Hinn dæmigerði útsynningur

Þegar þetta er ritað (miðvikudag 28. desember 2016) gengur dæmigerður vetrarútsynningur yfir landið. Rétt að nota tækifærið til að fjalla lítillega um hann.

Þó útsynningur sé í grunninn annað nafn á suðvestanátt (enn notað í Færeyjum) ber merking orðsins í sér aðra vídd, lýsir líka veðri og er ekki hvaða suðvestanátt sem er. Þessari ákveðnu tegund fylgja nefnilega él (eða skúrir) - oft hagl. Mikill munur er á vindi í éljunum og á milli þeirra. Élin, sem koma úr háreistum éljaklökkum eru misþétt og sé snjór á jörðu og vindur mjög hvass virðast þau jafnvel renna saman í samfellt kóf og færð spillist mjög. Oft fylgja þrumur (skruggur) og eldingar. 

Þegar útsynningshugtakið er notað sem lýsing á veðri fremur en átt eru menn kannski ekki allt of stífir á því að áttin skuli vera úr suðvestri - hún getur líka verið úr vestri eða jafnvel suðri - fylgi éljagangur eða ákafar skúrir eins og nefnt var. Á Suðurlandi er heyrist stöku sinnum talað um „öfugan útsynning“ og er þá vísað til útsynningsveðurlags - en suðaustanáttar. 

Við skulum nú líta á nokkur veðurkort dagsins í dag - til að ná áttum. Þau eru úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar (Bolli Pálmason hannaði útlit) og gilda öll kl. 6 í morgun (miðvikudag 28. desember). 

Slide1

Illviðrið frá í gær er komið langt norður í haf, en köld lægð situr eftir á Grænlandshafi og stýrir til okkar suðvestanátt og éljagangi. Ný lægð er við Nýfundnaland á leið til okkar og veldur slagviðri á morgun (fimmtudag 29. desember). 

Slide2

Hér má sjá hæð 500 hPa flatarins (jafnhæðarlínur heildregnar) og þykktina (litir) á sama tíma. Við sjáum hér að kalda loftið á uppruna sinn vestur í Kanada - eins og reglan er í útsynningi. Þar má kenna kuldapollinn mikla sem við höfum kallað „Stóra-Bola“. 

Hér skulum við taka sérstaklega eftir því að vestan við land er „þykktarflatneskja“, langt á milli jafnþykktarlína - þykktin er á milli 5100 og 5160 metrar á stóru svæði. Aftur á móti eru á sama svæði fimm jafnhæðarlínur - nokkuð þéttar. Þetta þýðir að háloftavindurinn slær sér langleiðina til jarðar. Væru jafnþykktarlínurnar jafnmargar jafnhæðarlínunum og nokkurn veginn samsíða þeim gætti strengsins ekki við jörð. 

Slide3

Næsta kort sýnir þykktina (heildregnar línur) og einnig hita í 850 hPa, hann er sýndur í lit. Við sjáum þykktarflatneskjuna við Vesturland vel. Átta til tíu stiga frost er í 850 hPa-fletinum. Það er ekki sérlega mikið en nógu kalt til þess að loftið verður óstöðugt yfir hlýjum sjónum. Sjórinn hitar loftið (hækkar þykktina) um 20 metra (1 stig) á hverjum 6 klukkustundum (ef trúa má reikningum reiknimiðstöðvarinnar). 

Slide4

Hér má sjá skynvarmaflæði milli lofts og yfirborðs lands eða sjávar. Rauði liturinn sýnir hvar loftið græðir varma - það er þar sem kalt loft blæs yfir hlýjan sjó. Hlýindin sem gengu yfir í gær eru hér fyrir austan land - þar er loft hlýrra en sjórinn.

Heildregnar línur sýna hitamun sjávaryfirborðs og lofts í 925 hPa-fletinum (í um 600 metra hæð yfir sjó). Á Grænlandshafi er hann um 10 til 12 stig. Kyndingin gerir loft í neðstu lögum mjög óstöðugt - og þegar greið leið er upp til veðrahvarfa myndast bólstrar og síðan miklir élja- eða skúraklakkar - einkennisský útsynningsins. 

Slide5

En vestanloftið er komið frá meginlandinu mikla, Norður-Ameríku, og er við upphaf ferðar sinnar fremur þurrt og ýtir undir uppgufun á leið sinni. Við það tapar sjávaryfirborðið líka varma - sá varmi nýtist ekki til hitunar heldur geymist í vatnsgufu loftsins - kallast dulvarmi. Þegar loftið rís í klökkunum þéttist rakinn aftur og vermir (dulvarminn losnar sem sagt er) - en í þetta sinn efri lög veðrahvolfsins. - Úrkoman fellur svo til jarðar - sumt gufar aftur upp á leiðinni - og kælir loftið aftur. Þetta ferli hefur flókin áhrif á stöðugleikann í éljagangi - getur bæði aukið hann eða bælt eftir aðstæðum. 

Slide6

Evrópureiknimiðstöðin sýnir okkur einnig það sem þeir kalla þykkt jaðarlagsins - ekki endilega nákvæmt metið - en gagnlegt samt. Í jaðarlaginu er milliliðalaust samband lóðrétt - því ofar sem þessi beinu tengsli ná því líklegra er að klakkaský séu til staðar - sé loft á annað borð nægilega rakt. - Kortið sýnir vel hvar klakkauppstreymið er ákafast - þar ríkja rauðir litir á kortinu. - Við sáum hins vegar á skynvarmakortinu hvernig landið kælir loftið (það var grænt) og bælir allt uppstreymi. - Éljaklakkar sem ganga inn yfir land að vetrarlagi eru því annað hvort leifar af þeim sem myndast yfir sjó - eða þá að lóðrétt streymi við fjöll hefur gangsett þá (ekki upphitun yfirborðs eins og yfir sjónum). Éljagangur í útsynningi nær sjaldan til Austurlands - þó vindurinn geri það.

Útsynningur með éljum eða skúrum verður því ekki til nema kalt loft streymi frá Kanada út yfir hlýrri sjó og alla leið til Íslands - það verður að gerast sæmilega greiðlega því sjórinn jafnar fljótt hitamuninn og þá dregur úr klakkamyndun. - Að sumarlagi er meginlandið hlýrra en sjórinn - útsynningsklakkar myndast þá mun síður, auk þess sem vindar eru að jafnaði hægari og loftið of lengi á leiðinni þó kalt sé í upphafi. Vandi er þá að ná lofti úr vestri til landsins sem getur búið til þann hitamun lofts og sjávar sem þarf til að mynda éljaklakka sem ná til veðrahvarfa. - Það kemur þó fyrir - ritstjóri hungurdiska man eftir ekta útsynningi í júnílok og einnig um miðjan ágúst og sjálfsagt mætti finna dæmi í júlí. 

Árstíðasveifla útsynningstíðni er því mikil. Í veðuryfirliti fyrir febrúar árið 1907 segir Jónas Jónassen landlæknir: „Eins og vant er í febr. hefur suðvestanvindur (útsuður) verið langoptast, með svörtum éljum í milli;“

Þegar hér var komið sögu hafði Jónas fylgst með veðri í 40 til 50 ár. Við skulum reyna að athuga hvort staðfesta megi tilfinningu hans fyrir febrúarmánuði. Í því skyni teljum við éljaklakkaathuganir í Reykjavík 1949 til 2016 - þá daga sem suðvestan- og vestanátt er ríkjandi á landinu öllu - og búum til mælitölu (leiðrétt er fyrir misjafnri lengd mánaða). Við skulum ekki velta vöngum yfir tölugildunum sjálfum - en þau ættu samt að segja eitthvað til um hlutfallslega tíðni útsynnings árið um kring.

Útsynningsmælir - árstíðasveifla

Hér er gefið til kynna að útsynningur sé hátt í 30 sinnum algengari í febrúar heldur en í júlí - skyldi það vera rétt? Vetrarmánuðirnir fjórir eru ámóta - en febrúar gerir sjónarmun betur en hinir þrír - var það ekki það sem Jónas gaf til kynna? - Tíðnin vex jafnt og þétt þegar á haustið líður - en á vorin er skorið skyndilega á. 

Útsynningsmælir

Annars hefur verið „skortur“ á útsynningi á síðari árum. Myndin hér að ofan virðist staðfesta þessa tilfinningu. Nokkuð sló á útsynning á hafísárunum svonefndu og þar um kring - og þegar hlýnaði upp úr 1995 fór líka að draga úr tíðni hans - sérstaklega síðustu tíu árin (að undanteknu árinu 2011). Við ættum þó að fara varlega í að tengja þetta hnattrænum veðurfarsbreytingum af mannavöldum. - Líklegt er að útsynningurinn snúi aftur hvað sem þeim líður. 

Í gömlum hungurdiskapistlum má finna meira um útsynning og tíðni hans. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 19
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 984
  • Frá upphafi: 2420868

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 863
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband