Í vari fyrir vestanvindabeltinu

Nú eru þrír fellibyljir á Atlantshafi. Veðurfræðingar eru stöðugt spurðir að því hvort slíkir geti komist til Íslands. Einfalda svarið er einfalt: Fellibyljir sem slíkir komast ekki til Íslands - þeir eru hitabeltisfyrirbrigði sem ekki komast ósködduð í gegnum vestanvindabeltið. Hið flóknara: Þó kemur alloft fyrir að hlýindin og rakinn sem fellibyljum fylgja geta orðið að „fóðri“ fyrir snarpar lægðir. 

Þannig lægðir hafa alloft komist til Íslands og stöku sinnum valdið foktjóni - jafnvel miklu. Sömuleiðis hefur einnig komið fyrir að miklar rigningar hafa fylgt leifum fellibylja hér við land, jafnvel þó vindtjóns hafi ekki gætt. 

Fyrir allmörgum árum (2001) birtist grein í tímaritinu „Journal of Climate“ þar sem höfundar töldu fjölda þeirra fellibylja sem umbreytast í kerfi á norðurslóðum - þeirrar gerðar sem ritstjóri hungurdiska kallar gjarnan „riðalægðir“. Sömuleiðis veltu þeir vöngum yfir þeim skilyrðum sem ýttu undir slíka ummyndun - og á hvaða tíma árs líkur væru mestar á henni.

Niðurstöður voru í grófum dráttum þessar (raðtölur ekki þeirra):

1. Um 46% fellibylja/hitabeltisstorma Atlantshafs ummyndast í riðalægðir. Líkindi á því að það gerist eru meiri seint á fellibyljatímanum (október) heldur en snemma (júlí). 

2. Ummyndun á sér oftast stað milli 30°N og 40°N snemma og seint á fellibyljatímanum, en á 40°N til 50°N seint í ágúst og í september. Samkeppni tveggja orsakaþátta veldur þessu. Annars vegar er síðsumarsupphitun sjávar, myndunar- og viðhaldssvæði fellibylja stækkar svo lengi sem sjávarhiti hækkar. Í september fer svæðið aftur að dragast saman. Riðalægðamyndun breiðist hins vegar til suðurs þegar kemur fram í september og nær þá um tíma einnig til þess svæðis þar sem fellibyljir geta myndast (áður en það hörfar aftur til suðurs).

3. Þegar fellibyljir byrja ummyndun getur styrkur þeirra breyst snögglega, ýmist þannig að lægðin grynnist eða dýpkar. Rúmur helmingur þeirra fellibylja sem ná að ummyndast í djúpar lægðir á uppruna sinn í sjálfu hitabeltinu - sunnan hvarfbaugs, gjarnan nærri Grænhöfðaeyjum eða á ámóta breiddarstigi. [Hreinræktaðir fellibyljir eru líklegri en bastarðar]. 

4. Um 50% af styrkbreytingu má skýra með þeim tíma sem tekur lægðina að komast á milli fellibylja- og riðasvæðanna. Bæði grunnar og djúpar hitabeltislægðir geta dýpkað eftir ummyndun, en þær grunnu (miðjuþrýstingur 990 hPa eða meiri) þurfa þá að komast í riða áður en 20 klst eru liðnar frá því að þær yfirgefa fellibyljasvæðið.

Þetta hljómar nokkuð tæknilega - en er skýrt betur út í nokkrum pistlum sem ritstjóri hungurdiska skrifaði fyrir allmörgum árum og finna má á vef Veðurstofunnar undir fyrirsögninni fellibyljir (1-7). 

En lítum á stöðu dagsins (föstudags 8. september).

w-blogg080917a

Kortið er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á föstudag 8. september. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við sjáum heimskautaröstina hringa sig um norðurhvel - svæði þar sem jafnhæðarlínur eru þéttar og þykktarbratti er jafnframt mikill. 

Mikið lægðardrag liggur til suðurs eftir Norður-Ameríku austanverðri og nær nærri því suður á fellibyljaslóðir - en ekki alveg. Söðullinn milli vestanáttarinnar stríðu og hægrar austanáttar - og svo norðan- og sunnanátta (vestan og austan við) situr á kortinu ekki langt norður af fellibylnum Irmu - ekkert mjög miklu munar að lægðardragið norðan við kræki í bylinn og bjargi Flórída - en spár segja þó að það muni ekki gerast. (Að vísu að lokum - en um seinan, langt inni á meginlandinu). 

Fellibylurinn smái, Katia, er alveg í vari, og Jose berst til vesturs með hægri austanáttinni í háloftunum. En mjög veik norðvestanátt er ekki langt fyrir norðaustan hann, í kringum veika lægð sem situr talsvert fyrir sunnan Asóreyjar. Austanáttin sem ber Jose er því e.t.v. ekki varanleg. Spár vita ekki enn hvert leiðir hans liggja í framtíðinni. Hann er enn að dóla sér á spákorti sem gildir eftir 10 daga - án þess að hafa valið Bandaríkin eða hættulegt riðasvæðið norðurundan. Hann gæti þess vegna dottið út í röstina um síðir og borist hingað eða til Evrópu - eða beðið bana yfir svölum sjó áður en þangað er komið. 

Það er ekki hægt að yfirgefa þetta kort án þess að benda á hlýja hrygginn yfir Norður-Kanada. Þar nær 5700 metra jafnþykktarlínan norður fyrir 60. breiddargráðu - hlýtur að vera óvenjulegt í september. Enda fréttist þar af meira en 30 stiga hita í dag. Hins vegar er kalt á eyjunum - gaddfrost.  

Greinin sem vitnað var til:

Hart, R.E og J. L. Evans, 2001: A climatology of the extratropical transition of Atlantic tropical cyclones. J. Climate, 14, 546–564.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1053
  • Sl. sólarhring: 1111
  • Sl. viku: 3443
  • Frá upphafi: 2426475

Annað

  • Innlit í dag: 940
  • Innlit sl. viku: 3096
  • Gestir í dag: 912
  • IP-tölur í dag: 845

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband