Hæð yfir Grænlandi

Undanfarna daga hefur hita verið mjög misskipt á landinu - og þannig verður það víst áfram - nema hvað allar tölur verða lægri en verið hefur að undanförnu. Hæðin yfir Grænlandi er í nokkrum vexti til okkar stefnir öllu kaldara loft.

w-blogg290716a

Kortið sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, hita í 850hPa-fletinum og úrkomu síðdegis á laugardag, 30.júlí og má sjá ákveðna norðaustanátt hér á landi. Hiti er um eða rétt undir frostmarki í 850 hPa-fletinu (í um 1500 metra hæð) um allt norðanvert landið. 

Sæmilega hlýtt ætti þó að vera í sólinni á Suðurlandi - en vestanlands verður víða næðingur og best veður þar sunnan undir vegg - eða í góðu skjóli. Norðanlands verður væntanlega þungbúið - en ekki veruleg úrkoma (sé að marka spána) - annars er erfitt um það að segja.

Sé rýnt í tölur á kortinu má sjá 1040 hPa við hæðina - þetta er reyndar fullmikið í lagt - reiknilíkön vilja gjarnan keyra upp þrýsting við sjávarmál þar sem ekkert sjávarmál er að finna - eins og yfir Grænlandsjökli - einkum í kuldapollum. 

Því hæðin er reyndar ekki öll þar sem hún er séð - yfir henni er dálítil lægð í háloftunum - kuldapollur. Þetta sést vel á kortinu að neðan.

w-blogg290716b

Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina. Langt er á milli jafnhæðarlína - vestanvindabeltið í sinni veikustu sumarstöðu á norðurhveli. Áttin er mun norðvestlægari heldur en á sjávarmálskortinu. Regla segir að snúist vindur á móti sól með hæð sæki kalt loft að. Það má alveg trúa þessari reglu - en þó verður að hafa í huga að við erum hér að stökkva upp um heila 5 km í einum rykk - og stöku sinnum (alloft) er eitthvað á milli sem flækir málin. - Förum ekki að ganga fyrir björg í ályktunum byggðum á nær engum athugunum. 

Við sjáum að mörkin á milli gulu og grænu litanna liggur um Ísland - eins og reyndar að meðaltali í júlí - það þýðir að á laugardaginn verður ekki orðið sérlega kalt miðað við meðaltal - bara kaldara en verið hefur að undanförnu, og við finnum auðvitað fyrir því. - En svo á græni liturinn að ná til landsins alls og dekkri grænn litur (kaldari) að fara suður á mitt land - um 3 stiga hitabil er á milli lita.

En hvað um það. Hlýtt loft er fyrir sunnan Grænland. Það fer reyndar aðallega til austurs fyrir sunnan land en kemur þó í veg fyrir að kuldapollurinn ryðjist yfir okkur um helgina og fyrri hluta næstu viku af fullum þunga. Hann hörfar því að nokkru aftur - en gæti svo snúið til baka enn síðar. Alla vega er ekki gert ráð fyrir neinum hlýindum að kalla næstu viku til tíu daga - en munum eins og alltaf að spár eru oft vitlausar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 16
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 414
  • Frá upphafi: 2343327

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 372
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband