Fornís - hvað varð um hann (ef eitthvað)?

Hér kemur mikil langloka - ekki fyrir hvern sem er. Við skulum byrja á því að líta á mynd 4 í ritgerð (bók) Lauge Koch um Austurgrænlandsísinn (skýrara eintak í viðhengi). 

koch_fig4

Myndin sýnir hugmynd Koch um „tegundaflokkun“ íssins í Norðuríshafinu, Síberíuís, Norðurskautsís og svo Fornís („Paleorystic“). Koch taldi að hingað til lands kæmu þá þrjár aðaltegundir hafíss. Í fyrsta lagi vetrarís sem myndast hefði sama ár í Austurgrænlandsstraumnum, (eldri ís myndaður þar er þá farinn hjá til Suður-Grænlands), í öðru lagi fjölær ís myndaður við Síberíu og í þriðja lagi þykkari og enn eldri fjölær ís frá svæðinu um norðurskautið. 

Norðurskautsísinn væri upprunninn í ferskvatni frá Norður-Ameríku, en Síberíuísinn úr fljótum Austur-Síberíu. Á síðari árum hefur komið í ljós að töluvert er um hvirfla og iður í straumnum sem kemur út um Framsundið (milli Grænlands og Svalbarða) og í Austurgrænlandsstraumnum - og fullyrt er að þær blandi saman ístegundum þannig að Norðurskautsísinn komist þar jafnvel austur fyrir Síberíuís - og að allt lendi í einum graut. Jafnstreymi Kochs eigi sér ekki stað í raunveruleikanum. 

Koch taldi Síberíuís mun algengari hér við land heldur en Norðurskautsísinn. 

Til allrar hamingju (fyrir okkur) hefur lítið sést af ís hér við land um áratuga skeið - og minna en svo að nokkur geti lengur greint hér hvaðan að ís kemur - sé hann eldri en nokkrir mánuðir. Það litla sem hér hefur sést er einæringur. 

Á þessari öld hafa orðið gríðarmiklar breytingar í norðurhöfum - bæði Síberíuísinn og Norðurskautsísinn (hafi þeir verið aðgreinanlegir á annað borð) hafa „yngst“ og þar með þynnst. 

Á nítjándu öld var uppi önnur staða. Ís var að vísu lítill sem enginn hér við land í sumum árum og jafnvel mörg ár í röð, en oftar dvaldi hann lengi við og menn gátu í raun og veru greint einhverjar tegundir að. 

En þá er það þriðja Norðuríshafsístegund Koch - fornís. Orðið sem hann notar (paleocrystic = fornfrosinn) mun komið úr leiðangri Nares sjóliðsforingja en hann fór á tveimur skipum eins langt og komist varð norður með vesturströnd Grænlands. Sundið milli Grænlands og Ellesmereeyju er nú nefnt eftir honum. 

Menn úr leiðangrinum komust norður fyrir Ellesmereeyju og rákust þar á einkennilegan ís - öðru vísi en þeir höfðu áður séð. Til er fræg mynd af slíkum ísjaka sem gengið hafði á land þar á ströndinni. Myndin (plate xii) er fengin úr bókinni „Shores of the Polar Sea“ eftir leiðangursmanninn Edward Moss. Bók þessi er aðgengileg á netinu. 

moss_pl-xii1876-04-xx

Í fljótu bragði virðist hér um borgarís að ræða. Borgarís er að uppruna úr jöklum sem kelfa í sjó fram. - Í skýringartexta kemur hins vegar mjög skýrt fram að hér er um hafís að ræða („saltís“). Moss segir hér um að ræða brot úr fjölæringi sem liggi þar undan ströndinni og undrast (að vonum) þá krafta sem þurft hefur til að koma þessu flykki langt upp á ströndina. Var það víst umræðuefni tedrykkjumanna á myndinni. 

Leiðangursmenn höfðu uppi kenningar um myndun þessa íss - sem greinilega var áratugagamall - jafnvel aldagamall að þeirra mati. Nafnið „paleocrystic“ varð ofaná - „archaiocrystic“ kom víst einnig til greina - en þótti ívið of smásmugulegt („pedantic“). 

Önnur bók var einnig rituð um leiðangurinn. „The Great Frozen Sea“ eftir Albert Hastings Markham. Þar er margt merkilegt að finna - m.a. er fjallað um kröfur sem gerðar voru þegar leiðangursmenn voru valdir. Áhersla var lögð á að þeir kynnu að skemmta öðrum. Hljóðfæraleikarar komust því frekar með en hljóðfæralausir og skáldmæltir frekar en þumbaralegir. Fram kemur að haldnar voru reglulegar kvöldvökur - með söng og ljóðaflutningi. M.a. var flutt verkið „Grand Palaeocrystic Sledging Chorus“ - ljóðabálkur eftir „lárviðarskáld“ leiðangursins - er hann birtur í heild sinni í bókinni.

nv-grænland_kalallit-nunaat-atlas

Kortið hér að ofan sýnir Nares-sund og nágrenni - því er nappað úr ágætri grænlenskri kortabók, „Kalaallit Nunaat Atlas“ - birt hér til að næsta mynd verði skýrari. Sú er fengin úr ritgerð (1925 - sjá nánari tilvísun í lok pistilsins) Lauge Koch um ferð hans um þessar slóðir 1921.

koch_fig1-1925

Nokkuð óskýr - en þarna er fornísinn samt vendilega merktur norður af Ellesmereeyju (Grant Land) allt austur að nyrsta hluta Grænlands (Peary Land). Nyrst í Naressundi er sérmerkt svæði þar sem Koch segir fornís ríkja í sumum árum (t.d. slapp talsvert af fjölæring ís þarna í gegn nú í vetur - takk fyrir ábendinguna Björn Erlingsson). 

En er sá fjölæringur sem þarna er núna sá sami og var á tíð Koch og Nares? Hvað er eiginlega þessi ís sem teikningin í riti Moss sýnir? Er hann enn á þessum slóðum? 

Þegar orðinu „paleocrystic“ er flett upp í nútímaritum kemur í ljós að varla er á hreinu hvað er á ferðinni. Venjulega talinn að minnsta kosti tíu ára gamall - segir í skilgreiningu bandaríska veðurfræðifélagsins - en sé farið að fletta greinum fara skilgreiningar nokkuð á flot. Það ætti kannski einhver að taka þetta saman. 

Í ritgerðinni (frá 1925) nefnir Koch fjórar tegundir hafíss á þessum slóðum. Hér er ekki rúm til að rekja það allt saman - en greinilega um vandasamt mál að ræða sem fljótt rennur út í vitleysu sé ekki afskaplega verlega farið. Við skulum samt nefna þessa fjóra flokka:

1. Sikussak-ís. Mun vera grænlenska og þýða „mjög gamall ís“. Koch skilgreinir hann nákvæmlega - en þeirri skilgreiningu hefur ekki endilega verið fylgt síðar - sést hefur að sikussak og fornís sé ruglað saman.

2. Fjölæring (Mangeaarig Havis) skilgreinir Koch sem hafís sem legið hefur í meir en fimm ár, en minna en 20. 

3. Vetrarís (orðinn til á fjörðum Grænlands og liggur þar jafnvel árum saman).

4. Fornís (paleocrystic). Þetta er ís eins og teikning Moss sýnir. Koch telur hann vera eins konar ísþrýsihryggjasambreyskju orðna til í flóknu straumakerfi milli lands og þess svæðis sem merkt er á myndinni að ofan sem „The Big Lane“ - nafn sem Peary gaf því svæði þar sem ákveðinn straumur ber norðurskautsís til Atlantshafs.- Allt öðru vísi yfirferðar en hitt sem nær er landi.  

Samkvæmt þessu öllu mætti ráða að fornís sé fjölæringur - sem þykknað hefur af átökum frekar en að hann hafi jafnt og þétt bætt á sig frá ári til árs (sem Naresmenn töldu). 

Í ágætri bók, „On Sea Ice“ eftir W.F. Weeks - (líklega þeirri ítarlegustu sem ritstjórinn hefur séð um hafís) er minnst á fornísinn - þar er hann tengdur ísgerð sem er nefndur „stamukha“ upp á rússnesku - forvitnir lesendur eru hvattir til að kynna sér ísgerð þessa. 

Í mjög fróðlegri ritgerð „Arctic Ocean Glacial History“ (sjá tilvísun) er líka minnst á fornís og þá á ísöld. Sá möguleiki nefndur að uppbrot hans hafi raskað sjávarhringrás á Yngra-Dryas skeiðinu kalda í lok ísaldar. 

En hafa fornísjakar nokkru sinni komist til Íslands? Lítið er hægt um það að fullyrða, en áhugaverð eru samt skrif Bjarna Thorarensen 1840 (sjá bréfasafn Bjarna 7. október):

„... en þaraðauki hefir sá fjarskalegi ís sem hingað hefir í ár komið verið annars eðlis en hin árin, því flatísinn hefir verið miklu þykkari og þaraðauki komið með honum borgajakar sem menn segja að hafi staðið botn á 6tugu og 8ræðu djúpi!. Hann er því langt að kominn kannské frá sjálfum Nástrandar Dyrum, og ekki ólíklegt að það sé losnað sem losnað getur“. 

Bjarni greinir að „flatís“ og „borgarís“. Borgarísinn sem hann nefnir gæti verið sá venjulegi - nema hvað óvenjulegt er að mikið sé af honum hér við land samfara hafís. - En flatísinn segir hann miklu þykkari en venjulega og greinir hann frá hinum venjubundna. Ekki er ástæða til að rengja Bjarna. Varð eitthvað los við „Nástrandar dyr“? Hvað getur komið út um Framsundið? 

Langt er í frá að við þekkjum ísasögu norðurslóða til nokkurrar hlítar - og þá atburði sem þar geta orðið. Við vitum í raun lítið hvað getur gerst í norðurhöfum. 

 

Tvær tilvísandir, auðfundnar á netinu - bækur þeirra Moss og Markham eru þar líka og óþarfi að vísa nánar til þeirra - nöfnin nægja. 

Jakobsen og félagar, 2014, „Arctic Ocean Glacial History“ Quaternary Science Reviews 92,  s 40-67

Koch, 1925. De videnskabelige Resultater af Jubilæumsexpeditionen Nord om Grønland. Rapport II: Glaciologi. Geologisk Tidskrift, 28. s.139-152


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.11.): 446
  • Sl. sólarhring: 469
  • Sl. viku: 2600
  • Frá upphafi: 2410244

Annað

  • Innlit í dag: 392
  • Innlit sl. viku: 2328
  • Gestir í dag: 369
  • IP-tölur í dag: 354

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband