Kjarr á gömlu korti

Við rýnum nú í kort sem kennt er við Björn Gunnlaugsson og Hið íslenska bókmenntafélag. Um Björn má meðal annars lesa á Vísindavef HÍ og er þar vísað í ítarlegri heimildir. Kortið kom í (að minnsta kosti) tveimur útgáfum - sú fyrri, 1844, í mælikvarðanum 1:480 þúsund, samanstóð af fjórum blöðum. Myndin hér að neðan er kippt úr blaði sem ber titilinn „Suðvestr-fjórðungr“. 

Á kortinu eru aðskiljanleg merki - við horfum einkum á eitt þeirra, „skógr eða hrís“. Sýnist í fljótu bragði vera svartar skemmdir á kortinu - en kannski er í frumprenti eitthvað grænt innan um sortann. 

Það er forvitnilegt (finnst ritstjóranum) að athuga hvar Björn hefur séð (eða frétt af) skógi eða hrísi. Svo virðist sem sitthvað hafi farið fram hjá honum (eins og eðlilegt má teljast) - en merkið er einnig sett á fáeina staði þar sem lítt sér til kjarrs nú. Hrís getur hins vegar leynst nema beinlínis sé farið fótgangandi um svæðið í könnunarskyni. 

Við lítum eingöngu á Borgarfjörð, en látum áhugasama lesendur um aðra landshluta. Kortið skýrist nokkuð sé það stækkað. 

w-blogg200316a

Kjarr er víða í Borgarfirði - og var víða á fjórða áratug 19. aldar. Víða sér til svörtu kjarrflekkjanna á kortinu. Kunnugir taka eftir því að fjarlægðir milli staða eru sums staðar nokkuð brenglaðar - enga gps-punkta að hafa. 

Ritstjórinn hefur horft á öll (eða langflest) kjarrmerkin og getur staðfest að þau eru alveg raunveruleg - hefðu þó mátt vera lítillega fleiri - við sleppum upptalningu.

Þrír blettir (og ein eyða) vekja þó athygli ritstjórans og benda tölumerktar örvar á þá. Sá sem merktur er með tölustafnum 1 er í Hvítársíðu. Þar hélt hann að væri alveg kjarrlaust inn að Bjarnastöðum. Kannski finnst þar þó enn hrís í móum eða kjarr í giljum sé vel leitað - eða hefur orðið eyðing síðan 1830? Hvenær þá? 

Önnur örin (tölustafur 2) bendir á kjarrlausa norðurhlíð Skorradals - að minnsta kosti frá Hvammi og inn fyrir Fitjar - þetta er hugsanlega alveg rétt - þótt manni þyki það ótrúlegt í þeim þétta skógi sem þarna er í dag. Aftur á móti er Skorradalurinn að öðru leyti allur útataður í kjarrmerkjum á kortinu - og langt inn í dalbotn. Jú, mjög víða er kjarr í dalnum í dag - en hefur líka víða látið á sjá - tökum við kortið bókstaflega. 

Við tölustafinn 3 er bent á kjarrmerki ofan við Ferstiklu á Hvalfjarðarströnd - kjarr er og hefur verið þar vestan við - en náði það austar snemma á 19. öld eða er ónákvæmni kortsins um að kenna? 

Fjórða örin bendir á Skógarkotsland undir Tungukolli sunnan Borgarfjarðar. Eftir nokkurra áratuga friðun og einhverja plöntun er þar nú að koma upp kjarr á blettum, en annars var allt kjarr austan Seleyrargilja uppnagað. Enn hefur verið kjarr þarna á tíma Björns - og nafnið Skógarkot bendir líka til kjarrgróðurs. Á kortinu sýnist Hafnarskógur utar með fjallinu líka vera efnismeiri en við hin síðari tíma vitni viljum kannast við - en kortið er ekki nákvæmt.

Í fyrra bindi minningabókar Þorvaldar Thoroddsen segir orðrétt í frásögn af ferðalagi í Borgarfjörð í júlí 1871 (s.110 til 111): „Þá var enn nokkuð eftir af Hafnarskógi, hann var ekki hár, en nokkuð víðáttumikill, einstöku hríslur voru samt allstórar, og víða voru stórar skellur af uppblásnum holtum.“ Orðalagið „enn nokkuð eftir“ bendir til þess að Þorvaldur hafi síðar séð að skóginum hafði hrakað. 

Allvíða vantar kjarr á kortið á Mýrum í Borgar-, Álftanes- og Hraunhreppum - á staði þar sem örugglega var kjarr á öndverðri 19. öld. Til dæmis er ekkert kjarrmerki í námunda við Staðarhraun. Svo er hið dularfulla bæjarnafn Rauðabjarnarstaðir upp með Gufuá. Bærinn er nefndur í Landnámu - en veit einhver hvar hann var? Kannski er það Staður? 

Við tökum eftir Okjökli - sem sagður er býsna stór - og jökull er settur á Skjaldbreið sömuleiðis (sem kvu aldrei hafa verið - nema hugsanlega í gígnum). 

En landeyðing var ekki jafnlangt gengin á fyrri hluta 19. aldar og síðar varð. Vitnum aftur í Þorvald (sama bók blaðsíða 55), og vitnað í ferð sem hann fór 9 ára gamall (1864): Eg man að við áðum á Svínadal í Kjós, áður en við lögðum á Svínaskarð, þar var þá fagurt kjarr og hið mesta blómskraut af blágresi, fjallafíflum, lokasjóðsbræðrum o.fl., svo mjer þótti þar yndislegt að vera. Síðar hef eg mjög oft komið á sömu stöðvar og sjeð meiri og meiri afturför á gróðrinum, unz hann var að mestu uppurinn; líklega er þetta aukinni fjárbeit að kenna.“ - Svo mörg voru þau orð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

mikið hefur sauðféð mikið á samviskuni. men glema þó ymsu fólk var duglegt að eða skógum bæði til brensu og kolagerðar vitnar um kenileiti á landi mínu. eins var í tísku að brena sinu. eldur fer nú ekki í gróðurálit og eyrir eingu,leingi framan af var meira til af nautgrypum en sauðfé nautpeníngur er skaðræðisgripir í kjari. síðan kólnaði í veðri þá snéri landin sér að sauðfénu sem þoldu veturnar betur. ymsir jöklar hafa hörfað sem veldur uppfoki s.s. hagafelsjökull, langjökull færðist norður fyrir bjarnarfell skildi eftir sig sand sem eirði ekki gróðri, hvernig skildi nú botn skeiðarár koma til þegar hún er búin að breita um farveg. eflaust mun það ekki taka langan tíma að gróá upp ef sandurin fær frið fyrir jöklunum og framburði þeira enda þegtir skógar sem hafa farið undir aurskriður. senilega eru virkjanir mesta náttúruverndin sem við fórum í þá þurftu menn ekki að högva skóg í stórum stíl en ekkert hefur galla framburðurin nær ekki til sjávar sem gétur skýrt átuskort fyrir fiskin í kríngum vestmannaeyjar en vonum bara eftir góðu gosi í kötlu sem eflaust mun bjarga ýmsu. en eflaust var það sultur sauðfés sem ollu því að það fór að naga jökla. got og og vel þá er það verkefni jarðfræðínga að finna tannaförin 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 20.3.2016 kl. 14:24

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Skemmtilegt að rýna í gömul kort! Varðandi Hafnarskóg þá sagði mér maður sem alinn er upp við Leirá að á hans æskuárum hafi hann sótt kýr á svæði vestan árinnar þar sem nú er grasi gróið holt, en þar var þá svo mikið kjarr að kýrnar gátu horfið barninu sjónum á milli runnanna.

Sauðfjárbeit jókst mjög á landinu öllu, eflaust frá miðri 19. öld, og langt fram á þá 20. eftir því sem íbúum fjölgaði. Sauðféð nagar sprota en lætur eldri hríslur afskiptalausar. Það tekur því eflaust marga áratugi frá því skógurinn er í raun ofbeittur og þar til hann hverfur.

Brynjólfur Þorvarðsson, 20.3.2016 kl. 16:32

3 identicon

Skemmtileg grein og fróðlegar athuganir á korti spekingsins með barnshjartað. Á nítjándu öld og framan af þeirri tuttugustu gerðist margt, sem stuðlaði að því að nær var gengið gróðurþekju landsins en oftast áður. Í fyrsta lagi var veðráttan köld og ekki sérlega heppileg fyrir gróður. Í öðru lagi var þjóðinni tekið að fjölga frá þeirri lægð, sem hún fór í á átjándu öld m.a. vegna eldsumbrota og annarrar óáránar. Fleira fólk þurfti því mat og fatnað.  Í þriðja lagi upphófst sala á sauðum til Englands og farið var að fjölga fé mikið til að uppfylla kröfur markaðarins og tekjuþörf landsmanna. Fleira má auðvitað tína til en hér er ekki rými né tækifæri til að fimbulfamba meira um þetta.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 20.3.2016 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1036
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3426
  • Frá upphafi: 2426458

Annað

  • Innlit í dag: 924
  • Innlit sl. viku: 3080
  • Gestir í dag: 897
  • IP-tölur í dag: 830

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband