuð) á túnum sumstaðar.
En betra er vestur í Barðastrandasýslu, Ísafold birtir þann 28. bréf dagsett þar þann 15.ágúst:
Tíðarfar hefir verið hið æskilegasta síðan í sláttarbyrjun, lengst af hægviðri og þerrir, aðeins komið nokkrir dagar í senn, er væta hefir verið, lengst um 1/2 mánuð á túnslættinum, en nú aftur um viku ágætur þerrir. Hæstur hiti 15°R 8 þ.m. Ávallt hið ágætasta vinnuveður. Grasvöxtur yfir höfuð í besta lagi bæði á túnum og engjum. Tún nú almennt alhirt, og hefir nýting orðið hin besta, svo útlit er fyrir mikinn og góðan heyskap, haldist lík veðrátta fram eftir sumrinu.
September: Mjög óþurrkasamt, einkum eftir fyrsta þriðjunginn. Fremur hlýtt.
Ísafold hrósar tíðinni þann 7.:
Nú hefir í fullar 4 vikur varla eða alls ekki komið dropi úr lofti hér um suðursveitir; sólskin og blíða nær á hverjum degi, oftast hægð, þótt við norðanátt hafi verið, en næturkuldar talsverðir upp á síðkastið. Heyskaparveðrátta því hin ákjósanlegasta, enda prýðilega heyjað orðið hér um bil hvar sem til spyrst, að því einu undanteknu, að töður hröktust í mörgum sveitum austanfjalls, einkum Rangárvallasýslu austanverðri.
Í Húnavatnssýslu hafa jafnvel verið of miklir þurrkar - og hann er hlaupinn í næturfrost, bréf þaðan er dagsett 2.september, en birt í Þjóðólfi þann 20.:
Heyskapurinn hér hjá oss Húnaköppum hefur gengið eins og köppum sæmir, yfirleitt ágætlega. Tíðin hefur verið svo afbragðsgóð, einlægt nægir þurrkar nema 7.12. júlí og 4.9. ágúst voru vætudagar en þó ekki um of, en nú upp á síðkastið, hafa verið sterkir þurrkar og kalsi, og mikið frost á nóttum. Er útlitið þannig nú þegar orðið fremur haustlegt og harðindalegt, svo menn spá hörðu hausti, en heyfengurinn er orðinn með mesta og besta móti um þetta leyti, víða eins og vanalega um sláttulok. Náttúran hefur þannig leikið við oss til landsins, og engu síður til sjávarins.
Einnig er gott hljóð vestra. Þjóðviljinn ungi segir frá þann 11.september:
Mesta öndvegistíð hefir verið hér vestan lands í sumar, og sömu ágætistíð er einnig að frétta úr öðrum fjórðungum landsins. Heyfengur hefir hvervetna orðið í mjög góðu lagi hér vestra, og nýting á heyjum að því skapi.
Þjóðólfur segir 27.september fréttir frá Seyðisfirði, dagsettar þann 14.:
Veðuráttan hefur nú um alllangan tíma verið mjög óhagstæð, sífelldar úrkomur og óþurrkar síðan um miðjan júlí, og seint í ágúst gerði allmikið kuldakast og snjóaði niður undir sveitir; líkt hefur viðrað það sem af er þessum mánuði, sífelld norðanátt með kuldum og óþurrkum. Hey urðu því allvíðast mjög hrakin, bæði taða og úthey, þó hafa enn meiri vandræði stafað af þessari óþurrkatíð hér við sjávarsíðuna, því naumast hefur nokkur fiskur orðið þurrkaður allan þennan tíma.
Austrahöfundur er sjálfsánægður á sama stað þann 20.:
Góður þurrkur hefir hér nú verið síðustu dagana, svo menn hafa fengið hey sitt vel þurrt og allan fisk þurrkaðan, er út var þveginn, og hefir því mikið lagast fyrir sveitamönnum og sjávarbændum, sem víðast munu hafa aflað her með besta móti, einkum þar sem íshúsanna naut við, sem nú mun orðið almennt viðurkennt, að sé ein af meginstoðum undir sjávarútvegi vorum, og ætti sem fyrst upp að koma hringinn í kring um Ísland. Hefir það von bráðar ræst er vér skrifuðum fyrstir manna hér á landi um það mál, fyrir meira en ári síðan hér í blaðinu, og voru þá margir harla vantrúaðir á það.
Síðari hluta mánaðarins brá til rosa. Þjóðviljinn ungi skrifar þann 28.:
Um síðastliðinn hálfsmánaðartíma hefir verið mjög rigninga- og rosasöm tíð.
Þjóðviljinn ungi á Ísafirði segir frá tveimur skipströndum í pistli þann 12.október:
Skipströnd: 22.[september] strandaði norskt kaupfar á Miðnesi í Gullbringusýslu, fermt ýmis konar útlendum varningi, sem átti að fara til bænda þar syðra, og var hvorttveggja, skipskrokkurinn og vörurnar, selt við stranduppboð. 21. s.m. strandaði Faxaflóagufubáturinn Elín" á Straumfirði á Mýrum; hann rakst á sker þar á firðinum í útsunnanveðri, svo að gat kom á hann, og var honum síðan hleypt á land, upp í sandleðjuna þar í firðinum, og situr þar fastur, enda munu skemmdir á bátnum svo miklar, að ekki svari kostnaði, að láta gera við hann.
Október: Þurr tíð og köld.
Versta veður ársins gerði fyrstu dagana í október og urðu margvíslegir skaðar. Bandarísku endurgreiningarnar sýna okkur vel hvers eðlis veðrið var, en aftur á móti er nokkuð langt í frá að þær nái afli þess. Við munum láta bíða að fjalla nánar um veðurfræðilegar aðstæður og bakgrunn. Vonandi gefst tækifæri til þess síðar. Rétt er að benda á samantekt um þetta veður í þriðja bindi ritverksins Skaðaveður sem Halldór Pálsson tók saman á sínum tíma. Í sama bindi er einnig fjallað um annað illviðri nánast sömu daga árið eftir (1896). Eins og gefur að skilja er þessum veðrum eitthvað ruglað saman.
Austri segir frá þann 12. (dagsetur fréttina á Seyðisfirði þann 10.):
Ofviðri og snjókomu mikla gjörði hér um sveitir að kvöldi þess 1. þ.m. sem hélst með miklum ofsa og fannfergju fram til hins 3. þ.m. Hafði fé viða. fennt í hinum snjóþyngri sveitum og nokkrir skaðar orðið á heyjum og bátum hér í fjörðunum. Á Bárðarstöðum í Loðmundarfirði hafði ofviðrið tekið hey ofan af tóft niður að veggjum. Hér í Seyðisfirði lagði veðrið út af neðri hluta, kirkjunnar, en þó mun það eigi hafa skemmt viðina til nokkurra muna. Yfirbyggingin var þegar rifin og flutt í hús. Á Búðareyri tók í loft skúr er bæjarstjórnin hafði látið gjöra rétt fyrir framan Ós, og geymdi þar slökkvitól. Ofviðrið fleygði skúrnum með öllu saman út í Fjarðará. Skip kaupmannsins T.L. Imsland er lá við landfestar í sterka stólpa við bryggjuna framan við síldarhús hans á Ströndinni, sleit þaðan upp og reif upp festarstólpana með öllum umbúningi og hrakti út á fjörð, þar sem skipstjóri sá sér eigi annað fært en höggva fremra mastrið, með því skipinu ætlaði að hvolfa þar eð lítil sem engin kjölfesta eða hleðsla var komin i það. Nokkrir bátar brotnuðu hér í firðinum i ofviðrinu, og mörg síldarnet, er lágu þá úti, töpuðust alveg.
[Í lok fréttar um síldveiðiútgerð á Eskifirði og Reyðarfirði er þetta:]
En í ofviðrinu um daginn urðu menn þar fyrir skaða, einkum verslunarstjóri Er. Möller er missti um 2000 tunnur af síld, báta og veiðarfæri.
Svo bárust fleiri fréttir af tjóni:
[Austri 26.október]: Í ofsaveðrinu fyrst í þ.m. strandaði gufuskipið Stamford", skipstjóri Gjemre, við Hrísey á Eyjafirði. Það var á leið upp til Borðeyrar eftir fé, er það hreppti þetta mikla óveður fyrir norðan land. Hleypti svo inn að Hrísey og lagðist þar. En þá bilaði akkerisfestin, og þó að skipið reyndi til að komast frá landi með fullum gufukrafti, mátti ofviðrið sín þó meira því dreif það í land rétt upp af skipalæginu sunnan undir Syðstabæ í Hrísey.
[Austri 26.október]: Fjárskaðar höfðu orðið víða í áfellinu fyrst í þ.m. hér eystra. Þannig hafði fennt nær 100 fjár hjá síra Lárusi Halldórssyni á Kollaleiru, og bóndinn í Teigagarði misst nær þriðjung af fjáreign sinni. Á Sleðbrjót og Fögruhlíð í Jökulsárhlíð höfðu og orðið stórkastlegir fjárskaðar í því óveðri.
[Ísafold 19.október]: Tvö kaupskip strönduðu vestra í bylnum 3. þ.m., annað á Haukadalsbót í Dýrafirði, að nafni Patreksfjord, eign konsúls N.Chr. Grams, og hitt á Ólafsvik, Axel eign Salomons Davidsens stórkaupmanns í Kaupmannahöfn; var hálffermt íslenskum vörum. Patreksfjord fór í spón og bjargaðist skipshöfnin naumlega, alveg slypp. Af Axel var og skipshöfnin dregin á land á streng. Það var í sama veðrinu, að gufuskipið Stamford strandaði, sleit upp við Hrísey í Eyjafirði. Gufuskipið Ásgeir ætlaði að draga Stamford á flot aptur, en velti henni að eins á hliðina og þar með búið.
[Þjóðólfur 18.október]: Skaðar af ofviðrinu 3. þ.m. hafa sumstaðar orðið ekki alllitlir, að því er frést hefur, einkum skepnutjón (hrossa- og sauðfjár). Á prestssetrinu Stað í Grunnavík fauk skemma eða geymsluhús 9 álna langt, með öllu, sem í því var, matvöru o.fl. Hafði húsið kostað um 600 kr. Þá fauk einnig þakið af baðstofunni, og komst fólkið með illan leik í fjósið. Presturinn séra Kjartan Kjartansson var þá ekki heima, því að hann lá veikur út á Ísafirði, hafði farið úr liði um ökklann í lendingu þar, nokkru fyrir veðrið.
Fram kemur í Austra þann 2.nóvember að í veðrinu hafi orðið fjárskaðar í Víðidal í Lóni og að Papeyjarskip hafi hrakið til hafs, en það loks náð landið aftur.
Þjóðviljinn ungi segir einnig af veðrinu þann 7.október:
Að morgni 1. þ.m. var hér fegursta veður, en um hádegisbilið gerði allt í einu versta norðanhlaup, með gríðarmikilli fannkomu, aftaka sjógangi og brimi; veðrinu slotaði i svip 4. þ.m., en reif sig upp aftur daginn eftir, og gerði þá talsverðan blota.
Norðanáhlaupið í byrjun þ.m. hefir óefað viða valdið talsverðum skaða, og er einkum hætt við því í Norðurlandi; hér vestra var veðrið einna hvassast 3. þ.m., og gerði þá spell nokkur; skipið Patriksfjord", eign Grams-verslunar, sleit upp, og rak á land nálægt Meðaldal í Dýrafirði; laskaðist það svo, að það varð óhaffært, og verður því selt við stranduppboð; vörur voru ekki í skipinu, nema nokkuð af salti, er það átti að flytja að Loðkinnhömrum [svo] í Arnarfirði. Skipið Guðrún", eign L.A. Snorrasonar verslunar sleit og upp inn á Skötufirði, en bjargaðist með því, að skipverjar hjuggu úr því möstrin. ... Sjórót hafði og laskað að mun verbúðir i Kálfadalsverstöð, og enn orðið fleiri smáskemmdir.
Og þann 12.október segir Þjóðviljinn ungi:
Tíðarfar. 8. þ.m. lægði loks norðanveðrið, og hefir síðan verið besta veður, uns í gær gerði suðvestanrosa. Í norðan áhlaupinu byrjun þ.m. höfðu ýmsir bændur í Nauteyrar-, Reykjarfjarðar- og Ögurhreppum hér í sýslu misst fleiri og færri kindur, sem farist höfðu í fönn, og er við búið, að líkar fréttir kunni að berast víðar að.
Og þann 23.október birtir Þjóðviljinn ungi enn skaðafréttir:
Norðanáhlaupið í byrjun þ.m. hafði, sem vænta mátti, orðið enn afskaplegra i Norðurlandi, heldur en hér vestra, og þykjast elstu menn þar í sveitum ekki muna annað eins áhlaup; hafði fé fennt viða, og hesta jafnvel í sumum sveitum, t. d. í Skagafjarðarsýslu; víða urðu og meiri eða minni skemmdir á húsum og heyjum, og bátar brotnuðu á sumum stöðum, t.d. 1618 á Húsavík í Þingeyjarsýslu o.s.frv.
Þjóðólfur nefnir skaða í sama veðri í pistlum þann 1. og 15. nóvember:
[1.] Fjárskaðar miklir hafa orðið víðsvegar um land, í ofviðrinu 3. f.m., einkum í Þingeyjarsýslu. Þá braut og fjölda skipa og báta, t. d. eitthvað um 4050 umhverfis Skagafjörð, en hvergi hefur frést um manntjón. Skipströnd urðu allmörg í þessu veðri og er sumra áður getið. Fiskiskipið Anna" eign Guðmundar óðalsbónda Einarssonar í Nesi, strandaði þá á Eskifirði. Það var óvátryggt, og er skaðinn metinn um 8000 krónur.
[15.] Um ofviðrið 3.október hafa nú borist fregnir úr hinum fjarlægustu sýslum, og hefur það víða gert allmikið tjón, einkum nyrðra og eystra. Merkur bóndi í Þingeyjarsýslu ritar Þjóðólfi um áhlaupaveður þetta á þessa leið í bréfi 24. f.m.: Miðvikudaginn 2. þ.m. skall á grenjandi norðan stórhríð svo mikil, að enginn maður man annað eins. Allra voðalegast var veðrið á fimmtudagsnóttina og morguninn, gekk þá i vestur, en lægði þegar fram á daginn kom og var þá ófagurt um að litast. Allt var sem í rústum einum, þökin rofin af flestum húsum meira og minna, raftar og allt saman, svo út mátti ganga til og frá, heyin táin sundur, og allt úr lagi fært. Fé lá víðast úti, og varð mönnum fyrst fyrir að leita þess. Lá það allstaðar í fönnunum veðurlamið og illa útleikið og sumt í hættum.
En eftir ósköp þessi batnaði nokkuð tíðarfarið, svo snjór sjatnaði talsvert. Hefur því fundist allur fjöldinn af fénu, en nokkuð af því dautt og víðast mun enn eitthvað vanta. Hvergi hér um pláss hefur farið mjög margt á bæ, varla fleira en 30, svo heyrst hafi, og er stór furða, að nokkur skepna skyldi lifi halda í ódæmum þeim, sem á gengu. Hey fuku og á nokkrum bæjum, en hvergi þó mjög mikið. För brotnuðu og mörg, bæði smærri og stærri, því sjógangur var voðalegur, meir en nokkur myndi. Á Húsavík brotnuðu nokkur för, sum stór og sum smá, og bryggjan sundraðist mestöll; mun skaðinn þar skipta þúsundum króna. Og yfir höfuð er það óútreiknanlegt tjón, sem voða-veður þetta hefur gert. Mun það í annál fært og æ verða í minnum. Ekki hefur þó enn heyrst af mannsköðum. Munu engir hafa hætt sér frá bæjum i ósköpum þessum. Var auk heldur ekki einu hinni hættulaust i húsum inni, því öllu lá við falli. Var sem himins boginn blár, bresta mundi sundur. Og eftir þessu var dimman, svo ekki sá handaskil.
Fréttir af veðrinu voru enn að birtast í janúar 1896:
Þrjú bréf birtust í Ísafold 23.janúar þar sem veðursins er getið:
[Barðastrandarsýslu vestaverðri 9.desember]: Eins og víðar gjörði hér snjókast mikið i byrjun októbermánaðar; var blindbylur norðan 3. okt. allan daginn; kom þá svo mikil fönn á fjöll, að fé fennti, en nær ófært var með hesta. Þann snjó tók þó skömmu síðar upp, og mátti haustveðráttan eftir það góð heita. Fram að jólaföstu var og oftast autt og veðrátta ágæt. En þá dreif niður allmikinn snjó, er haldist hefir síðan. Hagar eru þó enn ágætir, því enginn bloti hefir komið.
[Húnavatnssýslu 31.desember]: Eins og aðrir, sem fréttir rita held ég að ég verði að byrja á tíðarfarinu. Er þess þá fyrst að geta, að 2.okt. gjörði áhlaupahríð á norðan, sem hélst meira en tvo sólarhringa, með svo mikilli veðurhæð og snjókomu, að slíks eru sjaldan dæmi; keyrði þá niður fádæma mikla fönn, og urðu töluverðir fjárskaðar; fé og hross fennti og hrakti í ár og vötn. Síðan hefir tíðarfar verið hið æskilegasta, oftast þurrviðri með hægum frostum, stundum hægar þíður og jörð oftast snjólaus;
[Skagafirði 19.nóvember]: Það hefir harla fátt markvert borið við hér í seinni tíð, nema þessi voðalegi bylur 2.- 3. [október], sem hafði illar afleiðingar. Töluvert fauk af bátum, en við suma varð gert aftur. Nokkrir fóru alveg. Fé fennti mikið, en mikið hefir þó aftur komið lifandi úr fönn, sumt eftir fleiri vikur; sumt fundist dautt. Ekki fórust menn.
Þjóðólfur 3.október
Veðurátta hefur verið mjög stirð hér syðra næstliðnar 3 vikur, sífelldar stórrigningar að kalla má og nú síðast snjókoma og rosaveður. Í gær [2.október] útsynningshríð og hafrót.
Bréf úr Dýrafirði dagsett 5.október birtist í Þjóðólfi þann 18.:
Sumarið fram undir miðjan fyrra mánuð [september] var hér eitthvert hið besta, er komið hefur lengi, hét ekki að vera, að skúr kæmi úr lofti í stöðugar 5 vikur, eða frá 8. ágúst til 12. sept. Heyannir gengu því mikið vel, bæði var vel sprottið og svo varð nýting hin besta á heyinu. Hætti almenningur heyskap kringum 10. sept. eða rétt um það leyti sem brá til votviðra. En síðan hefur verið hin lakasta haustveðrátta, er menn muna, sífelldar stórrigningar og stormar. Í fyrradag var hér vonskuveður, blindhríð á norðan með frosti. Fennti þá fé hjá mönnum, t. d. missti einn bóndi hér i sveitinni 13 ær.
Þann 6. mars 1886 kom birti Þjóðólfur loks bréf úr Bjarnarfirði á Ströndum (við styttum það lítillega):
Vorið 1895 má segja að hafi verið eitt hið besta, sem fólk í þessu byggðarlagi hefur átt að venjast, sumarið einnig fremur gott, og grasvöxtur víðast með bedta móti, svo sláttur byrjaði hér almennt í 10. og byrjun 11. viku sumars; heyskapur yfir höfuð með betra móti, enda varð nýting góð hjá allflestum, því þurrkar voru miklir, en stormasamt mjög, t.d. allan ágústmánuð mátti heita, að væri stöðugur norðangarður, enda snjóaði síðast í mánuðinum, ofan í miðjar fjallshlíðar, og sökum frosta féll gras mjög snemma, 9. sept. skipti um til vætu, fyrst af norðri í 2 daga, og síðan af suðvestri, og hjá þeim, sem ekki voru þá hættir heyskap, skemmdust hey að mun, því svo mátti heita, að upp frá því kæmi aldrei þerridagur; fremur má heita, að haustið hafi verið storma- vætu- og kafaldasamt, en oftast þó nægur hagi fyrir skepnur, svo skipti um aftur til batnaðar, og má nú heita mjög snjólítið, og besta tíð;
Í hinum mikla norðangarði 3. október, sem víða hefur verið minnst, urðu allvíða skaðar bæði á skipastól og fleiru, t.d. á stöku stað í Árneshrepp, en þó sérstaklega á Gjögri, laskaðist skipastóll meira og minna; hér í hreppi, á Eyjum, fauk áttæringur, sem fest var út af á fjóra vegi, og laskaðist að mun, einnig fauk þar margt fleira, viður og ýmislegt, og tók sumt á sjó út; þar urðu og töluverðar skemmdir af sjógangi, á túni, sem og viða annarsstaðar, og varpeyjum, sem að líkindum nemur mörgum tugum króna virði; víða tók og við að reka, og sumstaðar fleira, t.d. í Reykjarvík gekk sjórinn inn í skemmu, og tók við allan, sem þar var, einnig tók þar út rognkelsanetatrossur, og reipi, með viðartrönum og ásum, sem netin og reipin voru hengd á, og er sá skaði víst töluverður; á Kleifum í Kaldbaksvík tók sjórinn hliðarvegg undan tveimur fjárhúsum og hlöðu, alla ytri hleðslu, inn i miðjan vegg; ennfremur gekk sjór þar í fjárhúsin, svo féð varð að láta út, þótt neyðarkostur þætti, og var heppni að ekki hlaust meira tjón af, og á fleiri stöðum gerði þetta veður meira og minna tjón.
Síðari hluti október fékk betri dóma. Þjóðviljinn ungi segir fyrst þann 23. að tíðin hafi fyrst verið mjög storma og rosasöm, en þann 19. hafi snúið til norðanhreinviðra og þann 29. segir blaðið að staðviðrið og besta tíð hafi haldist þar vestra síðustu vikuna.
Nóvember: Óstöðug tíð, en hiti í meðallagi.
Austri segir þann 15.:
Síðustu dagana hafa gengið bleytuviðri mikil og hríðar, og allhvasst á stundum, þó hafa engir skaðar spurst, og er nú stytt upp.
Þann 22. segir blaðið að veðrátta hafi verið hin blíðasta og þann 30. segir:
Blíðviðri framúrskarandi mikið seinni hluta fyrri viku og framan af þessari, með 810°R hita. sem steig á laugardagskvöldið þ.23. þ.m. eftir dagsetur, upp í 13°R hiti [16°C], sem mun sjaldgæft um þennan tíma árs.
Desember: Óstöðug tíð. Hiti í meðallagi syðra, en fremur kalt nyrðra.
Þjóðólfur segir þann 13.:
Það sem af er þessum mánuði hefur verið mikil snjókoma, svo að jarðbönn eru hvívetna til sveita, og allur fénaður víðast hvar kominn á gjöf, en fremur hefur verið frosthægt. Fram að jólaföstu var veðurátta hér syðra mjög góð.
Þjóðviljinn ungi birtir stutta veðurpistla. Þann 5. segir blaðið: Norðanhrinu allskarpa gerði hér [1.-2. þessa mánaðar, en þann 3.] slotaði veðrinu og hefir síðan fallið snjór allmikill og veðurútlitið verið dimmt og ískyggilegt. Þann 13.: ... hefir viðrað fremur stirt, oftast norðanhvassviðri og hríðir og óstöðug tíð. Þann 24.: Tíðarfar hefir verið mjög óstöðugt að undanförnu suðvestanrosar og rigningar öðru hvoru, nema stillviðri síðustu 2-3 dagana.
Hríðin þann 2. olli tjóni í Austur-Skaftafellssýslu. Austri birtir 10.janúar 1896 bréf úr Lóni, ritað 27.desember:
... góð tíð til 2.desember, þá brast á skyndilega eitt með verstu veðrum snjóbylur og ofsastormur, sem olli töluverðum fjársköðum hér i sveit, einkum í Vik (þar týndist nær 80 fjár í Lónið), og í Völaseli (þar fórst um 30 í vötn). Veðrið var minna fyrir sunnan Almannaskarð, og er þaðan lítið fjártjón að frétta, þó er sagt að nokkrar kindur (um 30?) hafi farist að Hofi í Öræfum, en þar eru margir búendur. Eftir þetta var oftast kulda- og snjóasamt og svo umhleypingasamt, og víða hagskarpt fram um miðjan mánuðinn, þá gjörði hagstæða hláku og hefir síðan verið góð tíð og mild og nokkuð vætusöm.
Þjóðviljinn ungi birtir þann 24.janúar desemberslysafréttir:
6. des. síðastliðinn fórst maður í snjóflóði austur í Mýrdal. Sigurður Magnússon að nafni. Síðastliðinn gamlársdag týndist kvenmaður frá Ingunnarstöðum i Geiradal i Barðastrandarsýslu, Ragnheiður að nafni; hún var á leið frá Ingunnarstöðum að Króksfjarðarnesi, ætlaði þangað í orlof sitt, en hefir ekki fundist, þótt leitað hafi verið, og er því talið víst, að hún hafi farist ofan um is í ósnum á Geiradalsá. Í síðastliðnum. desembermánuði kvað Og Tómas Guðmundsson (víðförli") hafa orðið úti á svo nefndum Bólum í Strandasýslu.
Árið endaði vel syðra. Þjóðólfur segir þann 3.janúar 1896:
Það hafa verið óvenjulega fögur jól, þau sem nú eru að líða, oftast logn og hreinviðri með hægu frosti, en aldrei úrfelli né snjókoma. Það er víst heldur enginn efi á, að bæjarbúar hafa skemmt sér mjög vel, því að veðuráttan hefur jafnan mjög mikil áhrif í þeim efnum.
Hér lýkur að sinni umfjöllun um veður og tíð ársins 1895.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:49 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 76
- Sl. sólarhring: 154
- Sl. viku: 1997
- Frá upphafi: 2412661
Annað
- Innlit í dag: 74
- Innlit sl. viku: 1748
- Gestir í dag: 71
- IP-tölur í dag: 66
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.