Heklugosið 1947 (veðrið við upphaf þess)

Á miðvikudaginn, 29. mars, verða allt í einu liðin 70 ár frá upphafi gossins mikla í Heklu 1947. Þó ritstjóri hungurdiska sé of ungur til að muna gosið var mikið um það rætt í barnæsku hans. Meðal annars var talað um að 102 ár (101 frá lokum þess á undan) hefðu liðið frá næsta gosi á undan - og þótti auðvitað óralangur tími.

Engar líkur voru þá taldar á nýju gosi í bráð - gosið 1970 kom því verulega á óvart - og síðan hafa þau komið hvert af öðru. Eitthvað er mörgum nú til efs að goshléið fyrir 1947 hafi í raun og veru verið 101 ár - gosin 1878 og 1913 hafi líka verið Heklugos (kannski gerðist þá líka eitthvað í fjallinu sjálfu - án þess að nokkur gerði sér grein fyrir því). 

En nú eru sum sé liðin 70 ár frá síðasta stórgosi og gott að rifja upp að það er í sjálfu sér ekkert ódæmigerður tími milli stórgosa. Stórgos varð t.d. 1693 og aftur 1766, 73 ár á milli þeirra - og að minnsta kosti eitt minna gos varð á milli.

En við látum jarðfræðinga um alvöruna hvað þetta snertir en lítum til gamans á veðurkort þennan morgun. - Veðurlag var mjög óvenjulegt veturinn 1946 til 1947. Janúar einhver sá hlýjasti sem um getur hér á land, febrúar stilltur og bjartur lengst af - allur syðra, en nyrðra og eystra snjóaði talsvert síðari hlutann. Óvenjulegt fannfergi gerði í hægviðri sunnanlands og vestan snemma í mánuðinum - en bara sums staðar - að sumu leyti svipað og fönnin á dögunum, ástæður voru þó aðrar. 

Bjartviðrið syðra hélt áfram í mars - en nyrðra og eystra kyngdi niður snjó og endaði í mikilli snjóflóðahrinu nokkrum dögum áður en Heklugosið hófst. Aprílmánuður varð síðan sérlega skakviðrasamur, snjóþungur og óhagstæður. Allt á hvolfi þessa mánuði. Fádæma harðindi gerði víða um Vestur-Evrópu. 

islandskort_1947-03-29_08

Kortið sýnir veðrið á landinu kl. 8 að morgni 29. mars, rúmri klukkustund eftir upphaf gossins (kortið skýrist sé það stækkað). Bjart veður er á Suðurlandi, en éljahraglandi víða fyrir norðan í norðaustanáttinni. Það er kalt, frost um land allt - langkaldast þó á Þingvöllum þar sem frostið er -14 stig.

Veðurathugunarmenn á Arnarstapa, Hamraendum, Hlaðhamri, í Núpsdalstungu, á Húsavík, Grímsstöðum á Fjöllum, í Papey, á Teigarhorni (og ef til vill víðar) segja frá miklum drunum þann 29.

Fáeinar háloftaathuganir frá Keflavíkurflugvelli hafa varðveist frá árinu 1947, þar á meðal tvær sem gerðar voru þann 29. mars. Sú fyrri er merkt kl.4 um nóttina - en hin kl. 16. 

w-blogg280317

Við lítum á þá fyrri á mynd. Æ - ekki svo auðvelt að rýna í þetta, en gerum það samt. Lóðrétti ásinn sýnir hæð í metrum, en láréttu ásarnir eru tveir. Sá neðri vísar til bláa ferilsins og sýnir hita, en sá efri til þess rauða og sýnir vindhraða. Því miður náði þessi athugun ekki nema upp í tæplega 9 km hæð (300 hPa) og er nokkuð gisin. 

Til að ná viti í bláa ferilinn (hitann) er best að reikna hversu hratt hiti fellur milli athugunarpunkta. Allt upp í 3 km hæð er hitafallið ekki nema um 0,3°C á hverja 100 m hækkun. Einhvers staðar eru hitahvörf á þessari leið. Á athugunarkortinu má sjá að flákaskýja er getið á ýmsum stöðvum - þau hafa væntanlega legið í þessum hitahvörfum. 

Ofan við 3 km hæð fellur hitinn hraðar, 0,6 til 0,8 stig á hverja 100 metra að meðaltali. Þetta er venjulegt hitafall í veðrahvolfinu ofan jaðarlagsins. Veðrahvörfin sjáum við ekki - eða varla. 

Rauði ferillinn sýnir vindhraða í m/s. Tölurnar við ferilinn sýna vindátt í gráðum. Hún er bilinu 20 til 40 gráður, áttin af af norðnorðaustri - eða rétt austan við það. Vindhraði vex mjög með hæð - er ekki mikill næst jörð, en er kominn upp í 37 m/s í 7 km hæð. Síðan dregur mjög úr. Efsti hluti makkarins fór miklu hærra, í 25 til 30 km hæð, það staðfesta frægar myndir sem teknar voru af honum. 

Athugunin sem gerð var kl.16 náði upp í 13 km. Þá var vindur lítill nema í 9 km, þar sem hann var um 30 m/s, var aðeins talinn um 9 m/s í 13 km. Hvort treysta má þessum vindhraðamælingum fyllilega skal ósagt látið, en mökkurinn fór alla vega til suðurs eins og mælingarnar gefa til kynna. 

Margt hefur verið um Heklugosið 1947 og upphaf þess ritað og verður ekki endurtekið hér - en endilega lesið eitthvað af því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa þessa fróðlegu grein og upprifjun á 70 ára gömlum atburði, sem svo sannarlega er stór í sögu 20. aldarinnar hér á landi, þótt öldina skorti svo sem ekkert stóra atburði.
Þótt sá sem þetta ritar hafi aðeins verið á sjötta aldursári þegar gosið var, þá man ég greinilega eftir drununum, sem vafalaust hafa verið ógnvænlegar í hugarheimi 5 ára strákpjakks, sem hafði ekkert haft af slíku að segja á stuttri (þá) ævi. En maður hefur reyndar lesið, að ýmis veðurfræðileg fyrirbrigði hafi orsakað að drunurnar frá gosinu heyrðust lítt eða ekki allmiklu nær fjallinu, en Ólafsvík á Snæfellsnesi er í beinni loftlínu. Kannski væri ástæða til að biðja um að fá skilgreiningu á því fyrirbrigði?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 28.3.2017 kl. 21:29

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka góðar undirtektir Þorkell. Ekki er auðvelt að skýra hegðan hljóðsins í stuttu og einföldu máli, en almennt má segja að hljóð í lofti sveigi í átt til kulda (dálítið glannalega orðað). Sprengihljóð frá Heklu leitar því meira upp á við heldur en til hliðanna - öflugar sprengingar heyrast næst fjallinu, en síðan ekki. - En við veðrahvörf hættir hiti að falla með hæð - hækkar jafnvel og þegar þangað er komið getur hljóðið farið að berast langar leiðir við þau - og jafnvel „speglast“ á þeim - sá undigangur getur þá heyrst til jarðar. „Vel staðsett“ hitahvörf neðar í lofti geta borið minnsta hljóð, svosem fossnið, langar leiðir. Heyrist þá stundum í fossum um heilar sveitir - en annars ekki neitt.  Ekki veit ég hvort þér dugar þessi einfaldaða skýring.

Trausti Jónsson, 28.3.2017 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 897
  • Sl. sólarhring: 1113
  • Sl. viku: 3287
  • Frá upphafi: 2426319

Annað

  • Innlit í dag: 797
  • Innlit sl. viku: 2953
  • Gestir í dag: 780
  • IP-tölur í dag: 718

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband