Milt - jafnvel hlýtt (en engin hitabylgja)

Menn leggja nokkuð misjafna merkingu í orðið „mildur“ - þegar það er notað um veður. Hjá sumum liggur í því hitamerking - en hjá öðrum vísar það ekki síður til almenns góðviðris - jafnvel þótt kalt sé. Ekki er hollt að deila um slíkt - enda er merking orðsins „mildur“ líka á reiki þegar ekki er fjallað um veður. Nóg um það.

En næstu daga er hita spáð ofan meðallags og að slepptri rigningu víða um land og vindbelgings um tíma er samt frekar útlit fyrir að „hann fari vel með“ - og hlýtt loft verði ráðandi vel fram eftir vikunni. 

Það sést vel á kortinu hér að neðan sem gildir um hádegi á mánudag. Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina - eins og evrópureiknimiðstöðin leggur til. 

w-blogg180616a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og yfir Íslandi er hún vel yfir meðallagi árstímans. Brúni bletturinn yfir Vesturlandi sýnir meiri þykkt en 5520 metra - efni í 20 stiga hita þar sem best tekst til. En kannski er frekar ólíklegt að svo hár hiti náist - því líklega verður skýjað. Aldrei að vita samt - kannski vestur á fjörðum. - En eystra er þetta rigningarlegt útlit í hafáttinni. Ekki veitir af regni á þeim slóðum og sömuleiðis syðst á landinu þar sem tíðin að undanförnu hefur verið með allraþurrasta móti. 

Óvenjuleg hlýindi eru vestur í Bandaríkjunum suðvestanverðum og virðist sá hiti breiðast heldur til austurs næstu daga. Menn eru svosem ýmsu vanir þar um slóðir - en sumir kollegar ritstjórans taka djúpt í árinni varðandi spárnar - við sjáum til hvað setur - en lítum á kort sem gildir á mánudagskvöld, þykkt og hæð 500 hPa-flatarins sem fyrr.

w-blogg180616b

Hér er þykktin við 5990 metra - fer aðeins stöku sinnum hærra og 500 hPa-flöturinn strýkst við 6 km hæð - það er líka fremur óvenjulegt. Öflug lægðarbylgja er yfir Hudsonflóa og sópar mjög hlýju lofti norður og austur um Nýfundnaland, þar er þykktinni spáð yfir 5700 metrum sem er líka óvenjulegt. Margir vestra fylgjast spenntir með - en við látum þá ekki æsa okkur um of. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

milt veður .?. er minstakosti hálfum mánuði á eftir áætlun. hvernig skildu boðorðin vera mun grænland sparka þessari hitabygju suður fyrir land géta svona hitabylgjur skapa meiri lægðir en við eðlilegar aðstæður( ef má kalla eithvað eðlilegut í veðurfræði). lægðir sem verða til á þessum slóðum virðast hafa á tilhneigíngu að koma hér í heimsókn ef staðan er svona núna gæti þá júlí orðið votviðrasamur 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 19.6.2016 kl. 07:34

2 identicon

Bestu þakkir fyrir "mildar" hugleiðingar Trausti. Það er a.m.k. ekki milt á Suðurheimskautinu þessa dagana. Nýtt kuldamet 14. júní 2016 - en kuldametin eru auðvitað ekki eins heillandi og hitametin.

http://hmn.ru/index.php?index=1&ts=160615112429

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.6.2016 kl. 10:00

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þetta virðist vera eitthvað dægumrmet á Vostokstöðinni (hef júnímet staðarins að vísu ekki við hendina), júnímet Suðurskautsstöðvarinnar er -82,8, en júlímet Suðurskautslandsins alls er sett á Vostok og er -89,2 stig - og þarmeð heimsmet í kulda, sett 1983. Vostokstöðin hefur verið starfrækt í rúm 50 ár og því falla þar að jafnaði um 7 lágmarksdægurmet á ári hverju - fleiri í kólnandi veðurfari - en færri sé veðurfar hlýnandi. Spurning hversu mörg dægurmet hafa fallið þar á ári að jafnaði undanfarin ár? - Mánaðardægurmet falla þar að jafnaði á 4 til 5 ára fresti í jafnstöðuveðurfari - en eru auðvitað athyglisverð engu að síður. Hér á landi féllu 9 hámarksdægmurmet í gær á stöðvum sem athugað hafa í meir en 15 ár - og eitt lágmarksdægurmet féll líka.

Trausti Jónsson, 19.6.2016 kl. 13:08

4 identicon

Merkilegt að kuldametin á Suðurheimskautinu hafa verið að falla í seinni tíð en hitametið í heiminum er hundrað ára gamalt. Reyndar virðast áhyggjur þínar af meintri óðahafísbráðnun á Norðurheimskautinu á dögunum hafa verið ótímabærar. En auðvitað kemur ár eftir þetta ár.

http://www.bbc.com/news/science-environment-36560548?utm_source=Daily+Carbon+Briefing&utm_campaign=d1ab4ae3dd-cb_daily&utm_medium=email&utm_term=0_876aab4fd7-d1ab4ae3dd-303449629

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 20.6.2016 kl. 14:31

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Samfelldar mælingar hafa ekki staðið á Suðurskautslandinu nema í um 60 ár - ný met eru því algeng þar um slóðir - og reyndar er mjög stutt síðan hámarkshitamet Suðurskautslandsins féll. Mun lengur hefur verið athugað á hlýjustu stöðum heimsins - og því er erfiðara að fella heims- eða landshámarkshitamet. Mikið var hreinsað til í þeim listum nýlega - ekki veitti af - en enn hefur varla verið nægilega hreinsað að mínu mati. Það met sem nú telst heimsmet í hámarkshita (56,7 stig í Dauðadal í Kaliforníu 1913) er þannig að mínu mati mjög vafasamt - og um það eru fleiri veðurfræðingar sammála. Heimsmetið er líklega 53,9 stig - mælt oftar en einu sinni. - Ég ber ekki í brjósti neinar sérstakar óskir eða áhyggjur varðandi bráðnun íss á norðurslóðum í sumar - það er misskilningur að halda því fram að ég geri það - en fylgist auðvitað með.  

Trausti Jónsson, 20.6.2016 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg250125d
  • w-blogg250125c
  • w-blogg250125b
  • w-blogg250125a
  • w-blogg220125id

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.1.): 113
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 2227
  • Frá upphafi: 2437048

Annað

  • Innlit í dag: 96
  • Innlit sl. viku: 2028
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 83

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband