Við meðallag - eða neðan þess?

Víðast hvar hefur verið kalt á landinu síðustu daga - sérstaklega í dag, sunnudaginn 23. apríl. Landsmeðalhiti dagsins var um -1,6 stig og er það -4,9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er þó nokkuð langt frá því kaldasta sem þessi dagur hefur séð, kaldastur síðustu 70 árin varð hann 1983, en þá var meðalhiti á landsvísu ekki nema -4,3 stig. Og trúlega verður næsti sólarhringur mjög kaldur líka. 

Það er nokkuð um það rætt að mánuðurinn hafi verið kaldur. Fer þá eins og oft áður nokkuð eftir því hvað menn muna hvort þeir telja að svo sé eða ekki. Sannleikurinn er nefnilega sá að hiti það sem af er mánuði er enn rétt ofan meðallags sömu daga 1961 til 1990. Okkur gamlingjunum sem fylgt hafa veðri allt það tímabil og svo síðar finnst ekkert hafa verið sérlega kalt - munum mun kaldari og illskeyttari aprílmánuði. 

Í Reykjavík er meðalhiti það sem af er 2,7 stig, 0,2 stigum ofan sömu daga 1961 til 1990, en aftur á móti -1,0 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára - sem trúlega fleiri miða við í sínum samanburði. Svipað á við fyrir norðan, á Akureyri er meðalhiti það sem af er 1,6 stig, 0,4 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en -1,0 stigi neðan við síðustu tíu ár. 

Hlýandi veðurfar síðustu áratuga er greinilega farið að setja mark sitt á viðmiðin, jafnvel þeir sem síst vilja trúa því að hlýnun sé að eiga sér stað virðast farnir að telja hana sjálfsagt mál. 

Annars hafa kaldir eða hlýir mánuðir eða jafnvel heilu afbrigðilegu árin lítið með hina almennu hnattrænu hlýnun að gera - hún sýnir sig fyrst og fremst á lengri tímakvörðum og auðvitað á heimsvísu. Nú eru liðin 35 ár síðan fyrst bárust fréttir um methlýindi á heimsvísu, árið 1981 reyndist hlýrra en öll önnur sem þá var vitað um. Síðan hafa nær stöðugt borist fréttir af hlýnun - réttar fréttir. Við máttum hins vegar sitja í nær tuttugu ár eftir 1981 án þess að hún sýndi sig í verki hér á landi - eða svo virtist alla vega. Það mátti hins vegar reikna út að hlýnunin frá upphafi mælinga væri reyndar mjög svipuð hér á landi og annars staðar - væri horft á nægilega langt tímabil. 

Svo er enn - og hlýnunin mikla hér á landi í kringum aldamótin breytti þeirri leitni ekki mikið. Um þetta var fjallað nokkuð ítarlega á hér á hungurdiskum fyrir um það bil ári síðan og verður ekki endurtekið hér. 

En það hefur verið í kaldara lagi í apríl miðað við veðurreyndina á þessari öld. Mánuðurinn, það sem af er, er í fjórtánda sæti (af sautján) á hitalista aldarinnar í Reykjavík, sömu apríldagar 2010, 2013 og 2006 voru kaldari en nú. Á langa listanum er hitinn hins vegar nærri miðju, í 73. sæti af 143. 

Við Mývatn er hitinn enn í meðallagi síðustu tíu ára, þar er nú hlýjast á landinu að tiltölu - en kaldast hefur verið á Ísafirði, hiti þar -1,9 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. 

Úrkoma hefur verið óvenjumikil, um tvöföld meðalúrkoma syðra og langt ofan meðallags annars staðar. Í Reykjavík hafa til þessa mælst 97 mm, en 38 mm á Akureyri. Ekki hefur meiri úrkoma mælst í Reykjavík sömu apríldaga á þessari öld, en fyrr á tíð er vitað um fimm tilvik þar sem úrkoma mældist meiri sömu daga heldur en nú. 

Nokkuð slæm kuldaköst hafa komið á síðari árum á þessum sama tíma árs eða í byrjun maí - hvað sem veldur. Rifjið t.d. upp pistla hungurdiska frá því um þetta leyti fyrir tveimur árum (2015), nú eða fyrir fjórum árum (2013) - eða hinn illviðrasama apríl 2011. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nú margt við þennan pistil að athuga, þótt hann sé í sjálfu sér fróðlegur! Menn miða jú hlýindi/ekki hlýindi við nálægan tíma en ekki fyrir meira en öld eða áratugi eins og veðurfræðingarnir og öfgahlýnunarsinnarnir gera. Þeir miða alltaf tölur sínar við kuldaskeiðin (1880, 1961-1990) til að sýna hversu mjög hefur hlýnað á seinustu árum!
Frá hitatölum hér á landi sést að ekki hefur hlýnað frá "hlýnuninni miklu" um aldamótin (eða frá 2002). Því er ekkert skrítið að menn bendi á kuldana sem komið hafa annað hvort ár undanfarið (2013, 2015 (og nú í ár?)) og dragi kenningar um ofsahlýnun í efa. 
Svona til að svara spurningu pistlahöfundar hvað valdi þessum kuldaköstum má benda á að hlýnunin er það hæg (og varla merkjanleg undanfarin fimm ár eða svo) að engar meiriháttar breytingar í veðurfari hafa átt sér stað.

Hins vegar getum við hér á norðurhjara þakkað fyrir þau hlýindi sem þó hafa orðið á þessari öld, miðað við kuldatímann seinnipart þeirrar síðustu. Landið er að breyta um svip. Gróðurfari fer fram um allt land, uppblástur og gróðureyðing að minnka, skógar breiðast út og trén þjóta upp. Það er ekki aðeins minnkandi beit að þakka heldur einnig hlýnandi veðurfari. Við megum vel við una.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 24.4.2017 kl. 07:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 897
  • Sl. sólarhring: 1114
  • Sl. viku: 3287
  • Frá upphafi: 2426319

Annað

  • Innlit í dag: 797
  • Innlit sl. viku: 2953
  • Gestir í dag: 780
  • IP-tölur í dag: 718

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband