8.5.2018 | 21:11
Af árinu 1821
Talsvert ítarlegar veðurlýsingar eru til frá árinu 1821 og getum við því sitthvað um það sagt. Mælingar eru rýrari. Hiti var þó mældur reglulega á að minnsta kosti tveimur stöðum, í norðurherbergi hjá Jóni Þorsteinssyni landlækni í Reykjavík og hjá séra Pétri Péturssyni á Víðivöllum í Skagafirði - en marga mánuði vantar í hvora mæliröð. Jón sendi athuganir til Kaupmannahafnar tvisvar á ári, með vor- og haustskipum. Skýrslur hans eru því tvískiptar, annar helmingur ársins frá mars til ágúst, en hinn frá september til febrúar eftirfylgjandi ár. Sennilega hefur verið til meira en eitt afrit - en skýrslur tímabilsins frá september 1821 til og með febrúar 1822 virðast hafa glatast úr meginsafninu. Daglegar tölur síðari helmings þess voru þó prentaðar í bresku riti, Annals of Philosophy - desembermælingar Jóns hafa því ekki glatast.
Árið var ekki kalt, veturinn í mildara lagi - nema hvað vorið lét eitthvað bíða eftir sér. Sumrið var hlýtt og hagstætt sunnanlands.
Myndin sýnir hitamælingar Jóns (grár ferill) og Péturs (rauður). Þær eru furðusammála um hitafar í janúar og febrúar, eftir kalda byrjun ársins hefur verið milt fram undir miðjan mars, en hiti í herbergi Jóns fór hins vegar ekki upp fyrir 10 stig fyrr en mjög seint í maí. Töluverðu munar á sumarhita mælanna tveggja, enda ólíkt fyrir komið og aflestur á ólíkum tíma. Jón mældi í hádeginu þegar lítið vantaði á hámark dagsins, en séra Pétur í morgunsárið á kaldasta tíma sólarhringsins. Hann mældi frost eina nótt snemma í ágúst. Slíkt er reyndar varla mjög óalgengt við Víðivelli.
Miklir hitar virðast hins vegar vera hjá Jóni nánast dag eftir dag frá því um miðjan júlí og fram um 10. ágúst. Þessar háu tölur eru varla sambærilegar við staðlaðar nútímamælingar, en athyglisverð er þó frásögn Magnúsar Stephensen sem hann ritar í bréfi til Finns Magnússonar og dagsett er í Viðeyjarklaustri 14.ágúst:
(s27) ... en þess á milli verið ýmsum önnum svo kafinn, eða svo ungeschickt [stirðbusalegur - segir orðabókin] til sálar og sinnis og frá mér í vellu- og mollu-hitum nú um nokkurn tíma meða 19 á 20° varma eftir Reaumur, sem mér er ætíð óþolandi (hvað þá ykkar meiri!), að ég ekki hefi treyst mér til á meðan að skrifa staf. En nú þá Evrus og Evronotus taka að hjálpast með að byrgja Apollós fögru ásjónu með blaktrandi bólstratjöldum oss til svölunar, gríp eg pennann á ný, færist í fornan ham, hálfu verri heldur en áður, eins og Skjaldvör skessa afturgengin.
Mælingarnar virðast sýna kuldakast í nóvember, - og svo er einhver hitatoppur um jólaleytið, en ekki ljóst hvort það getur verið rétt - en lýsingar greina frá spilliblotum um það leyti.
Hér má sjá þrýstifar ársins - eins og Jón mældi það frá degi til dags. Nokkuð órólegur vetur eins og vera ber. Lágur þrýstingur fram undir miðjan maí, en þá tók við mjög óvenjulegur tími, séu mælingarnar réttar. Það er mjög sjaldséð að þrýstingur fari ekki niður fyrir 1020 hPa í næstum tvo mánuði - jaðrar svo við hið ótrúlega að varla getur verið rétt. Fleiri sumarmánuðir fyrir 1825 eiga líka grunsamlega háan þrýsting. Aftur á móti er þrýstingur á öðrum árstímum eðlilegur. Við látum líklegustu skýringu á villunni liggja á milli hluta, og höldum þeim möguleika opnum að eitthvað raunverulegt sé á ferðinni (ekki þó galopnum).
Breskar veðurfréttir greina frá óvenjuköldum norðaustanáttum þar um slóðir um hálfsmánaðarskeið í júnímánuði - jafnvel með næturfrosti á stöku stað - og undir maílok snjóaði í London - síðasta snjókoma vorsins sem vitað er um þar í borg. Kannski var eitthvað óvenjulegt á ferð?
Frá miðju sumri er ekkert einkennilegt við þrýstinginn. Lýsingar á veðurlagi á þessum tíma (sjá neðar) styðja háþrýstihugmyndir.
Í annál 19.aldar er tíðarfarinu lýst svo - fellur vel að mælingum:
Vetur frá nýári var mjög mildur um Suður- og Austurland, snjóalítill og frostvægur, svo skepnuhöld urðu þar víðast góð. Á Vesturlandi var einnig góð tíð fram að góu, síðan snjóa- og harðviðrasöm. Á Norðurlandi mátti og góða tíð kalla, þótt fjúk væru öðru hvoru, uns hafís lagðist að norðanverðum Ströndum og Vestfjörðum á einmánuði. Brá þá til harðinda og héldust kuldar og næðingar fram um fardaga og varð gróður í minna lagi nyrðra og vestra, en einkum þó eystra í Múlasýslum fyrir grasmaðk, er var eignaður þurrkum og næðingum.
Sumar var blítt syðra, grasvöxtur í meðallagi og nýting góð. Þar á móti var hún hin bágasta norðanlands. Lagði vetur að fimm vikum fyrir rétta vetrarkomu; varð víða úthey undir snjó og náðust ei síðan. Hesta fennti á Skaga fyrir vetur og mjög áttu menn örðugt með að lóga sauðfénaði, jafnmiklum og nauðsyn krafði. Gerði snjókomu hina mestu og þyngdi æ meir, uns bæir sukku. Hófust spilliblotar með sólhvörfum; lagðist allt undir gadd.
Hafís lá lengst af sumri fyrir Vestur- og Norðurlandi og bægðu kaupförum komu til ýmsra hafna. Lágu í honum 30 hollensk fiskiskip mestan þann tíma föst, en losnuðu þó heil úr honum að lokum.
Mikið var um skipreika á árinu - annállinn telur þá marga. Þar leitar hann einkum heimilda í tíðarvísur Jóns Hjaltalín að því er virðist.
Snjóflóð tók bóndann frá Birnustöðum í Dýrafirði og maður varð úti í Húnavatnssýslu (annáll 19.aldar).
Brandstaðaannáll segir um árið 1821:
Stillt veður og snjór á jörð til þorra, á honum vestanátt og blotar, hláka 25.-27.jan., síðan óstöðugt. 8.-15.febr.var jarðlaust fyrir fé, 15.-16.febr. fjarskaleg rigning og vatnagangur. Féllu víða skriður, mest móti austri. Varð vermönnum að því óhægð, því heiðin var lengi ófær vegna snjóbleytu. Komust þeir ei suður fyrr en um miðgóu, en hún var hin besta og blíðasta, er verða kunni, svo vel hefði mátt fara til grasa á heiðar öðru hverju. 17.-19.mars norðanhríð, um miðjan einmánuð kuldar og frost mikið, en jörð snjólítil, síðustu viku góðviðri.
Með sumri skipti um og var á páskum [22. apríl] mesta harka, svo ár lögðu og litt var beitandi á auðri jörð, eftir það þíðulítið og frá 4.-27.maí kuldar og stöðug frost, 5. og 9.maí norðanhríð en lengst auð jörð í sveitum. Faradagaviku þíða og hlýviðri. Leysti snjó af fjöllum og greri fljótt.
Í júní lengst þurrt og kalsasamt, stundum vestanrosi. Með júlí fóru lestir suður og gaf þeim vel, því sífellt var þurrkasamt og fór gróðri seint fram. Sláttur byrjaði 18.- 20.júlí. Var (s84) lengi norðanátt, þokur og rekjur, samt nægur þerrir og nýting besta. Víða brann af hörðum túnum og varð þar töðubrestur, en annars meðalheyskapur og girt um göngur og síðast 27.sept. 1.október hlóð niður lognfönn og þann 4. norðanhríð með mestu fannkyngju, svo ófært varð með hesta bæja á milli. Þó varð lítið af fönninni til fremstu dala, Miðfjarðar- og Vatnsdal. Viku seinna tók upp í sveitum, en ei til hálsa eða hálendis. Í Þingi og Skagafirði áttu sumir hey úti, sem varð ónýtt og upptekið 19.október.
Haustið varð hið versta norðanlands. 29.-30.okt. mikil rigning, harka og snjór á eftir og svellaði mjög jörð, 5.-11.nóvember allgott, en eftir það fannlög og kaföld frá 18., en 6.-9. des. varð jarðlaust af snjókyngju. 17. blotaði. Sáust þá sultarhnjótar og tóku margir hross á gjöf. Um jólin landnorðanstormur og hríð ytra. Voru þar komnar undir 20 innistöður vegna hríðanna þó snöp væri með snjónum. Árferði var í meðallagi. (s85) ... Norðan Skagafjörð varð nú mikill niðurskurður og fellir. 21.sept. lagði þar á fannir. Hey allmikið varð þar undir. Jókst fönnin svo hross náðust ei af heiðum langt frá byggð. ... Snöp var í lágsveitum til 18. nóv., en ei til hálendis. (s86)
Klausturpósturinn 1821 (IV, 6, bls. 100) [Magnús Stephensen]
Í No.12 þessa mánaðarits fyrir 1820 gat ég um á bls.195 almennt árferði fram undir byrjun þessa árs 1821, að því leyti tilspurt var. Kenndist síðan afliðinn vetur um allt Suður- og Austurland einver hinn langmildasti, snjóalítill og frostavægur, svo útigangs peningshöld og hold urðu víðast góð. Á Vesturlandi var veturinn einnig góður fram á góu, síðan snjóa- og harðindalegur. Á Norðurlandi tjáist hann með köflum orðið hafa fjúkasamari, en góður þess á milli, uns hafís á einmánuði lagðist að vesturhluta þess og með norðanverðum Ströndum og Vestfjörðum; þótti þá nyrðra og vestra bregða til mikilla harðinda og síðan allt til þessa [ritað snemma í júní], með fjúkum frostum, áhlaupa norðanveðrum, nú gróðurleysi, kuldanæðingum og þar af leiðandi vanhöldum á fé og unglömbum. Langvarandi kuldanæðingar, kælur, frost og þurrkar taka enn þá því nær fyrir allan gróður jarðar, eins um Suðurland, nú í fardögum [snemma í júní].
Fiskiafli austan- sunnan- og vestan, með varð og í betra lagi, nema í einstökum verstöðvum, hvar þó ógæftir mest böguðu, svo sem: undir ytri Eyjafjöllum, á Eyrarbakka og með minna móti í Höfnum. Í Vestmannaeyjum sá allrabesti, allt að 8 hundraða hlutum. Syðra urðu þeir bestir hér um 4 hundruð en 5 á Strönd; fjöldi manna á Seltjarnar- og Akranesjum fengu þó hundraðs hlut eða litlu meira. Hákarlaafli á Vestfjörðum góður og sela, hvar nú tíðkast hefur með góðri heppni skutlan vöðusels. Á hafísnum gafst einkum góður selaafli vestanlands og nyrðra, helst í Aðalvík og Hrútafirði, hvar fjöldi vöðuselakópa varð rotaður.
Við leyfum þessari málsgrein líka að fylgja með þó hér sé ekki verið að fjalla um árið 1821:
Í Eyjafirði tíðkast og heppnast víða vel garðeplarækt, eins kálróta, einkum hjá kaupmanni Lewer og Dannebrogsmanni Þorláki Hallgrímssyni á Skriðu, sem auk margra merkilegra og manndóms fyrirtækja jarðyrkjunni viðvíkjandi, hefir verðskuldað landsmanna þökk og virðingu með byggingu góðrar þófaramylnu á bæ sínum, af eigin ramleika og efnum, hverri þó margra samanlögð fengu hér ekki á fót komið. Nú taka og syðra til korns mölunar vindsmylnur nokkrar breytilegar að fjölga; ein í ameríkönsku formi finnst í Viðey; en bóndi í Reykholtsdal hefir þar ný fundið uppá kostnaðarlitlar smáar, með vængjum upp úr húskofaþekjum, sem snúast samfara sjóndeildarhringi eða vatnabrúnum, og tjást þær mala allvel. Vatnsmylnum fjölgar hér og.
Klausturpósturinn 1821 (IV, 7, bls. 118):
Innlendar fregnir: Hafís heyrist enn um messur að liggja fyrir ströndum Norðurlands og Vestfjörðum; þar af leiðir lítinn gróður nyrðra, vestra, en einkum víða eystra, hvar grasmaðkur í Skaftafellssýslum vegna langvinnra þurrka og næðinga í ár ollir miklum skaða. Á Suðurlandi er grasvöxtur betri og lítur út til að nái meðallagi. Vorafli þar í rýrara lagi sökum ógæfta. Nyrðra góð höpp af selarotun á hafísum, einkum í Grímsey. Á Vopnafirði strandaði sélegt briggskip Kaupmanns Wulffs, þann 30. apríl, Friðurinn kallað; meiri hluti farms var áður þar lentur. Nýlega er við Vestmannaeyjar fundin útlend skúta á hvolfi. Gat varð höggvið á botninn, og voru 5 skipverja dauðir og úldinn saltfiskur fundnir í henni: hver hana eigi eða hvar hún heima átti, er enn ekki með vissu spurt, máski hollendskir.
Klausturpósturinn 1821 (IV, 12, bls. 203):
Árgangur [þ.e. árferði]. Síðan eg í júlí þ.á. á bls.118 minntist á árferðið og innlendar fregnir hjá oss, hélst minnilegasta og besta heyjanýting um allt Suðurland; lakara miklu varð árferðið bæði eystra, hvar grasmaðkur sumstaðar át burt gras af jörðu líka vestan- og einkum norðanlands, hvar sárbág nýting heyja, sökum óþurrka nú víða spyrst. Svo mikið af útheyi varð þar úti undir snjóum, sem með harðindum áféllu þegar í septemberi, en töður spilltust mörgum. Hesta fennti á Skaga nyrðra fyrir vetur og af bágri tíð leiddi víða mikla fénaðarlógun norðanlands. Hafísar lágu lengst af sumri og liggja enn fyrir Vestur- og Norðurlands byggðum, sem bægðu kaupförum komu til ýmsra hafna, í þeim lágu og yfir 30 hollendsk fiskiskip föst lengst af sumri, en losnuðu þó heil um síðir úr ísnum. Hvalaveiðaskipið frá Glúkstadt, hvers getið er á bls.102, fannst í Seyðisfjarðarmynni í Múlasýslu, á miðju sumri og varð í firði þeim róið að landi og fest. [Skipbrotsmenn höfðu með herkju komist á land á Skaga fyrr um vorið].
Lítum svo á nokkur bréf [danska textann ættu flestir að skilja]:
31-1 1821 (Jón Þorsteinsson, athugasemd með veðurskýrslu): Slutteligen tör jeg anmærke at denne Vinter intil dato, har með Hensyn til Kulden været af de mildeste slag her til Lands sam Vejrliget i det heele til sidste December, snarere været, Efteraars end Vintervejr derimod har det i indeværende Maaned været særdeles ustadigt með afvæxlende Töevejr, og Frost, og undertiden med betydelig Snee, hvilket næsten altid er Tilfældet her naar Vinden længe vedvarer fra Sydvest, som her medförer det uroeligste og ustadigste Vejrlig; Nordenvinden er derimod vel den stadigste men tillige den koldeste.
Jón sagði hér frá því að vetur (til janúarloka) hafi verið sérlega mildur og fremur hægt að tala um haust- fremur en vetrarveður. Tíð hafi hins vegar verið sérlega óstöðug í janúar, ýmist með blotum eða töluverðum snjó - eins og ætíð sé standi vindur lengi af suðvestri, en sú átt sé sú óstöðugasta allra, norðanátt sé hins vegar stöðug og sú kaldasta áttanna allra.
Gufunesi 14-2 1821 (Bjarni Thorarensen): Vetur hefir verið hinn besti framyfir nýár, en síðan hafa verið mestu umhleypingar ... (s187)
Gufunes 3-3 1821 (Bjarni Thorarensen): Vinteren har været en af de bedste og Höeavlen i afvigte Sommer fortræffelig, saa dette Aar kan her kaldes et af de bedste. Fiskeriet har allerede begyndt og dette er usædvanlig tidlig. (s11)
Reykjavík 5-3 1821 (Geir Vídalín biskup): Nú hef ég enga jeremiade [harmagrát] frá Suðurlandi, sumar besta (1820), heyföng góð og mikil, vetur samboðinn því, þegar ég undantek þorrann, sem var rosasamur í frekara lagi. ... Það sem af er góunni hefur verið besta vetrarveður. (s183)
Gufunes 24-8 1821 (Bjarni Thorarensen): Afvigte vinter har her in Landet været en af de mildeste og i Rangarvalle Arnæs Skaptefields og Borgerfiords Syssel have mange svære Höebeholdninger fra de foregaaende Aar. I Aar have vi havt meget tör Sommer og Höeavelen har af denne Aarsag lykkedes fortræffelig i de ellers vaade Egne, men i de törrere har Græsvæxten været under det middelmaadige, ... (s27)
Bjarni segir hér frá mildum vetri - einum þeim mildasta og víða séu heyfyrningar frá fyrra ári. Sumarið (1821) hafi verið mjög þurrt og heyskapur þess vegna gengið vel á votlendi, en grasspretta hafi verið síðri á harðvelli.
Viðeyjarklaustri 21-9 1821 (Magnús Stephensen): (s33) Besta veðrátta og besta sumar hér syðra og heyjafengur mikill og góður þar eftir krýnir hér um pláts sérlegustu árgæðsku.
Reykjavík 30-11 1821 (Geir Vídalín biskup): Nýmæli eru hér ekki nema norðanstormar og harðindi, og fer þú víst ekki varhluta af þeim. (s188)
Thienemann (sjá pistil hungurdiska um árið 1820) fór frá Akureyri austur til Húsavíkur 9.febrúar í -10 stiga frosti (með hitamæli sinn). Morguninn eftir var frostið -15 stig á Hálsi í Fnjóskadal og fóru þeir svo yfir Skjálfandafljót á ís. Daginn eftir hlánaði og síðari hluti febrúar var mildur, hiti fór aðeins einu sinni niður í -10 stig, var oftast ofan frostmarks. [Ber vel saman við mælingar Péturs á Víðivöllum].
Síðari hluti mars og fyrrihluti apríl (einmánuður) voru hins vegar kaldir og snjóþungir á Húsavík og dagana 17. til 21. mars og 23.mars til 8.apríl snjóaði nánast látlaust og oft var hvasst. Huldust ár og lækir fönn. Þeir félagar sáu hafís tilsýndar á Skjálfandaflóa þann 8.apríl.
Þann 9. apríl snerist vindur til suðurs og það létti til. Um miðjan apríl var hlýtt og snjó tók fór að taka upp. Í apríllok fóru þeir aftur til Akureyrar og geta þess að þar hafi alloft snjóað framan af maí. Þeir fóru út til Grímseyjar 17.maí og var þar nokkur ís, sem sunnanátt rak til norðurs þann 26.maí. Hiti var við frostmark á nóttum og í þoku.
Þann 1.ágúst voru Thienemann og félagar komnir austur í Breiðdal og fóru út að Berunesi. Berufjörður var fullur af hafís, en norðvestanstormur flæmdi hann síðan að hluta til út af firðinum - þannig að þeir komust á báti yfir fjörðinn milli jakanna.
Veðurumfjöllun í árbókum Espólín þetta ár er greinilega öll tekin úr lýsingum Klausturpóstsins - orðalag víðast hið sama.
Enn gengur ritstjóra hungurdiska illa að lesa bækur Jóns á Möðrufelli, en sér þó að hann segir um febrúarmánuð nokkurn veginn á þennan veg: Tíðin þennan mánuð æði óstöðug, má þó yfirhöfuð [teljast] allsæmileg. Mars: Ogso allan að telja rétt góðan, apríl virðist hann telja kaldan og harðan. Maí sömuleiðis mjög kaldan, júlí þurran en oft loftkaldan. Mjög óþurrkasamt var í september - þá var líka sérlega kalt.
Við lítum líka á tíðavísur Jóns Hjaltalín fyrir árið 1821:
Rosasamur þótti þorri þjóð á láði,
mein ei góa mönnum téði,
martíus var hýr í geði
Grænlands ísnum græðir hingað gjörði aka
vorkuldann það vildi auka,
vöxtinn rýrði grass og lauka
En þó sjaldan ofanfélli ýmis tregi
greiddi sólin gæfu hagi
grasár varð í betra lagi
Hér og syðra hirðing flýtti heys eyglóa
en að norðan ítar segja
allra verstu nýting heyja
Urðu víða útheyin þar undir fönnum,
fremur enn í manna minnum,
mörg þess dæmi önnur finnum
Haustið sendi feikna fannir frost og vinda
sem að enn við eyðursanda
ofan þylja belti landa
Fjölda víða fennti og hrakti fjár afvega,
svoddan harka hausts um daga
hefur mörgum ollað baga
Eins og allir hljóta að muna hófst eldgos í Eyjafjallajökli þann 19.desember 1821.
Lýkur hér umfjöllun um árið 1821 - ásýnd þess er nokkuð spillt af óþurrkum síðsumars nyrðra og eystra - og hafís.
Í viðhenginu má finna gamla ritgerð ritstjóra hungurdiska (pdf-snið) um mælingar Jóns Þorsteinssonar í Reykjavík og í Nesi 1820 til 1854. Ef til hefur einhver áhuga á að lesa hana þó eitthvað sé þar áreiðanlega sagt á annan veg en væri það skrifað nú (upplýsingar hafa bæst við).
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:40 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 156
- Sl. sólarhring: 201
- Sl. viku: 2077
- Frá upphafi: 2412741
Annað
- Innlit í dag: 148
- Innlit sl. viku: 1822
- Gestir í dag: 136
- IP-tölur í dag: 129
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.