Meira af hitametinu á Egilsstöðum

Við lítum nú aðeins á nýja septemberhitametið sem sett var á Egilsstöðum á föstudag (þann 1.). Eins og áður er komið fram sló það út eldra met sem sett var á Dalatanga þann 12. árið 1949.

Þann dag fór hiti mjög víða yfir 20 stig um landið norðaustan- og austanvert, en hámarksskotið á Dalatanga virðist ekki hafa staðið mjög lengi því hiti á athugunartímum var lengst af á bilinu 13 til 15 stig, en þó 19,0 stig kl.18. Ekki er þó sérstök ástæða til að efast svo mjög um réttmæti hámarksins því hiti var meiri en 20 stig á Seyðisfirði allan daginn, frá morgni til kvölds og var hæst lesinn 24,0 stig kl.14 (15 að okkar tíma). Enginn hámarksmælir var á staðnum þannig að við vitum ekki hvort hitinn þar fór hærra. Við flettingar í 20.aldarendurgreiningunni bandarísku kemur í ljós að þessi dagur 12.september 1949 á næsthæsta septemberþykkt safnsins, 5600 m - nokkuð sem gerir metið líka trúverðugt. 

En að mælingunni á Egilsstöðum.

w-blogg050917aa

Blái ferillinn sýnir hæsta mínútuhita hvera 10-mínútna sólarhringsins - þar á meðal þann hæsta, 26,4 stig sem mældist skömmu fyrir kl.16. Hiti hafði farið niður í 2,9 stig (lægsta lágmark) kl.5 um morguninn þannig að sveiflan var mjög stór. Hitinn var ofan við 20 stig frá því um kl. 12:30 til klukkan 17:40. Efir kl. 19 var hann kominn niður í um 15 til 16 stig og hélst á því bili fram yfir miðnætti. 

Rauði ferillinn á myndinni sýnir daggarmarkið. Við sjáum að það féll nokkuð um miðjan daginn sem bendir til þess að þurrara loft (og hlýrra) að ofan hafi blandast niður í það sem neðar var. Sólarylur hefur sjálfsagt hjálpað til að ná þeirri blöndun. Rakastig (grænn ferill - kvarði til hægri) fór þá niður í 25 prósent - svipað og þegar kalt og þurrt marsloft að utan er hitað upp innanhúss. 

w-blogg050917b

Blái ferillinn á síðari myndinni er sá sami og á fyrri mynd, en rauður ferill sýnir nú hita uppi á Gagnheiði, í 950 metra hæð yfir sjávarmáli. Um morguninn var þar hlýrra en niðri á Egilsstöðum og dægursveiflan miklu minni. Hámarkshitinn fór þó í 15,7 stig, rúmri hálfri klukkustund síðar en hitinn varð hæstur á Egilsstöðum.

Græni ferillinn sýnir mismun hita stöðvanna. Athugið að kvarðinn sem markar hann er lengst til hægri á myndinni og er hliðraður miðað við þann til vinstri sem sýnir hita stöðvanna. Hitamunurinn var mestur rétt um 12 stig - sem er ívið meira en búast mætti við af hæðarmun þeirra eingöngu. Minna má á að hiti á fjallstindum er gjarnan eins lágur og hann getur orðið miðað við umhverfi í sömu hæð - alla vega ef vind hreyfir. Hiti í 950 metra hæð beint yfir Egilsstöðum gæti hafa verið tæplega 17 stig þegar best lét.

Þó meir en 15 stiga hiti sé sjaldséður á Gagnheiði í september var hér ekki um met að ræða þar því 17,6 stig mældust 13. september árið 2009. Þá var hámarkið á Egilsstöðum ekki „nema“ 19,6 stig - hefði kannski átt að vera 28 (við bestu blöndunaraðstæður eins og nú)? En það varð ekki. Hins vegar fór hiti í meir en 20 stig á allmörgum stöðvum þennan dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti. Eru veðurfræðingar ekki að bera saman epli og appelsínur með samanburði á gömlu kvikasilfursmælum og nýjum sjálfvirkum rafrænum mælum? Það kemur greinilega fram á meðfylgjandi myndriti að 26,4°C hitaskotið stendur í skamman tíma og spurning hvort kvikasilfursmælir hefði sýnt sama hita. 

Að auki má benda á vísindagreinar/fyrirlestra sem sýna að nýir sjálfvirkir rafrænir hitamælar mæla í flestum tilfellum allt að 3°C hærri hita en gömlu kvikasilfursmælarnir.

Snúast hitamælingar Veðurstofunnar ekki lengur um hlutlaus vísindi?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.9.2017 kl. 21:52

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Rétt er að það er mikil skammsýni að leggja hefðbundnar mælingar með kvikasilfursmælum alfarið af - sérstaklega á stöðum þar sem enn eru ekki vandræði með að fá athugunarmenn. Þannig var afleitt að það skuli hafa verið gert í Reykjavík. Breyting á mæliaðferðum skapar alltaf einhverja ósamfellu í athugunarröðum. Fljótlega (vonandi í september) mun Veðurstofan gefa út ritgerð þar sem sjálfvirkar og hefðbundnar mælingar eru bornar saman á stöðum þar sem báðir hættir hafa verið uppi um hríð. Munur á meðalhita ársins er reyndar sáralítill, en sums staðar kemur fram reglubundinn meðalhitamunur í einstökum almanaksmánuðum - ástæður geta verið margþættar og eru þær helstu raktar í skýrslunni. Þær raðir sem mest truflast af breytingunni varða hámarkshita sólarhringsins (og ystu útgildi hans). Hér á landi er sá hámarkshiti ekkert notaður við reikninga á meðalhita (gagnstætt því sem er sums staðar annars staðar í heiminum). Athuganir framleiðanda sjálfvirku hitamælistöðvanna (og annarra) benda til þess að í glampandi sólskini og algjöru logni (og þá er átt við algjört logn) geti verið þónokkur munur á hámarki nýju stöðvanna og þeirra gömlu, allt að 2 til 3 stig þegar mest er. Hér á landi er hins vegar ekki algengt að saman fari algjört logn og glampandi sólskin þannig að þessi mikli munur mun vera sjaldgæfur hér á landi - en ber auðvitað við. Sjálvirku mælarnir hafa hins vegar verið bornir beint saman við kvikailfursmæla og hugbúnaði þeirra fylgir reikningsleg tregða sem sett er á mælinguna þannig að þeir hermi kvikasilfursmæla sem best. Það er þannig mismunandi umbúnaður sem skapar þann mun sem er. Gömlu skýlin eru tregari heldur en hólkarnir utan um nýju mælana. Hiti nýju mælanna hækkar ívið hraðar að morgni sólardaga heldur en sams konar skynjara sem komið er fyrir í skýli - en fellur líka ívið hraðar á kvöldin. Þar sem sjálfvirkir skynjarar hafa verið í skýlunum sjálfum ásamat kvikasilfursmælum er munur nánast enginn.


En hámarkshitamælingar hafa alltaf verið vandkvæðum bundnar og lítt hefur verið á raðir slíkra mælinga að treysta - á tímabilinu 1943 til 1964 var veggskýlum hægt og bítandi skipt út fyrir fríttstandandi skýli. Við þá aðgerð varð víða brot í mælingum - sérstaklega hámarksmælingum. Mörg vandamál fylgdu veggskýlunum, sérstaklega var erfitt að staðla umhverfi þeirra. Samanburðarmælingar sem gerðar voru við skiptin á nokkrum stöðvum sýndu þessi vandamál glögglega. Þau tengdust einkum hámarksmælingunum sem og hitamælingum sem gerðar voru kringum hádegið og síðdegis. Þess vegna var ákveðið að breyta aðferðum við reikning á meðalhita þannig að 1956 hætt var að nota mælingar í kringum hádegið nema þar sem athugað var á 3 stunda fresti allan sólarhringinn auk þess sem sett voru upp stöðluð skýli á öllum stöðvum. Bætti þetta mjög meðalhitareikninga - en samræmingar var auðvitað þörf aftur í tímann og hefur verið unnið að henni síðan.


Sem stendur er ekki ástæða til að hafa mjög miklar áhyggjur af mælingum sjálfvirku stöðvanna - við sem unnið höfum með gögn beggja gerða stöðva vitum nokkurn veginn um kosti þeirra og galla. Breytingar eru því miður oft óhjákvæmilegar - algjörlega óhjákvæmilegar - en óheppilegt er þegar breytingar eru gerðar í fljótræði eða af ástæðulausu.

Nýtt septemberhitamet á Egilsstöðum kann að vera eitthvað álitamál - en sama á líka við um eldra met. Svo vill þó til að í september 1949 var rétt nýbúið að skipta um skýli á Dalatanga

Trausti Jónsson, 7.9.2017 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 407
  • Frá upphafi: 2343320

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 368
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband