Af hlýindunum

Í dag komst hiti í 27,7 stig á Végeirsstöðum í Fnjóskadal. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu frá því að 28,0 stig mældust á Eskifirði þann 9. ágúst árið 2012. Harla óvenjulegt. Heildarhitabylgjuuppgjör verður þó að bíða miðnættis (og lengur verði ritstjórinn farinn að sofa þegar það berst). 

En öllu svalara var á höfuðborgarsvæðinu, hiti í Reykjavík komst þó í 16.9 stig - fór ekki alveg jafnhátt og í gær. Sjávarloft komið úr suðaustri yfir Bláfjöllin hefur haldið hitanum niðri. Uppi í Hvalfirði og Borgafirði hefur það ekki átt jafn greiðan aðgang - suðaustur- og suðurfjöllin þar sjónarmun hærri en þau sem skýla Reykjavík. 

Staðan sést mjög vel á háloftaathugun úr Keflavík á hádegi.

w-blogg250717a

Hér má lesa vind, hita og raka upp undir 5 km hæð (lóðréttur ás). Eins og venjulega á háloftaritum liggja jafnhitalínur skáhalt upp yfir myndina - frá vinstri til hægri. Rauða línan sýnir þá hitann (sú bláa daggarmark). Við jörð er hiti um 12 stig, fellur svo hratt upp í um 700 metra (yfir Bláfjallahæð) og er þar nærri 6 stigum. Þá koma hitahvörf - hiti stígur ört með hæð og litlu ofar er hann orðinn meiri en við jörð - og væri hægt að draga loftið þaðan og beint niður til jarðar myndu 20 stigin sýna sig (það lesum við af rauðu strikalínunum) - loft í 3 km hæð yrði um 30 stiga heitt væri hægt að ná því niður (sem ekki er hægt). 

Lengst til hægri á myndinni má sjá (daufar) vindörvar sem sýna suðaustanáttina, hún sýnist um 15 m/s nærri hitahvörfunum - flæðir yfir Bláfjöllin - og lyftir hvörfunum væntanlega eitthvað yfir fjallshryggnum. Þar fyrir ofan er hiti væntanlega í kringum 6 stig - orðið 12 stiga heitt yfir byggðum Reykjavíkur og nágrennis. En sólin hjálpar til að koma 12 stigunum upp í 16 þegar komið er á þann „leiðarenda“. 

Þetta (frekar) kalda loft er ekki fyrirferðarmikið að sjá á kortum.

w-blogg250717b

Hér má sjá greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegisstöðunni í 925 hPa-fletinum á hádegi. Flöturinn er í um 780 metra hæð yfir Reykjavík. Blettur af 5 til 6 stiga heitu lofti liggur hálfstíflaður við Suður- og Suðvesturland - en yfir landinu er 17 stiga hiti í þessari hæð - hitahvarfalaust þýðir það 17+8 = 25 stig þar undir. 

En kaldi bletturinn virðist hörfa til vesturs og á morgun á hlýja loftið að vera komið niður í Bláfjallahæð. 

w-blogg250717c

Spáin gildir kl. 21 annað kvöld (miðvikudag) - en þá verður enn kaldara loft farið að nálgast Norðurland - ekki þó komið alla leið. 

En gefur þetta þá meir en 20 stiga hita á höfuðborgarsvæðinu á morgun (miðvikudag)? Það er alls ekki víst - því önnur hitahvörf - enn þynnri gætu legið úti á Flóanum (engin Bláfjöll til að verja gagnvart því lofti taki það upp á því að flæða inn). Nema að það loft myndi e.t.v. ekki ná upp í Bláfjöll.

Harmonie-spá Veðurstofunnar sem gildir kl.18 á morgun (miðvikudag) sýnir þetta örþunna lag vel.

w-blogg250717d

Örin bendir á leið þess inn sunnanverðan Faxaflóa og segir líkanið það vera 9 stig. En fyrst þarf að hreinsa kalda loft dagsins í dag á brott (með vindi og sól) - takist það er von um hlýindi - en aðeins ef flóaloftið kemur ekki til skjalanna áður en búið er að losna alveg við það. Hin harmonie-spáin - sú danska gefur hlýindunum enn minni tíma en þessi.

En það er svo annar möguleiki á fimmtudag - kannski verður hann hafgolulítill? 

Þess má geta - svona í framhjáhlaupi - að í gær (mánudag) fór hiti í Stykkishólmi í 20,9 stig. Það líður ár og dagur á milli þess að hiti nái 20 stigum þar á bæ - enn sjaldnar en í Reykjavík og gerðist síðast fyrir 10 árum, 7. júlí 2007. Líka í ofurhitabylgjunni í ágúst 2004 - rétt marði þá 20 stigin og líka í hitabylgjunni eftirminnilegu 9. júní 2002. Þá voru liðin 22 ár frá því að hiti komst í 20 stig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.11.): 86
  • Sl. sólarhring: 369
  • Sl. viku: 2480
  • Frá upphafi: 2411106

Annað

  • Innlit í dag: 73
  • Innlit sl. viku: 2140
  • Gestir í dag: 71
  • IP-tölur í dag: 70

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband