Af október 1959 og nú

Nú er staða mála þannig að meðalhitinn fyrstu þrjár vikur októbermánaðar hefur aðeins einu sinni verið hærri í Reykjavík. Það var á sama tíma 1959. Svo hittist á að þá var kosið til Alþingis rétt eins og nú. Kjördagar voru tveir, 24. og 25. - Þetta eru reyndar ekki einu skiptin sem Alþingiskosningar hafa verið í október, það var líka 1942 - og kannski oftar. 

Þótt þessir mánuðir 1959 og nú keppi í hlýindum - eru þau alveg ótengd kosningunum (eða vonandi eru þau það) - því tíð var fremur köld og illviðrasöm í kosningamánuðinum 1942. 

En tímaritið Veðráttan segir þetta um október 1959:

„Einmuna tíð var á Norður- og Austurlandi, en mjög úrkomusamt sunnan lands og vestan. Víða sáust útsprungin blóm í túnum, og ber voru óskemmd fram undir mánaðamót. Kýr voru yfirleitt ekki teknar á fulla gjöf fyrr en um veturnætur. Á óþurrkasvæðinu urðu hey sums staðar úti, en heyfengur varð þó mikill um allt land. Sumir fjallvegir tepptust vegna snjóa eftir þ. 25., og um sunnan- og vestanvert landið spilltust vegir sums staðar af bleytu. Gæftir voru yfirleitt fremur stirðar.“

Nú, - við lestur þessa texta sjáum við að sumir fjallvegir hafi teppst vegna snjóa eftir þann 25. - Það kólnaði sum sé - mánuðurinn gaf eftir þannig að október 1915 fór upp fyrir hann á lokametrunum í keppninni um hlýjasta október í Reykjavík. Í textanum er líka vísað í „óþurrkasvæðið“. Þar er verið að vísa í að síðari hluti sumars 1959 var heldur erfiður við heyskap víða á Suðurlandi - og hafði ekki tekist að ljúka heyskap. 

Við skulum líta á kort sem sýnir stöðuna í háloftunum á fyrri kosningadaginn 1959 í boði japönsku endurgreiningarinnar.

w-blogg221016b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - þykktin sýnd í lit. Af hæðarlínum má ráða styrk og stefnu háloftavinda - hér hægir af norðvestri yfir landinu. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs meðalhiti í október er um 5340 metrar - inni í grænu litunum. Hér er hún um 5260 metrar - um 80 metrum undir meðallagi, um 4°C. - Vikið í Reykjavík varð þó ekki svo mikið.

Við förum auðvitað að leiða hugann að því hvernig fari nú - hvert verður úthald þessa mánaðar í hitakeppninni? - Við vitum það auðvitað ekki - en við vitum hvernig fór 1959 og lítum á það á mynd.

w-blogg221016a

Línuritið sýnir hitavik í Reykjavík - miðað við meðaltal hvers dags 1961-2010 - í september til nóvember 1959 (rauð strikalína) og vikin í september og október nú - fram til dagsins í dag (21. október). Það er nokkuð sláandi hvað línurnar tvær fylgjast að - september svona í ríflegu meðaltali - síðan alveg sérlega hlýr október - að minnsta kosti framan af. -

Kólnunin sem varð svo í kringum kosningarnar 1959 var töluverð - en hiti fór samt ekki nema rétt undir meðallagið. Viðbrigðin hafa samt orðið mikil - og ekkert varð úr meti í Reykjavík. - En hann situr samt á toppi hlýindalista á 34 veðurstöðvum - nördin geta fundið lista yfir þær í viðhenginu. 

Svo leið aðeins fram í nóvember - þá gerði eftirminnilegt norðanveður - og kólnaði rækilega um hríð (og með hríð). Þann 13. nóvember var hiti -9 stigum undir meðallagi í Reykjavík - meðalhiti sólarhringsins -6,8 stig. Verulegt kuldakast gerði líka í nóvember 1915, en vonandi sleppir nóvember 2016 okkur við svoleiðis nokkuð - samt er aldrei á vísan að róa. 

Í pdf-viðhenginu eru veðurkort og veðurathuganir októberkosningadagana 1911, 1916, 1923, 1942 og 1949. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spáin núna er svipuð og gerðist 1959. Það á að kólna frá og með miðvikudeginum 26. og hitinn í Reykjavík fer ekki yfir 3 stigin síðustu þrjá daga mánaðarins.
Þannig að ekkert verður í hitametinu núna - ekki frekar en þá.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 22.10.2016 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband