Fárviðrið 5. mars 1938

Veturinn 1937 til 1938 þótti hagstæður framan af, en síðan varð veður umhleypingasamt með köflum. Snemma í mars, þann 3. og þann 5. gerði tvö veruleg illviðri - og það síðara olli stórtjóni víða um land. 

Slide1

Síðdegis fór loftvog að hríðfalla um landið vestanvert og hvessti af suðri og síðar suðvestri. Fyrir miðnætti var kominn stormur en snemma nætur skall síðan á skammvinnt suðvestan- og vestanfárviðri sem æddi síðan austur yfir landið um nóttina og snemma um morguninn. Vestfirðir sluppu einna best frá veðrinu, en gríðarlegt tjón varð bæði á Suður- og Austurlandi. Úrklippan hér að ofan er úr Alþýðublaðinu - sama dag - þannig að allmiklar fregnir hafa þegar legið fyrir þegar blaðið fór í prentun. 

Dagblaðið Vísir var einnig með fréttir af veðrinu þann sama dag og má sjá mynd af braki úr húsi við Sundlaugaveg í Reykjavík sem gjöreyðilagðist í veðrinu. Þar er einnig stutt viðtal við Jón Eyþórsson veðurfræðing sem segir vindhraða hafa farið í 30 m/s á mæli Veðurstofunnar - en eins og fram kom í pistli hungurdiska fyrir nokkru töldust það 12 vindstig á þeim tíma - . 

Slide2

Daginn eftir birtir Morgunblaðið fréttir af tjóni úti á landi - og voru þær að tínast inn næstu daga eftir því sem símasamband leyfði. 

Annað veður hafði gert rúmum sólarhring áður, en tjón varð þá mun minna. Lægðirnar sem ollu veðrunum voru ámóta gerðar og ámóta djúpar. 

Slide3

Nú ber svo við að endurgreiningin sem við höfum svo oft notast við með góðum árangri stendur sig ekki alveg nógu vel. Þó má þakka fyrir það að eðli veðranna skilar sér - við sjáum vel hvað var á seyði. 

Myndin hér að ofan sýnir stöðuna kl. 18 síðdegis þann 3. mars 1938. Þá er fyrri lægðin við Breiðafjörð - ágætlega staðsett, en um 10 til 12 hPa of grunn. Á kortið eru dregnar jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins - jafngildar sjávarmálsþrýstilínum, 40 metra bil á milli lína eru 5 hPa. 

Slide4

Hér má aftur á móti sjá hæð 500 hPa-flatarins á sama tíma. Gríðarlega öflug vindröst teygir sig um kortið þvert, og á henni greinileg bylgja samfara lægðinni við Ísland. Næsta bylgja er svo yfir Labrador. Við vitum að talsvert vantar upp á snerpu lægðarinnar - en ekki er víst að háloftagreiningin sé alveg jafnvitlaus. Jafnhæðarlínur eru ekki sérlega þéttar yfir landinu og skýrir líklega hvers vegna ekki varð jafnmikið tjón í þessari lægð og hinni síðari. 

Slide5

Kortið gildir um miðnætti að kvöldi þess 4., rétt áður en aðalveðrið skall á í Reykjavík. Lægðin er allt of grunn í greiningunni - það munar meir en 25 hPa. Óþægilegt er til þess að hugsa að þrátt fyrir svona æpandi villur virðast fjölmargir hneigjast til að nota endurgreiningar sem þessa sem grunnsannleik í vangaveltum um breytingar á stormatíðni (og fleiru). - Svipað má þá segja um ámóta gerð framtíðarlíkana. - Alla vega eru hiklaust birtir alls konar leitnireikningar langt inn í framtíðina. 

En engu að síður verður að telja gæði greiningarinnar til kraftaverka - hún sýnir báðar lægðirnar nokkurn veginn á réttum stað á réttum tíma - og gefur mjög gagnlegar vísbendingar um eðli þeirra. Er samt ekki betri en sannleikurinn sjálfur - munum það. 

Slide6

Við getum ekki alveg neglt veðrið af háloftakortinu - var það hreint hárastarveður? - hes heimskautarastarinnar teygir sig niður í fjallahæð eða jafnvel neðar - eða kom það sem oft er kallað stunga við sögu? - stungur eru lágrastir nærri miðju krappra lægða - kannski hvort tveggja - annað suðvestanlands heldur en eystra? 

Slide7

Kort sem sýnir veðrið á Íslandi þessa nótt er ekki til - veðurathuganir voru ekki gerðar að næturlagi árið 1938 - og engin vakt yfir blánóttina á Veðurstofunni. Kortið hér að ofan gildir kl.8 um morguninn - þá voru enn 10 vindstig á Seyðisfirði og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, en hægur norðan og -7 stiga frost í Horni í Hornvík á Hornströndum. 

Slide8

Slatti af þrýstiritum var í landinu á þessum tíma og með aðstoð þeirra mætti fylgja lægðinni - og þrýstibratta í tengslum við hana nokkuð nákvæmlega þótt ekki hafi verið lesið af loftvogum um nóttina. - Ritinn úr Reykjavík sýnir lægðirnar tvær mjög vel - það er vel hægt að koma sér upp fegurðarsmekk gagnvart sveigjum þrýstirita og eru þessar fagurlegar - að smekk ritstjóra hungurdiska. - Örin bendir á Reykjavíkurfárviðrið. 

Slide9

Í veðurbókum Reykjavíkur lifði enn á þessum tíma sérstakt táknmál sem lýsti veðri yfir daginn - í mjög stuttu „máli“. Þetta táknmál má sjá í fullri notkun bæði í Meteorologisk Aarbog sem danska veðurstofan gaf út fyrir Ísland á árunum 1873 til 1919 og í Íslenskri veðurfarsbók sem Veðurstofan sendi frá sér 1920 til 1923. - Þá voru fjárveitingar til útgáfunnar skornar niður - enn ein birtingarmynd landlægs skilningsleysis íslenskra ráðamanna á náttúrufarsrannsóknum. Trúlega hefur draumurinn um endurreisn Veðurfarsbókarinnar lifað með stjórnendum Veðurstofunnar.

En hvað þýðir þetta sem við sjáum? Hér er lýst veðri í Reykjavík 3. til 6. mars. Fyrri lægðin gengur yfir þann 3. Punktur er merki fyrir regn, „a“ táknar fyrir hádegi og a með punkti fyrir framan táknar því að rignt hafi fyrir hádegi. Éljamerki á undan a og p þýðir að él hafa verið bæði fyrir og eftir hádegi. Vindörin merkir ekki stefnu - heldur aðeins styrk - hér 11 vindstig sem p-ið segir okkur að hafi verið síðdegis. Ritstjóranum er ekki alveg ljóst hvers vegna svigi er utan um - en vel gæti verið að sviginn bendi á að þetta veður hafi ekki verið ríkjandi.

Þann 5. sjáum við éljamerkið á undan n (nótt),ap (allan daginn), svo sýnir vindörin fárviðri um nóttina - og svo dularfullur svigi um síðdegisélin - kannski hefur úr þeim dregið þegar á daginn leið?

En lítum líka á lauslegt yfirlit um tjón - í blöðunum má að auki finna slatta af bæjanöfnum sem ritstjóri hungurdiska á eftir að elta uppi. 

Í veðrinu þann 3. urðu talsverðar skemmdir á flóði og í brimi í Grindavík, vegurinn að Sandgerði skemmdist í brimi. Mörg færeysk fiskiskip lentu í áföllum undan Suðurlandi, eitt þeirra fórst og með því 17 menn, menn slösuðust á öðrum eða féllu útbyrðis. Togarar fengu á sig áföll og slösuðust nokkrir menn.

Tjónið þann 5. varð miklu víðtækara.

Mörg erlend fiskiskip löskuðust. Timburhús í Kleppsholti í Reykjavík fauk af grunni og mölbrotnaði, íbúana sakaði lítið, þök tók af nokkrum húsum í bænum, bílskúr eyðilagðist. Talið er að meir en 20 önnur hús í Reykjavík hafi orðið fyrir teljandi fokskemmdum, grindverk og jafnvel steinveggir skemmdust um allan bæ. Fjárhússamstæða fauk á Reynisvatni í Mosfellssveit, þak rauf á Korpúlfsstöðum og skemmdir urðu í Leirvogstungu og fleiri bæjum þar í grennd. Járnplötu- og reykháfafok varð á húsum í Grindavík, Sandgerði, Keflavík og á Akranesi, tjón varð í höfninni í Sandgerði og þar fauk heyhlaða og önnur brotnaði. Margir vélbátar skemmdust í Vestmannaeyjahöfn. Miklar símabilanir urðu, fjara var suðvestanlands þegar veðrið var sem verst - og þótti það hafa bjargað miklu.

Tjón varð á útihúsum á nokkrum bæjum í Miðfirði. Þak fauk af húsi á Sauðárkróki. Miklar bilanir á raflínum á Akureyri.

Þak síldarverksmiðjunnar á Raufarhöfn skaddaðist og tjón varð á bæjum á Melrakkasléttu. Þakhluti fauk á Skálum oá Langanesi og gafl féll á húsi, járnplötur fuku af prestsetrinu á Sauðanesi og sláturhús fauk á Bakkafirði og þar í grennd sködduðust útihús á nokkrum bæjum. Í Vopnafirði fuku 7 hlöður og nokkuð foktjón varð í kauptúninu. Í Húsavík í Borgarfirði eystra jöfnuðust flest hús við jörðu og þrír menn slösuðust, barnaskólahús laskaðist á Borgarfirði og þar skemmdust mörg hús illa og skekktust á grunnum, auk rúðubrota og járnplötufoks. Mikið tjón varð einnig á bæjum í Loðmundarfirði. Mikið tjón varð í Seyðisfirði, þak tók af tveimur hlöðum og á Vestdalseyri fauk stórt fiskipakkhús, íbúðarhúsið á Dalatanga skekktist og rúður brotnuðu, þar fauk og þak af hlöðu, járnplötur fuku og gluggar brotnuðu í kaupstaðnum.

Tjón varð á flestum húsum í Eskifjarðarkaupstað, minniháttar á flestum, en fáein skemmdust verulega, þak tók af kolaskemmu og rafmagns- og símalínur í bænum rústuðust. Tjón varð einnig mikið á nágrannabæjum og nokkuð foktjón varð á Búðareyri í Reyðarfirði. Járn tók af húsum í Neskaupstað, bryggjur og bátar löskuðust. Heyskaðar og miklar símabilanir urðu víða og bryggjur brotnuðu á Fáskrúðsfirði. Á Fáskrúðsfirði tók þök alveg af tveimur íbúðarhúsum og fleiri hús þar og í nágrannabyggðum urðu fyrir skemmdum. Þak fauk af húsi á Jökuldal og talsverðar skemmdir urðu á Eiðum.

Járnplötur fuku á nokkrum bæjum í Hornafirði. Heyhlaða fauk á Flögu í Skaftártungu og þak af fjárhúsi á Fossi á Siðu, minniháttar tjón varð í Landbroti. Tjón varð að á minnsta kosti 30 stöðum í Árnessýslu, tjón varð á fjölmörgum bæjum í Rangárvallasýslu vestanverðri austur í Fljótshlíð, fjórar hlöður fuku í Landssveit og tjón varð á fleiri húsum á nokkrum bæjum. Refabú fauk á Arnarbæli í Ölfusi.Miklar skemmdir urðu í Flóa og á Skeiðum, þar fuku þök af útihúsum á nokkrum bæjum. Þak fauk af barnaskólanum á Eyrarbakka og veiðarfærahjallur fauk.

Hér var getið um tjónið í Húsavík eystra. Um það ritaði Halldór Pálsson ágæta grein sem birtist í Tímanum rúmu ári síðar, þann 28. mars 1939. Þessa fróðlegu grein má finna í viðhengi með þessum pistli. Kenna mætti þetta veður við Húsavík. Halldór varð síðar þekktur meðal veðurnörda fyrir bækur sínar „Skaðaveður“. Þær urðu líklega fimm talsins og fjalla um illviðri hér á landi á árunum 1886 til 1901. Áhersla er á Austurland - þótt aðrir landshlutar komi reyndar við sögu. Mikill fróðleikur er í bókum þessum og fá þær bestu meðmæli ritstjóra hungurdiska. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband