Tvískiptur mars

Nú styttist í mánaðamótin, mars nærri liðinn og þar með veðurstofuveturinn og vorið tekur við - óráðið að vanda. Mars hefur verið mjög tvískiptur - landsmeðalhiti fyrstu 13 dagana var undir frostmarki - og meðallagi. Þá voru norðaustlægar áttir ríkjandi, nánast alveg úrkomulaust um landið sunnan- og vestanvert og sérlega sólríkt. Um tíma var töluverður snjór um landið norðanvert. Svo skipti um, hiti fór upp fyrir frostmark á landsvísu og hefur verið ofan þess síðan og vindátt oftast sunnan við austur. 

En mánaðarhelmingarnir tveir eiga þó ágæta tíð sameiginlega. Illviðri hafa verið sérlega fátíð og almennt hefur farið mjög vel með veður. 

Nú, þegar þrír dagar lifa af mánuðinum er meðalhiti hans í Reykjavík +2,2 stig, +1,6 stig ofan meðallags sömu daga áranna 1961 til 1990, en +0,6 ofan meðallags síðustu tíu ára. Mánuðurinn er því í sjöundahlýjasta sæti (af 18) á öldinni, og í 32. sæti á 144-ára listanum. Hlýjast var 1929, +5,9 stig, en kaldast 1881, -6,0 stig. 

Á Akureyri er meðalhiti það sem af er +0,5 stig, +0,1 stigi ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Að tiltölu hefur mánuðurinn verið hlýjastur á Raufarhöfn þar sem hiti er nú +1,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið við Skarðsfjöruvita þar sem hiti er -0,6 stigum neðan tíu ára meðallagsins. 

Úrkoma hefur mælst 25,2 mm í Reykjavík, það næstminnsta sömu daga á öldinni. Úrkoma var minni á sama tíma 2001. Á Akureyri er úrkoma hins vegar í meðallagi. Sólskinsstundir eru mun fleiri en í meðalári í Reykjavík, hafa mælst 130,3, í 15. sæti á lista sem nær til 106 ára.

Spáð er heldur kólnandi veðri, en bæði skírdagur og föstudagurinn langi verða þó um eða yfir meðallagi hvað hita varðar - sé að marka spár. Laugardagur síðan eitthvað kaldari - og eftir að hann er farinn hjá er mánuðinum lokið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband