Hefði hlaupársdagur ekki ...

Hefði hlaupársdagur ekki skotist inn í dagatalið - hefði í dag verið 14. mars. Þann dag í fyrra gekk sunnan fárviðri yfir landið - hárastarveður á mállýsku ritstjóra hungurdiska. Veðrið í dag (ekki alveg jafnútbreitt og í fyrra) var líka hárastarveður. Lítum á myndir - góður dagahittingur.

w-blogg140316a

Þetta er þversnið úr harmonie-líkaninu - það fylgir 23 gráðum vesturlengdar (sjá kortið í horninu) - norður er til hægri á myndinni - gráu fletirnir neðst eru Snæfellsnes og Vestfirðir. Sniðið nær frá sjávarmáli upp í um 10 km hæð. Ljósbleika svæðið sýnir hvar vindur er meiri en 48 m/s, þetta er hes sem hangir niður úr heimskautaröstinni fyrir ofan og teygir sig í átt til jarðar. Við urðum fyrir hesi af þessu tagi 14. mars í fyrra. Fróðleiksfúsir gætu rifjað það upp og litið á pistil með myndum af því (þar eru líka ítarlegri skýringar).

Illviðrið í gær (12. mars) var annarrar ættar - hraðfara lágröst á leið hjá. Lágrastarveðrin eru fjölbreyttari ætt - og bakgrunnur þeirra nokkuð misjafn. Lágröstin er ekki eins öflug og sú hærri - en vindur niður undir jörð var þó ekki mikið minni.

w-blogg140316b

Þetta er sama snið - en kl.13 í gær (12. mars). Hér er vindhámarkið ekki efst í sniðinu heldur niðri í 850 hPa (um 1300 m). Gott dæmi um misjafnt veðraeðli.

En ekki er hægt að láta hjá líða að minnast á hitabylgju dagsins. Hiti fór í 17,6 stig á Siglufirði nú í kvöld og í 10 stig eða meira á 48 stöðvum í byggð (af 107). Siglufjarðarhitinn er landsdægurmet og reyndar hæsti hiti sem nokkru sinni hefur mælst á landinu fyrstu 26 daga marsmánaðar. Þetta er annað landsdægurmetið í mánuðinum - sem þó hefur ekki verið neitt sérlega hlýr, er nú 0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára í Reykjavík, en -0,4 undir því á Akureyri.

Þykktin var í kvöld í hæstu hæðum - nærri því hæsta sem vitað er um hér við land í mars.Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gilti kl.18 í kvöld.

w-blogg140316c

Á kortinu er þykktin yfir Norðurlandi meiri en 5520 metrar (þætti gott sumargildi). Í fljótu bragði finnst aðeins ein jafnhá tala í endurgreiningum - 18. mars 1979 (kuldaárið mikla) - í vestanlofti sem komið var yfir Grænland.  

Þetta er harla óvenjulegt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Hver er þá hitinn það sem af er mánuðinum í beinhörðum tölum?

Annars eru tölur um úrkomumagn einnig vel þegnar, enda hefur rignt mjög mikið síðustu daga þó það sé kannski ekki "harla óvenjulegt" í því rigningarbæli sem höfuðborgarsvæðið er.

Og þó. Fyrir tveimur sólarhringum var úrkoman 122 mm á Nesjavöllum. Orkuveitan hefur þá ekki þurft að dæla miklu vatni ofan í borholurnar sínar.

Torfi Kristján Stefánsson, 14.3.2016 kl. 07:46

2 identicon

Gaman væri að sjá spádóm frá þér Trausti varðandi hitastig á þessu sumri. Hvort þróunin í háloftunum verði svipuð og í fyrra, þegar kuldaboli réð ríkjum þarna uppi sem og þegar neðar dró.

Bjarni Einarsson (IP-tala skráð) 14.3.2016 kl. 11:53

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Meðalhiti í Reykjavík er 1,8 stig það sem af er, en -0,5 á Akureyri. Úrkoma á Nesjavöllum er komin upp fyrir meðaltal alls marsmánaðar - en það er eina stöðin sem enn hefur náð því. Mæling þaðan barst ekki í morgun (gæti komið síðar í dag) - en í gær hafði úrkoman þar ekki náð nýju meti fyrir sömu marsdaga (en gæti hafa náð því nú). Vogsósar hafa náð nýju meti - en ekki aðrar stöðvar. Metúrkomuleysi hefur verið á Skeiðsfossi - og óvenjuþurrt er í Eyjafirði (en ekki met).

Trausti Jónsson, 14.3.2016 kl. 12:02

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Bjarni - eina spáin sem ég hef séð um sumarið gerir ráð fyrir hita ofan meðallags 1981 til 2010 - norðlægum áttum - en skúrasælu veðri og svalviðri í háloftum. Heldur deyfðarleg spá satt best að segja - en ekki endilega áreiðanleg. 

Trausti Jónsson, 14.3.2016 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg230424
 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.4.): 230
 • Sl. sólarhring: 391
 • Sl. viku: 1546
 • Frá upphafi: 2350015

Annað

 • Innlit í dag: 203
 • Innlit sl. viku: 1406
 • Gestir í dag: 200
 • IP-tölur í dag: 195

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband