Um meðalvindhraða í Reykjavík

Í síðasta pistli var litið á ársmeðalvindhraða á Akureyri síðustu 80 árin rúm. Nú gerum við það sama fyrir Reykjavík. 

Ársmeðalvindhraði í Reykjavík 1935 til 2016

Lárétti ásinn sýnir árin - sá lóðrétti ársmeðalvindhraðann í metrum á sekúndu. Þrepin sýna ársgildin, rauða línan er 7-árakeðja, en sú græna sýnir ársmeðalvindhraðann á sjálfvirku stöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Grái ferillinn sýnir sjálfvirku mælingarnar á Veðurstofutúni. - Í maí árið 2000 var farið að nota þær mælingar í veðurskeytum (og ferlarnir sameinast). Við sjáum að mikill munur var á meðalvindhraða þau ár (1997 til 1999) sem lesið var af báðum mælum. 

Flutningurinn frá flugvellinum á Veðurstofutún 1973 virðist ekki hafa haft mikil áhrif - en hins vegar gerðist eitthvað árið 1977. Breyting sem varð þegar athuganir voru fluttar úr Landsímahúsinu við Austurvöll út á flugvöll í árslok 1945 sést greinilega. Höfum í huga að vindhraðamælirinn á flugvellinum var í 17 metra hæð - en ekki tíu eins og áskilið hefur verið frá 1949. Þessi hæðarmunur skýrir að einhverju leyti mikinn vindhraða á þeim tíma sem athuganir voru gerðar á vellinum.

Græni ferillinn sýnir mælingar á Reykjavíkurflugvelli frá 2002. Þar er vindur töluvert meiri en við Veðurstofuna. 

Við sáum í fyrri pistli að allgott samræmi var á milli meðalvindhraða á Akureyri og meðalvindhraða á landinu öllu. Í Reykjavík er því ekki að heilsa sé litið á tímabilið allt - mun betra samræmi verður séu einstök tímabil tekin fyrir - tímabil þar sem mælingar héldust lítt breyttar. 

Stormdagafjöldi í Reykjavík

Síðari mynd dagsins sýnir stormdagafjölda á Reykjavík - það er fjöldi daga á ári þegar vindhraði fer að minnsta kosti einu sinni (í 10-mínútur) yfir 20 m/s. Mikið (sýndar-) stökk varð þegar athuganir voru fluttar á flugvöllinn 1946. Skipt var um vindmæli 1957 og virðast þau skipti koma fram í stormatíðni. Annars er „dældin“ í ferlinum fram til 1964 e.t.v. tengd smágalla í gagnatöflunni - eitthvað sem þarf að fara betur í saumana á - en óvenjulítið var reyndar um hörð vestan- og suðvestanveður á árunum 1960 til 1964 miðað við það sem verið hafði árin áður.

Svo kemur stökk til færri storma vel fram 1977 - skýring á því liggur ekki á lausu - en ritstjórinn hefur þó ákveðnar grunsemdir. Eftir það fór stormum fækkandi - mest auðvitað eftir mælaskiptin árið 2000 - en önnur undirliggjandi fækkun á sér samt stað. Tengist hún nær örugglega þéttingu byggðar og trjávexti í borginni.

En sé einhver niðurstaða af þessum vangaveltum er hún sú að mjög varasamt sé að meðhöndla vindmælingar í Reykjavík í þessi 80 ár eins og um sambærileg og einsleit gögn sé að ræða. - Bæði staðsetningar og mælitæki hafa haft mikil áhrif á samfelluna. 

Til umhugsunar er texti í viðhenginu - ritstjórinn nennir ekki að þýða hann orðrétt á íslensku að svo stöddu. Hann er fenginn úr ritinu: „Manual of Meteorlogy, volume I, Meteorology in History“ eftir Napier Shaw sem lengi var forstjóri Bresku veðurstofunnar. Cambridge University Press gaf út 1932. - Bókin er öll aðgengileg á netinu. 

Hér er fjallað um þá ákvörðun bresku veðurstofunnar að leggja ekki sérstaka áherslu á uppsetningu fullkominna vindhraðamæla á öllum veðurstöðvum - að mörgu leyti væri bara betra að meta vindinn inn í Beaufort-kvarðann. Textinn stendur enn fyrir sínu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á nokkurra tímabili í kringum 1970, sem ég man ekki lengur hvað var langt, var uppgefinn vindur á Reykjavíkurflugvelli, sem mælir Veðurstofunnar gaf til kynna og flugumferðarstjórar upplýstu flugmenn um, talsvert meiri en hann var í raun.

Gaman væri að vita hvort þetta hafi verið leiðrétt eftir á í gögnum, þegar hið sanna kom í ljós. . 

Ómar Ragnarsson, 22.1.2017 kl. 21:31

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég veit ekki hversu lengi mælirinn var á þaki gamla flugturnsins - það var lengi. Hann var í 17 m hæð og gaf því of mikinn vind. Það var aldrei leiðrétt - en ekki notað í almennum veðurskeytum eftir að flutt var að Bústaðaveginum 1974. Árið 1963 var settur upp sérstakur mælir á „radareyju“ á flugvellinum - tölur úr honum voru notaðar í flugvallarskeytum AERO og METAR - lesið var af honum eftir auganu - held ég - enginn síriti var tengdur - bara vísar í turni og uppi á Veðurstofu sem sveifluðust til og þurfti að horfa á nokkra hríð til að búa til meðaltal. Þessar athuganir voru skráðar - en ekki í gagnagrunn - og ekkert hefur verið unnið með þær - þær liggja bara í athugunarbókunum.

Trausti Jónsson, 22.1.2017 kl. 21:46

3 identicon

Það kemur mér á óvart að vindhraðamælar séu ekki nákvæmari en svo að sjánlegur munur sé á mældum vindi þegar skipt er um mæli. Með tilliti til þess verður ekki minna skrítið að Veðurstofan krafðist þess að vindhraði væri tilgreindur með aukastaf, sem breyttist á mínútu fresti, sem vindhraða á athugunartíma. Hafa verið búandi á afar vindasömum stað um langan aldur, þá passa þessi línurit vel við mína tilfinningu að öflugum stórviðrum hafi fækkað mjög eftir aldamótin. Stormdögum fjölgaði þegar kom vindmælir, enn meira þegar kom síritandi mælir. Þegar sjálfvirknin tók völdin þá var mæliaðferð breytt og í stað þess að miða mesta vindhraða við 10 mín. þar sem skipti á mínútu fresti þá var tekinn mesti vindhraði á 10 mínútum í fyrirfram afmarkaðan 10 mín. ramma og getur því skiptst í tvo. Það gerðist t.d. stuttu áður en mannaðar athuganir voru aflagðar á staðnum að vindur mældist 40,8 m/s á mæli athugunarmanns, 39,7 samkv. nýja kerfi og í munni veðurfræðinga var vindhraðinn aðein 39 m/s.

Þannig er nú það.

Oskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 22.1.2017 kl. 23:36

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Vindhraðamælingar eru mjög erfiðar - síritandi skálarmælar voru fundnir upp um 1850 og þrýstimælar um svipað leyti. Langan tíma (áratugi) tók að kvarða þá eftir því sem Napier Shaw segir í bók sinni. Fljótlega kom í ljós að vindhraði breyttist mjög með hæð - og einnig eftir nákvæmri staðsetningu mælisins - jafnvel þótt hann væri lítið færður. - Ég vona að ég geti gert ámóta línurit fyrir Stórhöfða þegar ég verð loksins búinn að koma athugunum þaðan á árunum 1936 til 1948 inn í gagnagrunninn - er að vinna að því.

Trausti Jónsson, 23.1.2017 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 35
  • Sl. sólarhring: 428
  • Sl. viku: 2397
  • Frá upphafi: 2410699

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 2112
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband