Sumardagafjöldi í Reykjavík og á Akureyri 2017

Auk þess að reikna út sumareinkunn fyrir Reykjavík og Akureyri telur ritstjóri hungurdiska einnig það sem hann kallar sumardaga á þessum stöðum. Ber síðan saman við fyrri ár. Skilgreiningu hans á sumardegi má finna í viðhengi - hún er nokkuð „grillmiðuð“, telur helst daga þegar úrkoma er lítil síðari hluta dags, hiti fremur hár, og ekki alskýjað. 

Þetta er aðallega hugsað til gamans frekar en gagns og mætti auðvitað gera allt öðru vísi. Sumarvísitalan sem fjallað var um í pistli í gær (2. september) gefur ekki kost á samanburði milli stöðva - í henni felst eingöngu samanburður milli einstakra sumra á sama stað. Sumardagatalningin er hins vegar samanburðarhæf - og sé litið á allt tímabilið sem hér er undir kemur í ljós að þeir eru nærri tvöfalt fleiri á Akureyri heldur en í Reykjavík (sem kemur Akureyringum víst ekkert á óvart). 

w-blogg030917a

Reykjavíkurmyndin hér að ofan sýnir að á árunum fyrir 1960 voru þessir sumardagar í Reykjavík í kringum 20 að jafnaði, flesta sjáum við hér 1958, 1960 og 1950. Síðan er fátt um fína drætti í meir en 25 ár, ekkert sumar náði fleirum en 20 dögum. Alhraklegast hið fræga 1983, þar sem einn dagur er á blaði. Mikill munur þótti að fá sumarið 1987, svo ekki sé talað um 1991 þegar dagarnir urðu aftur loks fleiri en 30 á einu sumri.

Aftur seig á ógæfuhlið 1992, en frá og með 1997 fór að batna og frá 2003 tók við óheyrilega góður kafli sem stóð samfellt til ársins 2013 - toppaði 2010, 2011 og 2012 þegar sumardagarnir urðu um 50 talsins. Þó 2013 virðist liggja lágt voru sumardagar þess þó fleiri en að jafnaði á kuldaskeiðinu. Síðustu árin fjögur hafa náð mjög góðum árangri þó aðeins skorti upp á toppinn. 

Rauða línan sýnir 10-árakeðjur og fjölgunin mikla sést þar mætavel. - En höfum í huga að þessi fjölgun er auðvitað ekkert tryggð í framtíðinni - vel gæti aftur snúist til fyrri tíðar. 

Eins og áður sagði eru sumardagar að jafnaði mun fleiri á Akureyri heldur en í Reykjavík.

w-blogg030917b

Minni munur er á 10-árakeðjunum heldur en í Reykjavík. Við sjáum þó að síðustu 20 til 25 árin hafa sumardagar þó verið fleiri á Akureyri að jafnaði en var á árum áður. Meðaltalið er nú í kringum 45 dagar á sumri, en var lengi ekki nema 35 til 40. Á fyrri tíð komu nokkur afburðasumur. Þar eru efst á blaði 1955 og 1976 - bæði tvö mikil rigningasumur syðra. Sumardagarýrast á Akureyri var 1979 og svo líka 1993, 2015 var líka rýrt. 

Þess verður að geta að oft koma allmargir sumardagar í september á Akureyri - og hann er ekki liðinn í ár. Meðalfjöldi eftir ágústlok er um 5 dagar. Voru flestir 16 talsins 1996 - enn gæti því tala ársins í ár (39 á ritinu) hækkað nokkuð og bætt stöðu 2017 eitthvað. Í Reykjavík er síðsumarmeðalfjöldinn aðeins 1 dagur, en voru þó 12 sem bættust við eftir 1. september 1958.  

Við lítum að lokum á hvernig Reykjavík hefur á tímabilinu verið að „vinna á“ Akureyri.

w-blogg030917c

Rauði ferillinn sýnir 10-árakeðjuna á Akureyri, þá sömu og á fyrri mynd), og sú bláa er endurtekning á línunni á Reykjavíkurritinu. Græna línan sýnir hins vegar hlutfallið. Þegar verst lét á árunum í kringum 1980 var meðalfjöldi sumardaga í Reykjavík aðeins fimmtungur af fjöldanum á Akureyri, en var fyrir 1960 tæpur þriðjungur. Á síðustu árum hefur hlutfallið hins vegar farið upp í um 80 prósent - og það þrátt fyrir að sumardögum hafi einnig fjölgað á Akureyri. Upp á síðkastið hafa þeir verið ámóta margir í Reykjavík og þeir voru á Akureyri fyrst á tímabilinu sem hér er fjallað um. 

Þó efast megi um ágæti þessara reikninga sýna þeir þó það sem flestum þeim sem hafa fylgst lengi með veðri finnst. Að eitthvað miður gott hafi gerst í sumarveðurlagi suðvestanlands upp úr 1960 - og það ekki „jafnað sig aftur“ fyrr en undir aldamótin síðustu. Við notum gæsalappirnar auðvitað vegna þess að vel má vera að ástandið síðustu 20 árin sé það afbrigðilega - og það muni um síðir jafna sig og hverfa til hins „eðlilega“ (eins uppörvandi sem sú hugsun er - eða hitt þó heldur). 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.11.): 444
  • Sl. sólarhring: 473
  • Sl. viku: 2598
  • Frá upphafi: 2410242

Annað

  • Innlit í dag: 390
  • Innlit sl. viku: 2326
  • Gestir í dag: 368
  • IP-tölur í dag: 353

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband