Höfuðdagurinn

Höfuðdagurinn (kenndur við höfuð Jóhannesar skírara) er á þriðjudaginn. Um þetta leyti árs lýkur sumri á norðurslóðum og þáttaskil verða oft í veðri. Enn eru þó rúmar þrjár vikur til jafndægra á hausti og nærri því tveir mánuðir eftir af íslenska sumrinu, tvímánuður hófst á þriðjudaginn var (þ.22). 

Varla sér þó enn til vetrar á veðurkortunum.

w-blogg280817a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina kl. 18 á höfuðdaginn. Þarna má sjá nokkuð öflugan kuldapoll úti af norðausturhorni Grænlands - kannski vex veturinn út frá honum? 

Hér á landi er gert ráð fyrir skammvinnri en heiðarlegri norðanátt á þriðjudag. Eins og sjá má er hún ekki köld, rétt að ljósgræni þykktarliturinn nái að þekja landið - hann tilheyrir frekar sumri en hausti. 

Hæðarhryggur er í vestri - en hann á að berast hratt til austurs og kerfið sem er þar fyrir vestan á að ná undirtökum strax á fimmtudag. Lítið samkomulag er hjá reiknimiðstöðvum um nákvæma aðkomu þess og örlög. Í þessari spárunu reiknimiðstöðvarinnar er gert ráð fyrir miklu hlýindaskoti austanlands - en við látum vera að velta okkur upp úr þeim hugsanlega möguleika að sinni. 

Örin lengst til vinstri bendir á leifar fellibylsins Harvey yfir Texas. Þær hreyfast lítið því hæðarhryggurinn öflugi þar fyrir vestan ver hann að mestu fyrir atgangi vestanvindabeltisins. 

Undan ströndum Virginíu má sjá hlýja bylgju - hún er að valda ákveðnu hugarangri vestra. Hugsanlega verður þar til nýr hitabeltisstormur (Irma) - jafnvel strax í nótt eða á mánudag. Að vísu myndi vestanvindabeltið grípa hann nánast samstundis, keyra á haf út og umturna yfir í hefðbundna lægð, en það er samt óþægilegt að hafa vaxandi kerfi sem þetta í landsteinum - ekki síst eftir að hafa horft upp á skyndivöxt Harvey. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, íslenska sumarið er furðu langt miðað við hve norðarlega landið er (tveir mánuðir eftir af því!). En svona er nú Ísland sérstakt land - í alla staði (stórasta land í heimi!)!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 28.8.2017 kl. 03:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg120425b
  • w-blogg120425a
  • w-blogg080425b
  • w-blogg080425a
  • w-blogg060425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 894
  • Frá upphafi: 2461212

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 778
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband