Er kalt? Eða er kannski hlýtt?

Það vekur nokkra furðu meðal eldri veðurnörda að talað sé um núlíðandi júnímánuð sem kaldan hér í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska er meðal þeirra - finnst mánuðurinn hafa verið nokkuð hlýr. Hvað skyldi valda misræmi sem þessu? 

Almennt er engin bindandi skilgreining á því hvað er kalt og hvað er hlýtt. Það hlýtur þó að einhverju leyti að ráðast af því við hvað er miðað. Ekki er fráleitt að taka mið af því sem „venjulegt“ er á þeim tíma árs sem fjallað er um. 

Oft er þar litið til svonefndra þriðjungamarka. Búinn er til listi yfir viðmiðunaratburði, í þessu tilviki mánaðarmeðalhita. Listanum er raðað eftir hita og skipt jafnt á þriðjunga. Lendi mánaðarmeðalhiti í efsta þriðjungi er sá mánuður talinn hlýr - lendi hann í neðsta þriðjungi er hann talinn kaldur, en afgangurinn (líka þriðjihluti fjöldans) er talinn í meðallagi. 

Eins og viðbúið er skiptir hér máli hvaða tímabil er miðað við. Í ljós kemur að í tilviki júníhita í Reykjavík skiptir það afgerandi máli. 

Lítum á mynd.

Þriðjungamörk júníhita í Reykjavík

Lóðrétti ásinn sýnir mánaðarmeðalhita, en sá lárétti lengd viðmiðunartímabils - árafjöldi afturábak frá 2016. Árin 9, 2008 til 2016, eru notuð sem fyrsta tímabil. Þá telst hiti undir 9,9 stigum lágur (í þriðjungaskilningi), en yfir 10,9 stigum hár. 

Myndin sýnir vel að júnímánuðir síðustu 15 ára hafa verið mjög afbrigðilegir sé litið til lengri tíma. Hér á árum áður taldist júní hýr ef hiti náði 10 stigum og ekki kaldur nema meðalhiti væri undir 9 stigum. 

Nú vitum við ekki hvernig fer með júní í ár. Þegar þetta er skrifað lifa rúmir 8 dagar af mánuðinum. Meðalhiti fyrstu þriggja viknanna er 10,0 stig í Reykjavík. Segjum sem svo að sá hiti haldist til mánaðamóta. Þá kæmi upp sú staða (þykka línan á myndinni) að mánuðurinn teldist kaldur ef við veljum síðustu 15 ár sem viðmiðunartímabil, í meðallagi ef við veljum 9 eða 12 ár, eða allt að 40 árum (nema 15), en sé miðað við lengri tíma en 40 ár (eins og við gamalnördin gerum) telst hann hlýr. 

Núlíðandi júnímánuður er að tiltölu hlýjastur suðvestanlands, annars staðar er hann kaldari, nægilega kaldur til þess að hann á varla möguleika á að teljast hlýr jafnvel þótt gripið sé til langrar reynslu - aftur á móti á hann enn möguleika á að teljast í meðallagi (að þriðjungatali) sé langt viðmiðunartímabil notað. Á Akureyri stendur mánuðurinn nú í 52. sæti af 82 á lista, rétt ofan neðri þriðjungamarka - og þar með í meðalástandi. Neðri þriðjungamörk júnímánaðar alls eru hins vegar 8,6 stig þar á bæ, 0,3 stigum ofan við meðalhita fyrstu þriggja viknanna. 

En af þessu má e.t.v. draga þann lærdóm að veðurfarsbreytingar séu farnar að hafa áhrif á væntingar heilla kynslóða - og þær virðist jafnvel meiri innanhugar en utan - og stundum finnst manni þær jafnvel mestar hjá þeim sem reyna að gera lítið úr utanhugarbreytingunum - en það er kannski útúrsnúningur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hugtökin kalt eða hlýtt eru auðvitað huglæg, fólk notar þau eftir því hvað þeim finnst. Flestum finnst til dæmis kalt ef hitinn í sumarmánuði fer varla yfir 10 stig suma daganna. Ég held að það hafi verið hlutskipti landsmanna á nær öllu landinu þennan mánuðinn.

Sé hins vegar litið á tölfræðina er hægt að ljúga(?) með tölum - og gera samanburð við eitthvað mun verra (lengi má böl bæta að benda á eitthvað verra). Ég held að við getum talað um tímabilið frá 1961-90 (viðmiðunartímabil Veðurstofunnar) sem afbrigðilega kalt. Með því má finna úr að síðastu 17 árin eða svo hafi verið afbrigðilega hlý - þó svo að það hafi verið svipað og tímabilið 1931-60.

Og ef við miðum ekki við það versta, heldur það sem við höfun vanist á þessari öld (á 17 ára tímabili!) þá er óhætt að segja að júnímánuður hafi verið kaldur um allt land, þ.e. undir meðallagi.

Þannig að bæði innanhugar og utanhugar hefur júní verið kaldur það sem af er mánuðinum.
Og samkvæmt spám mun þetta sama ástand haldast út mánuðinn.

Sem sé kaldur mánuður!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 23.6.2017 kl. 06:22

2 identicon

Takk fyrir þetta, Trausti. Var að horfa á 9 daga spá ECMWF miðað við 500 mb og svo er að sjá að kuldapollur norðan Svalbarða færist heldur í aukana og þokist jafnvel eitthvað suður á við. Spáin gerir ráð fyrir að samfara þessu verði loft heldur svalt hér á stóru svæði í grennd við Ísland. Svo hafa margir mér vitrari (sem eru náttúrulega nær allir ef það er skoðað ;-) ) horft með ugg á þá niðurstöðu margskonar rannsókna að selta sjávar hér í grennd við okkur minnki og það dragi samhliða úr krafti þeirrar greinar Golfstraumsins, sem leikur um okkur og gerir þetta sker byggilegt. Sagt er að þetta hangi eitthvað saman við að jökulís Grænlands bráðni sem aldrei fyrr samhliða bráðnun hafíss á og umhverfis norðurskautið Nú veit ekki vesalingur minn hvað er rétt í þessu öllu, ekki er allt satt sem kemur á prenti, en hvað líst þér í þessu efni?

Guðbr. Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 23.6.2017 kl. 12:53

3 identicon

Gallinn er sá,Trausti,að það er vitlaust gefið. Meðalhitinn er reiknaður yfir sólarhringinn,og þegar skýjað er og lítil útgeislun um nætur,þá getur mælst þokkalegur meðalhiti þó menn skjálfi Gras og kartöflur geta svo haft það bara gott,en það erorðið úrelt í þjóðfélaginu að miða hamingjuna við svoleiðis.

Ó

Ólafur Stefánsson (IP-tala skráð) 23.6.2017 kl. 16:47

4 identicon

Cut the crap Trausti, júnímánuður 2017 er kaldur mánuður í samanburði við bræður hans á 21. öldinni. Það er óhjákvæmilega farið að kólna á Íslandi vegna náttúrulegra sveiflna sem m.a. koma fram í hafinu. Framundan eru fyrirsjánlega ný hafísár og nýtt kuldaskeið. Þú þarft ekki að hafa mig fyrir því Trausti, nóg að líta á niðurstöðu nýrrar vísindarannsóknar.

http://www.vg.no/nyheter/innenriks/klima/forskerne-har-avsloert-nok-en-flik-av-golfstroemmens-hemmeligheter-og-det-er-ikke-sikkert-du-vil-like-det/a/24070851/#xtor=CS6-6-[24070851%20forskerne_har_avsloert_nok_en_flik_av_golfstroemmens_hemmeligheter_og_det_er_ikke_sikkert_du_vil_like_det]

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 23.6.2017 kl. 16:55

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Jú, Þorkell - enginn hlýindasvipur á norðurslóðakortum næstu dagana. En um lengri framtíð vitum við lítið. En venjan hefur verið sú að hafi menn fundið einhverja áreiðanlega reglu til að byggja á bregst hún við fyrsta tækifæri.  

Trausti Jónsson, 23.6.2017 kl. 20:28

6 identicon

N-Atlantshafið er á leið í neikvæðan AMO  fasa og hafið sunnan Íslands fer kólnandi og seltumagn lækkandi. Auðvitað hafa síðustu 17 ár verið hlýrri enda AMO búinn að vera í sterkum jákvæðum fasa. Skv fræðimönnum ætti AMO að vera kominn í fullan neikvæða fasa um 2020. Þannig að svölu sumrin eru komin aftur.

Hermundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.6.2017 kl. 06:13

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Ólafur: Hiti og „gott veður“ fara ekki endilega saman - enda eltir ritstjóri hungurdiska tískuna með sumarvísitölu sinni sem flokkar sumur og sumarmánuði eftir hita, úrkomu, úrkomutíðni og sólakinsstundafjölda - hitinn hefur þar aðeins fjórðungsvægi.

Trausti Jónsson, 24.6.2017 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.11.): 139
  • Sl. sólarhring: 443
  • Sl. viku: 2293
  • Frá upphafi: 2409937

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 2047
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 106

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband