Hlýjasta loftið fer hjá á mánudag

Nú leikur hlýr loftstraumur úr suðri um landið. Enn hlýrra er að tiltölu í háloftunum yfir landinu heldur en niðri í mannheimum. Ástæðan er sú að yfirborð sjávar og lands kælir loftið mjög - það sem snertir sjóinn verður vart hlýrra en yfirborð hans, og það sem snertir jörðu eyðir mestu af orku sinni í að bræða snjó eða láta hann gufa upp. Þar með verður það ekki mjög hlýtt. 

En mun hlýrra er strax fyrir ofan og þar eru sannarlega mikil hlýindi - eina leiðin til að ná hlýindunum niður er með aðstoð vinds og hárra fjalla. 

w-blogg250218b

Heildregnu línurnar á kortinu sýna sjávarmálsþrýsting kl.21 annað kvöld (mánudag 26. febrúar). Lægð á norðurleið er vestast á Grænlandshafi, en mjög mikil hæð yfir Skandinavíu. Á milli kerfanna er mikil sunnanátt. Litirnir sýna mættishita í 850 hPa, í rúmlega 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Mættishiti segir okkur hversu hlýtt loftið í fletinum yrði - væri það dregið niður að 1000 hPa þrýstingi - án blöndunar við það loft sem þar liggur. 

Eins og sjá má er mættishiti meiri en +20°C á allstóru svæði yfir landinu norðaustanverðu - en þar er sjávarmálsþrýstingur hár, í kringum 1030 hPa. Viðmiðunarflöturinn, 1000 hPa er því í um 240 metra hæð yfir sjávarmáli og væri mættishitinn miðaður við það gætum við bætt 2,4 stigum við hámarkstöluna á kortinu, 23,8 stig og fengið út 25,2 stig.

Þetta er auðvitað óvenjulegt, en þó ekki óvenjulegra en svo að í febrúar í fyrra sáum við mættishitann fara upp í 28,0 stig á þessum slóðum. Þá var líka sett nýtt hitamet febrúarmánaðar hér á landi. Ólíklegt verður að telja að slíkt gerist nú - frekar að dægurmet verði innan seilingar. Landshámarksdægurmet 26. febrúar er 15,3 stig, sett á Skjaldþingsstöðum árið 2013, en þess 27. ekki nema 12,8 stig, þriðjalægsta dægurmet ársins, sett í Skaftafelli árið 2003 - tími til kominn að fella það. Næstlægst er dægurmet 5. mars, 12,3 stig, sett á Dalatanga 2008. Lægst allra er dægurmet hlaupársdagsins, 12,0 stig - sett í Fagradal í Vopnafirði 1948, en sá dagur keppir í flokki fatlaðra sem kunnugt er og tekur ekki þátt þetta árið. 

Í neðra hægra horni kortsins sjáum við kuldann úr austri laumast yfir Bretlandseyjar, mættishiti 850 hPa-flatarins þar kominn niður fyrir frostmark - bendir til þess að enn kaldara sé þar undir. Fyrir nokkrum dögum var jafnvel talið líklegt að þykktin kæmist niður fyrir 5000 metra við Bretland einhvern næstu daga, en líkur á slíku virðast hafa minnkað. Þess var getið einhvers staðar að aðeins væri vitað um þrjú tilvik þess að þykktin við Bretland hefði farið niður fyrir 5000 metra, 12. janúar 1987, 7. febrúar 1969 og 1. febrúar 1956. Ekki selur ritstjórinn þessar upplýsingar dýrara en hann keypti - en alla vega má ljóst telja að þetta gerist sárasjaldan. Líkurnar nú munu mestar á miðvikudaginn (28. febrúar). Tilvikin 1987 og 1956 áttu sér stað í austanátt - þá var mjög hlýtt hér á landi á sama tíma - ofsaveður reyndar 1956. En 1969 kom kuldinn til Bretlands úr norðri - þá varð líka ofsakalt hér á landi - eins og stöku maður man auðvitað enn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 125
  • Sl. sólarhring: 251
  • Sl. viku: 1090
  • Frá upphafi: 2420974

Annað

  • Innlit í dag: 115
  • Innlit sl. viku: 964
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 111

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband