24.2.2018 | 23:09
Árið 1918 - hvernig var með veðrið eftir að frostunum lauk?
Kuldakaflinn í janúar 1918 var snarpur - einhver sá snarpasti sem við þekkjum - en hann var samt ekki mjög langur. Hann hefur samt tekið alla athygli af öðru veðri þetta merka ár og annað enga athygli fengið - þó það hafi hins vegar verið fjölbreytt og sýnt á sér ýmsar hliðar. Hér verður litið á það helsta - með hjálp veðurathugana og blaðafrétta. Upprunalega stafsetningu hefur ritstjórinn allvíða fært úr lagi.
Janúar: Mjög óhagstæð tíð og fádæma köld. Fyrstu fjóra dagana var hláka. Aðalfrostakaflinn stóð til 22., en þá linaði mikið. Mjög þurrviðrasamt var lengst af.
Um þennan mánuð hafa hungurdiskar og fleiri fjallað nokkuð ítarlega áður - við leggjum hann því til hliðar að mestu. Óvenjumikill hafís var við landið - en gamalt orðtæki segir að sjaldan sé mein að miðvetrarís. Alla vega hvarf hafísinn að braut að mestu snemma í febrúar. Lagnaðarís og ísleifar voru þó víða til trafala inni á fjörðum lengi vetrar og sjávarkulda og tilheyrandi krapa í fjörum getið. Sömuleiðis fóru frostin mjög illa með jörð - frost hljóp í hana og entist langt fram eftir sumri og háði viðkomu jarðargróðurs.
Febrúar: Mikill skakviðra- og umhleypingamánuður. Fremur kalt var í veðri, einkum þó um landið norðanvert, frá Breiðafirði í vestri og austur á Hérað. Einna kaldast var þann 5. til 7. Illviðrin náðu hámarki upp úr miðjum mánuði, en þá voru mjög djúpar og kaldar lægðir við landið. Mannskaðar urðu á sjó (eins og venjulega liggur manni við að segja).
Í lok janúar og framan af febrúar var nokkur tregða í kuldanum norðanlands eins og frétt í Tímanum 2. febrúar:
Tíðin hefir verið allgóð í Reykjavík þessa viku, frostlítið eða þíða flesta daga. Aftur á móti hafa verið hörð frost og stormar á Norður- og Vesturlandi. í fyrradag var t. d. 8 stiga frost í Borgarfirði en 5 stiga hiti í Reykjavík. Fyrst í gær var þíða um Borgarfjörð.
Vísir segir ísfréttir þann 7.:
Fá Seyðisfirði var símað í gær, að ströndin væri íslaus frá Langanesi til Gerpis, en mikill ís á fjörðunum og þeir fullir sumir.
Svipað var víðar - nokkur ís inni á fjörðum, en minna útifyrir.
Umhleypingarnir urðu hvað stórgerðastir um miðjan mánuð. Frétt í Vísi þann 15.:
Afskaplegt slagveður með rokstormi gerði hér í nótt, en frysti með morgninum.
Morgunblaðið segir þann 17 frá veðri aðfaranótt þess 16.:
Snjókoma var afskapleg í fyrrinótt meiri en dæmi eru til um margra ára skeið hér í bæ. Fannirnar víða mannháar og þar yfir.
En þessi mikli snjór stóð fékk ekki frið lengi. Tíminn segir þann 23. frá tíðinni næstliðna viku:
Versta ótíð og illviðri voru fyrri hluta vikunnar. Afspyrnurok sinn daginn hvorn af suðvestri og austri. Úrkoma mjög mikil suma daga, fyrst óvanalega mikill snjór og síðan ausandi rigning. Símabilun varð töluverð í Mosfellssveit, milli 2030 símastaurar brotnuðu þar, milli Grafarholts og Hamrahlíðar.
Mars: Lengst af fremur hagstæð tíð, einkum suðvestanlands. Stormasamt var þó framan af og norðankast gerði síðustu vikuna. Fremur hlýtt. Enn standa tvö landsdægurmet sem sett voru í þessum mánuði fyrir 100 árum. Þann 4. mældist úrkoma á Teigarhorni 117,1 mm, og þann 17. fór hiti á Seyðisfirði í 14.6 stig - þó var enginn hámarksmælir á staðnum. Hlýir dagar koma þrátt fyrir allt stöku sinnum í köldum árum.
Morgunblaðið með fréttir af kunnuglegu ástandi þann 2. mars:
Hálkan. Í gær var borinn sandur á flestar eða allar götur bæjarins, enda illfært um göturnar áður fyrir hálku.
Þann 3. gerði austanstorm - sem síðan snerist í útsuður. Þá fórust tveir bátar úr Vestmannaeyjum og með þeim 9 menn. Fleiri sjóslys urðu í mánuðinum.
Þjóðólfur fjallar um tíðina í pistli þann 23.
Tíðin er indæl. Er langt síðan er komið hefir jafnhlýr marzmánuður á Suðurlandi. Þessi mánuður reynist oft kaldur og harðleikinn. Nú er á degi hverjum hlýtt veður og úrkoma öðru hverju. Er það mikil dýrtíðaruppbót, er veitt er landinu á þennan hátt.
En skjótt skipast ..., viku síðar (þ.30) birtist þessi pistill í Þjóðólfi:
Tíðin seinustu viku á sér furðu fjölbreytta sögu, þó að stutt sé. Fyrst var hún afbragð, svo að þeir, sem ekki eru vel stæltir í almanakinu, hefðu getað haldið, að komið væri fram í maí. En á þriðjudagskvöld [26.], skipaðist skyndilega veður í lofti. Kom þá frost og kuldi og þótti mönnum blása heldur kaldan á miðvikudagsmorgun og bjuggust við, að nú myndi páskahretið, er gamlir menn kveða alltaf koma yfir landið, verða hið versta. En daginn eftir var veður blíðara, kuldinn minni og lygnara. Á skírdag [28.] kom ofurlítið él síðdegis, og á langa frjádag var veður stillt, en snjór á þökum og götum.
Meðalhiti í Reykjavík þann 28. var -8,7 stig og -10,5 í Stykkishólmi.
Veðrið þ. 26. til 28. olli nokkru tjóni - Vísir segir frá þann 28.
Símskeyti frá Hjalteyri 27. mars. Í gærkveldi gerði hjer voðaveður af norðaustri með sjógangi og hríð. Rak þá aftur inn ísinn, sem komin var á útrek, og fyllti inn að samfrosna ísnum, sem nú er út á Hörgárgrunn. Á innleið braut ísinn bryggjur Thorsteinssons hjer utan á eyrinni alveg, sömuleiðis bryggjur Ásgeirs Péturssonar og Samuelsons innan á eyrinni og skemmdi fleiri. Kveldúlfsbryggjan er þó óskemmd. Tjónið, sem af þessu er orðið, er afamikið. Lagarfoss liggur enn á Sauðárkróki og getur ekkert aðhafst. Sterling er á Reykjarfirði. Ef veður hægir, er von um, að ísinn greiðist svo í sundur, að Sterling komist hingað.
Apríl: Allgóð tíð, en fremur umhleypingasöm. Enn var ís sums staðar á fjörðum. Norðangarð gerði í fáeina daga snemma í mánuðinum. Þá fórst bátur úr Ólafsvík, tveir frá Akranesi, flóabáturinn Svanur strandaði við Grundarfjörð (mannbjörg þó) og þrír bátar brotnuðu í vör í Reykjavík. Sumir töldu reyndar að stórhveli hefði grandað Ólafsvíkurbátnum. Fjárskaðar urðu í Húnavatnssýslum.
Á undan norðangarðinum voru allgóðir dagar að sögn Tímans (þ.6.)
Tíðin hefir verið afbragðs góð undanfarið. Vægt kuldakast gerði um páskana og frost er enn flestar nætur, en sólbráð á daginn og logn. Undir Eyjafjöllum eru tún farin að grænka Gæftir hafa verið góðar og er afli ágætur á báta og þilskip.
Morgunblaðið segir frá þann 11. apríl:
Lagarfoss komst ekki lengra inn á Eyjafjörð fyrir ís, en að Hjalteyri, um 28 kílómetra frá Akureyri. Kjötinu varð að aka á sleðum frá Akureyri og höfðu um 200 manns atvinnu við það, mest bændur úr nágrenni Akureyrar. 3-4 smálestir fóru á hverjum sleða, en hver sleði fór eina ferð á dag, meira ekki hægt vegna vegalengdar. [Hvaða kjöt þetta var kemur ekki fram].
Og tveimur dögum síðar (þ.13.):
Grimmdargaddur var um alt land í gær. Er í meira lagi umhleypingasamt, rigning og hlýja annan daginn en frost hinn. Borðeyri í gær: Síðastliðinn mánudag (8.) gerði skyndilega afskapaveður og blindhríð hér nyrðra. Að Klömbrum í Húnavatnssýslu var þá nýbúið að láta 120 fjár út á beit, en svo brátt skall hríðin á, að það voru engin tiltök að ná féinu í hús. Lá það því úti um nóttina, en um morguninn þegar menn fóru að leita þess, fundust 4050 kindur helfrosnar. Fimm vantaði alveg, en nokkrar fundust að eins með lífsmarki.
En svo batnaði nokkuð og þann 27. birti Tíminn bréf sem dagsett er undir Eyjafjöllum þann 18.
Tíðin er alveg eindæma góð. Í dag er hreinasta Jónsmessuveður, lofthiti mikill, þokuhjúfur, og sér til sólar við og við. Grasið hoppar upp, orðið algrænt fram með vegum og undir og utan í veggjum. Haldist þessi tíð, verður hér kominn nauthagi um lok. Aflabrögð hafa ekki verið eins góð undanfarin ár og nú.
Gæðin héldu áfram því þann 27. birtist eftirfarandi klausa líka í Tímanum:
Tíðin hefir verið afbragðs góð þessa viku hlýindi og rigningar um allt land. Sumardagurinn fyrsti [25.] hér í Reykjavík var einn hinn fegursti sem menn muna.
Maí: Góð tíð og fremur hlý, þó kólnaði nokkuð síðast í mánuðinum.
Vestri hrósar tíðinni í pistli þann 14. maí:
Tíðarfar hefir verið óminnilega gott síðan um sumarmál, logn og sólfar daglega; dálítið frost sumar næturnar. Sauðfé mun alstaðar sleppt hér í nærsveitunum og vallarávinnsla víðast að byrja. Er slíkt óvenju snemmt.
Fréttir segja frá 2. maí:
Öndvegistíð er á Austfjörðum og í Fljótsdalshéraði. Farið að vinna á túnum. Árgæzka er nú um land alt. Borgfirðingar eystra hafa sleppt fé sínu, og er það sjaldgæft í þeirri snjóasveit, að það sé gert svo snemma.
Og Morgunblaðið þann 8. maí:
Tún hér í bæ og í grenndinni eru nú orðin græn og tré í görðum sumstaðar tekin að laufgast. Er það óvenju snemma, enda hefir ekki verið eins gott vor i manna minni sem nú.
Svo segir í Tímanum þann 30.:
Tíðin er ávalt hin ákjósanlegasta hér syðra. Kartöflur farnar að koma upp í görðum. Á Norður- og Vesturlandi er kvartað um hita og þurrka.
En svo skipti mjög til verri tíðar.
Júní: Óhagstæð tíð lengst af. Fremur kalt. Einna verst varð um miðjan mánuð. Fram á Siglufirði segir frá þann 15.:
Tíðin hefir verið óviðfelldin þessa viku. Framan af gengu miklar rigningar og hálfgerðir kuldar, hríðaði mikið í fjöll, en á föstudagsnótt [14.] alsnjóaði, og hélt því áfram mest allan daginn. Í dag er norðan rigning. Gróður var orðinn hér allgóður, þó voru kalblettir á stöku stað, gerir snjór þessi jörðinni ekkert til, ef ekki verða kuldar þegar uppbirtir. Róðrar voru byrjaðir, og útlit fyrir góðan afla, en nú eru þeir tepptir bæði sökum óveðurs og beituleysis.
Nokkrum dögum áður, þann 10., birtist þessi frétt í Morgunblaðinu:
Kappleikurinn í gær fór þannig að Víkingur sigraði Val með 5:0. Veður var illt, stormur af suðaustri og úrkoma með köflum. Var knötturinn illhemjandi innan svæðisins.
Og mæðutónn var í blaðinu þann 15.:
Sjö vikur voru af sumri i gær, en eigi var þó sumarlegt. Frost var á Grímsstöðum (0,5 stig) og kuldastormur hér og mátti sjá éljagang á Esjunni og Skarðsheiði og hvítnuðu kollar þeirra af snjó.
Veður var þó gott 17. júní að sögn Morgunblaðsins: varla kalt og ekki heitt. Fréttir tóku nú að berast af kali í túnum. Tíminn segir þann 19.:
Tíðin hefir verið köld upp á síðkastið og úrkoma mikil. Útjörð mun viðast vel sprottin. En tún eru stórkostlega skemmd af kali allstaðar á landinu. í Borgarfirði t.d. lætur nærri að helmingur sumra túna sé skemmdur. Er fyrirsjáanlegur töðubrestur um land allt.
Eftir þetta skánaði veður og hlýnaði nokkuð. Þó var býsnakalt í Reykjavík undir lok mánaðarins, meðalhiti þann 29. ekki nema 6,5 stig.
Júlí: Fremur hagstæð tíð talin á S- og V-landi, en nokkru síðri norðaustanlands. Lengst af var kalt í veðri.
Reykvíkingar voru heppnir með helgaveðrið - sé að marka frétt Morgunblaðsins þann 8. júlí:
Bjart veður var í gær, og er þetta þriðji góðviðris-sunnudagurinn í röð. Það bregst ekki, að Reykvíkingar nota slíka daga sér til skemmtunar.
Blaðið Fréttir greinir frá þann 9.:
Gróður er alveg óvenjulega lítill í sumar og munu vetrarkuldarnir valda miklu um það. Túnin hér austur um og í Þingvallasveitinni sýnast alls ekki ljábær enn, og eru gráir blettir innanum þar sem varla sést strá. Skemmdir hafa orðið miklar á trjágörðum bæjarins í vetur og vor. Standa margar trjágreinarnar blaðlausar og feysknar. Varla geta það verið kuldarnir einir í vetur sem valda þessu, því að reynsla í öðrum löndum sannar að frostin ein saman granda ekki trjágróðri, ef sumur eru nægilega löng og heit. Aftur er eyja og útnesjaloftslagið allskonar trjám óholt og sést það á því, að í Færeyjum geta ekki þrifist skógar á bersvæði og hafa þó tilraunir verið gerðar af kappi að rækta skóg þar í 30 ár eða meira.
Og þann 14. í sama blaði:
Illa gengur slátturinn. Fyrir svo sem viku var byrjað að slá Landakotstúnið. En svo lélegt var það, að ekki voru teknir nema blettir hér og hvar. Annars liggja flest tún enn óslegin og má slíkt eins dæmi heita hér, er komið er fram í miðjan júlímánuð. Oftast er búið að slá hér tún fyrir júnílok.
En þrátt fyrir svalann var veður fagurt í Reykjavík - kannski menn hefðu bara verið harlaánægðir nú á dögum. Fréttir segja þann 20. júlí:
Sólarlagið hefur verið mjög fagurt nú fyrirfarandi síðan norðanáttin hófst. Reykjavík er annáluð fyrir það, hvað sólarlagið sé hér fagurt er það nær að njóta sín, en því nær það því aðeins, að það séu háloftsský og ekki dimmt yfir Snæfellsfjallgarðinum. Svo óheppnir sem dönsku nefndarmennirnir [fullveldissamningar stóðu yfir] voru með veðurlagið fyrst er þeir komu hingað, svo hrifnir er sagt að þeir hafi verið af björtu kvöldunum, er veðrið tók að bæta. Norðan-hvassviðri var í gær og rauk svo moldin og sandurinn á götunum, að vart var úti vært. Storminn lægði undir kvöldið.
Stormsins er einnig getið í Morgunblaðinu þann 22.:
Moldryk hefir verið með mesta móti á götum bæjarins undanfarna daga, svo að varla hefir mátt heita ratljóst, þegar verst hefir verið; er og lítið gert til að væta göturnar. Í fyrradag var mikið mistur á austurlofti. Segja fróðir menn það komið alla leið austan af Rangárvöllum.
Frá Rangárvöllum fréttist af tjóni vegna sandfoks. Fréttir segja þann 3. ágúst:
Austur á Rangárvöllum er sagt að verið hafi svo mikið sandrok nú fyrirfarandi, að jarðir hafi stórskemmst. Er einkum sagt að á Reyðarvatni hafi hlotist mikið tjón af þessum ófagnaði.
Þó ekki tilheyri veðri verður hér að birta pistil Frétta um klukkuna þann 28. júlí. Í stríðinu var svonefndur sumartími tekinn upp - klukkunni flýtt um eina stund. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki heyrt eða séð eftirfarandi tillögur um klukkutilhögun annars staðar:
Dimma tekur nóttina smám saman, enda liðnar 5 vikur frá sólstöðum. Þó verða menn þess síður varir nú en endranær, þar sem klukkan er einlægt einni stund á undan tímanum. - Óviðkunnanlegt þykir mörgum og óþægilegt að hafa þessa fljótu klukku bjartasta árstímann. En seinni part sumars og seinni part vetrar er hún góð. Hví ekki að skipta árinu í fjóra jafna parta eins og stungið hefur verið upp á og hafa það fyrir fasta reglu að flýta klukkunni um eina stund að kvöldi 5. febrúar og 5. ágúst, en seinka henni aftur að kvöldi 5. maí og 5. nóv. hvert ár?
Mánuðinum lauk með óvenjuhlýjum degi. Ritstjóri hungurdiska telur út sérstaklega daga þegar hiti í Reykjavík víkur meir en 2 staðalvik frá meðallagi árstímans (miðað við tímabilið 1931 til 2010). Mjög kaldir dagar árið 1918 teljast 23 (þar af 12 í janúar einum), en aðeins einn dagur telst mjög hlýr - það var 31. júlí. Fréttablaðið Fréttir (1. ágúst) segir að hiti í Reykjavík hafi mest farið í 23 stig - út af fyrir sig ekki ólíklegt. Hæsti hiti á athugunartíma var 21,2 stig - og meðalhiti 17,3 stig. Blaðið segir einnig að austanvindur hafi verið og moldryk mikið í lofti.
Sé sama æfing gerð fyrir Stykkishólm eru mjög köldu dagarnir þar 28 (þar af 19 í janúar) en aðeins einn er mjög hlýr, 31. júlí, eins og í Reykjavík. Þá mældist hámarkshiti í Hólminum 21,3 stig - það er óvenjulegt að hiti fari yfir 20 stig þar um slóðir.
Þennan ágæta dag lék mjög hlý en nokkuð hvöss austanátt um landið - einnig var hlýtt nyrðra, en mælingar frá Akureyri voru rýrar einmitt um þessar mundir - hiti fór í 23,9 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 31. júlí og 28,0 stig sáust á mæli í Möðrudal 2.ágúst - en sá virðist hafa verið illa varinn fyrir sólinni - eða varmageislun frá nálægum veggjum - og varlegt að trúa. Fyrstu ágústdagarnir voru mjög hlýir inn til landsins norðaustanlands, hámarksmælingar skortir, en á Grímsstöðum á Fjöllum fór hiti í meir en 25 stig þ. 1., 2. og 3. Þar er einnig grunur um geislunarvanda í miklu sólskini. Morgunblaðið segir þann 6. ágúst: Á Akureyri sagður ofsahiti.
Ágúst: Nokkuð stopulir þurrkar á S- og V-landi og í útsveitum nyrðra. Fremur kalt.
Eins og vikið hefur verið að á hungurdiskum var sumarið 1913 eitt mesta rigningasumar um landið sunnanvert - og greinilega einskonar viðmið um slæmsku um þetta leyti (slíkur samanburður er alltaf athyglisverður - þó hann sé ekki endilega raunhæfur - segir frá hugarástandi). Hér er pistill sem birtist í Fréttum þann 4. ágúst:
Kalt virðist sumarið ætla að verða líkt og sumarið 1913 var hér á þessu horni landsins, þótt nú hafi ekki verið eins sólarlaust og þá var. Hér í bænum má sjá ýms merki þess að kaldara er en í meðalári og má til dæmis taka hvað slýinu í tjörninni gengur óvenju illa að vaxa. Flugur sjást og varla i sumar, þær þrífast ekki nema heitt sé. Úr sveitinni er sagt að búpeningur manna geri mjög illa gagn vegna kuldans og má búast við að fé verði með rýrara móti í haust.
Blöðin héldu áfram að birta fréttir af grasbresti, Morgunblaðið þann 8. ágúst (hér mikið stytt):
Alstaðar að er að frétta grasbrest. Í Suður-Þingeyjarsýsla voru horfurnar mjög slæmar; túnin kalin til stórskemmda og harðvellisengjar sömuleiðis, t. d. grundirnar i Bárðardal. Þar í sveit er mikil hjálp að grávíðilaufi. Þar eru slegnar stórar samfeldar laufbreiður hér og þar í heiðalöndunum. Bóndinn í Svartárkoti var búinn að fá 40 hesta af laufheyi í júlí og átti úti annað eins og hélt áfram að slá laufið. ... Í Vestur-Húnavatnssýslu voru bændur að heyja brakflóa uppi á heiðum. Á Stað í Hrútafirði var verið að reiða heim útheyið i vikunni sem leið. Slegið i forarflóum, sem ekki hafa verið slegnir fyrr, vegna þess að ekki hefir verið fært um þá. En nú má fara með hesta um þessa flóa þvera og endilanga, því að ekki eru nema 9 þumlungar niður á klaka.
Þessi frétt birtist í Morgunblaðinu 18. ágúst:
Síminn til Seyðisfjarðar var bilaður í gærmorgun og olli það, að ísing hafði sezt svo mikil á símana yfir Haug (austan Grímstaða á Fjöllum) að talið er að þeir hafi orðið eins gildir og mannshandleggur og víða slitnar af þunganum. Þetta er sumarhitinn á Íslandi.
Svo kom kafli með rigningum sunnanlands - Tíminn 24. ágúst:
Óþurrkur hefir verið þessa viku á Suðurlandi. Eru margir bændur byrjaðir að gera vothey.
Blaðið Fram á Siglufirði birtir veðurfarshugleiðingu þann 24. ágúst (aðeins stytt hér - ritstjóri hungurdiska veit ekki hver FOH er):
Hin óstöðuga, vonda veðrátta sem nú hefir haldist í margar vikur, gefur tilefni til ýmislegra hugleiðinga, þar sem það er óþekkt áður að sumartíðin hafi verið svo slæm, sem hún hefir verið í sumar og í fyrrasumar. Meðal annars er menn hafa gert sér í hugarlund að sé orsök þessarar vondu veðráttu, er hin afarmikla skothríð er öðru hvoru fer fram á vígstöðvunum í vestur Evrópu, er það skoðun manna og það ekki svo fárra að hún orsaki miklar breytingar og röskun á loftstraumunum. Að hve miklu leyti þessi skoðun er rétt, leiði ég hjá mér að dæma um, en dæmi eru þess, að miklar sprengingar dreifa skýjunum, það er að segja undir sérstökum kringumstæðum. ... Það er því ekki alveg ómögulegt, að skothríðin í Vestur-Evrópu geti áunnið í líka átt í stærri stíl, en að áhrifin af skothríðinni nái alla leið hingað og geti orsakað hina vondu veðráttu má skoða í fyllsta máta vafasamt. Réttara mun að álíta að veðráttan sé sprottin af því, að byrjað sé og fari mjög vaxandi kuldatímabil á norðurhálfu hnattarins. Það mun því vera bull út í bláinn þegar fólk kennir stríðinu um hina vondu veðráttu, og einungis sprottið af hinni almennu löngun og tilhneigingu til að kenna stríðinu með eða án ástæða, um alt er móti blæs á hinum síðustu tímum, F. O. H.
Undir lok mánaðarins gerði leiðinlegt landsynningsveður - Fréttir segja frá þann 29.:
Eitt versta veðrið á sumrinu var í gær, hvassviðri á sunnan með dynjandi rigningu. Nú er höfuðdagurinn í dag og hafa margir trú á því að þá breyti til um veðurlag annaðhvort til hins betra eða verra. Nú hefur verið vont fyrirfarandi og vænta menn því hins góða. Eitthvað mun hæft í því að veðraskipti verða oft um höfuðdag, hafstraumar munu breytast um það leyti, sunnanstraumar fá yfirhöndina sem sést á því, að þótt hafís liggi sumarlangt, þá vita menn þess ekki dæmi að hann liggi fram yfir ágústlok.
Og þann 31.:
Höfuðdagurinn hafði sinar verkanir. Í gær var hann kominn úr rigningar-áttinni i norðan hvassviðri með þurrki. Á morgun er Egidíusmessa og er hún einnig sögð að hafa áhrif á veðráttufarið.
Morgunblaðið segir þann 6. september frá tjóni í veðrinu þann 30.:
Ofsaveður er sagt að hafi verið á Blönduósi síðastliðinn föstudag. [30. ágúst] Tók þar út um 200 síldartunnur er bændur áttu og fluttar höfða verið frá Reykjarfirði. Þá rak þar og upp vélbát og brotnaði hann í spón.
September: Afspyrnukaldur mánuður og tíð víðast talin mjög óhagstæð, einkum norðanlands. Syðra var fremur þurrt. Í kasti um miðjan mánuð snjóaði einnig á Suðurlandi.
En ekki var alveg allur jarðargróði rýr ef trúa má frétt í Fréttum 2. september:
Ribsberjavöxtur er alveg óvenju mikill í sumar. Eru berjaklasarnir nú sem óðast að roðna og þroskast. Stingur þetta mjög i stúf við gróðurbrestinn á öðrum sviðum á þessu sumri. Ef til vill mun garðræktin heppnast vonum fremur, enn ekki er það fullséð enn.
Og skemmtileg klausa er í sama blaði þann 4.:
Þurrkar hafa verið ágætir undanfarna daga. Hafa heyjabændur verið önnum kafnir við heyþurrkun og fiskverkarar við fiskþurrkun. Sunnudagurinn er leið, var þá líka óspart notaður, því að menn þorðu ekki að eiga undir því að svo gott veður héldist, enda getur oft orðið dýrt að halda hvíldardaginn heilagan hér á Suðurlandi er óþurrkar ganga. Menn þykjast hafa tekið eftir því, að í óþurrkatíð sé helst von að blási af á sunnudögum og kalla það sunnudagaglennur. Þykir þá sjálfsagt að hafa dagaskipti við drottinn eins og komist er að orði. Símfregn frá Blönduósi segir að hvasst norðanveður hafi gert þar nyrðra um helgina, hey hafi fokið sumstaðar og vélbát rekið í strand.
Þessa fyrstu septemberdaga bárust fregnir af 30 stiga hita á Seyðisfirði - ekkert nærri því sést í veðurathugunum frá staðnum - ekki einu sinni 20 stig.
Svo gekk í leiðinlega norðanátt og verulega kulda. Ýmsar fréttir bárust af hretinu - Morgunblaðið birtir þann 15. frétt frá Seyðisfirði (dagsetta þann 14.):
Afskaplega illt veður undanfarna daga. Í nótt var hér frost og i dag snjókoma. Alhvít jörð niður að sjó. Aflalaust með öllu vegna ógæfta. Sumir eru í þann veginn að hætta heyskap vegna slægjuleysis.
Og þann 16. birtist í sama blaði frétt frá Sauðárkróki:
Sauðárkróki i gær. Hér var 8 1/2 gráðu frost fram í sveit í nótt og grasfyllir af snjó vestan vatna. Hér á Sauðárkróki er 4 gráðu frost, hríðarfok öðru hvoru, en bráðnar i rót með sólskini.
Líka var kuldalegt i Reykjavík (sama dag) - það er mjög óvenjulegt að Tjörnina leggi svo snemma:
Tjörnina lagði í fyrrinótt og alhvít fjöll. Haustið ætlar að byrja snemma og kuldalega í ár.
Kuldinn hélt áfram og þann 26. festi snjó í Reykjavík og ökklasnjór sagður í Mosfellssveit. Skeiðarréttum var frestað vegna tafa við smölun. Fé sagt hafa fennt. (Morgunblaðið)
Október: Meðaltíð. Hiti í meðallagi. Snjóasamt í útsveitum nyrðra þegar á leið svo hey lentu undir snjó. Bátur frá Reyðarfiðri fórst þann 4. Nóttina eftir varð maður úti á Fjarðarheiði. Talsvert illviðri gerði þann 6. og varð tjón á Siglufirði - Fram segir frá þann 12.:
Ofsaveður með miklum sjógangi gerði hér aðfaranótt sunnudags síðastt. og urðu ýmsar skemmdir. Galeas er hér lá, rak á grunn á Skútufjöru, og er tvísýnt um að hann náist út. Skipið er eign Friðriksens timburkaupmanns í Rvík. og átti að sögn að taka hér síld til Svíþjóðar. Njáll hákarlaskip hinna sam. ísl. verslana hraktist inn á leiru, og einn mótorbátur fór á sömu leið. Bryggjur brotnuðu hjá H. Söbstað. Alla vikuna hefir verið vesta veður, rok og úrfellir og ýmsar aðrar skemmdir og tjón orðið. Má þar á meðal annars nefna að platning féll niður hjá Helga Hafliðasyni, var á henni síld og salt, allt mun þó hafa náðst upp. Barkur sá, er Sören Goos stórkaupmaður lét setja niðursem bryggjuhöfuð við síldarstöð sína í Hvanneyrarkrók rótaðist allmikið, og braut utan af sér staura og binding, er sett hafði verið á hann, voru þó staurarnir reknir niður og vel frá öllu gengið. Eitthvað mun hafa tekið út af fé eins og vanalegt er hér á haustum þegar sjórót er mikið, hve margt það hefir verið er ekki kunnugt.
Hér verður ritstjóri hungurdiska að játa að hann kannast ekki við orðið platning - giskar á bryggjugólf eða eitthvað þess háttar en upplýsingar væru vel þegnar.
Þann 14. kom fram í Morgunblaðinu að víðar hafi orðið tjón vegna sjógangs í sama veðri:
Allar bryggjur í Hrísey mölbrotnuðu. Fólk varð að flýja húsin í Ólafsfirði fyrir hafrótinu.
Einkennileg frétt birtist í Morgunblaðinu þann 4.:
Sú nýlunda hefir borið við i sumar að rjúpur hafa skemmt matjurtagarða. Á Hólmavík hefir orðið að reka þær hópum saman úr görðum, hafa þær bitið kálið og eyðilagt þannig rófnatekju, þar sem þær hafa komið snemma í garðana. Í Hrútafirði er víða kvartað undan þessu. Í Bæ í Hrútafirði eyðilögðu rjúpur í sumar garð fyrir Guðmundi G. Bárðarsyni bónda þar. Átti hann þar einnig trjáplöntur ýmsar og sáu rjúpurnar alveg fyrir þeim. Ekki hefir heyrst fyrr getið um að rjúpur hafi verið svona nærgöngular á sumrum og vita menn ekki hvað veldur. En sumir segja að til fjalla sé nú mjög lítið um grænt rjúpnalauf. Líti út fyrir að það hafi dáið út i vetur.
Eldgos hófst í Kötlu eftir hádegi þann 12. Þá var veður bjart og víða sást því til gossins.
Þann 17. olli sviptivindur manntjóni í Ólafsvík. Vísir segir frá þann 22.:
Á fimmtudaginn var vildi til einkennilegt slys i Ölafsvik. Þar voru fimm menn að setja uppskipunarbát, en veður var hvasst og byljótt og snögglega gerði hvirfilbyl svo snarpan, að báturinn tókst hátt á loft, hvolfdist í loftinu og féll svo til jarðar en þrír mennirnir urðu undir honum. Tveir mennirnir urðu fyrir svo miklum áverkum, að þeir dóu báðir, annar í fyrradag en hinn i gærmorgun. Sá þriðji slapp óskemmdur, hafði lent alveg innundir bátnum.
Nóvember: Hægviðrasöm og góð tíð, einkum eftir þ.10. Hiti í meðallagi. Ekki var þó illviðralaust með öllu, því mikið landsynningsveður gerði suðvestanlands þann 19. Ekki getið tjóns en talið óhollt inflúensusjúklingum. Höfuðborgin og fleiri staðir á landinu lömuðust í meðan spænska veikin gekk yfir.
Nokkur snjór var í upphafi mánaðarins og tafði hann fjárrekstra í Grímsnesi. Einnig var þess getið í Morgunblaðinu þann 4. að bifreiðar hafi ekki komist hjálparlaust yfir skaflana á Hellisheiði - kannski í fyrsta sinn sem getið var um slíkt í blöðum? En ekki voru bílar öflugir á þessum tíma.
Vísir segir frá þann 27. nóvember:
Öndvegistíð er um land alt og hefir verið síðustu dagana, eins og indælasta vortíð. Frá Hnausum í Húnavatnssýslu var sagt frá því nýlega i símtali, að þar væru sóleyjar að springa út þessa dagana. Væri mikil bót að því, ef slík tíð héldist, meðan inflúensan er að ljúka sér af.
Desember: Góð tíð og hægviðrasöm. Hiti í meðallagi. Gott veður var á fullveldisdaginn 1. desember - en svalt. Hæðarhryggur yfir landinu. Myndin sýnir frétt Morgunblaðsins. Talsvert frost var fyrir jólin - einkum norðaustanlands. Jólin voru hvít suðvestanlands, Morgunblaðið segir frá:
Bezta veður má heita að hafi verið nú um jólin, nema 1. jóladag. Þá var hríðarbylur um morguninn, en rigning um kvöldið.
Lýkur hér umfjöllun hungurdiska um árið 1918. Í viðhenginu eru ýmsar tölulegar upplýsingar (torræðar sumar).
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 154
- Sl. sólarhring: 200
- Sl. viku: 2075
- Frá upphafi: 2412739
Annað
- Innlit í dag: 146
- Innlit sl. viku: 1820
- Gestir í dag: 134
- IP-tölur í dag: 127
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.