10.5.2018 | 22:55
Af árinu 1884
Ísafold segir orðrétt 7.janúar 1885 í pistli um árið 1884: Árið 1884 varð harla tíðindalítið hér á landi. Það er að einhverju leyti rétt, t.d. kemur fram við lestur blaðanna að lítið er um fréttir af tíð og veðri í sumum mánuðum ársins, en aftur á móti gerði nokkur mjög minnisstæð veður - á tvö til þrjú þeirra er jafnvel minnst á enn þann dag í dag.
Eins og kemur vel fram í samtímaumsögnum var tíðinni nokkuð misskipt milli landshluta. Óhagstæðust var hún sunnan- og suðaustanlands, sérstaklega vegna mikilla sumar- og haustrigninga þar um slóðir. Árið var ekki sérlega kalt miðað við það sem algengast var um þetta leyti, en þætti kalt nú.
Yfir landið í heild var aðeins einn mánuður hlýr. Það var mars, en hiti var einnig vel ofan langtímameðallags í apríl og rétt ofan þess í febrúar. Kaldast að tiltölu var í maí og október, en janúar og júní voru einnig kaldir. Ágúst var kaldur suðvestanlands, en var aftur á móti hlýr á Norðausturlandi og september var einnig nokkuð hlýr á þeim slóðum. Töflur yfir meðalhita á veðurstöðvum og vik má finna í viðhenginu. Þar má sjá að mælingar eru til frá nokkuð mörgum stöðvum, en svo vill til að lítið er af mælingum úr innsveitum.
Þessi skortur á innsveitamælingum veldur því að lágmarkshiti ársins fyrir landið í heild er ekki sérlega lágur, -22,8 stig sem mældust á Hrísum í Eyjafirði 26.janúar. Þá fór frostið í -21,7 stig á Akureyri. Hæsti hiti ársins mældist á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi 10.júlí, 24,6 stig. Hiti náði 20,6 stigum á Akureyri, en ekki fréttist af 20 stigum víðar - nema á óopinberum mælum.
Ritstjóri hungurdiska leitar eins og venjulega að hlýjum og köldum dögum í Reykjavík og Stykkishólmi. Engir hlýir fundust og ekki nema þrír kaldir í Stykkishólmi, 13. maí, 28. október og 6. nóvember. Í Reykjavík fundust hins vegar 15 kaldir dagar, þar af einn í júní, þrír í júlí og þrír í ágúst.
Hér má sjá hæsta skráðan hita og lágmarkshita í Reykjavík 1884. Áberandi kaldast var fáeina daga undir lok janúarmánaðar. Eins og sjá má var hiti lengst af ofan frostmarks í mars. Sumarið var nokkuð klippt og skorið. Eftir næturfrostakafla í maí hlýnaði vel, og kólnunin í september var líka nokkuð skyndileg, harðahaust komið á nokkrum dögum í kringum þann 20.
Áreiðanlegar úrkomumælingar voru aðeins gerðar á fjórum stöðvum, í Stykkishólmi, á Teigarhorni, í Vestmannaeyjum og á Eyrarbakka. Á þremur síðasttöldu stöðvunum mældist úrkoma meiri en 200 mm í ágústmánuði og er þar getið flesta daga mánaðarins. Bráðabirgðamat ritstjóra hungurdiska telur þetta vera næstúrkomusamasta ágústmánuð allra tíma á Suðurlandi. Þann 1. nóvember hófust svo úrkomumælingar í Reykjavík.
Loftþrýstingur var líka með lægsta móti í ágúst, í hópi tíu lægstu síðustu 200 árin tæp. Lægsti loftþrýstingur ársins mældist 948,0 hPa í Vestmannaeyjakaupstað þann 12.febrúar. Hæstur mældist þrýstingurinn á sama stað þann 18.nóvember, 1040,3 hPa.
Fréttir frá Íslandi (1884) lýsa tíðarfari - og rigningasumarið mikla á Suðurlandi 1884 fær ítarlega umfjöllun.
Tíðarfar hefir verið furðu misjafnt og furðu óhagstætt víða hér um land þetta ár; það er eins og Ísland sé oft tveir landshlutar með fjarska millibili; svo er það sundurskipt að veðurfari. Veturinn frá nýári mátti teljast afbragðsgóður. Rosarnir héldust við nokkuð fyrst eftir nýárið, með geystum útsynningum, þar til viku af þorra, að lagðist í frost nokkur og snjóa. Stóð sá harðindakafli einn mánuð, þangað til viku af góu. Brá þá heldur til batnaðar, og var svo oftast veðri farið fram eftir góunni, að ýmist setti niður snjó mikinn eða hann tók upp jafnóðum.
Allan einmánuð mátti telja sumarveðráttu, hægð og blíðviðri, og oftast frostlaust fram yfir sumarmál. Voru flestir búnir að vinna á túnum sínum um það leyti.
Eftir sumarmálin brá til norðanáttar og kulda mikilla, og snjóaði víða allmikið í maímánuði öllum, einkum norðanlands og austan, og svo í Skaftafellssýslum. Kuldaveðrátt þessi hélst fram yfir fardaga, og var þá nærfellt enginn gróður kominn. Þá skipti um, og var þá votviðrasöm tíð sunnanlands fram í byrjun júlímánaðar, enn nyrðra var þá þurrviðrasamara. Þó að seint færi að spretta, þaut nú grasið upp, og mátti telja hið besta grasár nyrðra, og í betra meðallagi syðra.
Í sláttarbyrjunina var ein vika þurr sunnanlands, og náðust þar því víða eitt og tvö kýrfóður þurr af töðum manna; enn þegar sleppti miðjum júlímánuði, þá kom fram þessi geysilegi mismunur, sem stundum er á veðurlagi á ekki stærra hólma en Ísland er. Norðanlands var tíð þerrisæl fram um réttir; sömuleiðis vestra og eystra. Mestallt Vesturland frá Hvítá í Borgarfirði og norður til Horns, allt Norðurland og Austurland suður undir Lónsheiði mátti telja að nyti ágætasta sumars; bæði var grasvöxturinn víðast ágætur, að minnsta kosti á túnum, en sumstaðar lakari á engjum, og svo var nýtingin eftir því góð. Það var eðlilega eins og vant er heldur lakara á útkjálkum, t.d. Hornströndum, en þó var það allt með betra móti, því að hafís enginn varð landfastur þetta vor; kom hann enginn annar enn að litlir lausajakar sáust á flækingi undan Horni. Heyjaföng manna nyrðra voru því bæði mikil og góð og fyrningar allmiklar til undan vetrinum, enda heyrðist helst sú umkvörtun þaðan að norðan, að það fengist hvergi keypt kind, því að þar er nú víða fjárfátt síðan grasleysissumarið 1882.
En á hinum suðlægari kjálka landsins var svo dæmafátt vætusumar, að elstu menn þykjast ekki muna annað eins, nema ef til vill sumarið 1819. Frá því seint í júlí og til höfuðdags var sífelld rigning af suðri eða landsuðri; með höfuðdegi létti dálítið upp, enn þó aldrei svo, að neinn dagur væri til enda þurr. Þó var þerriflæsa með skúrum á milli í 4 daga, og náðu þá margir heyjum sínum inn hröktum og hálfþurrum í uppsveitum: Hreppum, Landi, Rangárvöllum og Fljótshlíð, þar sem þurrlent var. En í mestu votlendissveitunum syðra, Landeyjum, Flóa og Ölfusi, varð að hætta slætti á miðju sumri vegna vatnsaga; störin stóð í kafi og yddi að eins á toppana, og sæti voru víða í svo djúpu vatni, að að eins sá ofan á þau. Í Landeyjum og Þykkvabæ og beggja megin við Ölfusá varð vatnsflóðið svo mikið, að sætið synti hundruðum saman eins og skipafloti fram í sjó, svo að ekkert var eftir af. Voru stórar brimrastir meðfram öllum söndum af sjóreknu heyi.
Þegar spilltist eftir höfuðdaginn, keyrðu rigningarnar um þverbak; var þá líkast sem aldrei hefði komið skúr úr lofti; gekk á því til gangna, en undir réttirnar fór þó að birta upp part úr dögum, og svældu þá margir margra vikna hrakheyi inn í heygarðana: varð það óvíða að skaða, því að það var þá orðið svo ónýtt af útilegum, að það hitnaði ekki til muna, heldur myglaði og fúnaði. En í uppsveitunum, þar sem nokkru heyi varð áður náð, fór víða vatn ofan í heyin í görðunum, og stórskemmdust af því; þó var ekki víða bruni á heyjum, því að þau voru létt enn kraftlítil, þó að þau væri ekki hrakin til stórmuna; mun það hafa valdið því að nokkru, að grasmaðkur var óvanalega mikill.
Um réttirnar, nálægt 20. september, brá til norðuráttar um land allt, sem til hefir spurst, með hríðum og snjóum; setti þá niður snjó mikinn nyrðra og í fjallasveitum syðra, með svo miklu frosti, að ár urðu ófærar fyrir ísskriði. Hélt því veðurlagi á víxl við stórfelldar sunnanrigningar fram til nóvemberbyrjunar. Í þessum norðanfrostum börðust menn víða syðra við að draga hey sín upp úr flóðunum, og tókst þannig að þurrka þau nokkurn veginn á endanum og koma þeim í garða.
Frá þessum tíma voru sífeldir umhleypingar syðra til ársloka; setti niður stundum snjóa mikla, og tók þá upp aftur með sunnanstórrigningum. En í fjallasveitum, Laugardal, ofan til í Biskupstungum, Síðu og víðar, tók aldrei af fyrsta réttasnjóinn, og allar skepnur voru komnar á fulla gjöf mánuð af vetri. Nyrðra féllu þá og snjóar miklir á útsveitum og í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu, en þar voru aldrei frost mikil eða harðviðri. Um nýársleytið gerði blota syðra, og snjóaði ofan í, og frysti síðan, og var þar svo haglaust fyrir allar skepnur. Hey manna voru bæði lítil og vond víðast syðra; var því lógað um haustið fjölda af kúm og lömbum; en þar eð þar er fjárhirðing óvönduð, og menn vanir því, að fé komist oft af með lítið, sást það brátt á, að of mikið var á heyjum, og voru sumir farnir að skera af heyjunum fyrir nýár. Allar skepnur voru horaðar í votlendissveitunum, ullin datt af fótum og kviði á sauðfé, það fékk lopa á fæturna, og varð víða að skera kindur á miðju sumri vegna máttleysis af hinum sífelda vatnsaga. Þetta allt: óhagstætt veðurfar, ónýt og lítil hey og megurð skepnanna, studdi allt að þeim vandræðum, er síðar komu fram.
Janúar: Útsynningsrosar, en tíð samt talin góð.
Þjóðólfur segir frá þann 12. að veðurátta sé mild, skepnuhöld góð og jörð næg fram að þessari viku miðri, en nú hafi kyngt niður nokkrum snjó. Að kvöldi þess 7. gekk í ofsaveður. Þá um nóttina fórust þrjú hákarlaskip á Faxaflóa og með þeim 29 menn. Allmargar frásagnir hafa birst af þessum slysum, má þar sérstaklega geta ítarlegrar samantektar Kristleifs Þorsteinssonar sem birtist í 2. bindi ritsins Úr byggðum Borgarfjarðar, bls. 231 og áfram. Þar er m.a. sagt frá draumum manna fyrir slysið: Um og eftir hátíðir fara næsta daprir draumar að leggjast þungt á hugi manna ... .
En hér notum við mun styttri frásögn sem birtist í Norðanfara 14.febrúar og höfð eftir bréfi úr Reykjavík 12.janúar:
Á Knútsdag 7.þ.m. fóru 3 opin skip af Akranesi og 1 af Álftanesi út á Faxaflóa til hákarlaveiða, hægviðri var um daginn fram undir kvöld; en þykknaði um kvöldið á 7. tíma, fór að smá hvessa, en svo rauk á ofsa veður, af suðri, með nokkru brimi en óx smátt og smátt, er á nóttina leið, þá er veðrið gekk í útsuður, varð þá ófær sjór og leiðir til lands, þar sem það lá við útsynningi, enda kom það fram. Er sagt að þau 3 skip frá Akranesi, hafi lagst við stjóra hjá Þormóðsskeri suður undan Mýrum til að liggja af sér veðrið um nóttina, en þau slitnuðu upp, hleyptu inn á Borgarfjörð, en lentu fram undan Melum í Melasveit og fórust þar 2 þeirra, er haldið að þau hafi lent á skerjum eða farist í brimgarðinum við lendinguna.
Þriðja skipið komst af, bar hafaldan það uppá land, formanninum hafði fallist hugur og fór frá stjórninni, enda var hann þrekaður orðinn, sem flestir hinir, en einn af hásetum hans mesti þrekmaður, Björn að nafni, hljóp undir stjórn og hélt skipinu í horfinu til lands, gegnum boðana og brimöldurnar. Þessi formaður sem komst af var Ólafur á Litlateigi, en þeir sem fórust voru: Pjetur Hoffmann kaupmaður, með 10 hásetum. Hinn formaðurinn var Þórður á Háteigi með 6 hásetum. Um skipið af Álftanesi vita menn ekkert um, það hefir hvergi komið fram enn, en árar hafa fundist reknar af því, og er það talið frá. Hét formaðurinn Þórður og 10 menn taldir með honum. Alls hafa þá farist á þessum skipum 29 manns, er slíkt manntjón skaði mikill mannfélaginu, því flestir voru þessir, ungir og efnilegir menn, og margir þeirra láta eftir sig hryggð og sáran söknuð hjá konum, börnum og öðrum vandamönnum.
Suðri segir fréttir að norðan þann 19.:
Með vermönnum, er nú eru að koma að norðan hefur frést, að tíð sé mjög slæm og umhleypingasöm nyrðra. Skömmu fyrir nýjárið gerði vatnsflóð mikið í Vatnsdal; þó er þess ekki getið, að tjón yrði að því.
Ísafold segir af óþægilegri tíð þann 23.janúar:
Tíðarfar óþægilegt í meira lagi. Sífeldir útsynningar, með stórviðrum á stundum, og mikilli fannkomu nú síðustu dagana. Ferðir nær bannaðar á sjó og landi.
Austri segir 30.janúar frá góðri tíð framan af mánuði, en harðari eftir það:
... tíðin í vetur [hefur] verið einhver hin blíðasta og hagstæðasta er menn muna allt fram yfir miðjan janúarmánuð. Hinn 20. tók veðrátta að breytast; hafa síðan verið allhörð frost (hæst 12°R) og snjókomur miklar og öðruhverju stórhríðarbyljir. Menn úr Héraði, er voru staddir hér í Seyðisfirði, sumir með hesta, lögðu upp yfir fjall í veðrunum, og má telja víst að þeir hafi eigi allir komist slysalaust af. Hefur heyrst að sumir þeirra hafi komist til byggða eftir tveggja daga útivist og einhverjir orðið úti, en greinileg fregn um ferð þeirra hefur ekki borist hingað enn. [Þann 20.febrúar staðfestir blaðið að tveir mannanna hafi orðið úti á Fjarðarheiði og einn á Vestdalsheiði].
Í Austra þann 20.febrúar er ennfremur sagt frá miklum hrakningum fólks á fjöllum milli Borgarfjarðar og Héraðs þann 21.janúar:
Mánudaginn þann 21. þ.m. lögðu héðan til héraðs ung hjón, frá Desjarmýri, Árni Sigurðsson og Katrín Hildibrandsdóttir og frá Gilsárvallahjáleigu, í öðru lagi, vinnumaður Þórður Þórðarson og Áslaug Þorkelsdóttir. Fóru þau Árni svo kölluð Sandaskörð, en þau Þórður Eiríksdal. Þá er þau voru komin upp undir fjallsbrúnina, skall á stórkostlegt austan snjókomuveður, með svo mikilli veðurhörku að þau brátt engu fengu viðráðið, heldur bárust ósjálfrátt undan vindinum, upp um brúnina og nokkuð ofan hinum megin, án þess að vita hve langt eða hvert nærri var nokkrum vegi. Þá er þau Árni höfðu hrakist og villst æði lengi, vissu þau eigi fyrr en þau hröpuðu niður í allstóra harðfannarsprungu. Þar settust þau fyrir og létu fenna yfir sig. Fyrst morguninn eftir rofaði lítið eitt til. Lagði þá Árni af stað til Borgarfjarðar, en varð að láta konu sína þar eftir í fönninni, og bjó um hana sem best hann kunni. Komst hann að Hólalandi um kveldið. Var þá þegar safnað mönnum, er strax lögðu á stað til að leita konunnar. Fundu þeir hana og komu henni til bæjar. Var hún þá mjög aðframkomin, en þó lítt kalin og hresstist því fljótt.
Þau Þórður hröktust út á vatn nokkurt eða á, ei vissu þau hvort heldur var, duttu þar ofan í og vöknuðu upp til axla. Komust þó þaðan á þurrt land eftir miklar þrautir, grófu sig í snjó og | lágu þar til daginn eftir, er nokkuð létti óveðrinu. Var þá Áslaug örend, en Þórður komst að kveldi að Sandbrekku. Hefir líks Áslaugar verið leitað og hefir fundist.
Frá sama veðri er sagt í bréfi í Fróða 10.mars:
Útmannasveit (í Fljótsdalshéraði) 1. febr. Hinn 21.[janúar] eftir miðjan dag, gekk hér snögglega i kafaldsbyl með ofsahvassviðri og snjókomu, það var eitthvert snarpasta veður, sem menn hér þykjast muna eftir. Á einstöku bæjum náðist sumt af fénu ekki í hús um kvöldið, en þó hefir ekki frést að miklir skaðar hafi orðið, því heldur slotaði veðrið um tíma eftir að leið fram á vökuna, og daginn eftir var aftur bjartviðri.
Febrúar: Harðindakafli í annarri viku mánaðarins, en annars þótti tíð víðast hagstæð.
Norðanfari birti 26.febrúar bréf sem dagsett var á Siglufirði þann 11.: Héðan er að frétta einstaka ótíð og illviðri, allar skepnur á fullkominni gjöf síðan um jól.
Þann 13.febrúar segir Jónas Jónassen frá veðri í Reykjavík undangengna viku. Í textanum kemur fram að hann er að velta vöngum yfir fleiri hliðum veðursins en þeim sem beinlínis sjást. Hvað er loftvogin eiginlega að segja?
Veðurlag hefir þessa vikuna verið með versta móti og hefir útsynningur auðsjáanlega verið undir, þótt brugðið hafi til annarrar áttar. Hinn 7. mátti heita að væri moldviðrisbylur af landnorðri allan daginn til kl. 1-2 e.m þá lygndi snöggvast, en hljóp strax í útsuður rokhvass með byljum; 9. gekk hann til norðurs, bálhvass með blindbyl um kveldið og sama veður daginn eftir, en byllaust hér. Samt sem áður hækkaði lofþyngdamælir eigi og var þá auðséð, að eigi var von á norðanátt, og þótt veður væri kyrrt, þá hækkaði engu að síður loftþyngdarmælir og í dag 12. hefir hann talsvert lækkað, og er nú sem stendur helst útlit fyrir að veður verði mjög svo óstillt með einhverju móti, þar loftþyngdarmælir stendur óvenjulega lágt (28.tommur = 948,2hPa).
Austri segir frá veðri í blaðinu þann 20. en dagsetur frétt sína þann 15.:
Tíðin síðan [seint í janúar] ákaflega hvikul og jafnan margbreytt veður á degi hverjum, sjaldan hörð frost, en snjókomur töluverðar og stundum bleytuveður; kominn mikill snjór og illt umferðar. Í dag (15. febr.) er þíða og sunnanátt; roði í lofti með mesta móti i morgun.
[Roðinn líklega afleiðing eldgossins í Krakatá].
Í Fróða 24.apríl má finna bréf úr Árnessýslu dagsett á þorraþrælinn [23.febrúar] þar segir meðal annars:
Önnur vika þorrans var sér í lagi stórhríðasöm. Þá hröktust yfir 20 sauðir frá einum bæ í Biskupstungum í Tungufljót, og þá varð úti kona í Þingvallasveit er ætlaði milli bæja í einu hlerinu. Næstliðna viku hefir verið blíðviðri, líkara vori enn vetri. Frá sjó er sagt fiskilaust allstaðar, þar er til spyrst.
Ísafold segir líka frá hláku (20.):
Kringum helgina sem leið [16. til 17.] var hér ágæt hláka, 4 daga, sem allar líkur eru til, að náð hafi víða um land. Hún hefir komið sér vel allstaðar, ekki síst þar sem verið hafa jarðbönn stöðug frá því um veturnætur, eins og sagt er t.d. úr Skagafjarðardölum.
Og þann 27. heldur blaðið áfram:
Þessi breyting- til batnaðar á veðráttufari, sem byrjaði með hlákunni um daginn, hefir haldist síðan: hver dagurinn hér óðrum blíðari nú í fulla viku.
Jónas J. segir þann 27.febrúar:
Alla vikuna hefir veður verið hið stilltasta og allan síðara hlutann bjart sólskin á hverjum degi, svo slaknað hefir á daginn það, sem frosið hefir á nóttu, sem lítið hefir verið. Hér er alveg auð jörð.
Mars: Umhleypingasamt, talsvert snjóaði, en tók upp jafnharðan.
Blöðin eru þögul að mestu um tíðina í mars. Við nýtum okkur stuttorðar lýsingar Jónasar landlæknis:
[5.mars] Alla þessa viku hefir verið óvenjuhlýtt; vindur oftast af landsuðri, þegar eigi hefir verið logn. Við og við talsverð rigning, einkum 2. þ.m. Í dag 4. rétt eins og besta vorveður. Auð jörð og rétt klakalaus.
[12.mars] Fyrri hluta vikunnar var útsynningur, Oft hvass með köflum og með snjóbyljum. Síðari hlutann hefir vindur blásið frá austri, og gerði aftakarok í nokkra klukkutíma síðari hluta h. 9. Talsverður snjór féll á jörðu 8. þ.m., en hann hverfur óðum þessa síðustu daga af sólbráð.
[19.mars] Alla vikuna hefir veður verið óvenjulega hlýtt. Vindur oftast frá austri eða landsuðri með nokkurri úrkomu, stundum nokkuð hvass, en hægur eða rétt að segja logn og blíða þess á milli. Veðráttufar það sem af er þessum mánuði, er rétt alveg eins og árið 1880 í mars, þá var allur klaki úr jörðu 20. mánaðarins. Þá var aldrei frost á nóttu úr því nema 2. og 5. apríl.
[2.apríl] Fyrri vikuna var veður oftast hvasst frá norðri og austri, oft með talsverðri ofanhríð; síðari vikuna hefir venjulegast verið austanátt, oft hvass með ofanhríð; 30. og 31. norðan, hvass til djúpanna, en gekk niður algjörlega síðari hluta hins 31. og í dag (1. apríl) er hér logn og fagurt sólskin. Mestallur sá snjór, sem hér hefir fallið þennan umliðna hálfa mánuð (hann snjóaði hér mest síðari part dags h.25.) er hann gekk til útsuðurs er aftur horfinn af sólbráð. Loftþyngdarmælir spáir stillu.
Apríl: Hagstæð tíð mestallan mánuðinn.
Danski vísindamaðurinn Sophus Tromholt dvaldist hér á landi veturinn 1883 til 1884 við norðurljósaathuganir. Hann ritar bréf sem birtist í Þjóðólfi þann 7.apríl. Hann vill gjarnan fá upplýsingar um það hvort ástand norðurljósa hafi verið venjulegt eða ekki þennan vetur. Hvort hann fékk einhver svör við spurningunum vitum við ekki. Við skulum lesa þetta bréf:
Norðurljós. (Áskorun). Þar sem ég hefi dvalist hér í Reykjavík í vetur frá því í októbermánuði til að athuga norðurljós, vri mikilsvert fyrir mig, að fá sem víðast að annarstaðar á landinu skýrslur um, hvernig norðurljós hafa hagað sér þar í vetur. Ég leyfi mér því að biðja hvern sem getur að gjöra svo vel, að senda mér þr skýrslur þar að lútandi, sem hgt er, hvort heldur fáorðar eða ýtarlegar, einkum um þessi atriði: 1. Hafa norðurljós verið jafntíð í vetur og vant er, eða tíðari, eða sjaldgæfari? 2. Hafa norðurljós verið nokkuð öðru vísi í vetur en vant er, að birtu, litbreytingum og kvikleik? 3. Hefir verið dimmra upp yfir í vetur en vant er að jafnaði? 4. Um hvert leyti í vetur voru norðurljós tíðust og mest? 6. Um hvert leyti á kvöldin eru norðurljós vön að vera mest? 6. Sjást norðurljós stundum á morgnana? Ég þigg með þökkum hvað lítið sem er þessu máli til skýringar. Landakoti við Reykjavík, 24. mars 1884. Sophus Tromholt.
Austri minnist vetrar þann 21.apríl:
Tíðarfarið hefur verið hið besta; þó setti niður töluverðan snjó i fjörðum, um mánaðamótin næstliðin, en í Héraði snjóaði ekki til muna; er snjór sá nú að miklu leyti hlánaður, því að einstök blíðviðri hafa verið að undanförnu og eru enn, stillingar og sólarhitar á daginn en oftast frost á nóttum. Það er óhætt að telja vetur þenna, sem nú er bráðum á enda einhvern hinn besta vetur á Austurlandi.
Veðurlýsingar Jónasar segja frá mjög hagstæðri tíð í apríl - í lýsingu á mistri er athyglisvert að hann segir að engin fýla hafi fylgt - rétt eins og slíkt sé alvanalegt:
[9. apríl] þessa viku hefir veður fremur verið stormasamt, og hefir vindur blásið frá norðri mikinn part vikunnar, oftast hvass til djúpanna, þótt hann hafi verið hægur innfjarðar; 3. féll talsverður snjór um kvöldið, en sá snjór er allur á burtu, og hér auð og klakalaus jörð. Í dag 8. hlýjasta vorveður með hægum landsynningi.
[16. apríl] Alla þessa viku hefir veður verið óvenjulega hlýtt og stilling mikil á veðri; 11. var hér nokkur austangola, þó eigi hvass, en mjög mikið mistur í loftinu sem kom austan yfir fjall og lagði vestur. Engin fýla fylgdi, og er líklegt, að eystra hafi verið mjög mikill vindur, og að mistrið hafi stafað af ryki. Í dag 15. hægur vestanvindur; svört þoka í alla nótt og í morgun, birti lítið eitt upp eftir hádegi.
[23. apríl] Alla þessa vikuna hefir veður verið hið blíðasta oft með talsverðri úrkomu; er hér víða orðið algrænt; 20. og 21. snjóaði talsvert á Esjuna og öll austur- og suðurfjöll.
[30. apríl] Alla vikuna hefir verið sama veðurblíðan. Nokkur ofanhríð fyrri partinn í dag 29., og talsvert snjóað í fjöllin.
Maí: Snjóa- og kuldasamt, einkum nyrðra og eystra.
Austri segir þann 5.maí:
Sama öndvegistíðin fram til aprílmánaðar loka; þá gjörði allmiklar úrkomur, snjóaði á fjöll og rigndi i byggð. Í gær (4. maí) alsnjóaði í byggð og sama veður í dag.
Þjóðólfur lýsir tíð 28.maí:
Svo er að heyra sem kuldakaflinn,3 vikur framan af þessum mánuði, hafi náð um land allt, með moldviðrishríðum fyrir norðan, einkum á útskögum, og miklu frosti; eins fyrir vestan: af Dýrafirði t.d. skrifað 18. maí: Í dag er moldkafald og 5 stiga frost; og 21. maí: Í dag er norðangarður, lítt fært að vera úti. Hvergi hefir sést hafís, þótt allar líkur séu til að hann hafi verið ekki mjög fjarri landi, meðal annars það, að bjarndýr fannst í apríl á sjó (á sundi) utan til í Önundarfirði, og var skotið þar, af Guðmundi bónda Hagalín frá Sæbóli. Síðan að um skipti, eftir 20. maí, hefir verið hin blíðasta vorveðrátta.
Jónas segir [4.júní] að Esjan hafi orðið alhvít niður í byggð þann 31.maí.
Júní: Votviðrasamt og kalt syðra, þurrt nyrðra.
Austri segir 7. júní: Með uppstigningardegi [20.maí] gekk úr kuldunum og og til suðvestanáttar; voru mestu blíður rúma viku eða fram undir hvítasunnu [1.júní]; þá brá aftur til kulda og snjóaði talsvert á fjöll og festi í byggð; nú (5.júní) virðist veðráttan aftur að ganga til hlýinda.
Þann 26.júlí birti Austri bréf úr Þistilfirði dagsett 10.júní:
Til sumarmála var veturinn hinn besti, einkum niður til sjávar; en oft harður hvað snjókyngi og jarðbannir snerti til heiðar. Upp úr sumarmálum fór tíðin að kólna og endaði með fjarskalegu áfelli og ótíð frá 1219. maí; setti þá niður svo mikinn bleytusnjó um alla Norður-Þingeyjarsýslu, að menn muna ekki annan meiri um það leyti ársins. Síðan að snjóinn tók upp, hafa oft verið töluverð næturfrost og gróður því lítill og seinn. Að eins nú um nokkra daga hefur verið sæmileg gróðrartíð.
Jón Hjaltalín á Möðruvöllum segir í veðuryfirliti sínu fyrir 1884 (sjá hér að neðan) að þann 30. júní hafi þar um slóðir verið útsunnan ofviðri sem valdið hafi skemmdum í sáðgörðum.
Júlí: Þurrkakafli upp úr miðjum mánuði syðra, en annars votviðri og kuldi þar, þurr og hagstæð tíð nyrðra.
Mjög hlýtt var inn til landsins á Suðurlandi dagana 7. til 11. júlí. Hiti fór þá á hverjum degi vel yfir 20 stig á Stóranúpi í Gnúpverjahreppi. Mistur var í lofti og ekki alveg þurrt alla dagana.
Þann 12. virðist talsvert þrumuveður hafa gengið yfir - þrumur eru í athugunum í Stykkishólmi að kvöldi þess dags og aðfaranótt þess 13. Vestur á Flateyri gekk þrumuveður yfir fyrir hádegi þann 12. Átta þrumur heyrðust þar að sögn athugunarmanns.
Góður kafli kom um og upp úr miðjum mánuði - líka sunnanlands. Jónas lýsir veðri þann 23. og 30. júlí:
[23.] Alla umliðna viku hefir veður verið einstaklega fagurt á degi hverjum. Svo má heita að logn hafi verið; fyrstu dagana var norðangola og síðustu dagana hefir verið hæg útræna, rétt logn. Í dag 22. bjart sólskin og hæg útræna. Loftþyngdarmælirinn stöðugur.
[30.] Alla vikuna hefir verið hið fegursta, rétt logn á hverjum degi (útræna) með björtu sólskini. Loftþyngdarmælir mjög stöðugur þangað til í gær 28. að hann fór að síga lítið eitt; í dag nokkuð hvass á austan með nokkurri úrkomu.
Ágúst: Mjög votviðrasamt á Suður- og Suðausturlandi, þurrara vestanlands, en öndvegistíð á Norðurlandi.
Fróði segir þann 16. fréttir frá Akureyri:
Akureyri 9. ágúst 1884. Veðrátta hefir verið hagstæð það af er sumri. Grasspretta góð yfir höfuð. Tún og harðvelli einkum sprottið vel. Mýrar lakar. Hákarlsafli á Eyjafirði er orðin í meðallagi þó minni en í fyrra. Flest skipin eru enn við veiðar. Tvö hákarlaskip hafa týnst í vor er nefndust Úlfur" og Hermann.
Norðanfari segir 13.september frá sunnanveðri 22. ágúst:
Þann 22.f.m. var hér nyrðra mikið sunnanveður, sleit þá upp norskt verslunarskip, er lá á Þórshöfn á Langanesi, rak þar á land og brotnaði, en skipverjar komust af. Í skipinu hafði verið talsvert af fiski, salti, kolum og ... , sem allt seldist við uppboð 4.þ.m. og skipið á 300 krónur.
Ísafold rekur raunir um rigningu þann 27.ágúst:
Frá því um síðustu mánaðamót hefir verið mikil vætutíð um Suðurland, síðasta hálfan mánuð jafnvel afskaplegar rigningar. Áhrifin á heyskapinn eru þau, að undir Eyjafjöllum t.d. og í Fljótshlíð var fyrir fám dögum og er sjálfsagt enn víðast enginn baggi kominn í garð af töðu, hvað þá heldur af útheyi. Í Landeyjum þessu líkt eða því nær. Um uppsveitir Rangárvallasýslu og Árnessýslu ástandið lítið eitt skárra, en þó mjög illt. Í Flóa og Ölvesi hafa vötn sópað heyi burtu hrönnum saman, gert sumstaðar aleyðu. Víða engjar á floti, og því óvinnandi. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu sömuleiðis töður óhirtar mjög víða. Kaupafólk í þessum sýslum að hópast heim aftur til sjávarins. Sem nærri má geta horfir mjög ískyggilega á hér í sjávarsveitunum, nema sjórinn reynist því betur í haust. Í Borgarfirði var sæmileg heyskaparveðrátta fyrri hluta þessa mánaðar. Þar munu því töður hafa náðst óskemmdar og vel það. Í öðrum landsfjórðungum er eigi annað kunnugt en að góð tíð hafi haldist fram í miðjan þennan mánuð og heyskapur gengið prýðilega fyrir norðan að minnsta kosti.
September: Votviðrasamt fram undir þ.20. þá gekk í norðanáttir og setti niður fannir nyrðra og í uppsveitum syðra.
Ísafold birtir þann 8. október nokkur bréf sem lýsa sumartíðinni (við styttum lýsingar aðeins hér):
Í Húnavatnssýslu bera menn sig mjög vel 17. sept.:
Það er eigi hægt að segja annað um tíð hér í sumar en að hún hafi verið svo æskileg sem mönnum var unnt að öðlast. Allt hey hefir mátt hirða svo að segja jafnóðum og það hefir verið slegið; að eins var 1 vika af útheysslættinum votviðrasöm, en sem engan skaða gjörði, og aldrei hefi ég séð á bæjum hér jafnmikið hey sem nú, enda var sláttur byrjaður með fyrsta móti í sumar.
Eins eru góð tíðindi úr Strandasýslu (við Steingrímsfjörð) þann 8. september:
Tíðin var hin hagstæðasta að hugsast gat til ágústbyrjunar. Þá brá til vætu. Tún voru í besta lagi sprottin hér allstaðar og taðan náðist eftir hendinni. Úthagi var miður sprottinn, og víða ófær af vatni; gras er orðið mjög fallið á engjum síðan væturnar komu. Sagt er að grasvöxtur og nýting hafi verið góð á Ströndum norður.
Ekki alslæmt í Barðastrandasýsla 12. september:
Grasspretta ágæt, og nýting á öllum töðum hin besta. Seinni part af slættinum hefir brugðið til almennra óþurrka, sem byrjuðu 15. ágúst; þó hafa hey manna eigi skemmst enn, því hinn 6. og 7. sept. voru góðir þerridagar. Heyskapur er víðast hér um slóðir orðinn í besta lagi.
Ekki jafngott úr Meðallandi 7.september:
Grasvöxtur á túnum og valllendi var hér um slóðir með betra móti, en mýrarslægjur voru svo afar snöggar, að ekki hefir því líkt verið í 21 ár, sem ég hefi verið hér í Meðallandi, og þar á ofan hafa bæst einlægar vatnsfyllingar, svo fólk hefir staðið vinnulaust dögum saman vegna þeirra. Hér var í seinna lagi farið í okkar löngu kaupstaðarferðir, vegna ótíðarinnar í janúarmánuði, og komumst vér því í síðara lagi heim til að byrja slátt, og loksins þegar heim kom var svo afarilla sprottið, að óvíða var ljáberandi, svo sáralítið hey var fengið þegar brá í þá dæmalausu óþurrka og illviðri á því tímabili, sem varaði frá 29. júlí til 29. ágúst, að allan þann fullan mánuð kom naumast þurr dagur og alls eigi að gæti orðið að fullum notum; voru þá orðnar töður og annað nautgæft hey öldungis ónýtt kúahey. Loks á höfuðdag og síðan hefir verið þerriflæsa, svo búið er að flytja í garð yfirborð af því sem búið var að losa en svo illa þurrt ofan á hrakninginn, að nú brennur það hey, sem kraft hefir til þess, en hitt hálf-fúlnar, sem hraktara var.
Sams konar vætufréttir eru líka úr Öræfum 6. september: Það hafa ekki komið hér nema 2 dagar þurrir til enda nú upp í fullar 5 vikur og hið sama er að frétta úr Hornafirðinum. Og sunnmýlingar segja það sama 7. september: Afskaplega vætusamt hér í fjörðunum, svo hey hafa hrakist meir eða minna.
Ísafold lýsir tíðinni vel þann 20.september:
Vegna fádæmarigninga og óþurrka síðan í miðri 14. viku sumars, er að eins varð nokkuð hlé á fyrstu vikuna af september, hefir þetta sumar orðið eitthvert hið óhagstæðasta í manna minnum um allt Suðurland, frá Hvalfirði og austur í Skaftafellssýslur, og það svo, að til stórvandræða horfir, með því að almenningur neyðist til að fækka í haust töluverðu af hinum litla fjárstofni, sem var að færast á legg eftir harðærið. Um Borgarfjörð og líklega lengra vestur voru 3 vikna óþurrkar seinni partinn af ágústmánuði, en góður þerrir þar 1. vikuna af september, svo að þá náðist allt sem úti var af heyjum, með eigi mjög miklum skemmdum. Svo er að heyra að norðan og austan nú með strandferðaskipin, að þar hafi haldist þurrviðri fram til höfuðdags, en þá brugðið til óþurrka, með öðrum orðum: tíðarfar þar verið gagnstætt því sem var hér syðra. Líklega mun mega lýsa sumrinu svo í fám orðum, að það hafi verið mjög gott austanlands og norðan, dágott að öllu samtöldu vestanlands, en afleitt um meiri hluta Suðurlands.
Austri segir þann 24.september fréttir úr Breiðdal dagsettar þann 17.:
Heyskapur hefur gengið hér mjög erfiðlega í sumar. Allur ágúst hefur verið mjög óþurrkasamur og fram í september. Hey hefur hrakist víða töluvert, einkum úthey, því flestir voru búnir að slá og hirða tún fyrir júlímánaðarlok. Menn hafa náð heyi helst með því að setja stöðugt upp í sæti og breiða svo þegar vinddagar hafa komið. Töður hröktust talsvert hér út á Breiðdalnum og í Stöðvarfirði, fyrir það að þeir fóru seint í túnin. Afli hefur hér verið í sumar með minnsta móti. Heyafli manna mun verða líkur að vöxtum því sem var í fyrra en verr hirt.
Þann 12. gerði óvenjulega snarpt ofviðri norðanlands - Ísafold segir frá þann 20.:
Í óhemjustórviðri á sunnan með rigningu fimmtudag 12.sept.,er virðist hafa náð um land allt, braut yfir 30 norsk fiskiskip, þilskip, við Eyjafjörð, flest við Hrísey. Þar með ónýttist og ákaflega mikið af veiðarfærum: bátum, nótum o.fl. Manntjón vita menn eigi um, en ímynda sér að það hafi eigi orðið mikið. Veðrið var svo afskaplegt á Akureyri, að ófært var milli skipa á höfninni eða út í þau af landi.
Í bréfi Þorbjörns Magnússonar sem dagsett er á Akureyri 27.september og birt er í bókinni Þeir segja margt í sendibréfum [Finnur Sigmundsson, 1970] er sagt frá veðrinu:
(s243) Thyra stóð hér við tvo daga (kom á fimmtudaginn 11., fór á laugardagsmorgun 13.), því rétt eftir hún hafði hafnað sig og farþegar voru komnir í land, skall á með suðvestan ofsaveður, svo hætta varð að skipa upp úr henni. Fjöldi farþega, er farið höfðu sér til skemmtunar í land, urðu að gista þar nálega húsvilltir, því allstaðar var húsfyllir. Engin þorði að leggja bát að skipinu í því veðri. Skipstjóri sjálfur var um borð í Díönu, og þar varð hann að gista nauðugur viljugur.
Í Austra 4. október má lesa skýrslu um skipatjónið í Eyjafirði þann 12. - er það langur listi og ítarlegur. Þar kemur einnig fram að 3 menn, allir norskir hafi farist.
Einnig er rætt um þetta veður í sérstökum hungurdiskapistli.
Október: Mjög umhleypingasamt, stórrigningar syðra, en hríðarköst nyrðra.
Ísafold segir frá stirðri haustveðráttu þann 8. október:
Haustveðrátta ærið stirð til þessa hér sunnanlands og líklega víðar: kuldar, stormar og úrfelli, fjúk til fjalla. Viku fyrir Mikaelsmessu [29. september] gerði kafaldsbyl fyrir norðan, í Húnavatnssýslu og víðar, og snjóaði ofan í sjó; fjallgöngur tepptust; kýr teknar á gjöf o.frv. Fjúkið stóð í 2 daga, frá sunnudegi 21. sept. til þriðjudagsmorguns. Miðvikudag tók snjóinn upp í byggð, og var auð jörð 2 daga á eftir; en laugardag 27. gerði annan kafaldsbylinn og stóð fram yfir helgi; kviðsnjór á Holtavörðuheiði á Mikaelsmessu.
Þjóðólfur kvartar um úrkomutíð þann 25.október:
Það var þó aldrei nema fjörutíu daga og nætur, að rigndi, þegar Nóaflóð kom yfir jörðina", sagði einn maður á strætinu hér fyrir utan skrifstofu Þjóðólfs í gær; en nú eru það víst fullir 80 dagarnir, sem alltaf hefir rignt hér í Reykjavik!" Maðurinn ýkti að því leyti ofurlítið, að það hafa komið smá-uppstyttur á milli; en af og til er víst búið að rigna hér nú um 80 daga.
Í Norðanfara 15.nóvember er bréf úr Skagafirði dagsett 28.október. Þar segir m.a. frá sköðum í firðinum í veðrinu mikla 11. september:
Tíðin yfir höfuð í sumar góð allt fram undir göngur, töðufall af túnum með besta móti í sumar, og nýting góð á henni, grasvöxtur á engjum með betra móti, að undanskildum einstaka flæðiengjum, þar sem vatn lá of lengi á; heyskapur yfir höfuð í betra lagi, þó varð hnekkir talsverður, að suðvestan ofsaveðri 11. sept., því almenningur átti þá mikið úti uppsætt, sem allt fór um koll og tapaðist talsvert; í því veðri drukknuðu 2 drengir frá Hefða á Höfðaströnd, en sá þriðji bjargaðist á kjöl, hann var elstur.
Þeir sem voru búnir að hirða hey sin fyrir göngur, er nokkrir voru, höfðu þau með góðri nýtingu, hinir er úti áttu meira og minna, komust í mestu vandræði að svæla þeim inn illa verkuðum, því að síðan í göngum hafa verið dæmafáar úrkomur hér í Skagafirði af snjó og vatni af suðvestri, svo allt hefir ætlað á flot að fara og getur varla hjá því farið að í hlöðum og heyjum með hita hafi ekki nokkuð skemmst; eldiviður hjá mönnum mjög illa útleikinn og verða af því vandræði.
Tveir menn af Suðurlandi komu fyrir stuttu norðan af Seyðisfirði, er ætluðu suður, 18. þ.m. komu þeir að Gönguskarðsá og lentu á versta vaðinu á henni, lögðu út í hana, og sá sem var á undan fór flatur þá hann var nærri kominn að landi og drukknaði, en hinn sneri aftur til baka, sá sem fórst var af Seltjarnarnesi og fannst daginn eftir.
Nóvember: Mjög umhleypingasamt, skiptust á stórrigningar og hríðarbyljir, þó var blíðuveður um miðjan mánuð.
Í Fróða 6.janúar 1885 er bréf af Skógarströnd dagsett 27.nóvember sem segir frá manntjóni í skriðuföllum á Hlíðartúni í Sökkólfdal (um hann liggur nú vegurinn norðan Bröttubrekku), skriðan féll í illviðrinu mikla 14.nóvember, fimm létust:
Stórtíðindi gerðust fyrir hálfum mánuði inn í Dölum: Féll skriða úr fjalli ofan yfir bæinn Hlíðartún; komst enginn maður út. Á 3. degi var komið að bænum, og var þá þegar safnað 30 mönnum til að ryðja af honum skriðunni. Náðust loks eftir 4 dægur húsfreyjan og dóttir hennar 16 vetra með lífi þó var húsfreyja svo þjökuð, að hún dó litlu siðar. Allt fólk annað hafði ætlað að hlaupa til dyra, og fannst þar bóndi dauður í dyrunum, og hafði gengið þrem fótum til skammt", eins og Þórólfur Kveldúlfsson; börn hans tvö upp komin og dóttir 14 vetra og næturgestur einn. Skriðan var tvær mannhæðir að dýpt niður að þeim og full af stórum björgum. Voru því líkin mjög illa útleikin, nema hinnar ungu meyjar; á henni sá ekkert, og sagði svo frá stjúpsystir hennar, að hún mundi hafa dáið af hræðslu, því að hún hefði talað við sig eftir að skriðan féll. Hinn sama dag var veður svo mikið hér hvervetna, að menn treystust vart til húsa á túnum. Þó varð eigi tjón annarstaðar en í Hlíðartúni og á öðrum bæ í Dölum, þar tók skriða þriðjung af túninu.
Austri birtir 17.desember fréttir frá Akureyri dagsettar 10.nóvember:
Tíð mátti heita góð hér lengst af í haust. En með vetrarkomu brá, til snjóveðra. Síðan hefur fallið mikill snjór, en sjaldan með miklu frosti. Nú í dag er góð hláka og litur út fyrir þíðviðri. Skagafjörður er sagður næstum snjólaus.
[Þann 2. nóvember] kl. 7 um morguninn kom stórkostlegur jarðskjálfti á Húsavík. Var mönnum naumast stætt á bersvæði á meðan á honum stóð. Hús skemmdust stórkostlega, stoðir og þiljur gengu úr greypingum, og torfveggir rifnuðu og sumir hrundu. Síðan hafa þar verið mjög tíðir jarðskjálftar, en allir minni en hinn fyrsti. Hér á Akureyri varð vart við fyrsta jarðskjálftann. en engan skaða gjörði hann, og var þó allsnarpur. Ekki fannst hann í Skagafirði, að sagt er. Hér virtist jarðhreyfingin að koma úr norðaustri, en á Húsavik úr suðaustri, öfugt við Húsavikurjarðskjálftana 1872, því þá fannst hreyfingin þar að koma úr norðvestri.
Þjóðólfur birtir 22.nóvember fréttir úr Leiðvallahreppi dagsettar þann 11. Leiðvöllur er í Meðallandi og náði Leiðvallahreppur á þessum tíma yfir Meðalland, Álftaver og Skaftártungu.
Erfitt er tíðarfarið enn sem fyrri. Nú er veturinn farinn að sýna sig. Þriðjudag 28. október skall hér á austan gaddbylur; næsta dag var frostið 8 til 10 stig á Reaumur, fimmtudaginn (30.) aftur bylur, og síðan megnustu umhleypingar og stundum frost, stundum frostleysur, éljagangur o.s.frv. Það er því farið að setja talsvert að högum, og eftir því sem til fjalla er að sjá, líklega haglítið þar víða. Í gærdag [10. nóvember] og frameftir nóttu var hellirigning með stormi; tók hér því mikið upp, en hér á mýrunum er nú hlaupið svo í gadd, að mikið er enn þá undirlagt af þeim. Nú eru krapahryðjur úr útsuðri. Til fjalla er alhvítt að sjá.
Í sama blaði Þjóðólfs (22.) segir einnig:
... en aðfaranótt föstudags vikuna sem leið [14.] gekk hér skyndilega í ofsarokveður á suðaustan, fylgdi því óhemjurigning og hélst fram á 15. þ.m. að veður snerist til suðvesturs og gekk þá með éljum. Nú er hægviðri og má heita blíða um þennan tíma árs. Í ofsaveðri þessu hafði skipið Amoy frá Brydes-verslun hér, er lagði héðan fyrir skömmu, rekist upp á Holtssand undir Eyjafjöllum austur menn komust allir af, skipið og vörur sagt lítt skemmt, en ekki til að hugsa annað en að selja allt þar, sem komið er.
Í Austra 17.desember er pistill sem dagsettur er á Seyðisfirði 27.nóvember. Þar eru fréttir af skipsköðum og drukknunum (aðeins stytt hér).
Aðfaranótt hins 14. þ.m. [nóvember] rak í land á Eskifirði í ofviðri miklu Thor", haustskip Tuliniusar kaupmanns. Var það það fermt íslenskri vöru og albúið til utanferðar. Skipið sjálft kvað hafa bilað svo óhaffært sé. Vörurnar er sagt að kaupmaður Tulinius hafi keypt allar án uppboðs eftir samkomulagi við sýslumann.
Bátur fórst með 4 mönnum við Bjarnarey einhvern tíma í októbermánuði síðastliðnum. Var á heimleið úr Vopnafjarðarkaupstað með salt og timbur. ... Er mælt að 2 líkin hafi rekið í land í eynni. Bjarnarey hefur verið óbyggð þangað til í sumar. Hún liggur skammt undan landi fyrir utan fjöll þau er skilur Vopnafjörð frá Fljótsdalshéraði. Er álitið gott að halda þar út til fiskjar, og því hafði Björn Guðmundsson á Vestdalseyri, fyrrum póstur milli Akureyrar og Reykjavikur, fengið eyna leigða síðastliðið sumar og farið þangað með fólk og fiskibáta. Allt þetta fólk er drukknaði, fór í eyna í sumar héðan af Seyðisfirði.
Desember: Umhleypingasöm tíð.
Þann 3.mars 1885 birti Norðanfari bréf úr Barðastrandarsýslu dagsett 15.desember. Þar er m.a. sagt frá illviðri miklu ódagsettu, en líklega er þetta veðrið 14.nóvember.
Haustið hefir verið rosasamt, ýmist snjór eða þíður, varla aldrei kyrrð, en frost mjög lítið og oftast ekkert. Brim mikil og ógæftir á sjó, enda afli mjög lítill, og sumstaðar svo að segja enginn í þeim sveitum, sem haustafli er vanur að vera. Hákarls var eitt sinn leitað í haust, en varð varla og ekki vart. Í öðru sinni lögðu menn af stað, en urðu að snúa aftur; það var í næstliðinni viku. Í einu sunnanveðrinu í haust urðu skemmdir allmiklar á ýmsum stöðum. Hús og bátar fuku og brotnuðu við Ísafjarðardjúp, að sögn 8 bátar og 3 timburhús: eitt timburhúsið í Hnífsdal, annað í Arnardal og hið þriðja í kaupstaðnum Ísafirði. Bátarnir voru í Hnífsdal og Arnardal. Í sama veðrinu braut og þilskip, alfermt og ferðbúið til utanferðar, á Ísafjarðarhöfn; úr öðru var höggvið stórmastrið. Timburhús nýtt fauk og í sama sinn rétt fyrir innan Þingeyri í Dýrafirði. Viðar urðu skemmdir á húsum; þannig í Dölum við Arnarfjörð; rauf þar á einum bæ eða fleirum ýmis útihús að veggjum. Bát braut hér i sveit og hús skemmdust. Bátur með 3 ungum mönnum og stúlku fórst af Múlanesi, - hvort það var í sama ofveðrinu, man ég eigi. Þilskip, er lá við akkeri hér á firðinum [trúlega átt við Patreksfjörð], sleit enn fremur upp, rak út eftir firði og þar að landi; laskaðist töluvert og missti stýrið.
Bréf úr Árnessýslu, dagsett 7.janúar 1885 er í Fróða 13.mars og þar segir m.a.:
Fáeina daga eftir veturnæturnar var norðankuldi, og er það lengsti bjartviðrakaflinn sem komið hefir síðan í byrjun ágústmánaðar; en strax brá aftur til útsynninga og umhleypinga, og hélst það fram í miðjan nóvember; en síðari hluta hans var blíðviðri, þykkt loft en úrkomulitið og sjaldan frost eða stormur. Allan desember hafa verið útsynningar með mikilli snjókomu, einkum i uppsveitum því hér er útsynningur vanalega þess verri sem ofar er. Blota hefir gert stundum, en ekki nema til spillingar.
Austri segir frá þann 12.janúar 1885:
Á jóladaginn var eitthvert hið mesta norðanveður sem hér hefur komið. Kviknaði þá eldur í stóru norsku síldarveiðahúsi á Búðareyri, tilheyrandi Svendsen kaupmanni í Stafangri. Í húsinu bjó nú norskur húsgæslumaður með konu sinni og 6 börnum. Húsið brann á örstuttum tíma og missti hinn norski húsgæslumaður þar aleigu sína, þar sem engu varð bjargað. Var það hin mesta furða að ekki kviknaði í hinum næstu húsum, er þar stóðu forvindis.
Við látum allítarlegt ársyfirlit Jóns Hjaltalín á Möðruvöllum fylgja. Það birtist í Fróða 20. febrúar 1885. Dagbækur Jóns liggja ef til vill einhvers staðar. Við látum mánaðameðaltöl hans í friði, en höfum í huga að trúlega eru þau ekki reiknuð eins og gert er nú á dögum - og ekki tekið tillit til næturhelmings sólarhringsins. Tölur eru því almennt of háar, sérstaklega að sumarlagi þegar dægursveifla hitans er stór.
Yfirlit yfir veðráttu í Eyjafirði 1884.
Ekki mátti janúarmánuður kaldur heita, en þó var hann kaldasti mánuður ársins; meðaltalið var -3,90 eða næstum því 4 stig eftir mæli Celsiusar; áttin var lengstum við suður. Fyrra hluta febrúarmánaðar hélst frostið, þótt vægt væri; var og talsverð snjókoma öðru hverju; hinn 15. brá til hláku í rúma viku; þá frysti aftur þangað til seinast í mánuðinum. Meira hlut mánaðarins var áttin við suður, en þriðjung fullan í landnorðri. Meðaltal hitans var -0,76 eða þrír fjórðungar stigs. Marsmánuð allan var mjög milt veður; frost var eina 6 daga og aldrei mikið; meðaltal hita var því 1,93 eða sem næst tveim stigum. Lengst af var þykkviðri og stillt veður; áttin var enn mestan hluta mánaðarins við suður.
Aprílmánuð hélst hið sama veður enn þó mildara; var frost að eins 3 daga og meðalhitinn varð +4,94 eða næstum því 5 stig; var úrkomulítið mestan part mánaðarins; áttin var enn lengst af við xuður og þar næst við landnorður. Í byrjun maímánaðar brá til landnorðuráttar, og blés nokkuð af þeirri átt meira hlut þessa mánaðar og snjóaði eigi all sjaldan. Frost var 6 daga í þessum mánuði, en seinustu viku mánaðarins varð mjög blítt og var þá sunnanátt. Meðaltal hitans allan mánuðinn var + 4,88 og var það lítið eitt minna enn í apríl.
I júnímánuði var besta veður og væta talsverð, enda var áttin lengst við suður; um Jónsmessuna kólnaði lítið eitt og mátti þó eigi kalt heita. Meðaltal hitans allan mánuðinn var +11,54 eða hér um bil hálft tólfta stig. Í júlímánuði var lengst af norðanátt, en þó var hlýtt veður, svo meðaltal hitans varð +13,24. Þurrkar voru lengstum þennan mánuð. Í ágústmánuði var veður mikið óstöðugra; voru rigningar nokkrar öðru hverju, svo að 14 voru þeir dagar mánaðarins, er nokkuð rigndi; lengstum var áttin við suður. Meðalhiti mánaðarins var +12,04.
Allan fyrsta þriðjung septembermánaðar var átt við landnorður með þykkviðri og krapaskúrum við og við, og seinni part mánaðarins snjóaði allmikið á fjöll, og mátti heldur heita votviðrasamt. Meðalhiti mánaðarins var +8,13. Vindasamt var nokkuð þennan mánuð. Í byrjun októbermánaðar snjóaði nokkuð, en tók þó upp aftur. Frost var nokkuð frá hinum 8. til hins 12., en þá var þítt til hins 25.; þó var frost nokkuð og snjókoma til mánaðarlokanna. Átt var lengst við suður og umhleypingasöm. Meðal hiti mánaðarins var +1,64.
Snjókoma var töluverð hina fyrstu daga nóvembermánaðar og frost hélst til hins 9. Þá var þíðviðri fram í seinustu viku mánaðarins, og síðan frost til mánaðarlokanna, en þó alltaf vægt. Meðalhiti mánaðarins var -0,86. Átt var lengstum við suður og úrkomusamt, 3 daga rigning en 12 daga snjór. Í desembermánuði voru lengstum væg frost en þíður við og við; ýmist voru snjóar og þó eigi mjög miklir eða rigningar meira hlut mánaðarins. Átt var lengst við suður og hinn partinn við norður. Frost voru væg. Meðalhiti mánaðarins var -2,05.
Meðalhiti alls ársins var +4,28. Heitasti dagur ársins var hinn 9. júlí og var meðalhiti þann dag +20,03: en þegar hitinn var mestur þann dag, var hann +25 stig. Hinn kaldasti dagur var hinn 26. janúar; var meðalhiti þann dag -21,43; en þegar kaldast var þann dag, var hann -22 stig.
Á öllu árinu var norðanátt 19 daga, landnorðan átt 95 daga, austanátt 15 daga, landsunnanátt 57 daga, sunnanátt 133 daga, útsunnanátt 35 daga, vestanátt 6 daga, útnorðanátt 6 daga. Hvassir dagar voru á árinu 44, hæglætisdagar 176, og logndagar 146. Þrisvar á árinu var ofviðri. Hinn 30. júní var ofviðri á útsunnan og skemmdi allmikið sáðgarða og fleira. Hinn 11. september var ofviðri á sunnan; þá fórust skipin við Hrísey. Hinn 27. desember var enn ofviðri á sunnan og útsunnan, en gerði ekki tjón. Rigningardagar á árinu voru 62, snjódagar 87 og úrkomulausir dagar 217. Rigningardagur eða snjódagur er hvor sá dagur talinn, sem einhvern tíma rignir eða snjóar á. Júlí og ágúst voru hinir einu mánuðir, er enginn snjór féll. Heiðríkisdagar voru á árinu 32, en þykkviðri meira eða minna var 334 daga. Hver dagur er talinn þykkviðrisdagur, er nokkurt ský sést á honum. Meðalloftþungi allt árið var 29,67 enskir þumlungar. Hafís kom hér aldrei þetta ár. Jarðskjálftakippur fannst hér 2. nóv. kl. 7,45 f. m. Þrumur heyrðust aldrei.
Möðruvöllum í Hörgárdal í janúarmánuði 1885. Jón A. Hjaltalín.
Hér lýkur að sinni tali um árið 1884 - tölulegar upplýsingar ýmsar má finna í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 30.9.2020 kl. 13:38 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 151
- Sl. sólarhring: 198
- Sl. viku: 2072
- Frá upphafi: 2412736
Annað
- Innlit í dag: 143
- Innlit sl. viku: 1817
- Gestir í dag: 132
- IP-tölur í dag: 125
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.