15.9.2016 | 23:13
Fyrir 80 árum - þankar um veðrið sem grandaði Pourquoi Pas?
Fyrir 30 árum (tíminn líður hratt) setti ritstjóri hungurdiska saman hugleiðingar um illviðrið mikla 15. til 16. september 1936. Birtust þær í Lesbók Morgunblaðsins og má finna á netinu. Það sem hér fer á eftir er að nokkru endurnýting á þessum gamla pistli, með töluverðum breytingum þó - (smámunasamir gætu kannað hvort og hvernig skoðanir ritstjóra hafa breyst með aukinni elli).
Aðfaranótt 16. september 1936 fórst franska hafrannsóknaskipið Pourqoui Pas? undan Mýrum. Þótt því sér ekki að leyna að ýmsar tilviljanir hafi valdið slysinu, er jafnvíst að veður þetta var óvenju vont og hugsanlega það versta sem skipið hafði nokkru sinni lent í. Fréttin af slysinu var svo mikil og váleg að önnur slys og skaðar í þessu veðri féllu nokkuð í skuggann. Eignatjón á landi var þó mikið og manntjón meira á sjó.
Menn hafa löngum velt vöngum yfir því hvort lægðin sem veðrinu olli hafi verið afkomandi hitabeltisstorms eða fellibyls. Hafi svo verið er þann storm ekki að finna í skrám bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar. Það sem veldur því að hitabeltisfellibyljir breytast í norrænar fárviðrislægðir er að hlýtt og rakt loftið í fellibyljunum nýtist fullkomlega í lægðamyndun. Til þess að það gerist þarf það að ganga inn í hentugt norðurslóðakerfi annars gerist ekkert og loftið sveigir af til austurs eða jafnvel aftur í átt til uppruna síns - eða jafnast út við veðrahvörf.
Svipaður skammtur af hitabeltislofti, jafnröku getur alveg eins orðið kveikjan að fárviðri, jafnvel þó enginn fellibylur sé til staðar. Mjög líklegt er að rakt hitabeltiskerfi hafi í raun og veru komið við sögu í september 1936. Ritstjóri hungurdiska hefur stundum notað orðið hvarfbaugshroði um slík kerfi, orðið aðallega valið vegna þess að það hljómar vel - frekar en að gegnheil skilgreining standi að baki. Lesendur hafi það í huga.
Aðdragandi septemberveðursins mikla 1936 var mjög líkur þeim sem við sögu kom þegar fellibylur heimsótti okkur árið 1900 (um hann hafa hungurdiskar fjallað) og einnig þegar við fengum á okkur leifar fellibylsins Ellen 1973 (sjá grein ritstjórans í tímaritinu Veðrinu). Í öllum tilvikum barst mjög hlýtt loft úr norðurjaðri hitabeltisins norður til Íslands, en mætti á leiðinni köldu heimskautalofti sem kom frá Kanada.
Þann 14. september nálguðust skil alldjúprar lægðar við Suður-Grænland landið. Þá hvessti af suðaustri og rigndi á Suður og Vesturlandi. Þann 15. voru skilin að eyðast yfir landinu og í kringum hádegið var komin hæg sunnan- og suðaustanátt vestanlands, en enn var sunnan strekkingur um landið austanvert, enda skilin ekki komin þar yfir. Eftir klukkan 5 síðdegis fór jókst vindur og það tók að rigna. Ný og ört vaxandi lægð nálgaðist landið úr suðsuðvestri.
Myndin sýnir kort sem gert var á Veðurstofunni síðdegis þann 15. september. Það sýnir allt sem veðurfræðingar höfðu úr að moða. Mjög líklegt er að skipshöfn Pourquoi Pas? hafi séð megnið af þessum skeytum sem kortið sýnir. Þetta eru reyndar meiri upplýsingar en algengast var að hafa á þessum árum, loftskeytasamband hefur verið gott.
Hér má sjá hluta af þrýstiritablaði Reykjavíkurveðurstöðvarinnar. Lóðrétti ásinn sýnir þrýsting, en sá lárétti tíma, strikabil er 2 klukkustundir. Svo vill til að þrýstingur var lægstur í Reykjavík um miðnæturbil (breiða, lárétta strikið markar miðnætti). Þrýstifallið er jafnt og þétt, ekki sérlega mikið, oftast um 2 hPa á klukkustund, mest 3 hPa/klst milli kl. 20 og 21. Ekkert við þrýstifallið eitt og sér sem bendir til þess að eitthvað einstaklega óvenjulegt sé á ferðinni. Heildarfallið var í kringum 24 hPa og risið á eftir var svipað.
Við sjáum að ferillinn verður loðnari og loðnari eftir því sem á kvöldið líður það bendir til þess að töluvert sog hafi verið í Landsímahúsinu þar sem Veðurstofan var til húsa á þessum tíma við getum að einhverju leyti séð vindhraðann á breidd ferilsins. Áhrif vinds á þrýstirita eru þó háð húsum og þar með vindátt og engin leið að kvarða breiddina þannig að við vitum hver vindhraðinn var. Það má þó geta sér til um það að vindur hafi verið mestur í kringum miðnættið og um klukkan 2 hafi vindur verið farinn að ganga heldur niður.
Síðasta veðurathugun kvöldsins í Reykjavík var gerð á miðnætti. Þá voru talin 11 vindstig af suðsuðaustri. Næst var athugað kl. 6 um morguninn og þá var vindur kominn niður í 9 vindstig og stóð af suðri.
Á þessum tíma var ekkert athugað á nóttunni hér á landi þrýstiritarnir eru einu mælingarnar sem gerðar voru. Af þeim má nokkuð ráða í atburðarásina. Við skulum líta bút úr öðrum rita, frá Hesteyri í Jökulfjörðum.
Hér er miðnæturlínan vinstra megin á myndinni af samanburði við athuganir má ráða að klukkan er ekki alveg rétt og þrýstikvarðinn ekki heldur á réttum stað. Slíkt var og er algengt. Lægsti punkturinn er á klukku ritsins rúmlega fjögur, en svo virðist sem klukkan hafi þá í raun og veru verið á milli 2 og 3 ferillinn er því hliðraður um eina og hálfa klukkustund eða svo en e.t.v. rétt að fullyrða ekki endanlega um það að svo stöddu.
Þrýstifallið á Hesteyri var mun snarpara heldur en í Reykjavík, mest um 5 hPa/klst lægðin hefur dýpkað mjög snögglega og farið mjög hratt hjá. Í tímariti Veðurstofunnar, Veðráttunni, segir að hraðinn hafi verið 100 km/klst. Heildarþrýstifallið á Hesteyri var 31 til 32 hPa 7 til 8 hPa meira heldur en í Reykjavík. Austur á Hólum í Hornafirði var þrýstifallið ekki nema 10 hPa. Þrýstimunur yfir landið varð mestur kl. 4 um nóttina. Þá munaði 31 hPa á Hólum í Hornafirði og Bolungarvík - það er mjög mikið.
Engar háloftaathuganir voru gerðar á Íslandi eða í námunda við landið á þessum tíma. Við vitum því ekki nákvæmlega hvers eðlis veðrið var. Svo vill einnig til að endurgreiningar reiknimiðstöðva hafa ekki náð góðum tökum á því, en það stendur e.t.v. til bóta síðar. Ástæður þess að ekki hefur tekist betur til eru væntanlega þær að upplýsingar eru ekki fyrir hendi um stöðuna suður undir hvarfbaug næstu daga á undan.
Þrýstiritar landsins gefa til kynna að veðrið hafi e.t.v. verið tvíþætt annars vegar það sem óformlega hefur verið kallað hárastarveður hes háloftarastarinnar teygir sig til jarðar. Mörg sunnan- og suðaustanveður eru af þeim flokki en færri suðvestanveður. Trúlega hefur lægðin svo undið upp á sig og myndað það sem líka óformlega hefur verið nefnt snúðveður eða stunga. Slík hafa slitið sig frá háloftaröstinni og er hámarksvindhraði í þeim neðarlega í veðrahvolfi. En ritstjóri hungurdiska treystir sér ekki til að ráða hér fram úr af fullvissu nema að athuga málið mun betur en hann hefur gert og velur því leið hins lata að bíða eftir trúverðugri endurgreiningu.
Á miðnætti var nærri allt landið í hlýja geira lægðarinnar, í hvarfbaugsloftinu, sem var bæði hlýtt og rakt, m.a. komst hitinn á Akureyri 19,4 stig og í 19,0 á Húsavík. Heiðrekur Guðmundsson athugunarmaður á Sandi í Aðaldal segir í athugasemd þann 16.: 20° hiti kl. 3 í nótt, snerist úr stormi í SW ofsarok kl. 4.
Úrkoma á Suðausturlandi var mjög mikil, víðast tugir millimetra og í Hólum í Hornafirði mældist hún 122,3 mm.
Kuldaskilin fóru yfir Vesturland skömmu eftir miðnætti og voru komin austur fyrir land um kl. 6 um morguninn. Lægðin fór til norðurs rétt fyrir vestan land og var vaxandi allt þar til um morguninn en þá hafði vindur snúist til suðvestanáttar næst lægðarmiðjunni. Kortið sýnir áætlaða leið lægðarinnar og dýpt hennar. Sé þetta rétt hefur hún dýpkað um 26 hPa á sólarhring.
Veðrið olli gríðarlegu tjóni - listinn hér að neðan er unnin upp úr dagblaðafregnum þess tíma. Reyndar bera blöðin flest hver fréttaritara útvarpsins (FÚ) fyrir fréttunum. Staðkunnugir munu væntanlega finna villur og misskilning í listanum - alla vega finnst ritstjóra hungurdiska sumt harla grunsamlegt, en lætur kyrrt liggja að sinni. Hefði samt gaman af því að heyra af leiðréttingum.
Listinn sýnir vel að foktjón var langmest þar sem vindur hefur staðið af fjöllum. Veðrið hefur einnig rifið upp krappar öldur á fjörðum og í höfnum. Sjávarflóða er getið - kunna þau að hafa fylgt lægðinni, eins og stundum gerist.
Frumstæður listi um tjón í veðrinu:
Alls drukknuðu 56 manns, þar af 39 á Pourqoui Pas? Vélbáturinn Þorkell Máni frá Ólafsfirði fórst, og með honum 6 menn. Þrír fórust með báti frá Bíldudal. Tveir fórust er árekstur varð við Siglufjörð, mann tók út af vélbát og 5 menn tók útbyrðis af norsku Grænlandsfari í Faxaflóa.
Miklir skaðar urðu á bátum, húsum og öðrum mannvirkjum bæði vegna hvassviðris, sjávarflóðs og úrkomu. Miklar gróðurskemmdir urðu í görðum, blómjurtir taldar meira og minna ónýtar í Reykjavík og tré fokið og brotnað. Sundskáli fauk í Hafnarfirði.
Fokskaðar urðu um mestallt land, nema sunnantil á Austfjörðum.
Fé hrakti í sjó á Snæfellsnesi og á Rauðasandi. Í nágrenni Stykkishólms fauk silfurrefabú. Miklir fokskaðar urðu í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, í Gröf fauk hjallur, þvottahús og þak af hlöðu. Þak fauk af fjósi á Fornu-Grund og fjárhús skemmdust á Setbergi. Þrír hjallar fuku á Hellissandi, þak fauk af svonefndum Thorbergshúsum og járn fauk þar af fleiri húsum. Vélbátur sökk á höfninni, en náðist aftur. Steingafl hrundi úr íbúðarhúsi á Vaðstakksheiði, margir símstaurar brotnuðu milli Sands og Ólafsvíkur. Allmikið tjón varð í Fróðárhreppi. Heyhlaða fauk á eyðijörðinni Fróðá. Íbúðarskúr fauk í Innri-Bug. Þrír árabátar brotnuðu í spón á Hrísakletti og hey fauk víða. Bátar sködduðust í Breiðafjarðareyjum. Árabátar brotnuðu í Flatey og bátur fauk í Bjarneyjum. Geymsluskúr fauk á Brjánslæk og vélbátur brotnaði á Arnórsstöðum.
Geysistór flóðalda skall alveg upp að túnum á Rauðasandi og alla leið að Straumhól. Sást til bylgjunnar eins og hún væri gríðarhár veggur.
Járnplötur fuku af húsum á Patreksfirði og í hvalveiðistöð á Suðureyri í Tálknafirði, þök tók af húsum á Norðurbotni, Hvalskeri og í Sauðlauksdal. Hús á Hvallátrum skemmdust, trilla skemmdist í Breiðavík og þak fauk af hlöðu í Kollsvík. Miklir skaðar urðu á húsum á Bíldudal, þar varð einnig mikið tjón í höfninni. Flestir bátar í Patreksfjarðarhöfn sködduðust, þar slitnuðu upp tveir togarar og löskuðu bryggjur. Járn fauk af einu húsi.
Óvenjulegur sjógangur var við Arnarfjörð þar sem vélbátur tapaðist frá Stapadal og tveir árabátar brotnuðu þar í spón. Við Lokinhamra brotnuðu þrír bátar og þak tók þar af hlöðu. Á Hrafnseyri brotnaði bátur og járnþak tók af hlöðu. Á Laugabóli brotnaði vélbátur og þak tók af bænum á Ósi, hjallur fauk og fleiri hús skemmdust. Bátur brotnaði í Baulhúsum.
Í Dýrafirði varð tjón á húsum á nokkrum bæjum og heyskaðar urðu víða. Þak fauk af hlöðu í Hvammi og bær í smíðum í Múla gjörónýttist svo tóftin ein stendur eftir. Samkomuhús sem var í smíðum í Haukadal féll til grunna, nokkuð af viðnum brotnaði en sumt fauk á sjó út. Þar fuku einnig þrír bátar og hús skekktust á grunni, þak fauk af geymsluskúr, fjárhús fauk og þak af hesthúsi. Í Lambadal fuku peningshús. Nokkrir bátar á Þingeyri skemmdust.
Þök skemmdust á Ísafirði og mikið tjón varð í höfninni, þar rak upp margar trillur og tvo stærri báta. Sjór gekk upp á Hafnarstræti og skemmdist gatan talsvert. Að Brautarholti fauk hlaða og geymsluhús á Góustöðum. Skemmdir urðu á rafveitu Ísafjarðar, skúr fauk, smiðja og mótorskýli. Skemmdir urðu á húsum í Hnífsdal, þar fauk íbúðarhús ofan af hjónum og tveimur (eða 3) börnum, fólkið bjargaðist nauðuglega. Þök rauf þar á nokkrum húsum og ljósastaurar brotnuðu.
Þak fauk af húsi á Flateyri, fiskhjallar fuku og þar varð tjón á fleiri húsum, á Vífilsmýrum fauk fjárhús til grunna. Þök sködduðust bæði á Langeyri og Súðavík í Álftafirði. Þak tók af íbúðarhúsi í Meirihlíð í Bolungarvík og tjón varð þar á fleiri húsum.
Talsvert tjón varð í Súgandafirði, þar rak vélbát á land og hvalveiðiskip skemmdist. Hús hvalstöðvarinnar skemmdist talsvert (e.t.v er hér einhver ruglingur við Tálknafjörð). Á Norðureyri fauk árabátur, einnig fauk bátur í Kvíanesi. Geymsluhús fauk í Botni, hænsnahús, skemma og þak af hesthúsi í Vatnsdal, kál- og blómagarðar á Suðureyri skemmdust mikið. Galtarviti skemmdist og varð óvirkur um skeið.
Fjölmennur berjatínsluleiðangur lenti í miklum hrakningum í Hestfirði þegar bát þess rak á land og öll tjöld fuku út í veður og vind. Báturinn var talinn ónýtur.
Miklar skemmdir urðu á prestsetrinu í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi. Þak rauf af þrem hlöðum og vélbátur sökk. Þök fuku af þrem hlöðum í Heydal og Miðhúsum og hlöðum í Múla, Laugabóli og Hafnardal í Nauteyrarhreppi. Víða fauk hey á þessum slóðum og minniháttar skemmdir urðu á húsum.
Allmiklir skaðar urðu í Sléttuhreppi. Tvær hlöður fuku á Búðum og þar fór einnig geymsluhús og tveir bátar. Íbúðarhús í Holti í Aðalvík skekktist á grunni svo í því varð ekki búið. Skemmdir urðu á Hesteyri. Þar fauk þak af fiskhúsi, trilla eyðilagðist og bryggjur og plön skemmdust nokkuð.
Flest útihús á Ballará á Skarðsströnd eyðilögðust, torfveggir tættust í sundur og grjót úr þeim kastaðist langar leiðir. Járnþak fauk af íbúðarhúsi á Leiðólfsstöðum í Laxárdal og þök tók af útihúsum á Gillastöðum og Hrappstöðum. Verkfæraskúr ríkisins í Búðardal fauk. Þrír bílar tepptust í Miðá, þar á meðal 18 manna áætlunarbifreið. Refagirðing í Ytri-Fagradal fauk niður í djúpt gil og heytóft niður að veggjum í Innri-Fagradal. Skúr og hálft þak fuku í Hvalgröfum. Miklir heyskaðar urðu í Dölum. Þak fauk af húsi í Króksfjarðarnesi og bátar skemmdust þar. Bátur brotnaði á Reykhólum.
Allstórt geymsluhús fauk í Stóru-Ávík í Árneshreppi. Þar fauk einnig árabátur. Víða urðu heyskaðar þar í grennd.
Bryggjan á Skagaströnd skemmdist illa, þar rak trillubáta á land. Bryggja laskaðist á Siglufirði þegar flutningaskip sleit þar upp. Stór nótahjallur fauk og annar laskaðist á Siglufirði, þar slasaðist maður þegar skúr fauk á hann. Þök tók af hlöðum á Litla-Hamri og Jódísarstöðum í Eyjafirði. Járn tók af hlöðu i Grímshúsum í Aðaldal og af tveimur húsum á Húsavík. Þak fauk af hlöðu í Hreiðarsstaðakoti í Svarfaðardal. Tjón varð á Akureyrarhöfn er bátar slitnuðu upp og sukku, tré brotnuðu þar í görðum og reykháfar féllu.
Gríðarlegir heyskaðar urðu víða um land, ekki síst um landið norðanvert, þúsundir hesta víðsvegar um Skagafjörð, Húnavatnssýslur, í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Einnig urðu töluverðir heyskaðar í Vopnafirði. Þar skemmdust bátar lítillega í höfninni. Bátar urðu víða fyrir miklu netatjóni.
Nokkuð tjón varð einnig sunnanlands af sjávargangi. Sjóvarnargarður á Eyrarbakka brotnaði.
Suðurland slapp að mestu við hvassviðrið,Klemenz athugunarmaður á Sámsstöðum segir þar þó hafa fokið nokkuð af byggi og grasfræi, en þó minna en við mátti búast.
Mikil úrkoma var sunnanlands. Á Suðausturlandi urðu bæði skriðuföll og flóð, sem ollu umtalsverðu tjóni. Mikið tjón varð í skriðuföllum sunnan til á Austfjörðum, í Breiðdal, Berufirði, Lóni og í Suðursveit. Á Núpi á Berufjarðarströnd skemmdust tún og engi og sáðgarðar eyddust. Nýreist fjárhús sökk upp fyrir veggi í skriðunni. Jörðin Streiti (Stræti) er talin eydd. Rafmagnsstöð í Fossgerði skemmdist og þriðjungur túnsins eyddist. Á Berunesi stórskemmdust allar engjar. Íbúðarhús á Snæhvammi í Breiðdal skekktist á grunni, þar skemmdust einnig garðar og engi.
Miklar skemmdir urðu af flóðum í Hornafirði þar sem hey sópuðust af engjum, sauðfé fórst í vötnum og aurskriðum og vegir skemmdust. Símastaurar féllu og skriður runnu á tún í Lóni og Suðursveit. Rafstöðvar eyðilögðust og fé fórst í vatnavöxtum og skriðum, mikið hey flæddi. Á Kálfafelli í Fljótshverfi tók af rafmagnsstöð sem stóð við Laxá. Geysimikið flóð, meira en nokkurn tíma áður, svo vitað sé. Braut flóðið rafstöðvarhúsið, sem var úr steinsteypu og skolaði burt vatnsrörunum og nokkrum af varnarstíflu. Á Kálfafelli eyðilagði flóðið einnig sáðsléttu og reif upp yfir 300 metra langa túngirðingu. Ofsavöxtur hljóp einnig í Hólmsá og flæddi hún inní rafstöðvarhúsið í Hrífunesi og tók brúna á Kötlugili, Hólsárbrúna sakaði ekki, en flóðið skemmdi veginn beggja vegna.
Holtsá undir Eyjafjöllum braust úr farvegi sínum og olli tjóni, rafstöð á Kálfafelli í Fljótshverfi brotnaði að grunni. Klifandi í Mýrdal braust úr farvegi sínum og hljóp um stund fram hjá Pétursey, brúin yfir ána laskaðist lítilsháttar. Miklar vegaskemmdir urðu í Skaftártungu. Vegarskemmdir urðu við Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasamdi. Skriða féll í Seljavallalaug, braut þar grjótvegg og gróf undan gólfinu. Varnargarður brotnaði við Holtsá og flóði áin yfir tún.
Sem dæmi um veðurhörkuna fylgir hér stytt lýsing á veðrinu frá fréttaritara Alþýðublaðsins á Bíldudal, Ingivaldi Nikulássyni [Alþýðublaðið 23. september 1936]:
Þök fuku af íbúðarhúsum og heyhlöðum, en hjallar og smærri geymsluhús fuku með öllu og lentu sum á öðrum húsum og brutu þau. Trillubátar fóru allir. Sumir sukku, en aðra sleit upp og rak burt. Línuveiðaskipin Ármann og Geysi rak burt af höfninni og einnig gamalt þilskip, er Geysir heitir. Lentu þeir nafnar á norðurströnd fjarðarins, en Ármann mun vera á floti... og síðar Alt hey, sem úti var hér í dalnum, sópaðist gersamlega burt, svo ekkert sást eftir, og munu það hafa verið 200 hestar eða meira. Fjöldi síma- og rafmagnsstaura eru gereyðilagðir. Ekkert símasamband er nú við önnur héruð; ekkert rafmagn og ekkert útvarp... og enn Til dæmis um styrkleika vindsins má geta þess að síma- og rafmagnsstaurar brotnuðu um þvert, kastgrjót og stykki yfir 100 kg að þyngd fuku sem fis væri; girðingar úr tvöföldum vírnetum fóru í tætlur, og kartöflur og rófur sópuðust upp úr görðum. Meðan veðrið stóð sem hæst gengu þrumur og eldingar.Nokkrir menn, sem unnu að vegagerð á eyrunum fyrir sunnan Hól, misstu tjöld sín, rúmfatnað og annað, er þeir höfðu meðferðis og björguðust með naumindum heim að Hóli illa til reika."
Suðurland slapp að mestu við hvassviðrið,Klemenz athugunarmaður á Sámsstöðum segir þar þó hafa fokið nokkuð af byggi og grasfræi, en þó minna en við mátti búast. Mikil úrkoma var sunnanlands. Á Suðausturlandi urðu bæði skriðuföll og flóð, sem ollu umtalsverðu tjóni. Mikið tjón varð í skriðuföllum sunnan til á Austfjörðum, í Breiðdal, Berufirði, Lóni og í Suðursveit. Íbúðarhús á Snæhvammi í Breiðdal skekktist á grunni. Rafstöðvar eyðilögðust og fé fórst í vatnavöxtum og skriðum, mikið hey flæddi. Holtsá undir Eyjafjöllum braust úr farvegi sínum og olli tjóni, rafstöð á Kálfafelli í Fljótshverfi brotnaði að grunni. Klifandi í Mýrdal braust úr farvegi sínum og miklar vegaskemmdir urðu í Skaftártungu.
Nokkuð tjón varð einnig sunnanlands af sjávargangi.
Engir vindhraðamælar voru hérlendis um þetta leyti nema í Reykjavík en gögn frá þessum tíma finnast ekki og hefur riti mælisins e.t.v. verið óvirkur. Veðráttan talar þó um 34 m/s, en ekki er ljóst hvaðan sú tala er fengin eða hvort aðeins er verið að ræða um fárviðrisstyrk almennt. Erfitt er því að segja til um hversu hvasst varð. Auk þess varð veðrið verst um hánótt þegar engar veðurathuganir voru gerðar.
Með því að nota þrýstiritana er mögulegt að búa til kort sem sýna þrýstifar og þar með ágiskun um vindhraða. Ritstjóri hungurdiska hefur gert tilraun til þess en er ekki alveg ánægður. Kortin virðast sýna að á Faxaflóa hefur veðrið verið verst um kl. 1 um nóttina og á Norðurlandi nokkru síðar eða um kl. 3 til 5. Fullvíst er að vindur hefur víða farið í 30 til 35 m/s og líklegt er að mestu vindhviður á Snæfellsnesi og Vestfjörðum hafi verið yfir 55 m/s eða jafnvel meira.
Fyrir þá sem velta vöngum yfir ferð Pourqoui Pas? er hér tafla um líklega vindátt og veðurhæð úti í Faxaflóa. Vindhraði er í vindstigum, en um kl. 1 er ekki útilokað að vindur hafi náð 35 m/s (10 mín. meðaltal). Vindur inni á landi hefur verið nokkru minni (1 til 2 vindstigum) t.d. á Mýrum. Trúlega hefur vindáttin í raun lengst af verið suðlægari á svæðinu heldur en þessi hráa tafla gefur í skyn.
Vindátt og veðurhæð á Faxaflóa | |||
dagur | klst | átt | m/s |
15 | 12 | SA | 8 |
15 | 15 | SA | 10 |
15 | 18 | SA | 18 |
15 | 21 | SA | 18 |
15 | 24 | SA | 28 |
16 | 1 | SSV | 35 |
16 | 2 | SSV | 33 |
16 | 3 | SV | 33 |
16 | 4 | SV | 28 |
16 | 5 | SV | 25 |
16 | 6 | SV | 25 |
16 | 7 | SV | 25 |
16 | 8 | SV | 25 |
16 | 9 | SV | 20 |
16 | 10 | SV | 18 |
Eitthvað mun vera vitað um leið skipsins eftir að það lét úr höfn í Reykjavík síðdegis þann 15. og sjálfsagt mætti með hjálp þeirra upplýsinga sem og upplýsinga þrýstiritanna, annarra veðurathugana og frásagnar þess eina sem lifði slysið ráða í hvar skipið var statt á hverjum tíma og hvernig veðrið var.
Af blaðafréttum má helst ráða að skipið hafi fyrst siglt út fyrir Garðskaga en haldið aftur inn á Flóann í leit að vari. Gefið var í skyn að viti á Akranesi hafi verið tekinn fyrir Gróttuvita og hafi það reynst örlagaríkt. Rétt er að minna á að skyggni er nánast ekkert á sjó í veðri sem þessu vegna særoks og vitaljós hafa sést aðeins endrum og sinnum í gegnum sortann. Enginn viti var kominn á Þormóðssker - ýtti slysið mjög undir gerð hans.
Fyrstu fréttir af lægðinni bárust Veðurstofunni kl. 6 að morgni þ. 15. Þá var þegar ljóst að lægðin kæmi til landsins og eftir hádegið var greinilegt að vindur yrði a.m.k. 8 vindstig. Veðurspáin kl. 15 var svohljóðandi:
Ný lægð um 1.400 km SSV af Reykjanesi og mun hreyfast hratt norður eftir.
Suðvesturland til Vestfjarða: Sunnan stormur og rigning þegar líður á nóttina en sunnan eða suðvestan kaldi og skúrir á morgun.
Norðurland til Austfjarða: Stinningskaldi á sunnan. Hlýtt og víðast úrkomulítið.
Suðausturland: Stinningskaldi á sunnan. Rigning.
Hér er rétt að minna á að ekki var farið að gefa út veðurspár fyrir miðin sérstaklega eins og nú er. Spárnar kl. 19:10 og 01:15 voru svipaðar, og má sjá þær á mynd af spábókinni.
Þótt Veðurstofan hafi mátt sæmilega við una, er því ekki að neita að engan grunaði að veður yrði jafnslæmt og raun bar vitni. Allgóðar fréttir bárust af lægðinni, þannig að vel tókst til með staðsetningu hennar. Skip í kringum hana gáfu þó hvergi meir en 8 vindstig um daginn. Í ljós kemur að eftir klukkan 12 eru engar fréttir af vindi eða þrýstingi nærri lægðarmiðjunni og ekki var viðlit að sjá hversu mikið hún dýpkaði fyrr en það var orðið um seinan.
Trúlega gengi mun betur að spá fyrir um veðrið með tækjum og tólum nútímans, en veðurharka af þessu tagi er þó óvenjuleg í september (en alls ekki dæmalaus) og nokkra snerpu þarf hjá spámönnum til að koma viðvörunum til skila.
Ritstjórinn þakkar Jóni Gunnari Egilssyni fyrir myndatöku af korti og spábók.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 17.9.2016 kl. 00:01 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 913
- Sl. sólarhring: 1115
- Sl. viku: 3303
- Frá upphafi: 2426335
Annað
- Innlit í dag: 813
- Innlit sl. viku: 2969
- Gestir í dag: 795
- IP-tölur í dag: 732
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.