Hásumar á norðurhveli

Við lítum nú sem oftar á stöðuna í veðrahvolfi á norðurhveli. Þar ríkir hásumar um þessar mundir. Spákortið hér að neðan gildir síðdegis þriðjudaginn 1. ágúst og er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg300717a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og má af þeim ráða vindstefnu og styrk. Litir sýna þykkt, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það fer lítið fyrir bláu litunum - á þessum tíma árs hverfa þeir nærri því - þó mjög sjaldan alveg. Mörkin milli grænu og gulu litanna eru við 5460 metra, nærri meðalþykkt hér á landi á þessum árstíma. Heldur viljum við þó vera í þeim gulu. 

Hér við land má sjá myndarlegan og hlýjan hæðarhrygg yfir Grænlandi, en mikið lægðardrag austan og sunnan við land. Væg norðaustanátt ríkir hér í veðrahvolfi miðju. 

Inn á kortið hafa verið lauslega merktir tveir bláir hringir. Þeir eiga að sýna tvo vestanstrengi. Sá nyrðri og þrengri liggur í kringum Norðuríshafið. Um hann hringsóla nokkrir snarpir kuldapollar. Syðri hringurinn afmarkar hina hefðbundnum heimskautaröst - þar nærri ganga lægðir og lægðadrög til austurs. 

Á milli hringjanna er ólreglulegra svæði þar sem er jafnvel tilefni til austanátta - sérstaklega þar sem lengst er á milli. Þessi tvískipta staða er algeng á norðurhveli. 

Einhverjar hreyfingar eru á hringjunum og þeir nálgast og fjarlægjast á víxl auk þess að „anda“. Nú er um vika í þann tíma að afl þeirra beggja sé í lágmarki sumars. Það er þó einungis meðaltímasetning - hún er ekki sú sama frá ári til árs. Auk þess eru hringirnir ekki endilega í lágmarksvirkni á sama tíma. 

Venjulega er minni hringurinn fljótari að hefja undirbúning árstíðaskipta - þegar sól lækkar ört á lofti á norðurslóðum. Þegar líður á ágúst fara fellibyljir og annar „hvarfbaugshroði“ að auka dælingu á raka úr neðri lögum og upp í efri hluta veðrahvolfs - þá losnar þar mikill dulvarmi sem belgir hæðarfleti upp og bratti á milli hlýtempraða og tempraða beltisins vex - það bætir í syðri hringinn á myndinni - og hann aflagast. Hvort tveggja eykur líkur á snertingu hringjanna og lægðir taka að dýpka. Að meðaltali rýkur tíðni slíkra samskipta upp í kringum höfuðdag - nánast í þrepi. - Þau geta þó orðið bæði fyrr og síðar. 

Þó spáð sé norðlægum áttum hér á landi á næstunni eru þær þó ekki sérlega „illkynjaðar“ og verða það ekki nema að einhver kuldapollanna í Norðuríshafinu sleppi út úr hringnum - eða þá að hringurinn sjálfur nálgist okkur mun meira en nú er - sem gæti svosem gerst eftir viku eða svo. - En eins og áður sagði er tilhneiging til vægra austanátta í háloftum þar sem fjarlægðin milli hringjanna er hvað mest - með slíkum áttum gæti sæmilega hlýtt loft borist til landsins. 

Að sögn er evrópureiknimiðstöðin þó helst á því að norðlægar áttir veri ríkjandi í ágúst - en ástæðulaust er að velta sér upp úr slíkum spám - þeim skjátlast svo oft. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.11.): 36
  • Sl. sólarhring: 375
  • Sl. viku: 2430
  • Frá upphafi: 2411056

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 2100
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband