Tólfmánaðahitinn

Hungurdiskar hafa verið lítt á ferðinni nú um skeið. Því miður verður svo enn um hríð - en vonandi rætist úr síðar. Rétt er þó að svara einni spurningu áður en mánuði lýkur, en hún fjallar um meðalhita síðustu 12 mánaða (til enda febrúar). Hversu hár er hann?

Í Reykjavík liggur hann við 6,4 stig. Hæstur (svo vitað sé) varð tólfmánaðahitinn í Reykjavík í september 2002 til ágúst 2003, og í nóvember 2002 til október 2003, 6,6 stig. Í sömu syrpu (2002 til 2003) var tólfmánaðahitinn fimm sinnum jafnhár eða hærri en nú. Jafnhár og nú var hann einnig í apríl 1941 til mars 1942 (og í mars 1941 til febrúar 1942). 

Á Akureyri er meðalhiti síðustu 12 mánaða 5,7 stig og hefur aðeins eitt tólfmánaðatímabil verið hlýrra, september 2002 til ágúst 2003. Þá var meðalhitinn 5,8 stig. Hann hefur þrisvar verið jafnhár og nú: Í mars 1933 til febrúar 1934, í október 2002 til september 2003 og nóvember 2002 til október 2003. 

Hiti í marsmánuði hefur hingað til verið nærri meðallagi, en var í fyrra vel ofan þess. Það virðist því trúlegt (þetta er skrifað 21. mars) að tólfmánaðahitinn muni aftur lækka lítillega. 

Þó síðustu 12 mánuðir hafi verið sérlega hlýir var það fyrst með október að hlutirnir urðu verulega óvenjulegir. Sé meðaltal reiknað fyrir byggðir landsins yfir tímabilið október til febrúar kemur í ljós að aldrei hefur (svo vitað sé) verið hlýrra á þessum tíma árs hér á landi. 

Í ljós kemur að við höfum nú upplifað hlýjustu þriggja, fjögurra, ... og upp í tólf mánaða tímabil mælisögunnar - sem enda á febrúar. Fyrstu tveir mánuðir ársins voru hins vegar hlýrri árið 2013 heldur en nú. 

En hvað ef við sleppum því skilyrði að tímabilið endi á febrúar? Við vitum að við höfum ekki náð hæsta tólfmánaðahitanum leyfum við síðasta mánuði að vera „frjálsum“, þrjú tólfmánaðatímabil sem enda síðla sumars og haust 2003 voru hlýrri á landsvísu. 

Það er álitamál hvernig bera skuli saman mismunandi (t.d.) fimm mánaða tímabil. Sá samanburður væri efni í annan pistil. Ritstjóri hungurdiska hefur gert slíkan samanburð og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert fimm-mánaða tímabil mælingasögunnar hafi verið jafnhlýtt eða hlýrra og október 2016 til febrúar 2017. - En hins vegar eru til hlýrri fjögurra og sex mánaða tímabil (rétt eins og til er hlýrri 12-mánaðatími). 

Munum að berist fréttir af metum þarf ætíð að setja þær í „rétt“ samhengi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Dintirnir í veðurguðinum,mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 22.3.2017 kl. 06:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 913
  • Sl. sólarhring: 1117
  • Sl. viku: 3303
  • Frá upphafi: 2426335

Annað

  • Innlit í dag: 813
  • Innlit sl. viku: 2969
  • Gestir í dag: 795
  • IP-tölur í dag: 732

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband