Fárviðrið 13. janúar 1952

Illviðrasamt var um land allt í janúar 1952, en tíð var sérstaklega erfið um landið suðvestanvert - því þar var færð sérlega vond lengst af og ofsaveður, selta, ísing og krapi trufluðu rafmagnsframleiðslu og dreifingu auk þess sem símslit voru tíð. Í þessum mánuði var vindur þrisvar talinn af fárviðrisstyrk í Reykjavík. - Rétt er að minna á að grunur er um að vindmælirinn hafi ekki verið vel kvarðaður og var þar að auki í 17 metra hæð en ekki 10 m eins og lög gera ráð fyrir. - En við látum sem ekkert sé og fjöllum um þessi veður. 

Á landsvísu var veðrið verst þann 5. - en við bíðum með það þar til næst og lítum á illviðri sem hófst með landsynningsstormi síðla dags þann 12. en varð verst í Reykjavík síðdegis daginn eftir - sunnudaginn 13. janúar og þá af vestri. Tjón varð minna en ætla mætti - miðað við vindhraða en þess er að geta að margt lauslegt hafði þegar fokið í veðrunum nokkrum dögum áður. 

Slide1

Þarna gerir fréttamaður þá algengu villu að rugla saman vindhviðum og meðalvindi og segir að auki „hnútar á sekúndu“ - sem er líka rangt sem vindeining (rétt eins og að segja kílómetrar á klukkustund á sekúndu) - það heitir bara hnútar (= sjómílur á klukkustund). Vindstig eru (eða voru) hins vegar aðeins notuð um meðalvind - reyndar ýmist 10-mínútur (alþjóðaviðmið) eða klukkustund (sérvitrir bretar). 

Sem kunnugt er nær hinn venjubundni Beaufort-vindkvarði ekki nema í 12 vindstig, en í hitabeltinu hafði þegar þarna var komið tíðkast að framlengja hann upp í 17 og árið 1949 höfðu alþjóðaveðuryfirvöld freistast til að koma þeirri framlengingu á um allan heim. - Að tala um 14 vindstig var því hægt á þessum tíma - og var „löglegt“ til 1967 - að aftur var ákveðið að hætta notkun talna yfir 12. 

Slide2

Kortið sýnir stöðuna snemma að morgni þess 12. - að mati bandarísku endurgreiningarinnar. Þá var hæðarhryggur yfir landinu en vaxandi lægð suður af Grænlandi. Lægðin var í foráttuvexti - hugsanlega þegar dýpri en endurgreiningin segir. Ekki fór að hvessa að marki hér á landi fyrr en um kvöldið, þá skall á landsynningsstormur með krapahríð. Þetta kort sýnir hæð 1000 hPa-flatarins - jafnhæðarlínur eru dregnar með 40 metra bili - jafngildir 5 hPa, núll-línan jafngildir 1000 hPa - og svo er auðvelt að telja línur til beggja handa vilji menn þrýstinginn. 

Landsynningurinn stóð ekki mjög lengi í Reykjavík - vindur suðlægur og mun hægari kl. 3 um nóttina - en snerist undir morgun til suðvesturs og síðar vesturs og versnaði eftir því sem á daginn leið. 

Slide3

Kortið sýnir stöðuna kl.18. Greiningin nær nokkurn veginn dýpt lægðarinnar - og eðli hennar - en í raunveruleikanum var hún yfir Barðaströnd eða Breiðafirði kl. 18. Vestanstrengurinn sunnan lægðarmiðjunnar var gríðarmikill - um 11 hPa munaði á þrýstingi í Reykjavík og í Stykkishólmi - en svæðið norðan Faxaflóa slapp furðuvel frá veðrinu. Í vindstrengnum var líka mikil krapahríð - snjór inn til landsins og spillti færð. 

Veður í þessum janúar var líka slæmt í nágrannalöndunum - á þessu korti er bent á vaxandi lægð austur af Nýfundnalandi - hún fór í foráttuvöxt og olli gríðarmiklu veðri í Norður-Skotlandi og reyndar í Noregi líka tveimur dögum síðar. Breskar veðurbækur tala um Orkneyjafárviðrið. 

Slide4

Við getum giskað á eðli veðursins með samanburði á 1000 hPa kortinu og 500 hPa-háloftakortinu hér að ofan. Sé greiningin rétt eru jafnhæðarlínur 500 hPa-kortsins ívið gisnari yfir landinu sunnanverðu heldur en í 1000 hPa. Það þýðir að hlýr kjarni er í lægðinni - eins og algengt mun í hraðfara fárviðrislægðum á okkar slóðum. - Hlýr kjarni „bætir í“ vindinn (miðað við háloftin) - kaldur kjarni „dregur úr“ honum - þeir sem vilja geta reynt að muna þessa „reglu“. 

Slide8

Athugunarbókin frá Reykjavíkurflugvelli sýnir að veðrið var verst kl.18 - 10-mínútna vindhraði var þá 36,0 m/s og mesta vindhviða 43,8 m/s. Áttin var af vestri (260 gráður) - mikið él og skyggni var 200 metrar. 

Slide5

Vindritinu virðist ekki bera alveg saman um tíma - við sjáum þann hrylling fyrir veðurathuganir sem klukkuhringl hefur í för með sér - klukkan er ekki nema 5 (17) að íslenskum miðtíma (á klukkum starfsmanna) - en orðin 18 að alþjóðlegum veðurathugunartíma. - Nauðsynlegt var að hafa tvær klukkur uppivið í spásalnum.

Slide6

Eftirtektarsamir lesendur sjá að þrýstiritið er ekkert ósvipað því sem við litum á í pistlinum um „Edduveðrið“ - lægðin ámóta umfangsmikil - landsynningur fyrst síðan betra veður - en að lokum vestanfárviðri. Eðli þessara veðra trúlega svipað - en braut Eddulægðarinnar lá aðeins norðar.

Þetta tíunduðu blöðin helst af tjóni: 

Skip og bátar slitnuðu upp í Reykjavíkurhöfn, þar á meðal losnaði verksmiðjuskipið Hæringur að hluta til og skaddaði báta [forleikur að „Hæringsveðrinu“ tveimur árum síðar], víða tók járnplötur af húsum og heil þök lyftust. Allmikið af grjóti barst upp á Skúlagötu og teppti umferð. Víða urðu rafmagns- og símabilanir, m.a. stíflaðist aðrennslisskurður að Andakílsárvirkjun af skafrenningi þannig að skammta þurfti rafmagn frá henni næstu daga.  Kvöldið áður var skíðafólk hætt komið við Kolviðarhól í hríðarbyl. 

Í næsta pistli um fárviðri í Reykjavík verður fjallað um veðrið mikla viku á undan þessu - 5. til 7. janúar. Eigum við að telja það eitt - eða ættum við að skipta því í tvö?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki var það gallalaust að hætta að nota hærri tölu en 12 í vindstigum. Þá var t.d. lesið í veðurfregnum 12 vindstig þó vindhraði væri 85 hnútar. Eftir kvörtun og ramakvein þá lögðu stjórnendur Veðurstofunnar, sem á þessum tíma voru áhugasamir um veður og veðurathuganir, fyrir lesara veðurfregna í útvarpi að lesa hnúta ef veðurhæð var meiri en 71 hnútur. Stundum gleymdu lesarar þessari reglu og þá var eins gott að vera við símann og hringja inn leiðréttingu og tókst það gjarnan ef fljótt var svarað.

Oskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.11.2016 kl. 21:05

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Sú var tíð - en ...

Trausti Jónsson, 10.11.2016 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 15
  • Sl. sólarhring: 273
  • Sl. viku: 2394
  • Frá upphafi: 2434836

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 2121
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband