26.11.2017 | 17:05
Af óljósum annálum
Ekki er ritstjóri hungurdiska jarðfræðingur og ekki heldur sagnfræðingur. Lesendur ættu að hafa það í huga renni þeir í gegnum það sem hér fer að neðan.
Svo virðist að samkomulag sé um að tvö eldgos hafi orðið í Öræfajökli frá landnámi, hið fyrra 1362 og hið síðara 1727 og að það fyrra hafi verið (risa-)stórt, en hið síðara lítið. Vísindamenn hvers tíma, allt frá 18.öld og til okkar daga hafa fjallað um gos þessi. Það er hins vegar athyglisvert að í eldri umfjöllunum eru þessi gos ekki þau einu sem nefnd eru.
Rökin fyrir því að þau hafi ekki verið fleiri eru út af fyrir sig sannfærandi og sá sem þessi orð ritar getur ekki leyft sér að halda því fram að þeim sé á einhvern hátt ábótavant. Flestir vita t.d. að ártöl í eldri annálum (og jafnvel þeim yngri) eru mörg hver ekki nákvæm - atburður sem var í raun einn getur þannig í annálum dreifst á mörg ár og þannig orðið að fleirum. Sömuleiðis er atburðum á einum stað alloft ruglað saman við eitthvað sem gerist annars staðar.
En það er samt þannig líka að stórir atburðir geta étið upp aðra. Þannig er það t.d. í veðurfarssögunni - og ekki bara á fyrri öldum. Reykjavíkurfárviðrunum tveimur, 1981 og 1991 er þannig oft illa ruglað saman, Hefðu þessi veður orðið á 14. öld - með tjóni sem var svipað í hvoru veðri um sig og ámóta lýsingum annálaritara hefðu ýmsir söguhreingerningatæknar ábyggilega ákveðið að telja þetta vera sama veðrið, jafnvel með góðum rökum. Svipað á við um tíðarfarslýsingar. Sá sem þetta ritar hefur ótölulega oft þurft að leiðrétta samslátt frostaletursins mikla 1881 og kuldavorsins og sumarsins 1882 í sama ártalið, ýmist 1881 eða 1882. Eru heimildir um veðurfar þessara ára þó ágætar og engin hætta ætti að vera á ruglingi.
Það er því mikilvægt að annálar (þó vitlausir séu taldir) séu sífellt lesnir upp á nýtt, eftir því sem bætir í reynslusarp nútímans - en séu ekki afskrifaðir um aldur og æfi sem einhver della - þó margir hljóti hins vegar að vera það.
Upplýsingar um Öræfajökulsgosið 1727 eru áreiðanlegar (þó lítillega skeiki á dagsetningum í heimildum). Upplýsingar um stórgosið 1362 eru hins vegar af skornum skammti. Gjósku- og setrannsóknir auk forleifaathugana hafa bætt ýmsu við ritaðar heimildir og vitneskja um rúmmál gosefna er talin nokkuð áreiðanleg. Sömuleiðis hefur nokkuð verið grafið í óbeinar upplýsingar sem fram koma í fornbréfum. Eitthvað af því hefur sá sem þetta skrifar lesið og að honum þá læðst grunur um að ekki séu öll kurl komin til grafar varðandi atburðarás við jökulinn á 14., 15. og 16. öld.
[Myndin er úr ritinu Íslanzkir annálar sem Stofnun Árna Magnússonar gaf út 1847.
Lítum á annála frá 14. öld þar sem Öræfajökuls er getið - eða óvenjulegs vikurfalls (sem tengt hefur verið gosi hans 1362) - smámunasamir beðnir velvirðingar á stafsetningu:
1332 Gottskálksannáll: Sást eldur logandi í austur átt nær um allt Ísland er bera þótti í sömu átt og jafn nær alls staðar er menn hyggja verið hafa í Knappafellsjökli.
1341 Skálholtsannáll: Annar eldur var uppi í Hnapparvallarjökli, hinn þriðji í Herðibreið yfir Fljótsdals héraði og voru allir jafnsnemma uppi.
1350 Flateyjarannáll: ellds upp koma i Hnappafells joki (svo) og myrkur svo mikið at eigi sá vegu vm middegi ok al eyddis allt Litla hérað.
1362
Annálabrot frá Skálholti: Eldur uppi í 3 stöðum fyrir sunnan og hélst það frá fardögum til hausts með svo miklum býsnum að eyddi allt Litlahérað og mikið af Hornafirði og Lónshverfi svo að eyddi 5 þingmanna leiðir. Hér með hljóp Knappafellsjökull fram í sjó þar sem var 30 tugt djúp með grjótfalli, aur og saur að þar urðu síðan sléttir sandar. Tók og af 2 kirkjusóknir með öllu að Hofi og Rauðalæk. Sandurinn tók í miðjan legg á sléttu en rak saman í skafla svo að varla sá húsin. Öskufall bar norður um land svo að sporrækt var. Það fylgdi og þessu að vikrinn sást reka hrönnum fyrir Vestfjörðum að varla máttu skip ganga fyrir.
Gottskálksannáll: Eldsuppkoma í 6 stöðum á Íslandi. Í Austfjörðum sprakk í sundur Knappafellsjökull og hljóp ofan á Lómagnúpssand svo af tók vegu alla. Á sú í Austfjörðum er heitir Úlfarsá hljóp á stað þann er heitir Rauðalæk og braut niður allan staðinn svo að ekki hús stóð eftir nema kirkjan.
1366 Oddverjaannáll: Ellds upkoma í Litla héraði og eyddi allt héraðið: höfðu þar ádur werið 70 bæir: lifði eingin kvik kind eptir utan ein öldruð kona og kapall.
1367 Lögmannsannáll: Ellds upp koma í Litla héradi og eyddi allt héraði.
---
Mikils vikureks er einnig getið í tengslum við gos í Tölladyngjum (Bárðarbungu):
1354 Skálholtsannáll: Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýrdal af öskufallinu en vikrina rak allt vestur á Mýrum og sá eldinn af Snæfellsnesi.
1357 Gottskálksannáll: Eldsuppkoma í Trölladyngjum. Leiddi þar af ógnar miklar og dunur stórar. Öskufall svo mikið að nær alla bæi eyddi í Mýdalnum og víða þar nálægt gerði mikinn skaða. Vikrareki svo mikill austan til að út frá Stað á Snæfellsnesi rak vikrina og enn utar.
1360 Flateyjarbókarannáll: Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli, en vikrina rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snjófellsnesi.
Nú er spurningin hvort þetta eigi allt saman að færast á Öræfajökul og allt á sama árið 1362? Flestir þessir annálar eru ritaðir löngu eftir atburðina, Annálsbrot frá Skálholti þó talin samtímaheimild - og neglir sjálfsagt niður rétt ártal.
Sá sem þetta ritar telur jafnlíklegt að vikurgosið mikla í Öræfajökli hafi átt nokkurn aðdraganda, kannski hafi minni jökulhlaup og órói ýmis konar verið viðloðandi um allt að 20 ára skeið áður en aðalatburðurinn (vikurgosið mikla) varð 1362. Sömuleiðis var þar eitthvað um að vera eftir gosið. Rauðalækur sem eyddist að nokkru 1362 var enn kirkjustaður 1387 og Jón Þorkelsson segir í samantekt um kirkjustaði í Austur-Skaftafellsýslu sem birtist í Blöndu II:
Ekki vita menn, hvenær Rauðalæk og Rauðalækjarkirkju tók af með öllu, en óvíst er, að það hafi orðið fyrri en á ofanverðri 15. öld. Nálægt 1480 sýnist muni hafa komið mikið jökulhlaup yfir Öræfin þó að þess finnist ekki beint getið, - og þá litur svo út, að Eyrarhorn hafi farið af, og er ekki ósennilegt, að Rauðalækur hafi lent i því flóði. Tveim árum seinna (1482) er Magnús biskup Eyjólfsson að efla Hofskirkju með eignum Eyrarhornskirkju, sem þá hlýtur að vera nýfarin af. Þá sýnist Sandfell ekki enn vera orðið staður.
Menn hafa ákveðið að hér hafi verið um Skeiðarárhlaup að ræða (sem vel getur verið).
Jón segir svo í kaflanum um Svínafell - en jörðin virðist hafa rýrnað mjög um 1340:
Af þessu er og að taka þann lærdóm, að þá (1343) hafi kirkjan í Svínafelli verið fallin af. Hún hefir að vísu ekki átt minna en hálft heimaland, og hefir biskup þá lagt þann helming landsins til Hofskirkju, því að biskupsforræði var á að Svínafelli. Verða þessi snöggu umskipti um Svínafell að eins skiljanleg á þann hátt, að bæ og kirkju að Svínafelli hafi tekið af í jökulhlaupi nokkru fyrir 1343, bærinn síðan verið færður og byggður upp í öðrum stað, en kirkjuskuldin tekin af, sökum stórskerðingar á jörðinni, og ef til vill eyðingar mikils hluta sóknarinnar. Þetta kemur og vel heim við það, að Skálholtsannáll og Gottskálksannáll geta einmitt um hlaup úr Knappafellsjökli bæði 1332 og 1341.
Var þetta hlaup líka úr Skeiðará? Er hún allsherjarblóraböggull á svæðinu ásamt Grímsvatnagosum? Erum við slegin einhverri blindu?
Næst fréttist af gosi í Öræfajökli 1598. Þorvaldur Thoroddsen (eldfjallasaga) segir að Ólafur Einarsson nefni í bréfi gos í Grímsvötnum og Öræfajökli sem valdið hafi jökulhlaupi og öskufalli. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem Grímsvötn eru nefnd í heimildum. Sigurður Þórarinsson afskrifar gos í Öræfajökli þetta ár.
Á 19. öld voru gos í Öræfajökli nefnd að minnsta kosti tvisvar, 1823 og 1861. Rangt mun hafa farið með staðsetninguna - en hvar nákvæmlega þessi eldsumbrot voru er ekki alveg ljóst. Hlaup sem kom í Skeiðará 1861 mun vera eitt hið stærsta og einkennilegasta sem vitað er um þar - en ekki er vitað hvar gosið var sem því olli. Spurning er hvort gosið hafi á einhverjum afbrigðilegum stað í Vatnajökli - t.d. norður af Öræfajökli.
Látum fréttir af nítjándualdargosunum fylgja þessum pistli:
Úr bréfum Magnúsar Stephensen til Finns Magnússonar. Safn Fræðafélagsins iv. bindi, 1924
Viðeyjarklaustri 5-3 1823 (Magnús Stephensen): (s39)
Þó berst sú flugufregn eftir kalli að austan, að Öræfajökull sé tekinn til við að brenna, en því ei trúandi ...
26-6 1861 (Þjóðólfur)
24.f. mán. fanst her syðra megn jökul- og brennisteinsfýla og stóð vindr hér af austri, en miklu megnari var þó fýlan austrum Síðu og Meðalland, og var þar tekið eptir því, að silfr allt tók kolsvartan lit, hversu vel sem það var vafið og geymt í traföskjum og kistum. Sáust þá, um Meðalland og Álptaver, reykjarmekkir upp úr Hnappafells- eða ÖræfaJökli, og þó eigi marga daga þareptir. Þenna dag hljóp Skeiðará, og hefir hún nú eigi hlaupið um næstliðin 10 ár, en er þó tíðast, að hún láti eigi nema 6 ár milli hlaupa og stundum eigi nema 5, ræðr því að líkindum að hlaup þetta hafi orðið afarmikið; enda sjást og nú meiri merki þess heldr en vant er, því víða vestr með sjó er rekinn birkiviðr hrönnum saman, og er það sjáifsagt eptir hlaupið og virðist hafa farið yfir Skaptafellsskóga neðanverða. þá eru og hrannr með sjó af hvítum vikr, en þess hafa aldrei sezt merki fyr eptir hlaup úr Skeibará, en aptr eru þykk lög af þeim vikr víða í Öræfasveit, eptir hin fyrri stórhlanp úr Hnappafellsjökli er þar hafa svo mjög bygðum eytt og graslendi; því ræðr að líkindum, að hlaup hafi nú einnig komið úr jöklinum sjálfum, en áreibanlegar fregnir skortir um allt þetta þar sem engar ferðir hafa getað orðið austan yfir Skeiðarársand til þessa, og tvísýnt, að hann verði fær fram eptir sumri.
Mun ítarlegri lýsingar eru til á þessu risavaxna jökulhlaupi og fjallar Sigurður Þórarinsson um þær í bók sinni Vötnin stríð - mæli með lestri hennar.
Það er mikilvægt að láta eldgosin 1362 og 1727 ekki blinda sig gagnvart hættum á jökulhlaupum úr Öræfajökli - þegar ís bráðnar verður til vatn - það vatn getur eftir atvikum lekið út undan jöklinum hægt og sígandi eða safnast þar saman í miklu magni. Mjög mikilvægt er að fylgjast með öllum yfirborðshallabreytingum í öskjunni. Sigketill er merki um bráðnun og vatn - breytingar á honum og umhverfi hans næstu daga og vikur geta sagt til um það hvort hann sé til kominn af því að vatn hafi runnið undan eða hvort sigið sé tilkomið vegna bráðnunar einnar - sömuleiðis hvort það hellist úr honum. Þegar ketill hefur myndast aukast líkur á því að vatn safnist saman í framhaldinu. Stöðvun leka getur líka verið alvarlegt merki um vatnssöfnun.
Þó sérfræðingar telji yfirgnæfandi líkur á því að vatn það sem bráðnað hefur til þessa hafi þegar runnið fram eru þær líkur ekki 100 prósent. Einhverjar líkur eru á því að undir jöklinum séu milljónir rúmmetra af vatni sem bíða framrásar í litlu jökulhlaupi - sem er þó nægilega stórt til þess að taka brýr á svipstundu - í skammdegismyrkri er slík staða sérlega hættuleg. Mjög litlar líkur eru á því að vatnsmagnið sem bíður séu tugir milljóna rúmmetra, en ekki samt núll. Hlaupi slíkt magn fram er um meiriháttar hamfarir að ræða.
Þó áhyggjur af hugsanlegu eldgosi séu að sjálfsögðu eðlilegar er ekki gott að umræður um það geri lítið úr hinni minni ógn, jökulhlaupum sem geta orðið án þess að eldos verði - eða jafnvel mörgum mánuðum eða árum áður en það varður.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 27.11.2017 kl. 10:20 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 16
- Sl. sólarhring: 211
- Sl. viku: 981
- Frá upphafi: 2420865
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 862
- Gestir í dag: 13
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Athyglisvert og sterklega líklegt að svona margra alda viðburðir séu á einhverjum tíma, taldir tveir eða fleiri þeir sömu. Svo oft hefur maður staðið sjálfa sig og aðra í litlum færslum,ruglast á líkum atburðum sem eru þá ígildi munnmæla fyrri alda.
Helga Kristjánsdóttir, 27.11.2017 kl. 00:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.