Smávegis af 1815 og 1816

Þegar leitað er í hrúgum af drasli finnast stundum löngu gleymdir hlutir - sem ekkert var verið að leita að. Þetta á líka við um þær hrúgur af skrám sem stöðugt safnast upp í tölvum ritstjóra hungurdiska. Við eina slíka leit rakst hann á myndina hér að neðan. Hún var upphaflega gerð vegna erlendar fyrirspurnar og varðaði hitafar áranna 1815 og 1816. 

Í apríl 1815 varð gríðarlegt hamfaragos í fjallinu Tambóra í Indónesíu, það stærsta slíkt á síðari öldum. Árið eftir var tíð daufleg í austanverðri Norðurameríku og sömuleiðis á stórum svæðum í Evrópu. Talað var um sumarleysisárið. Veðurlag mun víðar hafa farið úrskeiðis þetta sama ár og hefur gjarnan verið tengt gosinu. Ekki er ástæða til að efast um það og má finna um það nokkrar sannfærandi greinar og fleiri bækur en eina. 

Tengillinn neðst á þessari síðu nær í ágæta svissneska samantekt um gosið og veðurfarslegar afleiðingar þess. Þar (og víðar) er bent á að nokkrum árum áður, 1809, varð annað gos sem líklega var líka nægilega stórt til að geta haft áhrif á veðurlag. Þegar ritstjórinn síðast vissi var ekki enn búið að negla niður hvar í heiminum það gos hefði orðið - nokkuð dularfullt mál - og ekki nema tvöhundruð ár rúm síðan. 

Heimildir um veðurfar á Íslandi um þetta leyti eru nokkuð rýrar. Dagbækur þær sem til eru eru ekki auðlæsilegar - nema hitamælingar séra Péturs Péturssonar á Víðivöllum í Skagafirði - sem notaðar eru við gerð myndarinnar hér að neðan. 

hitavik_1815-1816

Lárétti kvarðinn sýnir mánuði áranna 1815 og 1816 en sá lóðrétti hitavik. Notuð eru tvö samanburðartímabil. Annars vegar árin 1801 til 1830, þau vik ættu að sýna hvernig hitafarið hefur blasað við samtímamönnum, en hins vegar eitthvað sem er nær okkar tíma 1981 til 2010.

Við sjáum strax að fyrstu fjórir mánuðir ársins 1815 virðast hafa verið sæmilega hlýir, síðan tekur við tímabil sem ekki er mjög fjarri meðallagi, nema hvað ágústmánuður hefur verið mjög kaldur. Kuldar taka svo við í desember 1815 og veturinn var kaldur fram á vor (apríl). Maí og júní 1816 virðast hafa verið bærilega hlýir, en sumarið harla svalt eftir það - nóvember var einnig kaldur. 

Fram kemur í rituðum heimildum að heyskapur hafi gengið allvel sunnanlands þessi tvö sumur þótt grasvöxtur hafi ekki verið mikill það síðara. Í ágúst þeim kalda 1815 gekk á með stórrigningum nyrðra - en grasmaðkur spillti túnum syðra. Almennt að segja fá þessi ár ekki sem verst umtal syðra - en síðra norðaustanlands. 

Þess er ekki getið í prentuðum heimildum að séð hafi á sól - sem það hefur þó vafalítið gert - mest þá um haustið ef marka má reikninga sem og reynslu af Pinatubogosinu 1991. Tamboragosið var mest í apríl 1815 eins og áður sagði og þess varla að vænta að það hafi farið að hafa áhrif hér á landi fyrr en seint um haustið. Nú er það örugglega svo að áhrif gosa eru misjöfn - það er ekki aðeins stærð þeirra sem er áhrifavaldur heldur einnig eðlið, efnasamsetning gjóskunnar, staðsetning og einnig skiptir vafalítið máli á hvaða tíma árs gosið verður.

Það eru þó talin almenn sannindi að gos í hitabeltinu valdi hlýindum í heiðhvolfi - meiri þar suðurfrá en á norðurslóðum. Afleiðingin er sú að styrkur hvarfbaugsrastarinnar vex og líkur verða meiri á því að hún geti dregið heimskautaröstina á Atlantshafssvæðinu suður á bóginn og aukið styrk hennar fyrsta vetur eftir gos. Sé það rétt ætti lægðagangur sunnan Íslands að verða meiri þann hinn sama vetur - lágþrýstinorðanáttir þá meiri hér á landi en venjulega - en fremur hlýtt - alla vega illviðrasamt - á meginlandi Evrópu. 

Kuldarnir vestanhafa og austan sumarið 1816 ættu þá að hafa stafað af því að vestanáttir vetrarins hafi haldið áfram að bleyta Evrópu, en norðanáttir náð til norðausturhluta Bandaríkjanna. - En um þessi atriði má lesa í svissnesku skýrslunni sem vísað er í hér að neðan (afrita og líma þarf tengilinn til að virkja hann). 

Tambora and the “Year Without a Summer” of 1816.  A Perspective on Earth and Human Systems Science.

http://www.geography.unibe.ch/unibe/portal/fak_naturwis/e_geowiss/c_igeogr/content/e39624/e39625/e39626/e426207/e431531/tambora_e_webA4_eng.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

nú veit bég ekki hvar á imdónesíji gosið var en tæplega haft áhrif érlendis vegna staðsetníngar er sunan miðbaugs að mestu svo veðurkerfinn ættu að leita í suður

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 15.8.2017 kl. 07:14

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Óhemju intressant lesnging og fræðandi um áhrifin um allan heim.

Halldór Jónsson, 15.8.2017 kl. 18:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 615
  • Sl. sólarhring: 773
  • Sl. viku: 3738
  • Frá upphafi: 2430266

Annað

  • Innlit í dag: 548
  • Innlit sl. viku: 3141
  • Gestir í dag: 528
  • IP-tölur í dag: 501

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband