Á Hólmi

Á árunum 1961 til 1983 var starfrækt veðurstöð á Hólmi fyrir ofan Reykjavík. Byrjað var að mæla úrkomu þar í júní 1961 en tveimur árum síðar var hitamælingum bætt við. Þær héldu síðan áfram í 20 ár, þar til í júní 1983, og var úrkoma síðan mæld út árið en eftir það lögðust mælingar af. 

Stöðin á Hólmi var í 87 metra hæð yfir sjávarmáli, 35 metrum hærra en stöðin á Veðurstofutúni og auðvitað lengra frá sjó. Nokkuð sléttlendi er í nágrenni stöðvarinnar og þar er tiltölulega frostamikið í hægum vindi og björtu veðri. 

 s030_holmur_1981-07-07

Hitamælaskýli og úrkomumælir á Hólmi 7. júlí 1981. Myndin er eign Veðurstofu Íslands. Hér sést sléttan við Hólm mjög vel - eftir henni rennur lygn kuldaá í björtu og hægu veðri ofan úr heiðalöndunum í kring. 

Strax eftir að úrkomumælingar hófust kom í ljós að úrkoma á Hólmi er mun meiri en niðri í bænum (þá var athugað á Reykjavíkurflugvelli) og þau ár sem mælt var þar var ársmeðalúrkoman 1215 mm, en ekki nema 791 mm á Veðurstofunni. Munar ríflega 50 prósentum. 

Munur á ársmeðalhita stöðvanna á tímabilinu reyndist vera 0,9 stig, en munur á meðalhámarkshita þeirra var 0,5 stig, en munur á meðallágmarkshita hins vegar 1,8 stig. 

w-blogg290817a

Myndin sýnir hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita hvers mánaðar á Hólmi og í Reykjavík á árunum 1964 til 1982. Bláu súlurnar sýna Reykjavík, en þær brúnu Hólm. Hæsta hámarkið er hærra á Hólmi í mánuðunum maí til september, en annars lítið eitt lægra. Lágmarkið er hins vegar lægra á Hólmi en í Reykjavík í öllum mánuðum. Þar mældist meira að segja frost í júlí. Einu sinni á því tímabili sem myndin sýnir(-0,4 stig þ.28. 1964), en varð reyndar mest í síðasta júlímánuðinum, 1983, en þá fór hiti þar niður í -1,7 stig aðfaranótt þess 18. Svo mældist þar líka frost í júlí fyrsta sumar mælinganna (-0,7 stig, þann 25. 1963, líka utan myndar), Ekkert frost mældist í Reykjavík í þessi skipti - og hefur reyndar aldrei mælst þar í júlí (kemur síðar).

Það vakti töluverða athygli á sínum tíma þegar frostið í Reykjavík fór í -19,7 stig þann 30. janúar 1971. Hafði ekki mælst svo mikið þar síðan 1918 - og aldrei síðan. Þá sömu nótt fór frostið á Hólmi niður í -25,7 stig. Það er ekki oft sem svo mikið frost hefur mælst á Suðvesturlandi. Fáein dæmi frá Þingvöllum, reyndar - og svo frá frostavetrum fyrri tíðar. Suðvesturlandsmetið líklega sett á Hrepphólum í janúar 1881, -29,8 stig. 

w-blogg290817b

Myndin sýnir meðalfrostdagafjölda hvers mánaðar í Reykjavík (gráar súlur) og á Hólmi (brúnar) 1964 til 1982. Oftar frystir á Hólmi í öllum mánuðum. Tíðnimunurinn er hlutfallslega mestur að sumarlagi. Frostnætur voru að meðaltali 9 í maí á Hólmi á viðmiðunartímabilinu, en ekki nema 4 í Reykjavík, svipaður munur er í september. 

En svo kemur að óþægilegra máli.

w-blogg290817c

Myndin sýnir mun á mánaðarmeðalhita í Reykjavík og á Hólmi 1963 til 1983. Lágmörkin í ferlinum eru að sumarlagi, en hámörkin að vetri. Árstíðasveifla regluleg. En við sjáum þó greinilega að munurinn er meiri fyrri hluta tímabilsins heldur en þann síðari. „Þrepið“ er sérlega áberandi að sumarlagi. Hvað gerðist 1973 til 1974?

Jú, veðurstöðin í Reykjavík var flutt frá flugvellinum upp á Veðurstofutún. Við það kólnaði í Reykjavík miðað við Hólm og munur á milli stöðvanna minnkaði. Þetta þýðir auðvitað að til að ná samræmi í Reykjavíkurröðinni yfir flutninginn þarf að lækka tölur þar fyrir 1974 (eða hækka þær sem á eftir koma). Það hefur reyndar verið gert - en e.t.v. ekki nægilega mikið eins og vel má sjá á næstu mynd.

w-blogg290817d

Hér hefur verið búin til 12-mánaða keðja hitamunar stöðvanna. Þrepið 1973 er afar greinilegt. Að baki rauða ferlinum er hitinn í Reykjavík eins og hann var birtur í Veðráttunni á sínum tíma - en sá blái sýnir samanburð stöðvanna sé sú hitaröð sem nú er í umferð er notuð. Jú, þessi breyting minnkar muninn, en varla þó nægilega mikið. 

Nú væri auðvitað freistandi að ganga alla leið og einfaldlega lækka eldri flugvallartölur um þau 0,2 stig sem þarf til viðbótar til að munurinn verði ámóta allt í gegn. En hér er rétt að ganga hægt og varlega um. Við vitum ekki um áreiðanleika Hólmsraðarinnar - við höfum einfaldlega trúað henni. Rétt er áður en lengra er haldið að kanna hann frekar - og auðvitað bera Reykjavíkurröðina saman við fleiri stöðvar í nágrenninu. Skyldi sá samanburður skila ámóta þrepi - eða gerðist eitthvað á Hólmi líka? Svo var líka töluverður munur á veðurfari 7. áratugnum og þeim 8. Skyldi sá munur koma við sögu? 

En takið eftir því að það er ekkert verið að ræða um að breyta mælingum á Reykjavíkurflugvelli - aðeins er verið að samræma langtímaröð Reykjavíkurstöðvarinnar. Þetta er tvennt ólíkt. Það er munur á hita á flugvellinum og á Veðurstofutúni - líka nú. 

En ákveðnar hættur fylgja alltaf samræmingu - það er sérlega varasamt að fara síðan að nota það sem samræmt hefur verið til frekari samræmingar - stundum verður að gera það - en hættur leynast þar á hverju horni svo úr getur orðið ein allsherjar samræmingarpest. 

Það var Karl V.E. Norðdahl sem athugaði á Hólmi, Salbjörg Norðdahl athugaði allra síðustu mánuðina. 

Í viðhenginu má sjá meðalhitamun Reykjavíkur og Hólms í einstökum mánuðum ársins á tímabilunum tveimur (1963 til 1972 og 1974 til 1983). 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 87
  • Sl. sólarhring: 256
  • Sl. viku: 2349
  • Frá upphafi: 2410338

Annað

  • Innlit í dag: 72
  • Innlit sl. viku: 2103
  • Gestir í dag: 67
  • IP-tölur í dag: 64

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband