Áratugurinn 1911 til 1920 - 6

Við höldum áfram að reyna að átta okkur á tíðarfari áratugarins 1911 til 1920, fyrir 100 árum. Í þetta sinn horfum við á sólskinsstundir og úrkomu. Gallinn er sá að sólskinsstundafjöldi var hvergi mældur á landinu nema á Vífilsstöðum og úrkoma var heldur ekki mæld víða, t.d. vantar allar upplýsingar um úrkomumagn á Norðurlandi bæði 1911 og 1912. 

w-blogg040218a

Taflan sýnir sólskinsstundafjölda einstakra mánaða á Vífilsstöðum á árunum 1911 til 1920. Fáeina mánuði vantar. Óvenjusólríkir mánuðir eru merktir með gulu, en sólarlitlir með brúnum lit. Eins og sjá má eru brúnmerktir mánuðir margir - trúlega hafa mælingar eitthvað farið úrskeiðis í sumum þeirra. Mælingar vantar alveg í fáeinum mánuðum - en það er að vetri og ekki mikillar sólar að vænta - nema að við hefðum viljað fá skárri upplýsingar um sumrin 1920 og 1921. 

En það eru þó þrír sérlega sólríkir mánuðir á tímabilinu. Mars 1912, ágúst 1917 og svo september 1918. September 1918 var sérlega kaldur - en eins og við vitum er oftast sólríkt í norðanátt í Reykjavík. Júlí 1915 var líka mjög sólríkur norðanáttarmánuður. 

Tímabilið frá júlí 1912 og áfram út árið var sólarrýrt - þrátt fyrir að tíð hafi verið talin hagstæð um landið sunnan- og vestanvert. Þetta sumar varð risaeldgosið við Katmaifjall í Alaska (Novarupta) - náði það hámarki 6. til 7. júní. Aska frá því hefur borist upp í heiðhvolfið - og að auki hefur örugglega talsvert magn hennar sest að við veðrahvörf. Ef til vill hefur hefur áhrifanna gætt í daufara sólskini hér á landi. Eina sem ritstjóri hungurdiska hefur um þetta séð getið hér á landi er smáklausa sem birtist í fréttaritinu Suðurlandi 24. ágúst:

„Mistur það, sem hefir verið í lofti undanfarið er kent eldgosum í Ameríku.“ Þó ekki sé það beinlínis líklegt má samt velta vöngum yfir því hvort tengsl séu á milli eldgossins og norðanhretsins mikla sem gerði um mánaðamótin júlí/ágúst þetta sumar og getið hefur verið um hér á hungurdiskum áður. Eldgosið varð líka á þeim tíma árs sem líklegastur er til að valda truflunum á hafísbúskap í Norðuríshafi - einmitt þegar sólgeislun er að bræða hvað mest af ís er dregið fyrir. 

Sumarið 1913 var sérlega sólarrýrt á Vífilsstöðum - slær jafnvel út hið illræmda sumar 1983 enda með illræmdustu rigningasumrum sögunnar á Suður- og Vesturlandi. Sólarleysið í júní 1914 er líka einstakt - helst að minni á ömurðina í júní 1988. Sumarið 1914 var líka mikið óþurrkasumar syðra, en þó skárra en 1913 að því leyti að flesjurnar sem þó komu birtust síðsumars - en 1913 versnuðu óþurrkarnir eftir því sem á leið. Í fyrri pistli var minnst á hið afspyrnuvonda vor 1914. 

Næstu ár voru norðlægar áttir ríkjandi (með fáeinum undantekningum þó). Sólskinssundafjöldi var eðlilegur miðað við árin á undan að minnsta kosti. Það var ekki fyrr en 1919 að aftur er hægt að tala um þrálátt sumardimmviðri á Vífilsstöðum. 

w-blogg040218b

Taflan hér að ofan á að segja eitthvað um úrkomumagn á Suðurlandi - reyndar var hún ekki mæld nema á tveimur stöðvum, í Vestmannaeyjum og austur á Teigarhorni. En við getum samt náð einhverjum samanburði við fyrri og síðari tíma og reynum að setja hvern mánuð fyrir sig í röð mikillar (og lítillar úrkomu) í 145 ár. Varla er nokkur von til þess að í raun sé vitlegur munur á nálægum sætum. En við sjáum þó hvaða mánuðir skera sig úr annað hvort með mikla úrkomu eða þurrka. 

Dökkgrænu mánuðirnir eru óvenjuúrkomusamir, en þeir gulu óvenjuþurrir. Sérlega þurrt var í maí 1915 og júní 1916 og sömuleiðis í október 1914. Marsmánuðir 1915 og 1916 voru líka mjög þurrir, tíðarfari þeirra er almenn hrósað - nema illviðrasyrpunni í marslok 1916. Mjög vont hret gerði í hinum þurra apríl 1920 - rétt eftir páska. Nútíminn myndi kalla það páskahret. 

Fáeinir miklir úrkomumánuðir eru einnig á blaði - metúrkoma í október 1915 - sá mánuður var einnig methlýr - einn af sárafáum á kuldaskeiðinu fyrir 1920. Mars 1918 var einnig metúrkomumánuður á Suðurlandi - suðaustanátt þess mánaðar (og þess á undan) hreinsaði hafísinn mikla frá því fyrr um veturinn á burt á undraskömmum tíma - nánast eitt af kraftaverkum íslenskrar veðurfarssögu hversu greiðlega gekk að losna við hann - og sýnir hvað breytileiki tíðarfarsins er mikill og afgerandi á stundum. 

w-blogg040218c

Vesturlandstaflan er ekki alveg sammála þeirri frá Suðurlandi - varla von (nær aftur til 1885). Gulmerktu mánuðirnir eru þeir þurrviðrasömu. Sumarið 1915 var þurrt vestanlands og sömuleiðis megnið af árinu 1916 (nema janúar). Kannski væri einhverra vandræða að vænta nú á tímum fengjum við jafnþurrt ár og þá. Frá og með miðju ári 1920 skipti rækilega um og hrökk í úrkomugírinn (enda snerist vindur þá til eindreginna sunnanátta eins og áður hefur verið getið. 

Eins og áður er getið voru nær engar úrkomumælingar norðanlands - nema á Möðruvöllum í Hörgárdal frá og með september 1913. Ekki er hægt að bera saman við síðari tíma þannig að við látum okkur nægja að líta á mánaðartölurnar í mm - greinilega fulllágar.

w-blogg040218d

Sumarið 1916 var líka afspyrnuþurrt norðanlands - og úrkoma í ágúst 1915 líka mjög lítil - þrátt fyrir norðanáttir. Allmikil úrkoma var hins vegar í upphafi árs 1916 - snjóatíð - og júlí 1919 mjög blautur. Furðuúrkomulítið er hins vegar veturinn 1919 sem er frægur snjóavetur á Norðurlandi - eitthvað lítið hefur skilað sér í mælinn. 

Við höldum síðar áfram að þukla á áratugnum 1911 til 1920. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 124
  • Sl. sólarhring: 255
  • Sl. viku: 1089
  • Frá upphafi: 2420973

Annað

  • Innlit í dag: 114
  • Innlit sl. viku: 963
  • Gestir í dag: 111
  • IP-tölur í dag: 110

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband