28.3.2018 | 22:48
Af árinu 1914
Tíðarfar ársins 1914 var heldur leiðinlegt og óhagstætt lengst af, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Vorið var talið eitt hið allra óhagstæðasta sem um getur suðvestanlands. Illviðri fjölmörg. Hér verður reynt að rekja helstu veðuratburði ársins með aðstoð veðurmælinga og fréttablaða. Stafsetning er oftast færð til nútímahorfs en orðalagi ekki breytt.
Janúar var eini hlýi mánuður ársins að tiltölu, að auki var hiti í ágúst og október ofan meðallags. Hiti var rétt neðan meðallags í júlí og september, en annars var kalt í veðri, maímánuður þó sýnu kaldastur. Hæsti hitinn mældist á Seyðisfirði 17. júlí 25,6 stig. Allgóða hitabylgju gerði víða um land um miðjan ágúst. Mesta frost ársins mældist -24,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum. Það var 14. apríl, er fremur óvenjulegt að mesta frost ársins mælist svo seint að vetri - en kemur þó fyrir.
Eitt landsdægurhámark stendur enn, þann 15. ágúst fór hiti á Möðruvöllum í Hörgárdal í 25,3 stig, daginn áður fór hiti í 20,3 stig í Reykjavík og er það dægurhámark þar. Sá góði dagur skilar sér líka í hlýrradaganet ritstjóra hungurdiska fyrir Reykjavík, sá eini af því tagi sem veiddist á árinu 1914. Vestur í Stykkishólmi veiddist líka einn hlýr dagur. Var það 16.ágúst.
Sjö kaldir dagar veiddust í Reykjavík, 8. apríl, 7., 21.,22. og 23. maí og 12. og 13. nóvember. Í Stykkishólmi veiddust tíu kaldir dagar. Fjórir í apríl (7., 8., 28. og 29.) þrír í maí (7., 21. og 22.), 1. júlí, og 11. og 12. nóvember.
Á stormdagalista ritstjóra hungurdiska eru þetta ár tíu dagar og ekki veiddi hann öll marktæk illviðri - þau voru óvenjumörg á árinu 1914 eins og er rakið hér að neðan. Júnímánuður var alveg sérlega sólarrýr suðvestanlands, sólskinsstundirnar á Vífilsstöðum mældust aðeins 60,9. Þetta er svo lág tala að hún þótti lengi vel varla trúverðug - þar til júní 1988 hafði verið mældur til enda og skilaði aðeins 72,2 stundum, - og tveimur árum áður hafði júní (1986) skilað 80,2 stundum. En svona getur júní verið daufur - hvenær kemur svo sá næsti?
Sólskinsstundir voru reyndar ekkert sérlega margar í júlí og ágúst heldur - en ekkert þó í líkingu jafn fáar og í júní. Í júlí komu þrír óvenjusólríkir dagar í röð, 25., 26. og 27. og í ágúst sá 4. auk 11. og 12. Samtals má segja að þessir sólardagar - auk hlýindanna sem í kjölfarið fylgdu hafi bjargað sumrinu þetta árið.
Þann 13. janúar 1915 tók Lögrétta saman yfirlit um árið:
Veturinn frá nýári var allt að því i meðallagi; þó lakari á Vestfjörðum. Vorið vont um alt land, hvíldarlaus kuldatíð, og er það eitt hið versta vor, sem menn muna. Afleiðingar urðu slæmar, fjárfellir víða, einkum sunnanlands og vestanlands, og lambadauði mikill á þessu svæði, og einnig nokkur norðanlands, einkum í Húnavatnssýslu. Jörð greri afarseint. Sumarið var votviðrasamt á Suðurlandi og Vesturlandi. Töður náðust þó viðast hvar með sæmilegri verkun, því meiri hluta hundadaganna var þurrkatíð. Útheyskapur var mjög rýr, sömuleiðis uppskera úr görðum. Norðanlands og austan var sumarið gott, en nokkuð stutt; heyskapur vel í meðallagi og garðávextir sömuleiðis. Haustið var afarrigningasamt og stormasamt sunnanlands og vestan. Varð þar allmikið úti af heyjum, og jafnvel sumstaðar norðanlands líka. Veðrátta var ágæt norðanlands og austan, þegar á leið haustið.
Janúar: Nokkuð stormasamt, einkum á Suður- og Vesturlandi. Nokkur snjór vestanlands. Fremur hlýtt.
Morgunblaðið segir frá snjó í Reykjavík í pistli þann 4. janúar:
Nú fer að verða vetrarlegt hér í Vík. Snjónum hleður niður og karlarnir hafa nóg að gera, þeir er göturnar moka. Snjóplógurinn klýfur mjöllina, hesturinn blæs af mæði og karlarnir stritast við það að vera jafnfljótir. En á strætastéttunum og á götuhornum stendur unga Ísland og hefir sér það til gamans að kasta snjókögglum í eldra fólkið. Það er helsta vetrarskemmtun ungmenna hér í bænum. Enginn sést á skíðum. Þau heyrast ekki nefnd á nafn einusinni.
Suðurland birtir seint um síðir (21. febrúar) fréttir af Langanesströnd:
Stórhríð mikla af útnorðri gjörði hér laugard. 3. þ.m. (janúar), urðu þá fjárskaðar á nokkrum bæjum hér. Þannig fórust á Djúpalæk 9 kindur, á Smyrla-Felli 16 og á Miðfjarðarnesi 24. Í Laxárdal í Þistilfirði fennti um 80 fjár í þessu sama veðri. Af því hafa fundist 47 kindur lífandi og 19 dauðar.
Strax eftir nýárið rak mikinn ís inn á Ísafjarðardjúp og fyllti Skutulsfjörð allt inn á poll. Ingólfur segir frá þann 11.:
Botnvörpuskip mörg voru úti fyrir, innlend og útlend, og flúðu sum inn á Skutulsfjarðarhöfn, en sum komust ekki úr ísnum. Sukku tvö þýsk botnvörpuskip úti á Djúpi 3. jan., en skipverjar komust á báti til lands í Bolungarvík. Flugeldum sást skotið úti í ísnum og heyrðist þeyttur skipslúður, svo að hætt þykir við að fleiri skip kunni að hafa farist. Blindhríð var vestra meðan ísinn rak inn. Ingólfur Arnarson" komst norður úr ísnum og var á fiski meðan önnur skip lágu teppt. Ísinn rak út 7. þ.m., svo að botnvörpuskipin sluppu út úr Skutulsfirði, en síðustu fregnir segja, að hann hafi rekið aftur inn á Djúpið. Hafþök af ís eru sögð fyrir öllum Vestfjörðum.
En síðan kom betri kafli - mikinn blota gerði á þrettándanum og grynnkaði hann fljótt á fönn sem víða var komin. Morgunblaðið segir frá - fyrst þann 19. og síðan þann 21.:
[19.] Veðrið er nú svo milt hér að því er líkast að komið sé vor. Allur snjór horfinn og Tjörnin auð landa milli. En blautir eru vegirnir og illir yfirferðar. Eru það einkum bifreiðarnar, sem fá að kenna á því. Hafa þær stundum sokkið svo djúpt í aurinn, að þær hafa staðnæmst og engin tiltök að knýja þær áfram með vélunum. En þá hefir þess ráðs verið leitað, að beita hestum fyrir þær og láta þá draga þær út úr ófærunum.
[21.] Í görðum tveim hér í bænum eru hvannir teknar að spretta þessa dagana. Mun það vera fremur sjaldgæft um þennan tíma árs. Tún öll her í nágrenninu grænka og óðum eins og á vordegi væri.
Norðri segir líka frá góðri tíð þann 24.:
Öndvegistíð hér norðanlands hefir verið nú í hálfan mánuð. Tíðum frostlaust um nætur og snjólaust að verða í sveitum. Í landbetri sveitum hefir hey sparast fyrir beit þennan tíma.
Snjóflóð tók 23 sauðkindur í Héðinsfirði og kastaði þeim á sjó út, biðu þær flestar bana. Bændurnir í Vík áttu þær og varð þetta tilfinnanlegur skaði (dagsetningar flóðsins ekki getið).
Mikið veður gerði þann 27. og 28. Morgunblaðið segir frá þann 29. janúar:
Akranesi í gær (28.): Ofsaveður og stórskemmdir. Í morgun geisaði hið versta veður sem menn muna í 20 ár. Brimið var afskaplegt, og olli það tjóni miklu. Sjógarður mikill og traustur og stakkstæði hjá Böðvari kaupm. Þorvaldssyni eyðilagðist að mestu. Vegur þar i nánd skemmdist einnig mikið. Sjógarður og stakkstæði á Bakkastíg skemmdist til muna. Sjógarður við Lambhúsaland stórskemmdist. Vélbátinn Hegra tók út, lenti á öðrum bát og brotnuðu báðir töluvert. Aðgerðarpallar tveir, báðir úr timbri, brotnuðu og bryggja á Steinsvör laskaðist mikið. Fiskpallur Haraldar Böðvarssonar eyðilagðist alveg. Vélbátinn Elding rak á land og nokkra aðra róðrarbáta. Sjórokið var svo mikið, að hér var eigi fært húsa milli. Átti skemmtun að vera í Báruhúsinu en hætta varð við hana vegna óveðurs.
Og frá Reykjavík: Stormur og ofsabrim geisaði yfir allt Suðurland i fyrradag (27.). Vindurinn var á útsunnan - byrjaði hægt en hvessti þegar á leið daginn, gerði hríðar með köflum og herti þá storminn. Stórstreymt var og gerði brátt eitt hið mesta brim sem komið hefir í mörg ár. - Skemmdir urðu hér töluverðar. Sjórinn skall yfir Grandagarðinn, sem verið er að gera sem byrjun á hafnarmannvirkjunum. Er sá garður næstum kominn út í Örfirisey - að eins nokkrir faðmar eru ófullgerðir. Svo afskaplegt var brimið, að sjórinn braut upp og tók með sér um 500 stikur af járnbrautarteinum þeim, sem lagðir hafa verið um garðinn. Skeði þetta i gærmorgun um kl. 6-7. Teinarnir voru komnir um 600 stikur frá landi út grandann, en aðeins búið að reka niður staura og stoðir á hinu svæðinu, nær alla leið út í Örfirisey. ... Grjót hrundi á nokkrum stöðum úr garðinum mest úr enda hans, þar sem enn var eigi fullhlaðið í hann. Og eitthvað hafði grjótið raskast undir teinunum. Ennfremur rak á land í Örfirisey pramma þann, sem notaður er við hafnargerðina, en brotnað hafði hann fremur lítið. Tjón þetta er mjög tilfinnanlegt. Varla mun það nema minna en um 6-8 þús. krónum. Er vér í gær komum út á Granda til þess að sjá hvað skemmst hefði, voru þar um 100 manns við vinnu, til þess að koma fyrir járnbrautarteinunum aftur. Og einn yfirmanna þar á staðnum tjáði oss, að eigi væri það fyrirsjáanlegt að þeirri vinnu yrði lokið að öllu fyrr en í næstu viku. Tefur það eigi lítið fyrir áframhaldi hafnargerðarinnar. Skemmdir, aðrar en hér hefir verið sagt frá, skeðu eigi af óveðrinu í fyrradag hér i bænum. Er hætt er við að eitthvað eigum vér eftir að frétta um tjón og skemmdir á öðrum stöðum á Suðurlandi.
Símas1it voru víða um land í gær vegna stormsins og hríðarinnar. Var austurálman slitin milli Kotstrandar og Ölfusárbrúar, og Akraness-síminn slitinn fyrst í gærmorgun, en tókst að gera við hann snemma dags. Milli Hafnarfjarðar og Gerða í Garði voru ótal símaslit og til Borðeyrar var aðeins önnur línan í lagi, hin slitin.
Brim mikið gerði hér í fyrrinótt og olli það ýmsum skemmdum, braut báta og bryggjur, en hafnargarðurinn færðist mjög úr lagi. Flæddi sjórinn inn á götur bæjarins og flutti með sór möl og hnullungssteina, en þang og annað rusl lá þar í hrönnum.
Ísafold birti 7. febrúar langa og merkilega frásögn af tjóni suður í Höfnum í þessu sama veðri:
Aðfaranótt þriðjudags 27. f.m.var hér stórviðri af landsuðri með feikna úrferð. Um morguninn gekk veður til útsuðurs með ofsaroki. Fór þá sjór að gerast æði úfinn og um hádegi var komið stórbrim. Taldi ég vist, að töluverð flóðhæð mundi verða um kvöldið, þar sem stórstreymi var og brimið jókst með hverjum klukkutíma. Klukka tæplega 4 stóð ég úti á svölum húss míns og var að horfa á brimið milli blindhríðaréljanna. Sé ég þá hvar norðan úr Reykjanesröstinni kemur líðandi áfram, eins og blár fjallgarður í fjarska, feiknastór alda. Hefi ég aldrei séð neina líkingu af annarri eins undra-risavaxinni sjón, þau 48 ár, sem ég er búinn að vera hér í Hafnahreppi. Brátt færðist alda þessi nær, og þegar hún var komin innantil við Hafnaberg, fór ég að geta glöggvað mig vel á þessari undrasjón.
Aldan rann nú áfram með feiknahraða, var engu líkara en þar væri komin Esjan með hvítum snjósköflum í efstu brúnum, og brunaði hún áfram, knúð af einhverju undraafli. Öðru hvoru risu upp stórir sjóir á öldunni og steyptust svo hvítfreyðandi fram af henni eins og foss af hamrabrún. Hélt svo aldan hröðum fetum inn Hafnaleir, beina línu á Kirkjuvogshverfið að sjá, svo á móts við Kalmanstjörn var hún hérumbil eina röst frá landi. Hvarf svo skaðræðisgripur þessi sjónum mínum á bak við hæðir þær, sem eru norður af Kalmanstjörn og hylja allan grunnleir fram af Kirkjuvogi. Ég hrósaði happi að ekki var nema hálffallið að. Annars taldi ég víst að Kirkjuvogshverfið hefði fengið óþægilegan skell af bákni þessu, en happið var ekki eins mikið og ég hélt. Alda þessi spurði hvorki um flóð né fjöru. Hún fór sinna ferða, hvernig sem á sjó stóð, æðandi áfram eins og vitlaus ófreskja, drepandi allt, sem á vegi hennar varð, þar til hún skall máttvana niður 50-200 faðma lengra uppi á land en vanalega með stórstraumsflóði.
Kemur hér lýsing menja þeirra er aldan lét eftir sig. Ég fór i morgun inn að Kirkjuvogi til þess að vita hvort fleiri en ég hefðu séð sjó þennan, og jafnframt til að vita, hvort nokkurt tjón hefði hlotist af honum. Þegar ég kom inn að Merkinesi, sem er kirkjujörð mitt á millum Kalmanstjarnar og Kirkjuvogs, sá ég að í öllum sjávargörðum þar var ekki steinn yfir steini standandi, og alt túnið ein stórgrýtisurð. Hélt ég svo inn að Kirkjuvogshverfi og mætti mér þar hin sama sjón, nema öllu verri. Skýrði Ketill bróðir minn mér frá því, að hann, klukkan 4, hefði staðið vestan undir fjárhúsi sínu, sem er nálega 60 faðma frá íveruhúsinu Sér hann þá eftir eitt élið hvar voða-sjór kemur og stefnir beint á land, þóttist hann sjá að sjór þessi mundi verða æði nærgöngul, þó ekki væri nema hálffallinn sjór að, og fjaran öll hvít af snjó, sem sjórinn ekki var farinn að ná til. Tekur Ketill nú til fótanna og hleypur sem má heim til sín, en áður en hann nær forstofutröppum sínum, er sjórinn kominn á undan honum, svartur eins og öskubingur af moldu og grjóti, sem hann reif upp með sér úr túngörðunum um leið og hann sópaði þeim um.
Þegar út fjaraði, sáust menjar þær, sem hann skildi eftir. Nálega enginn steinn yfir steini í öllum sjávargörðum Kirkjuvogshverfisins; fjögur skip, sem stóðu efst upp í naustum, hentust með útsoginu fram á sjó, sum hentust að landi aftur, öll meira og minna brotin, tveir smábátar fóru og sömu leiðina. Fjárhús, sem Vilhjálmur bóndi í Görðum á, sprengdist upp og fylltist af sjó. Í húsinu voru yfir 30 fjár fullorðið og drapst það alt í einni kös þar inni. Sjór þessi umkringdi bæ sama manns (V. J.) svo, að bærinn var eins og þúfa upp úr sjónum, æddi hann inn í bæinn og fyllti öll húsin upp að rúmbríkum, barmafyllti kjallarann og eyðilagði þar alla lífsbjörg V. J., kaffi, sykur, rúgmjöl, rúg, kartöflur og margt fleira, en fólkið slapp út úr bænum undan ósköpum þessum á elleftu stundu. V. J. var fyrir 2 árum búinn að fá útmælda þurrabúðarlóð, 1800 ferfaðma, sem hann síðastliðið ár lauk við að rækta að fullu, en nú sjást lítil merki þess, að þar hafi mannshönd að verki verið: Urð eintóm, stórgrýtisurð, auðn og sandur, það eru menjarnar, sem ófreskja þessi eftirskildi.
Allar jarðir í hreppnum, sem sjávargarðar fylgja, hafa orðið fyrir meiri og minni skemmdum, nema Kalmanstjörn ein. Fram hjá henni fór sjór þessi eins og áður er skýrt frá og raskaðist þar ekki einn steinn í görðum: Um flóðið kl. millum 6 og 7 varð engra stórra sjóa vart, en kl. 9 kom aftur sjór, sem fór yfir allan sjávargarðinn í Junkaragerði, og sópaði honum á pörtum burtu, en gerði þó engin spell á túni. Svæði það á landi, sem aldan mikla rann yfir, mun vera nálægt 1200 faðma með öðrum orðum frá Merkinesi og inn fyrir Kirkjuvogslendingu. Heyrt hefi ég að á Miðnesi hafi orðið miklir skaðar af hafróti þessu, og þykist vita, að Grindavíkurhreppur hafi fengið sinn mæli fullan, þar öldurótið kom alt úr suðurhafinu en ekki af vestri. Þeir, sem fyrir mestu tjóni hafa orðið af öldu þessari eru: Guðmundur Sigvaldason bóndi í Merkinesi, Magnús Gunnlögsson, bóndi í Garðhúsum, Ketill Ketilsson, óðalsbóndi í Kotvogi, Vilhjálmur Ketilsson i Kirkjuvogi og Vilhjálmur Jónsson, bóndi í Görðum. Hefir hinn síðastnefndi orðið fyrir tilfinnanlegasta tjóninu. Jörð hans alveg eyðilögð, fjárstofn allur drepinn og ársforði heimilisins eyddur. Mörg hundruð dagsverk eru hér nú óunnin í túngarðahleðslu, auk þeirrar feiknavinnu, sem liggur i að hreinsa alt stórgrýti, möl og sand af túnunum sjálfum.
Skyldi ekki stjórnarvöldunum íslensku hafa fundist þetta tilfinnanlegt tjón og bótavert, ef Rangvellingar hefðu fengið annað líkt af jarðskjálftum.
Ól. Ketilsson.
Febrúar: Snjóþungt nyrðra, einnig nokkur snjór suðvestanlands. Nokkuð illviðrasamt. Fremur kalt.
Afarmikið norðanveður gerði þann 1. ofan í útsynningsillskuna nokkrum dögum áður. Olli það nokkru tjóni. Morgunblaðið segir frá sköðum sem urðu í veðrinu vestur í Stykkishólmi en kvartar síðan undan færð í Reykjavík:
Stykkishólmi í gær (2.) Stormur mikill geisaði hér í gær (1.). Bryggjan brotnaði mikið - hrundi úr henni; - meta menn skaðann um 1000 kr. Sterling lá við bryggjuna, en varð að fara þaðan; lá nærri, að skipið væri komið upp i kletta. Annað skip, þilskipið Haraldur, eign Tangsverslunar, var nær slitnað upp. Skipið var í vetrarlegu. og átti það eftir aðeins nokkra faðma upp í kletta, er akkerið náði festu í botni. Sterling fór i dag til Flateyjar og Patreksfjarðar.
Snjórinn. Hríðar og stórviðri hafa nú verið hér [Reykjavík] undanfarna daga, og snjónum hefir hlaðið niður. Í fyrrinótt (aðfaranótt 2.) renndi fyrst í skafla og var þá byrjað að moka göturnar. Betra er seint en aldrei. En fyrr hefði þurft að gera eitthvað til þess að bæta færðina, að minnsta kosti á sumum götunum, því viða er illfært yfirferðar. Í mikla briminu, sem gerði hér um daginn, gekk sjórinn á land og flæddi inn á göturnar. Hleypti hann snjónum í krap, sem aldrei fraus vegna seltunnar og er meiri snjór hlóðst ofan á, urðu menn að vaða krapið i miðjan legg á fjölförnustu götum bæjarins eins og t.d. Pósthússtræti. Þetta er að vísu ekki eins dæmi hér og verður áreiðanlega ekki síðasta dæmið heldur. Hér eru nú stikuháir [2 álnir, um það bil einn m] snjóskaflar á aðalgötum miðbæjarins. Engum dettur í hug að hægt muni að aka þeim burtu kemur hláka einhvera daginn. Hvernig verður færðin þá á götunum ? Því getur hvert barnið svarað. Þá verður engum manni fært út fyrir húsdyr öðruvísi en í skinnsokkum eða sjóstígvélum!
Þann 24. febrúar birti Morgunblaðið frétt af snjóflóði á Seyðisfirði 2. febrúar:
Í nótt (2. febr.), féll snjóflóð á Fornastekk, býli í hlíðinni milli Öldu og Vestdalseyrar. Brotnaði íbúðarhúsið og skekktist, en fjós fór alveg, með einni kú, en hún náðist þó lifandi í skaflinum. Tjón á mönnum varð ekki.
Tveir menn urðu úti á Suðurnesjum þann 3. febrúar er hríðarbylur skall skyndilega á. Sömuleiðis varð maður úti í hríð í Reykjavík þann 21. Þann þriðja fórst bátur úr Vestmannaeyjum (Suðurland 7. febrúar). Breskur togari strandaði í dimmviðri við Löngusker á Skerjafirði þann 13. Bátur fórst einnig við Skagaströnd, dagsetningar ekki getið (Vestri 7.febrúar) og í sama blaði segir frá bátsbroti í Dýrafirði þann 3.
Vísir segir þann 9. að strandferðaskipið Kong Helge hafi séð fáeina jaka við Horn og sömuleiðis undan Dýrafirði. Síðan segir:
Illviðri með afarmikilli snjókomu hafa gengið lengi um Norður- og Vesturland og liggur allstaðar djúpur snjór yfir landinu. Séra Ólafur í Hjarðarholti segir, að aldrei hafi komið þar um slóðir eins mikill snjór, síðan hann kom þar, sem í vetur. Í Hrútafirði eru öll skörð og gil full. Heldur er snjórinn minni er austar dregur. Í Skagafirði er einnig jarðlaust með öllu á stórum svæðum.
Morgunblaðið birtir þann 11. tíðarfréttir frá Akureyri, dagsettar daginn áður:
Tíðin hefir verið hér afarvond til þessa. Ofsastormar af norðri og fannkoma mikil. Er því mikill snjór hér nyrðra um þessar mundir. Vesta og Inqolf hafa legið hér veðurteppt nokkra daga.
Og mikill snjór var líka syðra - og skárra veður um stund - Morgunblaðið segir frá þann 16.:
Skíðamenn bæjarins notuðu mikið góða veðrið og skíðafærðina í gær. Fjöldi ungra manna fóru á skíðum um göturnar og upp fyrir bæinn.
Ísafold hefur þann 21. febrúar eftir Ólafi Ísleifssyni lækni í Þjórsártúni að hann hafi þann 11. greinilega séð aftur til eldanna norðan Heklu þar sem gaus mest árið áður.
Mars: Nokkur hríðarhraglandi norðaustanlands mestallan mánuðinn, en mjög þurrt lengst af á Suður- og Vesturlandi.
Þjóðviljinn lýsir tíð þann 9. mars:
Um undanfarinn viku tímann hafa nú skipst á stórfeldir blotar, eða dyngt niður kynstrum af snjó.
Vísir birti þann 11. frétt af snjóflóði:
Borðeyri í gær. Snjóflóð féll nýlega skammt fyrir ofan bæinn í Skrapatungu í Laxárdal í Húnavatnssýslu og urðu fyrir því tveir drengir, er þar gengu til rjúpna, annar 16 ára og hinn 13, synir bóndans þar, Jóns Helgasonar. Eldri drengurinn hafði sig við illan leik úr flóðinu og komst heim á bæinn með veikum burðum, allmikið skaddaður. Var þá þegar brugðið við að leita hins drengsins. Sá aðeins lítið eitt á handlegg hans upp úr sjódyngjunni. Hann var meðvitundarlaus er hann var grafinn upp og illa útleikinn af meiðslum. Læknir var þegar sóttur og telur hann lítil líkindi, að hann muni halda lífi.
Eitthvað skárra hljóð var í Borgfirðingum, Morgunblaðið segir frá þann 14. mars:
Norðtungu i gær. Snjór er að miklu leyti horfinn hér í sveitunum. Hann hefir aldrei verið mikill í vetur og hefir algerlega tekið upp i þíðviðrinu síðustu dagana. Dágóður hagi er kominn allstaðar, sem spurst hefir til.
Þann 15. segir Morgunblaðið frá því í frétt frá Blönduósi að mikill ís sé kominn á Húnaflóa, tíð sé ill og með öllu haglaust. Vísir segir sama dag að Kong Helge hafi ekki komist vestur um og hann hafi því farið austur aftur og suður fyrir. Í sama blaði segir frá því að maður hafi beðið bana eftir að snjódyngja féll af húsþaki og ofan á hann á Siglufirði.
Daginn eftir birtist smápistill frá Húsavík í Morgunblaðinu:
Tíðin er hér afarslæm, harðindi og fannkomur og muna menn ekki meiri snjó. Horfir til stórvandræða ef ekki kemur bati. Heybirgðir manna mjög litlar og allur matfangaflutningur bannaður vegna ófærðar.
Síðan koma fréttir frá Vestmannaeyjum þann 18. og birtust í Morgunblaðinu þann 19.:
Afskapaveður hefir geisað hér tvo síðustu daga. Stormur og snjór. Símaþræðir margir slitnir og staurar brotnir. Menn sakna eins vélarbáts úr fiskiferð.
Morgunblaðið segir þann 30. frá snjóflóði sem skemmdi símastaura í Mjóafirði þann 28.
En það komu góðir dagar. Morgunblaðið segir frá þann 31.:
Vorið er komið. Sólskin og sumarblíða var hér í gær, - hið besta vorveður sem hugsast getur. Reyndi hver að njóta þess, sem best hann gat. - Gekk fjöldi fólks við sólarlag vestur á grandagarðinn nýja og alla leið út í Örfirisey, en ungir drengir þreyttu róður á höfninni á bátum, sem góðir menn léðu þeim. En gamla fólkið hristi höfuðið og sagði að enn væri eftir páskahretið - það brygðist sjaldan.
Daginn eftir segir frá því að nóttin eftir sólarlagið fagra hafi verið köld og að víkur undan Kleppi hefði lagt og ófært hefði verið báti milli Klepps og Viðeyjar morguninn eftir.
Apríl: Mjög óhagstæð tíð syðra eftir miðjan mánuð. Snjóhraglandi nyrðra framan af. Talsverður snjór vestanlands í lok mánaðarins. Kalt.
Austri segir frá snjóþyngslum og snjóflóðum eystra í pistli þann 4. apríl:
Snjóflóð komu nokkur hér í firðinum í fyrri viku [Þjóðviljinn segir 8. apríl þetta hafa verið 25. mars]. Eitt á Ströndinni fyrir utan Búðareyri. Tók það 3 símastaura. Annað á Brimnesbyggð, og tók lifrarbræðsluhús, er St. Th. Jónsson kaupmaður átti. Er það allmikill 8kaði. Fleiri smásnjóflóð komu, en gjörðu engan skaða. Snjóþyngsli afarmikil eru nú um mest allt Austurland. Hér á Seyðisfirði hefir ekki komið jafnmikill snjór síðan snjóflóðsveturinn 1885. Skaflarnir ná víða upp á efri hæð húsa i bænum. Bjart og gott veður hefir verið 3 síðustu daga.
Og Þjóðviljinn segir frá einu snjóflóði til viðbótar - sennilega féll það um svipað leyti en fréttin birtist ekki fyrr en 24. maí:
Í aprílmánuði þ. á. skall snjóflóð á brúna á Gilsá í Jökuldal, skammt fyrir ofan Skjöldólfsstaði, og brotnaði brúin, og sópaðist burt.
Vestri kvartar þann 7. apríl:
Tíðin afleit undanfarið. Í gær og dag norðanstórviðri með fannkomu og frost í dag var 11° á C. Og daginn eftir: Hafís töluvert mikinn sáu Bolvíkingar i gær og í morgun.
Páskadagur var 12. apríl - þá segir Morgunblaðið:
Fremur sjaldgæft mun það vera, að Tjörnin hér i Reykjavík skuli vera nær botnfrosin um þennan tíma árs. Það er hún nú.
Þann 16. birtust í Morgunblaðinu daufar fréttir frá Húsavík:
Tíðin hefir hér alt að þessu verið hin versta og er þetta einhver hinn harðasti vetur, sem komið hefir nú lengi. Hefir aldrei blotað síðan í janúar og þangað til í dag, en nú er góð hláka. Heyþrot eru víða hér í grenndinni. Eru Keldhverfingar einkum tæpir og sumir alveg heylausir. Þeir hafa pantað 200 bagga af heyi frá Noregi og kemur það núna með Flóru.
Snjóa tók að leysa austanlands um miðjan mánuð - þann 25. birti Austri um það frétt:
Veturinn kvaddi með sólskini og blíðviðri og sumarið heilsaði á sama hátt. Þíðviðri hefir nú staðið yfir í viku, og hefir snjór sigið mikið hér í firðinum, en lítil beit mun komin ennþá. Í Héraði hefir hlákan verið áhrifameiri, einkum á upp-Héraði. Fljótsdalur kvað vera alveg runninn og ennfremur Skógar, og góð jarðarbeit komin á Völlum og Fellum, en leysingin minni er utar dregur. Maður nýkominn sunnan úr Hornafirði segir par einmunatíð svo að flestir hafi verið byrjaðir að sleppa fé sinu þar syðra, og svo hafi verið norður í Berufjörð. Vatnavextir voru þar miklir, svo að illt var yfirferðar.
Þann 27. apríl segir Þjóðviljinn frá því að hafís hafi borist inn á Djúp í dymbilvikunni (5. til 11. apríl). Þá segir í sama blaði:
Lítið eða nær ekkert varð úr skírdags- eða páskahreti að þessu sinni og þó eigi laust við, að ögn hreytti snjó framan af dymbilvikunni, en réðist þó allt betur en á horfðist. Laust eftir páskana gerði og stórfeldar rigningar og þíðviðri, og hefir svo haldist æ öðru hvoru síðan.
Vísir birtir þann 28. frétt frá Akureyri:
Akureyri í gærkveldi. Stórhríð hófst hér síðari hluta dags í dag og er nú blindbylur.
Maí: Sérlega vond tíð og fádæma erfið sauðburði. Snjókoma og krapahryðjur viðloðandi mestallan mánuðinn. Mjög kalt.
Þann 10. birti Morgunblaðið fréttir frá Snæfellsnesi:
Ólafsvík i gær. Ótíð er hér hin mesta. Afli enginn og kenna menn beituleysi. Veður hefir verið svo kalt, að engin síld hefir komið. Útlit hið versta ef ekki batnar mjög bráðlega. Stykkishólmi í gær. Stöðugir kuldar og harðviðri. Skepnuhöld slæm. Fóðurskortur almennur. Fellir fyrirsjáanlegur, ef ekki breytist tíðarfar til batnaðar bráðlega.
Og fréttir bárust af heyskorti í Reykjavík (Morgunblaðið 11. maí):
Heyskortur er orðinn mjög tilfinnanlegur sumstaðar hér í bænum og í nærsveitunum. Má heita heylaust víðast hvar. í Viðey eru 60 kýr í fjósi en aðeins hey til 2-3 daga.
Fjárskaðafréttir sem Ingólfur birti 7. júní, en atburðurinn átti sér stað snemma í maí:
Í Sveinungavík í Þistilfirði hröpuðu 63 kindur fyrir sjávarhamra í hríð eftir sumarmálin. Hefði hver skepna farið, ef unglingspiltur, sem var hjá, fénu, hefði ekki fleygt sér flötum á hamrabrúnina og getað með því stöðvað féð.
Enn bárust hafísfréttir. Austri segir frá þann 16. maí:
Skipstjórinn á Ingólfi", skýrði oss frá því, að hann hefði siglt í gegn um allmikinn hafís frá Melrakkasléttu til Langaness, nú er Ingólfur" kom að norðan 12. þ.m. Veður var bjart og stillt, en samt fór skipið eigi nema með hálfum hraða, þar sem ísinn var þéttastur. Ef veður hefði verið dimmt, kvaðst skipstjóri eigi mundi hafa hætt á að leggja skipinu í ísinn.
Þjóðviljinn segir frá því 19. júní að um þetta leyti hafi hvítabjörn gengið á land á Sléttu og verið skotinn.
Og 17. maí segir Morgunblaðið:
Patreksfirði i gær. Fiskiskipið Helga rak hér á land í gærkvöldi kl. 8. Hér var þá versta veður á vestan. Skipið rak hliðflatt á ströndina. Er önnur hlið þess eitthvað brotin. Það er vátryggt í Samábyrgð íslands. Dýrafirði i gær. Veður hefir verið hér mjög illt undanfarna daga. Allir vélbátar og öll þilskip liggja inni vegna óveðurs. Í Haukadal liggja 20 þilskip, sem þangað hafa flúið fyrir óveðrinu.
Verst varð uppstigningadagshríðin þann 21. maí og kuldarnir dagana á eftir. Frost fór aðfaranótt þess 23. í -4,6 stig í Vestmannaeyjum. Fréttir bárust víða að: Morgunblaðið 21. maí: Ísafirði í gær: Hér er ekki sumarlegt nú sem stendur, brunafrost í nótt og fannkoma og snjór yfir allt í morgun eins og um hávetur. Sauðárkrók í gær: Fannkoma í dag þriggja þumlunga snjór á láglendi. Og daginn eftir (22.): Akureyri í gær: Hér er nú norðan blindhríð. Tók fyrst að snjóa í fyrrinótt og var jörð alhvít í gær ... . Blönduósi í gær: Veðrið er hið versta, norðan hríð og kuldi. Brunafrost í nótt .... Ölfusárbrú í gær: Tíð er hér afleit. Feiknafrost í nótt og útlit hið versta. Menn almennt orðnir heylausir. Lömb eru skorin jafnóðum og þau fæðast. Annars er alauð jörð hér.
Austri segir frá uppstigningardagshríðinni þar eystra:
Þann 21. þ.m. gjörði snjóhríð, og er kominn töluverður snjór hér í byggð ofan á það sem fyrir var; en á fjöllum uppi er svo mikill nýr snjór kominn að hann nær hestum í kvið.
Morgunblaðið birti frétt þann 3. júní:
Maður nýkominn að austan segir helstu tíðindi, að á uppstigningardag hafi Þjórsá lagt á svonefndu G1júfri skammt fyrir ofan Þjórsárholt. Þykir þetta einsdæmi í 50 sumur, enda muna elstu menn ekki eftir slíkri nepju.
Ísafold 23. maí:
Alhvít jörð er í Reykjavík í dag þ. 23. maí - Hefir snjóað drjúgum í morgun og haldið áfram í dag. Er þetta óefað algert eins dæmi á þessum tíma árs.
En tveimur dögum síðar segir Morgunblaðið:
Tré í görðum eru víða farin að laufgast. Má það undarlegt heita í þessari veðráttu.
Og í lok mánaðarins bárust enn fréttir að austan. Austri segir frá þann 30. maí:
Ofsaveður af norðvestri gjörði hér í nótt; olli það nokkrum skemmdum hér í bænum, t. d. fuku svalirnar af húsinu Steinsholti. Skip þau sem á höfninni lágu, ráku töluvert fyrir festum undan veðrinu.
Morgunblaðið segir frá veðri í frétt frá Kalastaðakoti á Hvalfjarðarströnd 31. maí:
Kalastaðakoti í gær. Hríð var hér í gærdag og jörð alhvít ofan í byggð í dag. Þeir bændur, sem eitthvert strá eiga enn, gefa öllum skepnum. Margir þó komnir á kaldan klaka og láta kýr sínar út gjaflaust, án nokkurs gagns þó. Sauðfé hríðfellur, ekki þó beint af fóðurskorti, heldur sjúkdómum, sem menn álita að stafi af slæmu og litlu fóðri. Lömbin strádrepast jafnharðan og ærnar bera. Frétt frá Norðurárdal hermir að þar séu nú tveir bæir næstum sauðlausir.
Hvítasunnu bar upp á 31. maí og þann 2. júní er bjartara yfir fréttum Morgunblaðsins. Þessi gæði stóðu reyndar ekki lengi:
Óvenjugott veður var hvítasunnudagana hér í bænum. Fjöldi fólks á götunum og margir óku í bifreiðum eða hestvögnum upp í Mosfellssveit - eða þá þeyttust upp að Árbæ á gæðingum sínum.
Júní: Sérlega vond tíð um vestanvert landið, en skárri eystra. Fremur kalt syðra, hiti í meðallagi norðaustanlands. Fjöldi manna drukknaði á sjó við Breiðafjörð snemma í mánuðinum - óvíst hvort veður skipti mestu í því sambandi.
Kalsa gerði á Vestfjörðum þann 6. og sagði Vestri þann 7. að gert hafi norðan stórviðri með kraparigningu svo að fennt hafi víða að sjá. Líklega fórst fiskiskip frá Ísafirði með 10 mönnum í þessu veðri undan Aðalvík.
Lögrétta segir frá þann 10.:
Hafís er nú mikill fyrir Vesturlandi, en þó ekki landfastur og hefur ekki hindrað skipaferðir. Jafnvel suður á móts við Reykjanes hefur hafís sést nýlega, en langt til hafs er hann. Af nálægð íssins stafar kuldinn og óstöðugleikinn í veðráttunni.
Nú skipti nokkuð í horn, sunnanlands lagðist í rigningar, en betra var nyrðra frá miðjum mánuði. Við gefum fréttum gaum. Morgunblaðið birtir þann 11. og 18. fréttir úr Vestmannaeyjum:
[11.] Vestmanneyjum í gær. Tíðin er hér mjög óhagstæð, gæftir litlar og afli enginn. Fiskþurrkunin gengur svo illa að ekki eru dæmi til annars eins. Er enn eigi kominn einn einasti þurr fiskur í hús, en um þetta leyti í fyrra höfðu Eyjamenn sent mikinn fisk til útlanda.
[18.] Vestmannaeyjum í gærmorgun. Tíðin er enn hin óhagstæðasta. Þurrkleysur og stormar. Margir menn úr landi eru hér veðurtepptir og komast ekki heim til sín. Enginn þurr fiskur kominn i hús enn þá og er það fáheyrt.
Morgunblaðið segir þann 19. í frétt frá Akureyri (í gær): Hér er enn ofsahiti, 17-18 stig. Er þó á sunnan stormur og leysir nú snjó og klaka óðum.
Þann 30. birtist frétt í Morgunblaðinu um sílaregn undir Eyjafjöllum:
Í gær kom Lárus Pálsson inn á skrifstofu Morgunblaðsins og með honum Hjörleifur Jónsson frá Skarðshlíð undir Eyjafjöllum, er sagði oss kynjasögu þá, er hér fer á eftir: 20. þ.m. voru tveir menn staddir úti á bæ, sem heitir Miðdælisbakkar undir Eyjafjöllum. Það er um 1 km. frá sjó. Veður var þurrt og þokulaust. Heyrðu þeir þá þyt í lofti, er þeir hugðu vængjaþyt, en sáu þó enga fugla, en í sama vetfangi sjá þeir hvar rignir sílum. Þau voru 40 of öll lifandi. Þegar Hjörleifur frétti þetta, fór hann til fundar við mennina til að sjá sílin, en þau voru þá glötuð. En 26. þ.m. þegar Hjörleifur lagði af stað, fundust 12 til 20 síli á öðrum stað, hér um bil 3 km. frá sjó. Enginn sá er þeim rigndi, en dauð voru þau er að var komið. En Hjörleifur hirti nokkur þeirra og kom með þau i glasi. Sagði hann þau minni en hin, að sögn þeirra, er sáu bæði. Hann lét eitt sílið hér eftir. Það er heilt og óskaddað, 14,7 cm. á lengd. Hin ætlaði hann að sýna Bjarna fiskifræðingi Sæmundssyni. Þess munu að eins dæmi hér á landi, að sílum hafi rignt, en fátítt er það. Má geta þess til, að þau hafi sogast í loft upp í skýstrokk, en síðan borist fyrir vindi til lands.
Í framhaldinu (Morgunblaðið 3. júlí) var rifjað upp að sílum hafi rignt á bæ einum á Kjalarnesi í fyrra. Síladreif fannst þar í heyflekk og töldu menn þá að fuglar hefðu að borið - en voru samt ósködduð.
Júlí: Votviðratíð syðra fram til þ.20., en annars sæmileg tíð. Fremur kalt.
Þokur voru við Norðurland og tafði hún siglingar. Morgunblaðið segir frá þann 18.:
Akureyri í gær: Hér hafa verið þokur miklar undanfarna daga og hefir ýmsum skipum hlekkst á þess vegna.
Þokan átti þátt í slysi fyrir norðan þann 26. júlí:
Á sunnudaginn fór sex manns frá Glerá, sem er bær skammt héðan skemmtiför yfir í Vaglaskóg. Veðrið var gott um morguninn, en er á daginn leið skall yfir sótsvört þoka, og var hún svo dimm að menn muna ekki aðra eins. Héðan úr bænum sá maður t.d. ekki skipin, sem liggja á Pollinum, rétt fyrir framan landssteina. Fólkið kom úr skóginum seint í gærkvöldi og villtist í þokunni. Vöxtur er í Eyjafjarðará og er hún ill yfirferðar. - Ætlaði það að ríða ána á Leirunni, en lenti of framarlega og fór fram af marbakkanum. Drukknuðu þar tveir menn.
Loksins stytti upp syðra. Morgunblaðið 25. júlí:
Só1skin og ágætisþurrkur var hér í gær. Ógrynni af fiski var breitt til þerris á fiskreitum og húsþökum, og er óhætt að fullyrða að þessi þurrkur hefir verið dýrmætur hér í nágrenninu og öllum einkar kærkominn. Hiti var óvenjulega mikill. Túnasláttur er víða langt kominn á blettunum umhverfis bæinn, en lítið hefir enn náðst inn af töðu.
Rykmengun er ekki nýtilkomin í bænum. Morgunblaðið segir frá þann 31. júlí:
Mo1dryk mikið hefir verið hér í bænum undanfarna daga, einkum í gær. Það kemur að litlu gagni, þó að göturnar séu vökvaðar, því að bæði rýkur moldin af gangstéttunum og görðum við göturnar.
Þegar þornaði syðra tók að rigna norðanlands og var kvartað undan miklum óþurrkum þar síðari hluta júlímánaðar.
Ágúst: Þokkaleg tíð norðaustanlands og fram eftir mánuðinum vestanlands, en snerist í óþurrka á Suðurlandi. Fremur hlýtt.
Morgunblaðið lofar heyskapartíðina í pistli þann 19. ágúst:
Heyskapartíð hefir verið svo hagstæð sunnanlands í sumar, að slíks eru ekki dæmi síðan 1907, að kunnugra sögn. Reykvíkingum hefir verið ómetanlegt gagn að þurrkatíðinni, því að nú hefir fiskþurrkun heppnast afbragðsvel og mjög mikið komið í hús af honum.
Ingólfur segir frá hugsanlegu jökulhlaupi í Þverá í Rangárþingi um miðjan mánuðinn þann 23. - en þetta bar einmitt upp á hlýindin miklu:
Vatnavextir voru svo miklir í Þverá í Rangárþingi öndverða vikuna sem leið, að Þykkbæingar gátu ekki stundað heyskap á mánudaginn og þriðjudaginn; engjar þeirra voru allar í kafi. En um miðja vikuna tók vatnið að sjatna. Talið, að flóð þetta stafi af jökulhlaupi.
En svo fór aftur að rigna.
September: Lengst af óhagstæð tíð. Fremur kalt.
En þurrkinum lauk ótímabært syðra, norðanlands þornaði. Ingólfur segir frá þann 6. september:
Óþurrkar hafa staðið síðan um höfuðdag hér sunnanlands. Sæmilegur þerrir hefir eigi verið nema mánaðartíma í sumar. Náðu flestir töðum sínum (fyrri slætti) með bestu hirðing, en lítið mun víðast hafa náðst at útheyi. Taða (af fyrri slætti) jafnvel úti enn sumstaðar á Suðurnesjum. Horfur um heyskap mjög slæmar, ef ekki breytir um veðráttu bráðlega.
Og Suðurland segir frá daginn eftir:
Stórrigning hér eystra undanfarna daga, óslitinn rosi hálfan mánuð. Voði fyrir dyrum ef ekki rætist úr bráðlega. Almenningur hér ekki búinn að ná inn meir en helming heyskapar og varla það. Feiknin öll af heyjum úti sem liggja undir skemmdum. Votlendar engjar komnar í kaf. Heyskaða af vatnságangi er getið um í fyrradag á tveimur bæjum í Holtum. Hellnatúni - um 200 hesta - og í Ási eigi alllítið. Lækur flóði yfir engjarnar og sópaði heyinu burtu.
Annað fyrir norðan. Morgunblaðið segir þann 9.:
Akureyri í gær:
Hér er alltaf öndvegistíð; sunnanátt og sólskin í dag og besti þurrkur. Heyskapur gengur ágætlega. Spretta er sæmileg og nýting góð. Má heita að alt af þorni jafnharðan af ljánum.
Illviðri olli tjóni í Vestmannaeyjahöfn þann 10. Brautin á hafnargarðinum brotnaði og vagn fór í sjóinn (Morgunblaðið 11.).
Allmikið norðanveður gerði fyrir miðjan mánuð. Morgunblaðið segir frá þann 14.:
Geitabergi [í Svínadal] í gær: Norðanhríð var hér i gær (12.). Snjóskaflar á túnum viða nokkuð, t. d. að Fornahvammi. Eru menn jafnvel hræddir um að fé hafi fennt til fjalla. - heyskapur gengur illa - litið af útheyi náð enn. Töluvert kvað hafa fokið af heyi i gær. Grátt í öllum fjöllum í Borgarfirði. Akureyri í gær: Hér snjóaði í fjöll í nótt. Norðankulda-stormur í dag. Sauðárkróki í gær: Hér er hríðarveður og hefir það nú staðið þrjú dægur. Norðanrok, en brim ekki eins mikið og í gær. Bændur fram i Skagafirði eiga mikil hey úti. Er óvíst að þau náist nokkurn tíma inn vegna þess að allar engjar eru þar undir vatni.
Norðri segir þann 15. frá sköðum í veðrinu:
Á laugardaginn [12.] var mikið brim og og stórsjór fyrir Norðurlandi. Braut þá 3 stóra vélabáta í spón á Látrum á á Látraströnd, sem Höfðamenn áttu, og 1 vélabát á Skeri, sem fjórir menn áttu í Höfðahverfi. Manntjón varð ekki.
Vestri segir líka frá norðanveðrinu - í frétt þann 28.:
Norðanhretið um daginn var eitt hið versta er sögur fara af jafn snemma hausts. Fulla viku var óslitin norðan hríð að heita mátti. Fannkoma varð feiknamikil víða einkum í norðurhreppunum, Sléttu Grunnavíkur- og Snæfjallahreppum; þar var kaffenni alveg niður að sjó - og jafnvel í Önundarfirði voru hnéháir skaflar við sjóinn fyrst. Sagt er að sumstaðar í norðurhreppunum hafi verið farið á á skíðum í fjallagöngurnar. Ekki hefir frést nákvæmlega um fjárheimtu þar, en á Snæfjallaströndinni hafði fé ekki fennt svo teljandi sé. Tíðin. Vestanátt hefir verið síðan norðanstorminum linnti og smáskúrir að öðru hvoru, en annars milt veður. Í nótt 26. þ. m. snjóaði þó í sjó.
Suðurland segir frá sláttarlokum þann 28. september - eitthvað hafa dagsetningar skolast til hjá fréttaritara:
Slættinum er nú að verða lokið hér eystra, hann byrjaði 1-2 vikum seinna en vant er. Grasspretta varð í góðu meðallagi að lokum. Töður náðust í góðri verkun en svo voru stopulir og litlir þurrkar, fram í miðjan ágústmánuð, en góðvíðri. Allir voru að vona eftir þurrki uppúr hundadögunum, en þá tók annað við, samfeldur rosi og stórrigningar, varð vatnsflóð svo mikið hér í Flóa og víðar á láglendinu að varla eru dæmi slíks áður á svo skömmum tíma, og svo snemma sumars. Alt hey sem úti var fór á flot og varð ekki við neitt ráðið fyrir vatni. Flestir áttu úti um helming heyskapar eða meira. Horfurnar voru því um skeið svo ískyggilegar sem framast mátti verða, bersýnilegur voði fyrir dyrum. En svo skipti um allt í einu. Föstudaginn 6. þ. m. [6. september var sunnudagur] brá til norðanáttar og var síðan skarpa þerrir í fulla viku, náðu þá allir heyjum sínum, og þó ekki affallalaust því á sunnud. 8. þ.m. [8. september var þriðjudagur] var afskaplegt rok á norðan fauk þá hey víða til skaða, og margir misstu og talsvert hey í vatn. Þó mun nú mega telja heyfeng hér eystra viðunanlegan nú orðið, og allvel hefir ræst úr eftir því sem á horfðist.
Aftur gerði hret seint í mánuðinum. Morgunblaðið birti þann 29. frétt frá Sauðárkróki:
Sauðárkróki í gær. Hér er köld veðrátta nú sem stendur - ökklasnjór niður í fjörumál og mannheldur ís á hverjum polli. Stórhríð var hér í fyrradag og fyrrinótt, en hríðarlítið í gær. Aftur var stórhríð með frosti í nótt, en nú er heldur að létta. Verður vonandi hríðarlaust í dag.
Október: Óhagstæð tíð syðra, en þokkaleg norðaustanlands. Fremur hlýtt.
Þann 27. birtir Morgunblaðið frétt um árgæsku austanlands, en segir líka frá skipsstrandi í Garði:
Fossvöllum (Múlasýslu) í gær: Hér er nær dæmalaus árgæska, hver dagurinn öðrum betri. Jörð er enn skrúðgræn og alþíð, því engin frost hafa enn komið.
Vélbáturinn Ágúst, sem verið hefir undanfarið varðskip í Garðssjónum, strandaði í fyrrinótt að Vörum í Garði. Ofsaveður var á og báturinn lá fyrir akkerum skammt undan landi. Festar kváðu hafa slitnað og rak bátinn á land. Sjónarvottar þar suðurfrá, sem vér áttum símtal við í gær, kváðu bátinn vera gjöreyddan.
Mikið illviðri gerði vestra þann 29. Morgunblaðið segir frá þann 31.:
Ísafirði í gær: Ofsarok var hér í gær - svo mikið að menn muna eigi annað eins. Lítill vélbátur slitnaði upp fyrir utan Tanga og rak hann til hafs. Þrír bátar réru héðan í gær, en enginn þeirra gat lent hér. Átta botnvörpuskip liggja hér inni fyrir ofsaveðri í hafi. Bolungarvík í gær: Vélbátur fórst hér i gær. Veður var óvanalega illt. Segja menn að roka hafi velt bátnum um. Skeði það rétt fyrir utan víkina. Formaðurinn og 4 menn með honum fórust. Flateyri í gær: Bátar réru hér nokkrir í gær. Lentu þeir í miklum hrakningum. Einn þeirra fórst, en skipshöfninni bjargaði botnvörpungur. Gamlir menn muna eigi annað eins veður.
Nóvember: Nokkuð umhleypinga- og stormasamt. Kalt.
Gott veður var í byrjun mánaðar. Ísafold segir frá þann 4. nóvember:
Síðustu dagana hefir verið frost og stillur. Ágætur íss er kominn á Tjörnina og var þar í gærkveldi mikið um skautaferðir, enda veður til þess, glaða tunglskin og blæjalogn.
Desember: Fremur óhagstæð og snjóþung tíð um mestallt land. Fremur kalt.
Illviðri gerði um mánaðamótin. Austri segir frá þann 5. desember:
Ofsaveður með mikilli fannkomu gjörði s.1. mánudagsnótt; urðu nokkrar bilanir á ljósþráðunum. ljósin slokknaðu snöggvast nokkrum sinnum, og lýstu illa þar til búið var að greiða þræðina daginn eftir. Símaslit urðu og víða um land, samband ekki lengra norður en til Fagradals, og suður á bóginn til Eskifjarðar.
Morgunblaðið segir þann 5. frá því að fjóra vélbáta hafi rekið á land í Ólafsfirði í veðrinu og allir brotnað. Þeir voru mannlausir. Þjóðviljinn (30. janúar 1915) segir bátana hafa verið þrjá.
Austri segir frá því þann 18. að þrír hestar hafi þá fyrir nokkrum dögum farist í snjóflóði skammt frá Hjarðarhaga á Jökuldal.
Rosasamt var á milli jóla og nýárs. Lægðin sem kom að landinu á þriðja í jólum var á meðal þeirra allradýpstu. Þrýstingur á skeytastöðinni í Vestmannaeyjum fór niður í 929,0 hPa. Morgunblaðið segir fréttir frá Vestmannaeyjum þann 30.
Vestmanneyjum í gær: Voðalegt illveður var hér í gær. Stórsjór og brim allan daginn. Hafnargarðurinn, sem nú er töluvert langt kominn, gjöreyddist af brimi. Er hann með öllu horfinn og ekkert stendur eftir sem þess ber vott að á honum hafi nokkru sinni verið byrjað. Tjón er mjög tilfinnanlegt.
Vísir segir þann 14. janúar 1915 frá flóðbylgju í Vík í Mýrdal í sama veðri:
Á þriðja i jólum í garðinum mikla, sem skemmdi hafnargarðinn í Vestmannaeyjum kom flóðbylgja allmikil i Vík í Mýrdal, meiri en menn hafa þar sögur af, enda var rokstormur af hafi. Skall bylgjan upp á húsin fyrir neðan bakkann og braut inn hlera og glugga á kjöllurum og fyllti þá, og gekk alveg upp á efstu glugga á húsunum sjávarmegin. Vísir hefir átt tal við Sigurjón Markússon sýslumann, sem býr í einu af húsum þeim, sem standa fyrir neðan bakkann. Gat hann þess, að vegurinn hefði skemmst mikið, en er nú lagaður aftur, og þegar særinn féll út aftur hafði hann tekið með sér úr kjöllurunum ýmislegt lauslegt, svo sem kol, sláturtunnur og kjöttunnur, sem tapaðist alveg. Stórskemmdir urðu ekki af flóðinu. en talið víst, að öll húsin fyrir neðan bakkann hefðu farið, ef stórstreymt hefði verið. Þetta var kl. 3-4 um daginn, en þar eð menn bjuggust við miklu sjávarróti höfðu allir bátar verið fluttir á óhultan stað, og mundu þeir allir hafa farið, ef þeir hefðu verið í venjulegum uppsátrum. Allmiklu af kjöttunnum, sem fara áttu til Vestmannaeyja og geymdar voru fyrir neðan bakkann, varð komið undan í tæka tíð.
Maður varð úti á Breiðadalsheiði þann 29. og annar neðan við Kolviðarhól.
Lýkur hér að segja frá þessu tíðarerfiða ári. Ýmsar tölulegar upplýsingar fá finna í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 30
- Sl. sólarhring: 129
- Sl. viku: 2477
- Frá upphafi: 2434587
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 2201
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Skrautlegt ár þetta og verulega fróðlegt að lesa. Auðvitað miðast veðrið við beit og heyöflun til sveita og sjósókn í sjávarþorpum en greinilega hafa nokkrar vikur verið ótrúlega erfiðar.
Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 29.3.2018 kl. 09:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.