18.1.2018 | 22:40
Ekki svo kalt - en samt
Þeir sem nenna fara nú á minniháttar spákortafyllerí með ritstjóra hungurdiska. Drykkjarföng eru fáeinar afurðir harmonie-líkansins (þess afbrigðis sem kallað er iga - eftir Íslandi og Grænlandi og tölva dönsku veðurstofunnar í kjallaranum á Bústaðavegi 7 reiknar). Öll kortin gilda um hádegi á morgun, föstudaginn 19. janúar.
Hér má sjá spá um hita á landinu og yfir sjónum umhverfis það og gildir eins og áður sagði um hádegi föstudag 19. janúar. Litir sýna hitann, þeir gulu og brúnu ofan frostmarks, en þeir bláu frost. Við -11 stiga frost er skipt yfir í fjólublátt og við -22 stig í grænt.
Eini græni bletturinn er ekki fjarri Veiðivötnum. Hér er margt sem má smjatta á. Sjáið til dæmis bláa hringinn í kringum fjólubláa bungu Hofsjökuls - og aftur fjólubláan kraga þar utan við. Þarna streymir loft niður eftir jöklinum og hlýnar um 1°C á hverja 100 metra í fallinu. Ámóta hlý rönd liggur meðfram vesturjaðri Vatnajökuls - þetta loft leitar á kalda loftið sem liggur yfir flatara hálendinu - en vindurinn sem því fylgir er ekki nægilega sterkur til að hreinsa það burt. Sama sjáum við í kringum Öræfajökul - þar nær hiti meira að segja upp í frostmark í röndinni.
Annað atriði sem vert er að taka eftir er hvernig kuldinn frá landinu streymir út frá Suðurlandsundirlendinu, köld tunga nær talsvert út á Selvogsbanka - sama á sér stað út af Mýrum og Borgarfirði - þar er spáð frosti talsvert út á Faxaflóa - en svo tekst sjónum loks að blanda upp. Enn er svipuð staða undan Mýrdalssandi og Meðallandi.
Fyrir norðan er hins vegar engan landvind að sjá - þrýstivindur stendur þar á land og sér um að halda landloftinu í skefjum.
Hér má sjá vindaspá fyrir Suðvesturland. Borgarfjarðarstrengurinn er greinilegur á Faxaflóa - hann er ekki alltaf sama eðlis - stundum er hann áberandi knúinn af þrýstivindi og nær þá norðan af heiðum, niður láglendið og á haf út. Var hann áður fyrr nefndur eftir veðurstöðinni í Síðumúla í Hvítársíðu - vindhraði þar var vísir á vind í flóanum. Hér má ef vel er að gáð sjá vind falla niður Síðufjallið (þar er örmjó blá ræma) - en í miðju Borgarfjarðarhéraði er hægur vindur - trúlega liggur þar kalt loft.
Það kalda loft sáum við reyndar á fyrsta kortinu - ef við reynum að rýna í það sýnist vera spáð -14 til -16 stiga frosti í námunda við Stafholtsey - en ekki nema -4 stigum uppi við hálsana - þar sem loftið er á niðurleið.
Á Suðurlandi liggur strengur niður Landsveit - sennilega herðir landslag eitthvað á honum - auk áhrifa þyngdaraflsins. Á leið þessa strengs til sjávar hægir hann aðeins á sér þar sem hann breiðir úr sér en herðir á aftur yfir sjónum þar sem viðnám er minna.
Á Suðausturlandi fellur vindur niður af Vatnajökli. Það er ekki oft sem þyngdaraflið fær að njóta sín sem aflgjafi vinds - enda eins gott - ekki þarf nema andartaksyfirsjón flotkrafta til að ná upp feykilegum vindstyrk. - Hér skal sérstaklega bent á að vindörvarnar beinast út frá Öræfajökli - vindur er austanstæður í hlíðum hans að vestan, en á verulegan vestanþátt í austurhlíðinni. Það sem kemur niður austurhlíðina sameinast vindi ofan af Breiðamerkurjökli og nær nokkuð á haf út. Það sem fer niður vesturhlíðina virðist lenda ofan á köldu lofti yfir Skeiðarársandi - flýtur yfir.
En loftið hreyfist ekki aðeins lárétt heldur líka lóðrétt. Þetta kort sýnir lóðréttan vindhraða í 925 hPa hæð yfir landinu - það er í um 600 metra hæð.Gulir og rauðir litir sýna niðurstreymi, en grænir og bláir uppstreymi. Lóðréttur vindur er að jafnaði miklu, miklu minni en sá lárétti - nema þar sem annað hvort fjallabylgjur, fallvindar eða skúraklakkar af einhverju tagi koma við sögu.
Brúnir litir einkenna fallvinda þá sem leka niður af jöklunum. Víðast hvar er fallhraði þeirra 0,2 til 1,0 m/s. Þeir sem best sjá (og stækka kortið) munu finna töluna 2,6 m/s í vesturhlíð Öræfajökuls. Það er sterkur fallvindur - sérstaklega þegar lárétti vindurinn er ekki nema 10 til 12 m/s. Sums staðar fylgjast brúnir og grænir borðar að - þannig er því t.d. varið við Hafnarfjall og Skarðsheiði. Velta má vöngum yfir ástæðunni - trúlega er um fjallabylgju að ræða (sem ritstjórinn vill reyndar líka kalla flotbylgju) - en við látum það vera hér að fimbulfamba um hana.
Næsta kort sýnir skynvarmaflæði við yfirborð. Þegar kalt loft snertir hlýrra yfirborð hitnar það og svo öfugt sé loftið hlýrra en yfirborðið. Hér sýna rauðir og brúnir litir jákvætt flæði - yfirborðið hitar loftið. Mælt er í wöttum á fermetra. Á Selvogsbanka er orkuflæðið undan ströndinni milli 100 og 200 W. Tvær (gamaldags) 100 kerta perur á hvern fermetra - það vill til að varmarýmd hafsins er mikil og af töluverðu að taka. Veturinn í heild tekur þó í. Á Faxaflóa má líka sjá áhrif kuldans sem streymir úr Borgarfirði.
Stærstu jákvæðu gildin á kortinu eru þó úti af Vestfjörðum þar sem við sjáum hvað gerist þegar heimskautaloft að norðan kemst út á hlýjan sjó. Skynvarmaflæðið ræðst ekki aðeins af hitamun heldur líka vindhraða.
Grænu litirnir sýna hvar landið er kaldara heldur en loftið - það á við um mestallt land - þegar líður á febrúar förum við að sjá blett og blett þar sem sólin hefur náð að hita land svo síðdegis að það nær aftur að hita loftið - það eru fyrstu merki komandi vors - vermisteinninn kemur í jörðina - eins og sagt var hér áður fyrr.
En er kalt eða ekki svo kalt? Jú, það er verið að spá meir en -10 stiga frosti víða um land. Vissulega er það kalt - en er það staðbundinn útgeislunarvandi eða er það loft sem um landið leikur kalt?
Til að fræðast um það lítum við á tvö kort. Það fyrra er þykktarkort evrópureiknimiðstöðvarinnar (heildregnar línur) - en litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Þykktin yfir landinu er í kringum 5160 metrar. Meðaltal janúarmánaðar er ekki fjarri 5240 metrum. Við erum því um 80 metrum undir meðaltali. Neðri hluti veðrahvolfs er því um fjórum stigum kaldari en meðallag. Þessi sáraeinfalda reikniregla (20 metrar = 1 stig) á vel við þegar hiti í öllum neðri hluta veðrahvolfs er metinn - en síður ef við reynum að teygja okkur til jarðar. Þá er hentugra að margfalda með 0,4. Gerum við það fáum við út mínus þriggja stiga vik.
Hitinn ætti því að vera í kringum -3 stig við strendur landsins. Hitakortið sýndi okkur að það er hlýrra en það yfir sjónum (hann kyndir vel) - en víðast hvar kaldara inn til landsins. Harmonie-líkanið getur sagt okkur hver hitinn í sýndarheimi þess er í 100 metra hæð yfir yfirborði. Með því að reikna mismun þess hita og hitans í 2 metra hæð getum við séð öll hitahvörf sem eru grynnri en það - en síður þau sem þykkari eru.
Síðasta kort á þessu fylleríi sýnir þennan mun.
Guli liturinn sýnir svæði þar sem 2 metra hitinn er hærri en sá í 100 metra hæð - en á bláu svæðunum er kaldara niður við jörð. Þar er hitahvörf að finna. Yfir Vestfjörðum, Norðaustur- og Austurlandi virðist loft vera sæmilega blandað - en víða um landið sunnan- og vestanvert munar miklu á hita í hæðunum tveimur.
Bakvið fjöll un landið suðvestanvert er munurinn allt upp í -15 stig, t.d. í grennd við Þingvelli þar sem finna mátti töluna -20 stig á fyrra korti. Á Sandskeiði ofan Reykjavíkur og þar í grennd má sjá töluna -12 stig. Áberandi dökkbláir blettir eru líka í Borgarfirði, en austanfjalls er eitthvað betri blöndun - hitahvörfin gætu þar verið eitthvað útsmurðari á þeim svæðum þar sem munurinn er mestur - enda er vindur heldur meiri.
Allt saman mjög fróðleg kort - hönnuð af Bolla Pálmasyni sem við að sjálfsögðu þökkum.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 241
- Sl. sólarhring: 392
- Sl. viku: 2620
- Frá upphafi: 2435062
Annað
- Innlit í dag: 215
- Innlit sl. viku: 2325
- Gestir í dag: 204
- IP-tölur í dag: 198
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.