Kalt - eða ekki svo kalt?

Kælan úr vestri afrekaði að koma lágmarkshitanum í Reykjavík niður fyrir frostmark - í fyrsta sinn á þessu hausti. Ekki er vitað til þess að svo lengi hafi fyrsta frost áður dregist í höfuðborginni.

Fleiri stöðvar enduðu líka sitt frostlausa skeið - og standa nú fáar eftir hreinar. Þegar þetta er skrifað (rétt fyrir miðnætti þann 17. nóvember) eru þær aðeins sex: Surtsey, Seley, Garðskagaviti, Vattarnes, Papey og Kolgrafafjarðarbrú, sú síðastnefnda reyndar við fall, komin niður í 0,1 stig núna kl.23. Kannski lifir frostleysan ekki af nóttina á hinum heldur. 

Annars er þessi norðanátt - sem nú er komin upp úr vestanáttinni - furðuhlý miðað við árstíma. Enginn tími hefur enn gefist til að ná í raunverulega kalt loft. Geislunarbúskap er þó þannig háttað núna í skammdeginu að hiti hrapar strax og það lægir og léttir til. Engan vind eða minnstu blöndun af öðrum orsökum þolir þó sá kuldi - ekki einu sinni að saklaus flákaský - sem ekkert virðast geta gert - dragi upp á himininn. 

Við skulum líta á stöðuna á laugardaginn - eins og hún verður að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg181116aa

Hér er norðanáttin enn ríkjandi - trúlega skefur enn og snjóar á stöku stað - sérstaklega um landið norðaustanvert. En við látum Veðurstofuna alveg um að gera grein fyrir því. En það er stutt í hægviðrið vesturundan. Að sjá er norðanáttin komin langt norðan úr Íshafi. Það er kannski ekki alveg rétt tilfinning því hún er alls ekki köld. Kannski bara vestanloftið að snúa aftur úr norðausturleiðangrinum. Vel má vera að úrkoman verði blaut í hafáttinni nyrðra - alla vega við sjávarsíðuna.

Óþægilega kröpp lægð er við Bretland - svo á leið inn á Norðursjó. 

w-blogg181116a

Háloftakortið sýnir okkur að norðanáttin er djúp - hún er líka ríkjandi í 5 km hæð yfir landinu - munur á flatarhæð yfir landið er um 70 metrar - á að giska 9 hPa - er örlítið meiri við sjávarmál á kortinu fyrir ofan - það lítilsháttar þykktarmunur (hitamunur) á milli Vestfjarða og Suðausturlands sem bætir aðeins í vindinn í neðstu lögum. 

En það er nú aðallega þykktarflatneskjan sem vekur athygli - risastórt svæði í sama daufa bláa litnum. Þessi daufblái litur þykir mjög kaldur á Bretlandi á þessum árstíma - meðalþykkt yfir Norður-Írlandi í nóvember er um 5400 metrar, á þessu korti er hún um 120 metrum lægri - hiti í neðri hluta veðrahvolfs um 6 stigum undir meðallagi. Hlýtt yfirborð lands og sjávar á þeim slóðum sér til þess að hitavik við jörð verða ekki alveg svona stór. 

Hér á landi er meðalþykktin í nóvember hins vegar um 5280 metrar, á kortinu er þykktin yfir landinu um 60 til 70 metrum lægri, hitavik upp rúm 3 stig - en það sama á líka við hér og á Bretlandi - að raunvikin við jörð eru lægri við sjóinn og þar sem vindur nær að blása. Aftur á móti geta neikvæðu vikin orðið meiri inni í sveitum sé bjart og lygnt. 

En hvað svo? Satt best að segja er það eitthvað afskaplega óljóst. Staðan virðist eitthvað mjög svo óstöðug á vesturhveli næstu dagana - og þar með hér á landi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband