Fárviðrið 5. janúar 1952

Enn segir af Reykjavíkurfárviðrum. Það sem er nú til umfjöllunar er líka í flokki verstu veðra á landsvísu. Lægðin var lík systrum sínum sem ollu veðrunum 1981 og 1991 - nánast af sama uppruna - en eftirleikurinn varð samt ekki alveg sá sami því 1952 fylgdi sérlega slæmt útsynningsveður í kjölfarið og náði vindhraði þá aftur fárviðrisstyrk í Reykjavík - nærri tveimur dögum eftir hið fyrra skiptið. Þessi útsynningshali fær sinn eigin pistil.

Slide1

Hér má sjá forsíðu dagblaðsins Vísis laugardaginn 5. janúar 1952. Þá þegar höfðu ýmsar fréttir borist af tjóni. 

Slide2

Kortið sýnir stöðuna (að mati c20v2-endurgreiningarinnar) seint að kvöldi 3. janúar. Hér er sígilt illviðrisupplegg. Djúp lægð við Suður-Grænland veldur landsynningsillviðri hér á landi og dælir jökulköldu Kanadalofti út yfir Atlantshaf til móts við aðvífandi lægð - sem síðan lendir í óðavexti. Nýja lægðin er á kortinu suður af Nýfundnalandi, um 988 hPa djúp að mati endurgreiningarinnar.

Slide3

Á háloftakorti sem gildir 12 stundum síðar (um hádegi þann 4.) er nýja lægðarbylgjan komin austur fyrir Nýfundnaland - kuldapollurinn Stóri-Boli vomir yfir Davíðssundi. 

Slide4

Svo vill til að finna má hefðbundið veðurkort sem sýnir stöðuna á hádegi þann 4. í kennslubók Peter Dannevig, „Meteorologi for flygere“ - sem ritstjóri hungurdiska eignaðist á Akureyri 22. janúar 1968. Skil fyrri lægðarinnar eru á kortinu komin langleiðina yfir landið. Á eftir þeim var vindur hægur - en það snjóaði talsvert, sérstaklega í uppsveitum á Suðurlandi og átti sá snjór og sá sem síðar féll eftir að valda miklum vandræðum í mánuðinum - þiðnaði og fraus á víxl.

Slide5

Um nóttina hvessti suðvestanlands og gerði mikla landsynningsslydduhríð - en snerist svo í suðvestanofsa sem um hádegi hafði náð vel inn á Faxaflóa - þá var enn skárra norður við Breiðafjörð og á Vestfjörðum - eins og sjá má á kortinu hér að ofan. Þrýstingur í Stykkishólmi og í Bolungarvík er nálægt 941 hPa og lægðin greinilega dýpri en það - vel innan við 940 hPa. - Það sem er sérlega athyglisvert á þessu korti er hið gríðarlega þrýstifall sem kemur fram í skeytunum frá Norður- og Austurlandi, yfir 20 hPa á 3 klst á þremur veðurstöðvum - og -28,2 hPa á Dalatanga. Þetta er reyndar ekki met - en nærri því. 

Slide6

Endurgreiningin nær stöðu lægðarinnar - og eðli - nokkuð vel, en nokkuð vantar upp á snerpuna. Uppgefið dýpi í lægðarmiðju er 949 hPa - líklega að minnsta kosti 10 hPa hærra en hið raunverulega. Þetta er alvanalegt í endurgreiningum - vonandi gengur betur næst. 

Slide7

Dannevig sýnir okkur annað kort - það gildir kl.18 og var lægðin þá komin langleiðina til Jan Mayen - talin 937 hPa í lægðarmiðju. Gríðarlegt vestanveður geisar um land allt. 

Slide8

Í Reykjavík varð veðrið enna verst um hádegisbil - kl. 13 var mældist vindur á Reykjavíkurflugvelli 34 m/s og hviða 43,2 m/s. 

Slide9

Þegar penni þrýstiritsins stefndi niður fyrir blaðið var gripið til þess ráðs að færa hann upp um 20 hPa (eða þar um bil) - og var ekki færður niður aftur fyrr 3 dögum síðar. Þrýstibreytingarnar samfara lægðinni eru gríðarlegar. 

Vestanáttin sem fylgdi í kjölfarið stóð svo í meir en 2 daga - vindstyrkur var lengst af meiri en 20 m/s og náði loks fárviðrisstyrk aftur aðfaranótt þess 7. (meir um það síðar). 

Gríðarlegt tjón varð í þessu veðri og er reynt að telja það helsta sem fram kom í blaðafréttum hér að neðan. 

Einkennilegust varð þó ferð togarans Faxa - sem áður hét Arinbjörn hersir. Í landsynningsofsanum aðfaranótt þess 5. slitnaði hann mannlaus upp í Hafnarfjarðarhöfn og rak út á Flóa. Þar tók útsynningurinn við honum og leiddi í gegnum vandrataða skerjaleið inn á Borgarfjörð þar sem hann loks strandaði óskaddaður á sandeyri skammt frá Borgarnesi. Var sagt að Arinbjörn hafi leitað á heimaslóðir Egils Skallagrímssonar vinar síns - undir hans leiðsögn. 

Annar atburður varð Borgnesingum líka sérlega eftirminnilegur. Vélskipið Eldborg - slitnaði upp frá bryggjunni - stefndi á brúna yfir Brákarsund - en náði vélarafli þannig að hægt var að sveigja frá og keyra upp í fjöru rétt neðan við mjólkursamlagið - eins og sjá má á óskýrri mynd Morgunblaðsins viku síðar.

Slide10

Þess má geta að ritstjóri hungurdiska er bakvið húsvegg á þessari mynd. Síðar í mánuðinum (þann 19.) strandaði flóabáturinn Laxfoss við Kjalarnes og eyðilagðist. Eftir að Eldborgin náðist á flot gekk hún um nokkurra ára skeið inn í flóabátshlutverkið - þar til Akraborgin fyrsta mætti til leiks 1956. 

Bátar og skip slitnuðu upp í flestum höfnum um landið sunnan- og vestanvert og skemmdir urðu víða á húsum og fólk varð fyrir meiðslum. Bátur frá Akranesi fórst með sex manna áhöfn, og mörg skip og bátar lentu í miklum hrakningum.

Hús 7 manna fjölskyldu við Selás ofan við Reykjavík skaddaðist mjög og varð óíbúðarhæft. Þak losnaði á þvottahúsi Landsspítalans, plötur fuku víða í Reykjavík og rúður brotnuðu. Veðrið gerði sérstaklega mikinn usla í Blesugróf, en þar voru flest hús byggð af vanefnum. Strætisvagnaferðir gengu illa í úthverfum því vagnarnir fuku til á svellinu sem var á götum, tíu strætisvagnar lentu útaf götum. Allmargt fólk meiddist aðallega af falli á hálku. Flugvélarflak fauk í Skerjafirði og reistist upp á endann við flugskýli. Miklar skemmdir urðu á loftlínum á höfuðborgarsvæðinu og mikil hætta stafaði af lausum línum. Togara rak upp í Geldinganesi og annar slitnaði upp á Akranesi aðeins með vaktmenn um borð. Miklar skemmdir urðu á gróðurhúsum í Mosfellsdal.

Menn í Keflavík töldu veðrið hið versta þar síðan 1906, þar fauk þak af aðgerðarhúsi og olli tjóni á fleiri húsum. Algjörlega vatnslaust varð þar í bæ og vandræði af vatn- og rafmagnsleysi sem stóð í marga daga. Tvö fiskihús fuku í Grindavík og járn af fleiri húsum.

Sjór gekk upp á götur á Eyrarbakka og Stokkseyri og járnplötur fuku af fjölda húsa á Selfossi. Á síðastnefnda staðnum brann lítið íbúðarhús til kaldra kola í fárviðrinu og varð ekki neitt við ráðið. Fjórar mjólkurbifreiðir fuku út af veginum í Ölfusi, en þar var mikil hálka sem og víðast hvar á landinu. Tjón varð á gróðurhúsum í Hveragerði. Háspennulínan frá Sogsvirkjunum til Reykjavíkur slitnaði, raflínur til Hafnarfjarðar og Álftaness skemmdust verulega.

Dælur hitaveitunnar á Reykjum urðu rafmagnslausar og veitan því rekin með aðeins þriðjungsafköstum. Þak tók af íbúðarhúsinu á Kanastöðum í Rangárvallasýslu og hlöðuþak í Garðsauka, foktjón varð einnig á fleiri bæjum þar í sveit. Þök fuku á útihúsum í Holtum, þar varð mest tjón í Bjóluhjáleigu og í Kálfholti. Í Hagavík í Grafningi fauk þak af hlöðu og gróðurhús á Nesjavöllum skemmdist. Þök tók af útihúsum á Skeiðum, Efri-Brúnavöllum, Húsatóftum og víðar, þak fauk að nokkru á Galtafelli í Hrunamannahreppi.

Snjóflóð féllu á Hvalfjarðarveg og lokuðu honum. Fokskemmdir urðu í Kjós og á Kjalarnesi (mikið tjón á Valdastöðum og Saurbær nefnt sérstaklega) þar sem nokkrir sumarbústaðir fuku og þök rofnuðu á útihúsum. Þök fuku á fjölmörgum stöðum í Borgarfirði, m.a. hluti af stóru hlöðuþaki á Hvanneyri (og nokkrar plötur af þaki skólans) og ýmsum útihúsum í Álftártungu, Hofsstöðum, Álftárósi, Hvítárbakka (þriðjungur gamla skólahússins), Grímarsstöðum, Þingnesi, Vatnsenda, Indriðastöðum og Grund í Skorradal og á nokkrum fleiri bæjum í Andakíl og Reykholtsdal. Tjón varð einnig í Stafholtstungum og fauk þak af fjárhúsum í Neðra-Nesi og gróðurhús brotnuðu á nokkrum stöðum (getið um Ásbyrgi, Hellur, Bæ, Víðigerði, Runna og Jaðar).

Mannlausan togara rak frá Hafnarfirði og upp í Borgarnes. Þar slitnaði vélskipið Eldborg upp og rak upp í fjöru. Krapi stíflaði læk við Brautarholt við Borgarnes og ógnaði flóð úr honum kúm í fjósi. Fokskemmdir urðu í Miðdölum, mest á Fellsenda, Háafelli og Breiðabólsstað.

Bátar lentu í hrakningum á Ísafjarðardjúpi. Skemmdir urðu á Hólmavík og nágrenni, þar strandaði bátur og þök fuku af útihúsum á Smáhömrum og Hrófá. Sláturhúsþak fauk á Hvammstanga og skemmdir á bæjum í Vesturhópi. Skaðar urðu víða í Skagafirði, sérstaklega á gróðurhúsum og börn skárust á gluggagleri í Varmahlíð. Þak tók af íbúðarhúsi á Reykjahóli og skaðar urðu víða á Reykjaströnd. Bátar skemmdust á Hofsósi. Allmikið foktjón varð á Siglufirði.

Bifreið fauk út af götu nærri Lystigarðinum á Akureyri og niður bratta brekku niður í Hafnarstræti, bílstjórinn meiddist mikið, maður meiddist er skúr fauk á hann ofan við bæinn, fleiri í bænum meiddust. Hálfkarað þak fauk af nýju prentsmiðjuhúsi Odds Björnssonar. Ljósakerfi Akureyrar skemmdist mikið og járn tók af nokkrum húsum.

Þök tók af húsum á Svalbarðsströnd og í Höfðahverfi. Margir bæir í Svarfaðardal urðu illa úti, þök fuku á Urðum og Ytra-Garðshorni og stórt þak af verslunarhúsi í byggingu á Dalvík, hlöðuþak fauk í Hrísey. Í framsveit Eyjafjarðar fuku þök á Möðrufelli og Merkigili og flugskýli á Melgerðismelum skaddaðist. Nokkrar skemmdir urðu í Þingeyjarsýslum, mestar á Vatnsenda í Ljósavatnsskarði þar sem allt járnið af prestssetrinu fauk og á Stóruvöllum í Bárðardal þar sem hálft þakið fauk af íbúðarhúsinu. Þök sködduðust í Mývatnssveit, járn reif af bæ og útihúsum á Skútustöðum.

Þakplötur fuku á Raufarhöfn og tveir bátar sukku á Kópaskeri. Mikið tjón varð í Þistilfirði þar sem þak fauk af stóru peningshúsi í Laxárdal, foktjón varð á fleiri bæjum og bátar í höfninni og á legu við Þórshöfn skemmdust flestir. Þak fauk af fiskgeymsluhúsi á Bakkafirði, skemmdir urðu þar á bryggju, fleiri skemmdir urðu í þorpinu, hey fauk á Bakka og þak fauk þar af fjárhúsi. Allmikið tjón varð á nokkrum bæjum í Vopnafirði, mest í Fagradal þar sem þök tók af tveimur fjárhúsum og íbúðarhúsið skaddaðist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aftaka hafrót við Vestmannaeyjar bæði 5. og 7. jan. samkv. veðurathugnum þar.

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.11.2016 kl. 11:53

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Bestu þakkir Óskar. Það eru einhverjir gallar í sjólagsdálki veðurathugana í gagnagrunni Veðurstofunnar fyrir 1964 og hafa þeir ekki verið hreinsaðir og ég hef ekki athugað hvað veldur misræmi fyrir þann tíma - það eru t.d. allmörg tilvik aftakahafróts í skránni fyrir þann tíma - en eftir það er afskaplega lítið um aftakahafrót á Stórhöfða. Mikil breyting varð í töfluskráningu frá og með nóvember 1964 - en þá má segja að nútímatölvuvinnsla veðurathugana hafi hafist.

En smáfróðleik um sjólag og nöfn á því (breyttust 1955) má finna á:

http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1146

Trausti Jónsson, 17.11.2016 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband