Af árinu 1916

Árið 1916 var í heild sinni talið hagstætt hvað tíðarfar varðar, en þó ekki vandræðalaust. Fleiri slæm illviðri gerði heldur en árið áður - óvenjumikið bar á tjóni af völdum ágangs sjávar. 

Desember var að tiltölu langkaldasti mánuður ársins en einnig var kalt í mars, apríl og maí. Júlí var hlýjastur að tiltölu. Hiti var einnig yfir meðallagi í janúar, júní, ágúst og október. 

Hæsti hiti ársins mældist 25,4 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 4. júlí, en mest frost -25,0 stig í Möðrudal 2. mars. Norðaustan- og austanlands komu allmargir mjög hlýir dagar þegar hiti komst yfir 20 stig. Óvenjulegur er t.d. 22,1 stigs hiti í Papey þann 13. júní. 

Ritstjóranetið sem veiðir kalda og hlýja daga í Reykjavík fann fáa slíka á árinu 1916, engan hlýjan, en aðeins tvo kalda, 17. febrúar og 28. mars. Í Stykkishólmi fannst einn óvenjuhlýr dagur, 12. ágúst. Þá komst hiti þar í meir en 20 stig sem er óvenjulegt. Einn kaldur dagur fannst líka, 22. desember. 

Níu óvenjusólríkir dagar voru í maí á Vífilsstöðum, allir fyrir miðjan mánuðinn. Sömuleiðis voru fjórir óvenjusólríkir dagar í júlí, sá 1. og síðan þrír dagar í röð, 8. til 10. Skömmu síðar brá til rigninga. 

Mars, júní og desember teljast óvenjuþurrir á landsvísu, en janúar var óvenjuúrkomusamur um landið sunnanvert. Austlægar áttir voru óvenjuþrálátar í nóvember, en suðlægar í júlí. Meðalloftþrýstingur marsmánaðar var óvenjuhár.

Níu dagar ársins eru með á stormdagalista ritstjóra hungurdiska, 23. janúar, en þá fór sérlega djúp lægð yfir landið og blés af ýmsum áttum. Mikið sunnanveður gerði þann 30. janúar og síðan þriggja sólarhringa norðanveður dagana 24. til 26. mars. Aðrir stormdagar voru 22. apríl, 17. september, 18. október og 21. desember. Illviðri voru mun fleiri eins og sjá má í umfjölluninni hér að neðan. 

Sólarhringsúrkoma var sérlega mikil á Teigarhorni dagana 12. og 13. ágúst (mæling að morgni). Samtals 199,5 mm þessa tvo daga. Ekki ótrúlegt að einhvers staðar hafi flætt eða skriður fallið - engar fréttir eru þó af slíku. 

Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar (meðalhita og úrkomu á veðurstöðvum og fleira) í viðhenginu. 

Þorsteinn Gíslason ritar yfirlit um tíðarfar í Skírni 1917:

Árið 1916 hefir verið gróðaár fyrir landið í heild sinni, en vorharðindi krepptu mjög að norðan lands og austan og óþurrkar að sumrinu spilltu heyjaafla manna almennt sunnan lands. Veturinn var einmuna góður sunnanlands og frostalítill. Norðanlands var hann einnig góður fram í febrúar, en úr því gerði snjókomur miklar, og kvað þó einkum að þeim í mars og frameftir apríl. Lá þá óvenjulegur gaddur yfir Norðurlandi og Austurlandi, sem eigi hvarf fyrr en kom fram í júní. Um miðjan júní var jafnvel sagt að fé mætti ekki vera gjaflaust sumstaðar. Er þetta talið harðasta vor, sem menn muna á norðausturhluta landsins. Hafís kom þó ekki að landinu til neinna muna, aðeins hröngl, sem ekki hamlaði skipaferðum. Fénaðinum björguðu menn með kornmatarkaupum, svo að óvíða varð fellir, þótt heyin hrykkju ekki. Mikið tjón varð samt víða af lambadauða, sem stafaði af vorharðindunum. Sunnanlands var vorið allgott, en þurrviðrasamt, og greri jörð því seint.

Um og eftir miðjan júlí byrjaði sláttur á Suðurlandi. Í Reykjavík voru þó tún slegin nokkru fyrr. En þá kom sex vikna óþurrkakafli og stórskemmdust töður manna um alt Suðurland og Borgarfjarðarhérað og úthey sömuleiðis. Norðanlands, austan og vestan, var sumarið betra, sumstaðar gott, og grasspretta sæmileg. Var heyfengur manna þó yfirleitt talinn í lakara meðallagi. Grasmaðkur gerði mikið tjón í Skaftafellssýslum. Haustið var gott um allt land; unnið að jarðabótum í Reykjavík fram í byrjun nóvembermánaðar, og aftur síðari hluta þess mánaðar. Fyrir árslokin snjóaði töluvert sunnanlands, svo að jarðlaust varð í uppsveitum Árnessýslu og Rangárvallasýslu í byrjun jólaföstu og hélst svo fram til áramóta. Á Austfjörðum og norðausturhluta landsins hafði og komið mikill snjór í lok ársins.

Leitum nú aðstoðar blaðafregna. 

Janúar: Góð tíð framan af, en síðan stormasamt og víða talsverður snjór. Fremur hlýtt.

Fyrstu dagar ársins voru hagstæðir um landið sunnan- og vestanvert. Morgunblaðið segir frá þann 4.:

Fífill útsprunginn fannst á Stjórnarráðsblettinum á nýársdag. Það mun vera sjaldgæft hér á landi um áramót. Tún hér græn sem á vordegi.

Fréttir birta þann 6. janúar pistla „frá Þingvallavatni“ og úr Biskupstungum:

Frá Þingvallavatni. Ágætis tíð má heita hér. Í Þingvallasveit er alauð jörð allt upp undir Skjaldbreiðarrætur, en aftur er óvenjumikill snjór í Uppgrafningi og hagalaust, gera það lognin. Þingvallavatn hefir ekki lagt enn, nema einstaka vík, sem hefir brotið upp af þegar gola hefir komið. Biskupstungum í dag: Veðrið er hér svo gott að elstu menn muna ekki slíka tíð.

Eitthvað órólegra var eystra ef trúa má Austra þann 8.:

Tíðarfar hefir verið umhleypingasamt hér undanfarið. Ýmist krapahríðir og rigningar eða bjartviðri og frost. Snjór venju fremur lítill. Á gamlárskvöld var svo áköf rigning að varla var fært milli húsa.

Á þrettándanum varð hörmulegt slys á Vaðlaheiði þegar tvö ungmenni urðu þar úti. Fréttir segja frá þann 8. [taka ber fram að ekki eru allir fréttamiðlar sammála um smáatriði atburðanna]:

Tveir karlmenn og þrjár stúlkur lögðu í gærmorgun upp á Vaðlaheiði frá Illugastöðum í Fnjóskadal og ætluðu hingað [til Akureyrar]. Voru karlmennirnir Júlíus Kristjánsson héðan úr bænum og Árni Jóhannsson frá Brunná, hér innan við bæinn, en stúlkurnar voru Hólmfríður Jóhannsdóttir og Kristín Jóhannsdóttir frá Brunná, systur Árna. Þetta fólk hafði farið í kynnisför um jólin að Illugastöðum til frændfólks síns þar, og nú er það hélt heimleiðis var í förinni þriðja stúlkan, er hét Jóhanna Vilhjálmsdóttir og var frá Illugastöðum. Þegar þau lögðu upp var allgott veður og fóru þau Bíldsárskarð upp heiðina; en er nokkuð kom uppeftir, skall á þau stórhríð, héldu þau samt áfram um stund þar til Júlíus gafst upp. Grófu þau hann í snjó og héldu svo áfram, en nú leið ekki á löngu þar til stúlkurnar urðu einnig uppgefnar. Var þá ekki annars úrkostar en að þær græfu sig i snjó, en Árni sneri við og leitaði byggðar. Gekk hann það sem eftir var dagsins og næstu nótt, en í morgun kom hann loks að Steinkirkju í Fnjóskadal. Var þegar brugðið við þar og farið að leita að fólki því, sem grafið var niður. Gekk fljótt að finna stúlkurnar, því að þar hjá voru glögg merki til leiðbeiningar, var ein þeirra þá látin, það var Kristín, en hinar tvær aðframkomnar að dauða og nær meðvitundarlausar. Var þeim þegar ekið á sleða niður að Illugastöðum og þeim hjúkrað þar eftir mætti. Hyggja menn Hólmfríði fremur líf, en Jóhanna er ætlað að hafi tekið lungnabólgu og engin eða sárlítil von um hana. Þrátt fyrir sífelda leit hefur Júlíus ekki fundist enn, og er hann nú talinn örendur. Þennan dag sem fólkið lagði upp var afarmikil fannkoma, en fremur frostlítið. Systurnar frá Brúná voru börn Jóhanns bónda þar Sigurjónssonar. Eldri stúlkan var um tvítugt og hin yngri 16 ára. Það var hún sem dó á heiðinni.

Í sama veðri fórust tveir bátar úr Vestmannaeyjum, áhöfn annars bjargaðist, en fjórir fórust með hinum. Morgunblaðið segir þann 7. frá hvassviðrinu:

Afspyrnurok var hér á Suðurlandi i fyrrinótt [að kvöldi 5. og aðfaranótt 6.] og má búast við því, að það hafi valdið skemmdum viða. Frá Kjalarnesi höfum vér spurt það, að þar var ákaflega mikið brim. Braut það bryggju í Brautarholti og báta á ýmsum stöðum.

Fréttir bárust einnig af tjóni suður í Garði (Morgunblaðið 9.janúar):

Fimmta janúar var hér landnorðan afspyrnurok með sjógangi miklum; sjór gekk óvanalega hátt á land, nokkrir bátar brotnuðu áður en þeir urðu færðir undan sjóganginum. Í einu húsi, sem stóð hérum bil upp í miðju þorpi, gekk sjór inn í íbúðarkjallara. Þar bjuggu hjón með 2 börn, annað í vöggu; varð að bjarga konunni og börnunum úr kjallaranum (bóndinn var ekki heima) ásamt búshlutum; jarðarávöxtur skemmdist o.fl.

Illviðri olli tjóni á Vestfjörðum þann 9. og segir Vestri þann 12.:

Afspyrnarok var hér aðfaranótt sunnudagsins [9.], og urðu nokkur spjöll á vélbátunum hér á höfninni. Vélbáturinn „Hexa“ eign Lárusar Maríssonar, rak á land í Bótinni og skemmdist til muna, og nokkrir bátar höfðu rekist saman í Sundunum og brotnað eitthvað, en þó eigi til muna. Tíðarfar óstöðugt undanfarið. Síðustu dagana hefir fennt nokkuð.

Veður var afskaplega órólegt síðari hluta mánaðarins og héldu sjávarflóð áfram. Vísir segir frá þann 25.:

Eyrarbakka í gær. Aðfaranótt þ.21. þ.m. var hér afskaplegt brim og braut það 300 faðma langan sjógarð og flæddi upp í miðjan bæ. Skaðinn á sjógarðinum er metinn 10—15 hundruð krónur. Olíuskúr sem „Hekla“ á brotnaði og misstist eitthvað af olíu. Í Þorlákshöfn braut brimið gafl úr nýrri steinsteypubúð. 

Í Fréttum 2. febrúar kemur fram að að blíðalogn hafi verið í briminu. Segir þar:

Flóðgarðshrun. Fyrir nokkrum dögum sópaðist hér burtu flóðgarðurinn milli Einarshafnarverslunar og alt út í Óseyrarnes. Var brim allmikið en blíðalogn. Hefir garður þessi ekki verið sem traustastur. Tók þá og út ferjuskip i Óseyrarnesi. Skaðinn er metinn um 2000 kr.

Það er líklegt að sjávarflóð sem varð í Vík í Mýrdal hafi orðið þennan sama dag. Fréttir af því birtust ekki í Morgunblaðinu fyrr en 20. febrúar. 

Veðrátta hefir verið hér [í Vík] hin besta í ári og hefir sauðfénaður mestmegnis gengið sjálfala, þar til með þorra, þá fór að bregða til umhleypinga með útsynningséljagangi og brimróti miklu, enda var háflæði töluvert í miðsvetrarstrauminn svo að sjór flæddi hér upp á milli húsa, og skaut kaupstaðarbúum skelk í bringu. Ekki kvað þó eins mikið að flóði þessu sem því á 3. dag jóla í fyrra þá flæddi sjórinn hér inn í hús til manna og olli allmiklum skemmdum bæði á matvælum og verslunarvarningi hjá mér og fleirum. Síðan til umhleypinga brá, hafa ofviðri verið hér meiri, en elstu menn muna eftir.

Kauptúninu í Vík er sem sé mjög mikil hætta búin af sjávargangi. Hagar svo til, að mestmegnis er byggingin undir svokölluðum Sjávarbökkum og er skammt til sjávar. Sandkampur hryggmyndaður er á milli sjávar og húsa, og þegar stórstreymt er og hvassviðri eru, skvettist sjórinn inn yfir kampinn og hallar þá að eins upp að húsunum. Við þessu þarf auðsjáanlega að gera fyrr eða síðar, ef að bygging á að haldast þar, sem hún nú er. Kunnugir menn segja, að flóð þessi séu heldur að ágerast, áður hafi þau verið miklu strjálari og ekki eins stórvægileg. Til mála hefir komið, að húsin yrðu flutt upp á hæðina fyrir ofan, en það mundi verða æði kostnaðarsamt, og fæstir, sem mundu hafa ráð á, að leggja í kostnað þann styrktarlaust. 

Mjög djúp lægð fór hjá þann 23. með illviðri og fór þrýstingur niður í 933,8 hPa á Ísafirði. Hvort sú tala er rétt skal ósagt látið, en gæti verið það. Þrýstingur fór niður fyrir 940 hPa á allnokkrum stöðvum - en bandaríska endurgreiningin óvenju vitlaus. Símslit urðu mjög víða í veðrinu. Lögrétta segir frá þann 2. febrúar:

Skip rak upp hér á höfninni í roki aðfaranótt 23. f.m., lenti skammt frá slippnum og brotnaði nokkuð. Skipið heitir „Erling", eign Þorsteins Jónssonar kaupmanns á Seyðisfirði.

Þann 20. febrúar birti Morgunblaðið frétt úr Vík í Mýrdal:

Að morgni þess 29. jan. gerði hér svo stórkostlega hagléljahríð, að menn hugðu grjóti rigna niður á hús sín; voru élkornin á stærð við vínber. Gengu hér þrumur og eldingar svo miklar, að húsin nötruðu, og var gaurgangur svo mikill, að engu var líkara en fjöll þau, sem kauptúnið stendur undir, væru að hrynja. í ofviðrinu fauk víða járn af húsum. Fyrir mestum skaða varð Böðvar Sigurðsson bóndi í Bólstað. Hjá honum fuku 2 hlöður og þriðjungur af heyjum hans.

Morgunblaðið segir frá þann 31.:

Eitthvert hið mesta ofsaveður, sem orðið hefir í Reykjavik um margra ára skeið, skall hér á í fyrrinótt. Um háttatíma var stormur töluverður með rigningarskúrum á stundum, en skömmu eftir miðnætti tók að hvessa mjög, stórviðri skall á og um kl. 5 var komið ofsarok af suðaustan. Menn sem þá voru á ferli, segja að varla hafi verið stætt á götunum vegna storms og hálku.

Skömmu eftir kl.5 heyrðu menn skip blása i sífellu, og þóttust menn vita, að eitthvað hefði orðið að einhverju skipanna, sem í höfninni lágu. Enda kom það á daginn; þegar birta tók af degi, sást botnvörpungurinn Jón Forseti strandaður norðanvert við Örfiriseyjargarðinn eystri. Blés skipið til þess að kalla á hjálp frá öðrum skipum. Jón Forseti var á útleið á fiskveiðar i fyrrakvöld, þegar eitthvað varð að í vélinni og sneri hann því aftur hingað og varpaði akkeri fyrir utan hafnargarða. Í ofsaveðrinu, sem skall á, rak skipið og lenti á Örfiriseyjargarðinum. Við blástur skipsins komu skipverjar á björgunarskipinu Geir á vettvang, og er birta tók, hélt Geir út fyrir garðinn og náði sambandi við Jón Forseta. Með flóðinu náðist botnvörpungurinn út og lagðist inni á höfninni. Einhverjum skemmdum hafði Jón Forseti orðið fyrir, sem betur fer kváðu þær vera fremur litlar. Leki komst að skipinu á tveim stöðum, en nánar verður ekki um það sagt að svo stöddu, ekki fyrr en kafarar hafa rannsakað það utanvert. Jón Forseti er eign Fiskiveiðafélagsins „Alliance“, sama félagsins og missti Skúla fógeta á tundurdufli í fyrra. Þá rak og annað skip á land við Grandagarðinn. Var það Niels Vagn, eign Duus-verslunar. Lá skipið þar í allan gærdag og er talið víst að það sé eitthvað skemmt, því skipið rak á sjálfan garðinn, en þar er stórgrýtt mjög.

Uppskipunarskip, sem lá í vesturhluta hafnarinnar, hlaðið 6 steinolíufötum, rak á land skammt frá Alliance-bryggjunni og skemmdist eitthvað að sögn. Þar í nánd stóð á landi vélbátur, er Magnús Guðmundsson skipasmiður var um það bil að ljúka við. Stormurinn feykti honum nokkrar álnir og féll hann á hliðina, en hann skemmdist litið. Bátinn átti maður í Keflavik. Víða i bænum brotnuðu rúður og hurðir. Í einu húsi i Miðbænum töldum vér 4 brotna glugga í gær, í öðru 3, en viða brotnaði einn gluggi. Símaþræðir slitnuðu víða í bænum og lágu á strætum borgarinnar. Þetta ofsarok er eitt hið versta, sem menn muna hér á Suðurlandi.

Frá Eyrarbakka: Aftaka rok hefir verið hér síðan í fyrrinótt og hafa fylgt þrumur og eldingar. En hvergi hefir orðið tjón að, svo spurst hafi. Frá Keflavík: Vér áttum símtal við fréttaritara vorn í Keflavík. Afskapa veður var þar í fyrrinótt, stormur og rigning, en skemmdir urðu þar engar. Frá Vestmannaeyjum. Þangað símuðum vér í gær. Ofsarok hafði verið þar í fyrrinótt og brim afskaplega mikið. Skemmdir urðu engar.

Suðurland segir frekar af tjóni austanfjalls í veðrinu í frétt þann 9. febrúar:

Sunnud. 30. f. m. gerði stórviðri mikið hér eystra með þrumum og eldingum. Hefur veður þetta valdið tjóni á nokkrum stöðum, í Grímsnesi fuku hús á eftirtöldum bæjum: Á Brjánsstöðum þak af baðstofu og nokkur hluti af hlöðuþaki ; í Hraunkoti tók veðrið járnþak ofan af allstóru fjárhúsi og feykti langt í burtu og braut viðinn og í Norðurkoti tók þak af fjósi. 

Í þessum veðrum urðum mikil símaslit. Morgunblaðið segir frá þann 2. og 3. febrúar:

[2.] Símaslit hafa verið ákaflega mikil undanfarna daga. Uppi hjá Hamrahlíð var síminn gjörslitinn á kílómetrakafla og þrír staurar brotnir þar. Uppi í Kjós var hann slitinn á 4—5 kílómetra-vegarlengd og víðar munu hafa orðið skemmdir á honum. Þessi símaslit eru ekki svo mjög hvassviðri að kenna sem ísingu. Í gær voru sendir tveir menn héðan upp í Hvalfjörð til þess að gera við símaslit þar og er vonandi að í dag verði aðgerðinni lokið.

[3.] Viðtal við landssímastjórann. Símslit þau, sem urðu í byrjun þessarar viku, eru hin mestu sem komið hafa fyrir síðan síminn var lagður. Oss þótti fróðlegt að fá nákvæma vitneskju um símaslitin og fórum því á fund landssímastjórans. Þetta er miklu verra en vér hugðum í fyrstu, segir landssímastjórinn. Símaslitin voru á sunnudaginn [30.], líklega fremur af ísingu en stormi. Vegna óveðurs var ekki unnt að senda menn til aðgerða þegar í stað. Það var varla stætt þann daginn hér í bænum hvað þá heldur uppi á heiðum. — Mennirnir héldu héðan upp í Mosfellssveit á mánudaginn [31.]. Hjá Hamrahlíð lá síminn niðri á um 1 kílómeters svæði. Þar voru og margir staurar fallnir, en þó tókst að koma því í lag á mánudaginn. Hérna megin við Útskálahamar [norðan Eyrarfjalls] voru allir þræðirnir fallnir á um 8 kílómetra svæði. Vér sendum 4 menn á vélbát upp í Hvalfjörð til þess að gera við símann þar. Loks fékkst samband frá Útskálahamri að Grund í Skorradal, og fengum við þá að vita að síminn væri fallinn á milli Norðtungu og Stóra-Kropps, á um 10 kílómetra kvæði. Hvernig ástatt er þar fyrir norðan vitum vér ekki, en það má búast við því að síminn sé þar slitinn ef til vill alla leið norður að Holtavörðuheiði. — En ég býst varla við að skemmdirnar nái lengra norður.

Á morgun verða 7—8 menn sendir héðan á vélbát til Hvalfjarðar og eiga þeir að koma ritsímaþræðinum í lag sem allra fyrst, en láta talsímaþræðina eiga sig fyrst um sinn. Oss ríður mest á því að fá samband við sæsímann sem fljótast, og ég vona að það muni takast á laugardaginn. Ef ekki eru meiri skemmdir en vér þegar vitum, hygg ég að vér munum hafa samband við sæsímann á laugardaginn.

Aldrei finnur maður betur til þess hve mikils virði síminn er, heldur en þegar skyndilega tekur fyrir sambandið. Hvar sem maður hittir kaupsýslumann þessa dagana, eru símslitin aðalumtalsefnið. Enda er svo komið, að kaupmenn nota símann nær ætíð við kaup á útlendri vöru og sölu á íslenskum afurðum. Við getum ekki án símans verið — og menn finna best til þess þegar hann bilar.

Febrúar: Tíð var í fyrstu nokkuð erfið en síðan almennt talin góð þrátt fyrir mikil snjóþyngsli víða um land. Hiti í meðallagi.

Þann 4. og 5. gerði mikið norðan- og norðaustanveður með gríðarlegum sjávarflóðum og sjógangi. Mest varð tjónið á Ísafirði og nágrenni. Vestri segir frá þann 8. febrúar: 

Á laugardagsmorguninn 5. þ.m. var óvenjumikið sjórót hér við bæinn. Á föstudaginn var stórhríð af norðri, sem herti því meir sem á daginn leið; er það versta veðrið sem á vetrinum hefir komið og með verstu veðrum, sem hér koma. Um nóttina jókst sjógangur stöðugt og varð mest á flóðinu kl. 7-8 um morguninn. Var flóð óvenjumikið og olli því miklum skemmdum á og í húsum þeim er næst standa sjónum hér norðanvert í kaupstaðnum. Í Króknum urðu aðallega hús þeirra Jóns Þórólfssonar bátasmiðs og Jóns Jónssonar stýrimanns fyrir skemmdunum. Braut sjórinn smiðahús Jóns Þórólfssonar, fyllti það grjóti og tók burtu allt lauslegt úr húsinu. Í íbúðarhúsið gekk einnig sjór og eyðilagði ýmsa búshluti og matbjörg alla.

Frá húsi Jóns stýrimanns tók sjórinn algerlega burtu skúr, er stóð áfastur við húsið, og uppfyllingu þá er hann stóð á. Einnig gróf til stórskemmda undan íbúðarhúsinu, svo það má telja í fári, og gerði þar töluverðar skemmdir. Er tjón þeirra nafnanna mikið og tilfinnanlegt. Auk þess skemmdist nokkuð búshlutir og hús Einars Guðmundssonar skósmiðs, er stendur nokkru utar, og fjárkofi er stóð utanvert við húsið eyðilagðist og missti Einar þar einnig nokkuð af heyi, en hann er bláfátækur fjölskyldumaður. Í húsi Sig. Sigurðssonar á Gildrunesi urðu einnig smávægilegar skemmdir. Tvö sjávarhús (pakkhús og hjallur) er standa innanvert við hús Jóns stýrimanns skemmdust einnig nokkuð, og sjór gekk í fleiri hús í Króknum en skemmdir þar smávægilegar.

Í geymslurúmi Marísar M. Gilsfjörð urðu nokkrar skemmdir á vörum. Á. húsi Guðjóns Jónssonar næturvarðar og Jóns Sn. Árnasonar kaupmanns urðu töluverðar skemmdir; fyllti þar kjallarann með vatni. Einnig eyðilagðist bólverkið er húsið stendur á nokkuð.

Hús Karitasar Hafliðadóttur varð og fyrir miklum skemmdum. Eyðilagðist þar bólverkið og tók burt skúr norðanvert við húsið. Brotnuðu þar flestir gluggar í nyrðri hliðinni og sjórinn freyddi inn í húsið svo fólki varð ekki viðvært og eyðilagði mikið. Hjá Sigurði kaupmanni Guðmundssyni gerði sjórótið mikil spellvirki. Gekk sjór inn í neðstu hæð hússins. Átti Sigurður þar nokkrar vörubirgðir, sem eyðilögðust að mestu leyti. Einnig brotnaði pakkhús þar rétt hjá, er Guðm. Guðmundsson skipasmiður á, og vélaverkstæði hans fyllist af sjó, en skemmdir eru þar víst litlar sem betur fer. Í húsi þeirra Bergsveins Arnarsonar járnsmiðs og Friðgeirs Guðmundssonar skipstjóra skemmdist og nokkuð. Tók út skúr norðanvert við húsið og eyðilagði allmikið af matvælum en búshlutir skemmdust. Hús Kristins Gunnarssonar varð fyrir miklum skemmdum. Tók út skúr er áfastur var við húsið og braut bólverkið að heita má til grunna. Var sjórótið þar svo mikið, að brimið hafði kastað stórum sementssteypustykkjum langt upp á götu, líkt og börn henda smáskeljum.

Öll þessi hús, - að fráskildum Krókshúsunum, - standa við Fjarðarstræti og þar var sjórótið mest. Er gatan á þessu svæði öllu (ofan úr Krók og niður í Norðurtanga) alveg eyðilögð. Liggja djúpir malarhaugar og stórgrýti yfir hana. Sumstaðar hefir stórgrýti borist langt upp fyrir götu. Mun kosta mikið fé að fá það lagfært aftur.

Nær allt það fólk er í þessum húsum bjó er fátækt verkafólk. Einkum það er bjó í kjöllurum húsanna. Hefir margt af því misst aleigu sína af matbjörg og sumt nokkuð af matvælum. Var strax á laugardaginn flutt úr flestum þessum húsum, því ekki var fýsilegt að eiga þar náttstað næstu nótt, ef til vill undir sömu ósköpum. Bæjarstjórn sendi þegar sama daginn um kvöldið út samskotalista fyrir þá sem harðast urðu úti og fátækastir voru. Hefir hann fengið besta byr. Auk þess hafði velferðarnefnd um fjöruna á laugardaginn veitt mönnum aðstoð til þess að styrkja hús sin gegn frekari sjávarágangi, sem margir óttuðust.

Allmargir bátar stóðu uppi á þessu svæði og bárust sumir þeirra nokkuð til fyrir sjávarrótinu, en skemmdir á þeim urðu fremur litlar. Við Sundstræti urðu miklar skemmdir á fiskiverkunarhúsi Edinborgarverslunar. Reif sjórinn algjörlega burtu suðurhorn hússins nær að helmingi. Fiskur allur var geymdur í efri hlið hússins, svo ekkert skemmdist af honum. Einnig tók burtu lítinn fiskipall er verslunin átti utanvert við fiskihúsið. Tók sjórinn hann svo að segja í heilu lagi og bar niður fyrir Miðsund og lagði upp á salttunnur, er þangað höfðu borist, eins kyrfilega og gert væri af manna höndum. — Stórskemmdir urðu einnig á grunni svonefnds Ísafoldarpakkhúss.

Sjórinn tók einnig út um 250 salttunnur, er Karl Olgeirsson verslunarstjóri á. Skemmdust flestar tunnurnar og saltið er alveg eyðilagt. Er það bæði bagalegt og tilfinnanlegt tjón. Sami maður missti og töluvert af tómum síldartunnum. Við Sundstræti skemmdist land bæjarins víða og munu þær skemmdir nema töluverðu. — Aðrar skemmdir urðu og nokkrar. Um eignatjónið hér í bænum vitum vér enn eigi til fulls, en sennilegast þykir að það muni vera um 20 þús. kr.

Í Hnífsdal urðu einnig töluverðar skemmdir á húsum, bryggjum og nokkrar á bátum. Mest tjón hafa beðið þar Á. Ásgeirssonar verslun, Valdemar kaupmaður Þorvarðsson, Guðm. Sveinsson kaupm., Sigurður Þorvarðsson kaupm. og Helgi Kristjánsson útvegsm. Sagt er að skemmdir þar nemi um 8 þúsund kr.

Í Bolungarvík urðu miklar skemmdir. Tók sjórinn þar stórt og vandað smíðahús, sem Jóhann Bjarnason átti og eyðilagði að mestu. Ennfremur brotnaði að nokkru fiskihús Péturs kaupm. Oddssonar og verbúð er hann átti. Ennfremur tók út töluvert af síldarvörpum, er var eign Jóh. kaupm. Eyfirðings og þeirra bræðra. — Tveir hjallar brotnuðu einnig, og nokkrar aðrar skemmdir urðu. Telja má að tjónið þar sé ekki minna en í Hnífsdal.

Varla var búið að skrifa frétt Vestra um sjávarflóðið mikla þegar fregnir bárust af snjóflóðum í Hnífsdal og tókst að koma fregnum í sama blað:

Í dag [8.] um hádegisbilið féll snjóflóð í Hnífsdal, rétt utanvert við svonefnt Bræðrahús (eign Halldórs Pálssonar og db. Jóakims Pálssonar). T6k það fjárhús hlöðu og fjós er stóð ofanvert við húsið og færði langt úr stað. Höfðu þegar fundist 16 kindur dauðar og 1 kýr. Einnig tók snjóflóð þetta vélabyrgi og smiðju, er vélaverkstæði Hnífsdælinga á, og flutti smiðjuna fram á sjó. Varð þar fyrir snjóflóðinu gamall maður, Jóhannes Elíasson, en talið að hann muni lifa. — Ennfremur tók snjóflóðið hjall er Halldór Pálsson átti og skúr er Páll bróðir hans átti. Auk þessa urðu nokkrar aðrar skemmdir. 

Í sama blaði er síðan sagt frá því er bátur slitnaði upp á Súðavík föstudaginn 4. Talið var að straumhnútur hafi slitið legufærin. Um tíðina almennt segir svo:

Stanslausar norðanhríðir og stórviðri undanfarið, en alltaf mjög frostvægt. Fannkoman feikna mikil. Á götunum hér í bænum eru víða mannháir skaflar, og hefir ekki kyngt niður jafnmiklum snjó síðan fannaveturinn mikla 1910.

Morgunblaðið segir þann 7. febrúar af stórstreymi í Reykjavík:

Stórstreymt hefir verið undanfarna daga og hefir kveðið svo rammt að því að kjallarar hér i Miðbænum hafa orðið hálffullir af sjó.

Viku síðar (15. febrúar) eru enn fréttir af snjóflóðum í Vestra:

Í fyrrinótt rann snjóflóð niður hlíðina við Grænagarð, og tók annan gaflinn og þak af íveruhúskofa er þar stendur. Tvær konur, er þarna hafa búið, sakaði eigi, og höfðust þær við þarna í kofanum, eða í nánd við hann, þar til um morguninn, að menn frá Seljalandi urðu þessa varir, og voru þær þá fluttar hingað til bæjarins. Mjög óvanalegt er að snjór renni þarna niður, enda er hlíðin eigi jafn brött þar eins og utar við fjörðinn.

Milli Hrauns og Heimabæjar i Hnífsdal, rann snjóflóð í gær og meiddi einn mann lítilsháttar. Víðar í Hnífsdal hafa snjóflóð runnið nú í vikunni, en ekki orðið að tjóni. S.1. föstudag [11.] rann snjóflóð fyrir framan Hraun, þar sem býlið Augnavellir stóð til forna, og hefir að sögn ekki hlaupið þar í 98 ár.

Sama fannkoman helst daglega, en hægviðri og frostvægt. Ferðamenn úr Grunnavíkur- og Sléttuhreppum segja snjóinn nær því eins mikinn þar nú og 1910, og sama er að frétta úr Barðastrandar- og Dalasýslum. Hér í bænum hækka skaflarnir drjúgum með degi hverjum.

Þak fauk af steinsteypuíbúðarhúsi i Snartartungu í Bitru fyrir skömmu, hjá bóndanum þar Sturlaugi Einarssyni. Einnig fauk þak af baðstofu á Krossárbakka í sömu sveit, alveg niður að tóft.

Þann 11. bárust einnig fréttir um mikið flóð í Ólafsvík og að brimbrjótur hafi þar brotnað og tjón sé um eitt þúsund krónur - trúlega sama dag og flóðin á Ísafirði. Hríð gerði í Reykjavík að morgni þess 10. segir Morgunblaðið þann 11.: „Versta veður gerði hér í gærmorgun. Skall á blindhríð og stormur og kyngdi niður mesta snjó, sem komið hefir á vetrinum“. Nokkrum dögum síðar, þann 16. segir Morgunblaðið frá því að bifreiðaferðir til Hafnarfjarðar hafi verið tepptar í nokkra daga vegna óvenjumikilla snjóa á veginum. Farið var að nota sleða. Kvartað var um bjölluleysi þeirra í Morgunblaðinu þann 19.:

Áður fyrr var mönnum gert það að skyldu að hafa bjöllur á sleðum, sem ekið var um bæinn — auðvitað til þess að gangandi menn fremur gætu varast þá. Nú eru margir sleðar notaðir, en þeir hafa engar bjöllur. Er þetta því verra, sem oft er dimmt á götunum og því erfiðara fyrir gangandi fólk að varast sleðana. Það er nauðsynlegt að hafa bjöllur á sleðunum og ættu yfirvöldin að sjá um það hið fyrsta.

En allur þessi snjór hvarf og bjartsýnishljóð er undir lok mánaðarins - Suðurland segir frá þann 27.:

Eyrarbakka í gær. Besta veður er hér nú. Þó hafa fáir bátar róið til fiskjar, þar sem brim hefir hamlað þeim. Snjólaust er hér með öllu og besta veður. Muna menn hér ekki eftir öðrum eins vetri hvað veðráttu snertir.

Þann 27. febrúar birtust enn fregnir af snjóflóðum (Fréttir):

Snjóflóð í Náttfaravik. Nýlega voru þrír bræður að sækja hey, Sigurbjörn, Stefán og Kristján, synir Sigurjóns bónda Jósepssonar i Naustavík. Var heyið uppi i fjalli. En er þeir höfðu búið út ækin féll snjóflóð á þá og sópaði þeim og heyinu niður fjallið og fram af hömrum og út á sjó. Bátur var þar nálægt og varð mönnunum bjargað, voru þeir allir beinbrotnir og mjög dasaðir. Guðm. læknir Thoroddsen var sóttur til þeirra og flutti hann þá heim með sér til Húsavíkur og segir að þeir geti orðið jafngóðir. — Þykir það ganga kraftaverki næst.

Mars: Góð og sérlega hæg og þurrviðrasöm tíð um meginhluta landsins þar til síðasta þriðjunginn að veður versnaði mjög. Fremur kalt.

Þann 9. og 11. birti Morgunblaðið fréttir af hægviðri:

[9.] Svartaþoka var hér í fyrrinótt og fyrrihluta dags í gær. Komust skip hvorki héðan né hingað. Það er sjaldan að svo svört þoka verði hér í Reykjavík.

[11.] Vorbragur er nú á tíðinni hér. Sólbráð og logn á hverjum degi. Má meðal annars marka það á því, að ísinn á Tjörninni er nú ekki lengur mannheldur.

Þann 12. sögðu Fréttir frá íshrafli á Ísafjarðardjúpi og þann 16. var í blaðinu frétt frá Siglufirði:

Siglufirði í gær. Í dag kom hingað inn mótor-bátur úr hákarlaveiðum, hafði hann orðið að létta vegna hafís sem rak að. Þetta var 8 mílur norðaustur af Siglufirði. Áður  hafði hann leyst undan ísnum úti á Skagagrunnshorni. Ísinn er sagður mikill en ekki borgaris. Stillingar hafa verið hér stöðugar og mjög kalt í sjónum. — Segja gamlir menn að þetta sé fyrirboði íssins, og hafa búist við honum. Sólskin er hér á hverjum degi og því hið yndislegasta veður, er snjór nú mjög leystur upp.

Þann 24. skall á mikið illviðri af norðri og stóð dögum saman og olli mannsköðum á sjó og tjóni á landi. 

Morgunblaðið segir frá þann 25.:

Norðanrok skall hér skyndilega á um kl. hálfellefu í gærmorgun. Urðu töluverðar skemmdir í höfninni. Uppskipunarbát, hlöðnum steinolíu, hvolfdi út við Ceres. Einn maður, sem í honum var, komst í vélbát, sem þar lágu hjá. Annað uppskipunarskip rak á land fyrir austan Völund; aurferju hafnarinnar rak og á land og marga báta, sem lágu við bryggjurnar, fyllti af vatni, en vörur í þeim skemmdust.

Þann 26. bárust fréttir af bátum sem ekki höfðu skilað sér til lands eftir að veðrið skall á. Frá Sandgerði segir m.a. í Morgunblaðinu:

Laust fyrir hádegi skall hér á á ofsa norðanrok, með svo skjótum svip að einsdæmi munu vera. Hleypti þegar upp miklum sjó, en veðurhæðin tók þó út yfir. Bátarnir leituðu þegar lands og komust nokkrir hingað. 

Frá Þorlákshöfn sagði:

Botnvörpungurinn Ýmir frá Hafnarfirði strandaði í Þorlákshöfn í fyrrinótt. Mun hann hafa ætlað að leita hafnar þangað, en af landi stóð ofsarok og fylgdi mold og sandbylur svo að eigi sá út úr augunum. - [Í síðari fregnum kom fram að Ými hefði verið bjargað á flot]. 

Fjölda báta var saknað um tíma, en langflestir komu fram. Þilskip bjargaði áhöfnum fjögurra báta úr Grindavík, alls 38 mönnum. Bátur af Vatnsleysuströnd fórst með 7 mönnum. Níu bátar brotnuðu í lendingu í Grindavík, en ekkert manntjón varð í þeim óhöppum. 

Norðurland segir frá þann 1. apríl:

Snjóflóð féll á fimmtudagsnóttina [30. mars] á bæinn Kot í Svarfaðardal, sem er fremsti bær í dalnum. Fólkið vaknaði í baðstofunni um nóttina við að gluggarnir brotnuðu og snjóstrokan stóð eins og árstraumur inn í baðstofuna. Það bjargaði bænum og fólkinu að bærinn var nálega í kafi í snjó, áður en snjóflóðið kom, svo það fór yfir hann án þess að valda miklum skemmdum.

Njörður segir frá því þann 29. apríl að snjóflóð hafi orðið þremur hestum að bana nærri Hvoli í Saurbæ. Dagsetningar er ekki getið. 

Apríl: Ótíð var á Norðausturlandi en þurrviðra- og næðingasamt suðvestanlands. Kalt.

Norðanhretið hélt áfram í apríl. Suðurland sagði þann 5. frá mikilli snjókomu þar um slóðir 1. apríl. Skipatjón varð á Vestfjörðum. Morgunblaðið segir frá þann 4. apríl:

Þingeyri, 2. apríl. Aftakaveður er hér á norðaustan. Slúpp-skipið „Christian“, eign Bræðranna Proppé, sleit upp og rak á land. Þykir líklegt að það sé gerónýtt. Skipið „Fönix“ komst með naumindum inn til Bíldudals. Gullfoss kom til Patreksfjarðar i gærkveldi en enginn komst á land fyrir stormi og sjó. Þilskip rak á land á Bíldudal i gær.

[Hvað Slúpp-skip er veit ritstjórinn ekki]. Daginn eftir bárust blaðinu einnig fréttir af því að þilskip hefði strandað við Suðureyri í Tálknafirði, en skipið sem rak á land á Bíldudal hefði skemmst mikið. 

Í Morgunblaðinu þann 5. apríl má lesa um ísingu:

Í fyrramorgun [þ. 3.?] gerði ísingu mikla á Eyrarbakka, en klukkan hálf tíu tók að hvessa og gerði ofsarok. Brotnuðu þá 25 símstaurar í röð og féllu niður. Mun það einsdæmi hér á landi að svo margir símstaurar brotni i einu og allir í röð.

Enn voru vandræði á Reykjavíkurhöfn (munum að gerð hafnargarða var ekki lokið). Morgunblaðið segir frá þann 11.apríl:

Í fyrrakvöld um kl.9 skall hér á stormur með hríð. Skip lágu mörg i höfninni, og lágu þau þétt. - Flutningaskipið Olga rakst þá á botnvörpunginn Baldur og skemmdist báturinn á Olgu töluvert. Litlu síðar rakst sama skip á flutningaskipið Rigmor, eign sama félags, og kváðu nokkur plötur á því skipi hafa dalast. Skemmdir á Baldri urðu engar og hélt það skip héðan á  fiskveiðar i gærmorgun. -

Í sama blaði var sagt frá skipbroti í Vestmannaeyjum, þrír fórust og þann 14. voru í blaðinu fréttir af strandi tveggja eyfirskra skipa við Önundarfjörð. 

Vestri segir frá vondri tíð og skipbrotum þann 15.:

Kafaldshraglandi og norðannæðingur undanfarið. - Snjórinn óvenjumikill, svo algerlega er haglaust hér í nærsveitunum, og sama segja fréttir úr Norðurlandi. Skipsskaðar. Þiljubáturinn „Vonin" frá Finnbogastöðum í Víkursveit í Strandasýslu sökk i hafís á Norðurfirði 30. f.m. Var báturinn að hákarlaveiðum þar í flóanum; lenti í ísnum og liðaðist sundur, en skipverjar björguðust á ísnum að landi. Báturinn var eign þeirra bræðra Finnboga og Magnúsar Guðmundssona frá Finnbogastöðum, og var ótryggður. Fiskiskipið „Orion" frá Siglufirði rak og í land á Norðurfirði nýlega, og laskaðist svo að það er talið ósjófært.

Morgunblaðið birti þann 20. almennar tíðarfréttir úr Húnavatnssýslu:

Lækjamóti síðasta vetrardag. Norðandimmviðri á degi hverjum og í dag sérstaklega mikið fárviðri með afskapa fannkomu. Útlitið afar ískyggilegt. Hey eru þegar á þrotum víða hér um slóðir, og þó eru ástæðurnar enn þá verri i austursýslunni. Einn bóndi þar, sem á um 200 ær, er þegar þrotinn að heyjum og sækir tuggu og tuggu á sleða til þeirra sem einhverju geta miðlað, en þeir eru fáir. Hvergi sér á dökkan díl. Þeir sem eru best stæðir ætla menn að bjargist fram undir Krossmessu, en þeir hafa þegar tekið kýr og hross af þeim, sem ver eru staddir. Hvergi hafa skepnur enn farið af fóðurskorti hér um slóðir, og ekki eru menn enn farnir að skera, en hamingjan má vita hvað langt verður þess að bíða.

Þann 22. (annan dag í sumri) segir Suðurland að andi köldu og að snjóað hafi töluvert í nótt (á Eyrarbakka) og norðanskafrenningur hafi verið í morgun eftir -5 stiga frost gærdagsins. Í blaðinu er líka frétt sem okkur nútímafólki þykir einkennileg (en hestar landspóstanna þurftu hey - munum það):

Harðindi eru nú svo mikil og ótíð fyrir norðan, að til vandræða horfir. Póstmeistarinn í Reykjavík auglýsir 12. þ.m., að aðalpóstur geti ekki farið frá Akureyri til Staðar, sakir heyleysis á póstleiðinni. Illt er að vita til þess, að samgöngurnar skuli vera svo, að Sunnlendingar, sem nú eiga nóg af heyjum, geta ekki hjálpað bræðrum sínum nyrðra.

Maí: Óhagstæð tíð á Norður- og Austurlandi, þurrviðrasamt syðra. Fremur kalt.

Gróður fór að taka við sér syðra - Vísir sagði þann 8. það furðu gegna því frost væri bæði að nóttu sem degi. - Morgunblaðið segir frá 14. maí:

Tún eru nú að byrja að grænka hér í grennd. Nú vantar ekkert annað en nokkra daga rigningu.

Þann 19. er ekki gott hljóð í Austra:

Vart hefir til sólar séð fyrsta sumarmánuðinn. Norðaustrið hefir andað nágusti sínum yfir Austurland. Þokukúfarnir þakið fjöllín, og hríðarélin hulið tindana við og við. Þó hefur sólarylurinn svo mikils megnað, að klakinn hefir klökknað dálítið fram með fjörðunum og holt og hæðir smá ýtt af sér yfirhöfninni, svo nú munu kindur víða ná í kvið sinn hálfan á hnjótunum. Frá Seyðisfirði og suður eftir smáminnkar mjöllin, en nokkuð mun hún þykkri er norður eftir dregur. - Hvaðanæva heyrist um harðindi, heyþrot og hættu yfirvofandi, mun þegar á stöku stað byrjaður fjárfellir. Meirihluti Héraðs í háska statt. Fljótsdalur auður orðinn að mestu en út Hérað undir snjó. Hafa allmargir rekið hesta sína í Fljótsdal, en fé utan af Héraði órækt þangað sökum illrar færðar. 

Að kvöldi þess 18. maí var mikið veður í Vestmannaeyjum, rok og stórsjór. Þá skemmdist hafnargarðurinn sem verið var að hlaða töluvert af briminu. 

Í pistli þann 26. maí segir Íslendingur leysingum á Akureyri þann 21.:

Kátir lækir voru hér í bænum í hlákunni á sunnudaginn var [21.]. Ultu þeir áfram kolmórauðir, fylltu farvegi sína með möl og grjóti, veltu jafnvel stórbjörgum úr stað og flóðu svo yfir bakkana. Torfunefslækurinn lék sér suður um Hafnarstræti og ofan Torfunefsbryggjuna, gróf undan gangstétt við sölubúð Gudm. Efterfl., svo nokkur hluti hennar féll niður; leitaði síðan á sölubúð Kaupfélagsins og Íslandsbanka, og þótti mönnum illt að búa undir ágangi hans og slettum. Lögðu menn þegar til orrustu við lækinn, en gerðu lítið annað en verjast og hrukku ekki til, jafnvel þótt nýir og nýir sjálfboðaliðar bættust við hinn fasta her. Þótti nú mörgum ofsi hans og djöfulskapur úr hófi keyra og töldu ekki einleikið. Hlupu þá nokkrir menn, er vissu lengra en nef þeirra náðu, upp í flóa og gólu þar yfir honum galdra sína; tók hann þá að spekjast og verða viðráðanlegur. En í sama bili hljóp ofsalegt flóð í Kotárlækinn, og varð það engum að meini. Urðu leikslokin þau um kvöldið, að Torfunefslækurinn rann til sjávar í sínum gamla farvegi ofboð meinleysislegur eins og ekkert hefði í skorist, en til beggja hliða sáust greinilega verksummerkin eftir tröllalæti hans um daginn.

Morgunblaðið segir frá betri tíð þann 30.:

Túnin grænka nú óðum og tré í görðum laufgast, enda er framúrskarandi gróðrartíð, hlýindaregn á hverjum degi.

Júní: Óvenju þurrt og stóð það gróðri fyrir þrifum þrátt fyrir að fremur hlýtt væri í veðri. Snjór var nokkur á túnum nyrst á Vestfjörðum og sums staðar norðanlands í upphafi mánaðar.

Íslendingur birti þann 16. fregn af skriðuföllum í Vaðlaheiði fyrir ofan bæina Garðsvík og Sveinbjarnargerði þann 13. Syðsta skriðan af þremur tók mikinn hluta af túninu í Sveinbjarnargerði. Skriðurnar féllu alla leið niður í sjó, en áttu upptök sín ofarlega í heiðinni. Talið var að um 30 kindur hafi farist. 

Morgunblaðið segir þann 22. júní:

Mannskaðaveður var í gær af moldryki á götum bæjarins. Sú tegund veðurlags þekkist ekki nema á eyðimörkum landsins og á þéttbýlasta blettinum, sem sé höfuðstaðnum sjálfum. Nú fáum við að súpa seyðið svo girnilegt sem það er af því hvernig bærinn hefir verið látinn byggjast, hvernig hann hefir verið þaninn út í allar áttir og hvernig stórfé hefir verið kastað út til þess að búa til á milli húsanna götur, sem eru roksandsauðnir á sumrum en forarveita á vetrum. Nú má ekki opna neina loftsmugu á íbúðarhúsum ef ekki á allt að fyllast af mold, sandi og ólyfjan, og er þó hreint ekki tryggt samt, því að húsin eru ekki loftheld, — og þeir sem út koma þegar nokkur gola er, fá föt sín, húð og lungu gegnlamið af götusaur.

Júlí: Tíð talin vond suðaustanlands og síðari hlutann var óþurrkasamt á Suður- og Vesturlandi annars var tíð nokkuð hagstæð. Fremur hlýtt.

Þann 2. júlí segir Morgunblaðið frá töfum á skipasiglingum:

Þokur miklar hamla mjög skipaferðum fyrir Norðurlandi þessa dagana. Hefir skipum Goðafossi, Íslandi og Ceres seinkað mikið.

Og þann 4. er kvartað í blaðinu undan þurrkatíðinni.

„Enginn gerir svo öllum líki, og ekki guð í himnaríki“. Í vetur og vor þótti tíðin hörð. Þá kveinuðu allir og kvörtuðu undan harðindum og snjó. Nú þykir tíðin of góð. Nú kvarta allir undan sólskini, hitum og þurrkum. Það væri auðvitað betra minna og jafnara, og eigi er það skemmtileg sjón fyrir bændur að sjá tún sín og engi skrælna í ofþurrki. En ofþurrkar hafa verið að undanförnu. Útlit með grassprettu var talið mjög alvarlegt hér í öllum nærsveitunum núna fyrir helgina. Túnin „brunnu“ og engi og bithagar sviðnuðu og stiknuðu dag eftir dag. Alltaf sami hitinn. 20 stig í forsælu á Þingvöllum. 24 stig í forsælu austur i Gnúpverjahreppi. Lítið var það betra í Borgarfirði. Vestmanneyjar voru skrælþurrar og hreinustu vandræði fyrir eyjarskeggja að ná sér i vatn. Elliðaárnar voru svo litlar, að sameina varð báðar kvíslarnar til þess að laxinn geti gengið upp eftir þeim. Og alt var eftir þessu. Nú virðist þó svo, sem einhver breyting sé að verða á tíðinni og bíða bændur þess með óþreyju að dropi komi úr lofti. Þrjár undanfarnar nætur hafa verið hér þokuveður og súld og hvergi nærri svo heitt í gær og fyrradag, sem undanfarna daga.

Suðurland segir þann 5. frá því að grasmaðkur væri víða í jörð í Skaftafellssýslu, stór flæmi gereyðilögð, einkum í Mýrdal og austur á Síðu. 

Morgunblaðið birtir þann 7. tilkynningu um hafís:

Ísinn liggur yfir þveran Húnaflóða frá Horni að Skaga. Torvelt að komast þessa leið. 

Miklir vatnavextir urðu í leysingunum í Eyjafirði - en dagsetningar óljósar. Morgunblaðið hefur eftir Íslendingi þann 7. júlí að skemmdir hafi orðið á vegum og brúm, m.a. sé akbrautin fyrir framan Grund stórskemmd. 

Þann 12. rakst skipið Hjalteyri á sker við Gjögur í niðaþoku, áhöfn bjargaðist. (Íslendingur 14. júlí). 

Svo skipti um tíð. Morgunblaðið segir frá þann 15. og síðan þann 17.:

[15.] Loksins í fyrrinótt skipti um veður - gerði skyndilega suðaustanátt með rigningarskúrum.

[17.} Ofsarok af austri með rigningu við og við var í gær. Vegna óveðurs gat ekkert orðið úr kappleiknum milli Vals og Reykjavíkur í fyrrakvöld og eigi heldur i gærdag. Hefir því mótinu verið frestað um óákveðinn tíma. 

Suðurland segir þann 18. frá því að sunnudaginn 16. hafi gert óvenjumikið brim við Eyrarbakka, eitt hið mesta sem komið hefir á þessum tíma árs. Í frétt sem dagsett er á Stokkseyri þann 31. og birt er í Morgunblaðinu 6. ágúst kemur fram að í briminu hafi rekið „bæði síld og nokkuð af fuglaeggjum - hvort tveggja fáséð rekald á þessum slóðum“.

Þann 19. gat Morgunblaðið þess að töður hafi fokið allvíða í Skagafirði í sunnanofsaroki þann 17. og þann 26. er sagt að hey í Árnes- og Rangárvallasýslun séu tekin að hrekjast. Nyrðra hirtust hey vel (28.). 

Ágúst: Framan af voru óþurrkar á Suður- og Vesturlandi, en batnaði síðari hlutann. Fremur hlýtt.

Þann 10. ágúst birti Morgunblaðið frétt um tímareikning.

Í gærkvöldi var klukkan færð fram þannig, að hún er 1 klukkustund og 28 mínútum á undan miðtíma Reykjavíkur. Er það gert samkvæmt bráðabirgðalögum frá 4. ágúst 1916.

Má segja að við búum enn við þetta fyrirkomulag (þó löng hlé hafi orðið á). 

Óþurrkar héldust syðra fram undir miðjan mánuð, en síðan breytti aftur til. Morgunblaðið segir þann 14.:

Gott veður var í gær, sólskin og breiskjuhiti. Allir þráðu góðviðrið, en eigi síst sveitamennirnir, sem nú í þrjár vikur til mánuð hafa mátt horfa á hey sín blikna og fúna. Það má því búast við, að hjá þeim hafi verið handagangur i öskjunni í gær, þótt eigi nægi þeim sá dagur einn til að þurrka hey sín. Þyrfti nú þetta góðviðri að haldast óbreytt minnst hálfan mánuð, svo þeir gætu náð heyjum sínum áður en þau verða alveg ónýt.  ... Bæjarmenn notuðu óspart góðviðrið til að létta sér upp og ferðast upp um sveitirnar. [Enda sunnudagur].

Hlýtt var austur á Fjörðum og segir í Morgunblaðinu þann 15. að hitar hafi verið þar svo miklir að menn hafi eigi getað þurrkað fisk um hádaginn vegna þess að hann stiknaði í sólskininu. Síðan komu nokkrir dagar með þoku í Reykjavík og reyndar víða um land. Morgunblaðið segir þann 17.:

Þokan. Hún er sjaldgæfur gestur hér í Reykjavík. Nú hefir hún verið hér kolsvört á köflum í 3 daga og muna elstu menn ekki eftir slíku. 

Daginn eftir eru meiri þokufréttir - og nánar sagt af dreifingu hennar:

Þokur hafa verið undanfarna daga víða um land. Hafa síldveiðiskipin nyrðra tafist frá veiðum af þeim ástæðum og eins hefir verið á Ísafirði. En hér austanfjalls eru brakandi þurrkar á degi hverjum. Í gær var t.d. glaðasólskin á Þingvöllum.

Nokkur jarðskjálftahrina gekk um Suðurland þann 19. ágúst. 

Þann 26. birtir Morgunblaðið frétt um heyskap í Dalasýslu:

Afbragðs tíð hefir verið í Dalasýslu í sumar og heynýting ágæt, að sögn. Hirtu bændur jafnharðan sem þeir slógu, en á næstu bæjum í Borgarfirði hröktust heyin vikum saman. Er það einkennilegt, því að ekki er langt á milli.

En ágústmánuði lauk með norðanskoti. Vestri segir þann 31.: „Norðan stórviðri undanfarna daga, með rigningu í byggð og kafaldshríð á fjöllum“. Suðurland segir þann 7. september að snjóað hafi á Siglufirði aðfaranótt 29. Þá hafi og snjóað á Grímsstöðum á Fjöllum. 

Og Morgunblaðið daginn eftir: 

Rokstormur var hér í gær og ryk nóg fyrri hluta dags. Um miðjan daginn rigndi nokkuð. Á Þingvöllum var líka ofsastormur af austri og moldrok svo mikið að vart sá út úr augunum. Þótti „viðlegumönnum“ heldur dauflegt þar. Þurrkarnir sem gengið hafa undanfarna daga höfðu þau áhrif á vatnsveitu Hafnarfjarðar, að þar var nær vatnslaust um tíma.

September: Hagstæð tíð að slepptu áhlaupi um miðjan mánuð. Hiti í meðallagi.

Þann 5. september segir Morgunblaðið frá „meiriháttar“ flóði í Austurstræti. „Flóði þar vatn yfir þvera götuna svo að þar var eigi öðrum fært yfir en vel verjuðum mönnum. 

Og enn bárust fregnir af sjávarflóðum, í þetta sinn frá Siglufirði. Morgunblaðið segir frá þann 19.:

Siglufirði í gær: Hér var ofsa norðanstormur í nótt, hríð og sjávarflóð. Brotnuðu bryggjur þeirra Goos, Substads, Bræðings, Evangers, Bakkevigs og Ásgeirs Péturssonar. Tvö þúsund tunnur af síld fóru i sjóinn. Misstu þeir einna mest Ásgeir Pétursson og S. Goos. Tjónið er áreiðanlega nokkuð á þriðja hundrað þúsund krónur.

Vísir segir líka af Siglufjarðartjóninu og nefnir ámóta upphæðir, en telur þó að ekki virðist ólíklegt að eitthvað af síldinni sem í sjóinn fór náist aftur. Vísir segir líka að tjón hafi orðið víðar af sjógangi. Fjórar bryggjur hafi brotnað í Hrísey og líklega hefi einhverjir bátar út með Eyjafirði laskast. Morgunblaðið segir loks frá því 21. nóvember að dönsk seglskúta hafi í þessu veðri slitnað upp á Blönduósi og hleypt upp á Hjaltabakkasand, en sé þar óbrotin.

Þetta veður olli einnig tjóni á Austfjörðum. Austri segir frá þann 18. september:

Ofsaveður með ákafri rigningu geisaði hér s. l. sunnudag [17.]. Mun veður þetta hafa geisað um allt land, og valdið allmiklum skemmdum. Hér fauk fjárhús hjá Firði og þak af brauðgerðarhúsi A. Jörgensens. Auk þess skemmdust þök á fleiri húsum. Bátar skemmdust talsvert og smáskip er hér lá við bryggju brotnaði nokkuð.  Á Fáskrúðsfirði fuku tvö húsþök og eitthvað af smábátum fór i spón, tveir mótorbátar slitnuðu upp og ráku á land og skemmdust eitthvað. Svipað þessu heyrist víða að. ... Símaslit urðu allvíða, ...  

Október: Hagstæð tíð, einkum norðaustanlands. Fremur hlýtt.

Morgunblaðið segir þann 21. frá illviðri:

Afspyrnurok var hér í fyrrinótt Brotnuðu rúður víða í bænum og aðrar smáskemmdir urðu.

Vestri segir frá því sama dag að hús hafi aðfaranótt þess 19. fokið í Hnífsdal. Húsið var ekki fullsmíðað og átti að notast fyrir smíðahús. Tjón eigandans, Ólafs Andréssonar trésmiðs sé tilfinnanlegt. 

Nóvember: Hægviðrasöm og lengst af hagstæð tíð. Fremur kalt fyrir norðan, en hiti annars í meðallagi.

Illviðri gerði þó eystra um mánaðamótin október/nóvember. Austri segir frá þann 4. nóvember:

Undanfarandi hefir verið austan stórrigning og stormur, snjóað á fjöll en rignt af í byggð. Þar til í fyrradag að jörð varð hvít til sjávar. Hefir síðan verið talsverð snjókoma, en frostlaust. Símaslit hafa orðið allmikil síðustu dagana. Sambandslaust að mestu út um land i fyrradag.

Í Austra birtist þann 4. desember fregn um fjárskaða á Jökuldal. Áttatíu fjár hafi fennt. Dagsetningar er ekki getið. 

Morgunblaðið birtir fregn frá Eyrarbakka 25. nóvember:

Hér liggur snjór á jörðu nú í fyrsta sinn á þessum vetri. Fiskur er töluverður úti fyrir, en það hefir  ekki verið hægt að fara á sjó undanfarna daga fyrir brimi. 

Þann 30. nóvember strandaði Goðafoss við Straumnes - mannbjörg varð. Veður kom ekki mjög við sögu. 

Desember: Þurrviðrasöm og lengst af góð tíð við sjávarsíðuna suðvestanlands, en harðari með nokkrum snjó inn til landsins og norðaustanlands. Kalt.

Fréttir voru í blöðum af hálkuslysum í Reykjavík snemma í desember. Þá fórst bátur við Höskuldsey á Breiðafirði þann 2. í brimi og nokkrum stormi, fjórir voru á, faðir og þrír synir hans. 

Vart varð við hafís í Djúpinu þann 10. (Vestri þ.12.)

Þann 22. kvarta bæði Morgunblaðið og Suðurland um norðanstorm og kulda. Morgunblaðið segir: „Ofsastormur af norðri var hér í gær með hríð á stundum og frosti. Versta veður um land allt“. Suðurland: „Hér sífelldur norðanstormur og kuldi. 14 stiga frost í dag“. 

Fram á Siglufirði segir frá á Þorláksmessu:

Tíðin hefir verið afar vond nú lengi má heita að samhangandi stórhríð hafi verið í nærri 3 vikur, þó uppstyttur hafi verið dag og dag. Snjór er því kominn hér mjög mikill, óvanalega mikill svo snemma veturs.

Lýkur hér samantekt ritstjóra hungurdiska um veðurfar og veður ársins 1916. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 159
  • Sl. viku: 1751
  • Frá upphafi: 2348629

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1532
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband