Síberíuhæðin er öflug þessa dagana

Hæðin yfir Síberíu er öflug þessa dagana - þrýstingur rétt tæplega 1070 hPa í hæðarmiðju. Nokkuð frá metinu að vísu - 1083 hPa er nokkuð óumdeild tala - en 1085 hPa sem skráð er í flestar heimsmetabækur er það hins vegar ekki. 

w-blogg200118sa

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting og hita í 850 hPa-fletinum sem gildir á hádegi sunnudag 21. janúar. Þá á hæðin að vera um 1069 hPa í miðju yfir sléttlendinu austan Úralfjalla. Austan við hana situr kuldapollurinn Síberíu-Blesi þar sem frost er -40 stig í 850 hPa fletinum - og væntanlega enn meira neðar. Hlý fyrirstöðuhæð er hins vegar í háloftunum norðvestan hæðarmiðjunnar sem við sjáum. Miðja hennar er ekki fjarri litla græna blettinum við Novaya Zemlya. 

Sjávarmálsþrýstingurinn nýtur návistar háloftahæðar og svo kulda úr austri í neðri lögum þannig að sjávarmálsþrýstingur verður sérlega hár. - Í kuldapollinum miðjum eru veðrahvörf (og háloftafletir) hins vegar mjög lágir - og sjávarmálsþrýstingur ekki jafnhár og vestar.

Þessi hái þrýstingur er stundarfyrirbrigði og fellur fljótlega niður í hefðbundnari tölur, 1035 til 1050 hPa. 

Síberíuhæðin er á seinni árum farin að flækjast dálítið fyrir í veðursagnfræðitextum - stundum ískyggilega greinilegt að höfundar þeirra vita ekkert um hvað þeir eru að tala. Það er auðvitað ekkert við hæðina að sakast - en en eitthvað mætti samt skilgreina betur nákvæmlega hvaða fyrirbrigði er átt við í þeirri umræðu - kannski væri rétt að kalla það eitthvað annað. 

En tískan getur verið varasöm. Síberíuhæðartal nútímans hófst á að giska fyrir um 20 árum - sérstaklega eftir birtingu mjög merkilegra greina um ryk og salt í grænlandsískjörnum eftir að ísöld lauk. Þeir sem vilja fræðast meira um það - og hvernig Síberíuhæðin laumaði sér inn mættu líta á (nokkuð holótta) bók Paul Mayewski og Frank White, „The Ice Chronicles“ (2002). En sé á hæðina minnst í veðursögutextum er rétt að ganga varlega um. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 127
  • Sl. sólarhring: 362
  • Sl. viku: 2506
  • Frá upphafi: 2434948

Annað

  • Innlit í dag: 115
  • Innlit sl. viku: 2225
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 110

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband