Næsthlýjasti þorri í Reykjavík

Nú er þorri liðinn og góa tekin við. Hann reyndist sá næsthlýjasti sem við höfum upplýsingar um í Reykjavík. Topptaflan (og botninn) er svona (seinni aukastafur er aðeins hafður með í samkeppnisanda - en er lítt raunverulegur):

röðárþorri °C
119654,39
220173,57
319323,47
420063,32
519673,29
619423,20
720132,88
819262,74
919642,64
1020112,53
   
1391969-3,54
1401910-3,58
1411920-4,10
1421894-4,13
1431881-6,36

Listinn nær aftur til 1872 - en þó er rétt að geta þess að þrjá þorra (1904 til 1906) vantar vegna þess að daglegar hitamælingar þau ár eru ekki enn í stafrænum gagnagrunni. 

Við megum taka eftir því að á topptíu má sjá þrjá mánuði á núlíðandi áratug. Fyrir norðan er staðan svipuð - nema að dagleg gögn ná aðeins aftur til 1936. Á Akureyri var talsvert hlýrra á þorra 1965 heldur en nú - rétt eins og í Reykjavík. 

Við skulum líka líta á mynd.

Meðalhiti á þorra í Reykjavík 1871 til 2017

Hér sjáum við vel að kaldur þorri hefur ekki komið síðan 2002 (þótt ýmsum þætti kalt í fyrra), en þorrinn 2002 var merkilegur fyrir þær sakir að hann var almennt veðragóður þó kaldur væri - að slepptu einu mjög slæmu norðankasti. 

Það er líka dálítið óvenjulegt (miðað við ýmsar aðrar ámóta myndir) að hlýjasta „þorrasyrpan“ er í blálokin á hlýskeiðinu mikla á síðustu öld - að slepptum þorra 1966 eru þorramánuðir áranna 1963 til 1967 hlýir eða mjög hlýir. 

Úrkoma hefur oft verið meiri á þorra í Reykjavík heldur en nú, síðast 2012 og í hitteðfyrra (2015) var hún nærri því eins mikil og nú. 

Svo er spurning með framhaldið. Það er ekkert samband á milli hita á þorra og góu. Þessir tveir mánuðir ganga stundum saman en jafnoft verður þeim sundurorða. 

Þeir sem vilja rifja eitthvað upp um hlýja og kalda góumánuði geta litið á gamlan hungurdiskapistil frá því 2013. Og um þorraþrælinn er einnig gamall pistill á hungurdiskum. Sömuleiðis ritaði ritstjórinn pistil á vef Veðurstofunnar um þorraþrælinn 1866 ( og birtingu ljóðsins „Nú er frost á Fróni“). Skyldi Kristján fjallaskáld hafa ort kvæðið fræga á þorraþræl 1865 - en það er kaldasti þorraþræll allra tíma - og „átt það á lager“ til birtingar í Þjóðólfi 1866? - Þorraþrællinn 1866 var nefnilega hlýjasti dagur febrúarmánaðar það ár (þó kaldur væri). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er hlýtt og ekki síður hitt, amk á mínum slóðum í Skagafirði, hve veðrið hefur verið gott í vetur. Einhverjar rigningarhriðjur hafa komið en sjálfsagt teldust þær varla teljanlegar í mörgum öðrum sveitum. Í mörgum hlýjum janúar og febrúar mánuðum undanfarinna ára hefur verið skakviðrasamt og vindur stundum úr hófi fram. Nú hefur svo brugðið við margoft að í 5-8 stiga hita er hægur vindur eða logn. Hefur veðrið því nánast verið fíflalegt, ef hægt að komast svo að orði um veður. Bændur og búalið fyllast verkkvíða og vita ekki í hvora löppina á að stíga. Á að plægja, laga girðingar, grafa skurði eða jafnvel steypa upp vegginn sem átti að laga síðasta sumar. Í venjulegu árferði eru menn á norðanverðu landinu yfirleitt ekki að hugsa um að standa í þvíumlíkum framkvæmdum á miðjum vetri.

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 21.2.2017 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband