Af (íslenska) vetrarhitanum í góulok

Í gær (þriðjudag 20. mars) hófst einmánuður, síðasti mánuður íslenska vetrarmisserisins, en það hefst sem kunnugt er með fyrsta vetrardegi seint í október og stendur til sumardagsins fyrsta - seint í apríl. 

Almannarómur segir veturinn nú hafa verið kaldan fram undir þetta. Sannleikur þess máls fer nú dálítið eftir því hvernig á það er litið. Ritstjóri hungurdiska hefur nú reiknað meðalhita vetrarins til þessa - frá fyrsta vetrardegi og til síðasta góudags - í Reykjavík. Hann reyndist vera +0,7 stig, -0,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og næstlægstur sama tíma á öldinni. Kaldari voru þessir mánuðir veturinn 2001 til 2002, +0,6 stig.

En sé meðaltalið miðað við lengri tíma, t.d. árin áttatíu frá 1931 til 2010 reynist hitinn nú vera nákvæmlega í meðallagi. 

w-blogg210318i

Myndin sýnir meðalhita tímans frá fyrsta vetrardegi til góuloka í Reykjavík á árunum 1872 til 2018. Fáeina daga vantar inn í nokkur ár snemma á öldinni og hefur enn ekki verið bætt úr því. Við sjáum að flestir vetur á tímanum 1881 til 1920 voru kaldir, síðan tók hlýrra skeið við - reyndar nokkuð breytilegt, en fjórir vetur skera sig úr með hlýindi, 1928 til 1929, 1941 til 1942, 1945 til 1946 og 1963 til 1964. Þá tók aftur við svalari tími - þó ekki eins kaldur og hafði ríkt milli 1880 og 1890. Kaldast á síðari tímum var í Reykjavík upp úr 1980. Frá og með 2002 hlýnaði aftur og hefur haldist hlýtt síðan. Á þessu seinna hlýskeiði eru það veturnir 2002 til 2003 og 2016 til 2017 sem skera sig úr - svipað og þeir fjórir sem hlýjastir voru á fyrra hlýskeiði. 

Hvað næst gerist vitum við að sjálfsögðu ekki en ef við tökum fyrra hlýskeið okkur til fyrirmyndar fer að vera með nokkrum ólíkindum hversu langur tími er nú liðinn frá síðasta kalda vetri - með meðalhita þessara fimm mánaða undir núllinu. Sá síðasti slíkra var 1996 til 1997. Á fyrra hlýskeiði liðu mest 13 ár á milli vetra með hita undir núlli, en nú eru þeir sum sé orðnir 21 í röð. 

En einmánuður lifir enn - sumardagurinn fyrsti er ekki fyrr en 19. apríl. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband