Meir af febrúar 2016

Ritstjóri hungurdiska reiknar alltaf út það sem hann kallar landsmeðalhita í byggð. Febrúar 2016 fær þar töluna -1,54 stig (-1,5), -0,7 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 en -1.9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. 

Þetta reynist vera kaldasti febrúar á landsvísu síðan 2002, en þá var meðalhitinn -4,02 stig, miklu lægri en nú. Það kemur nokkuð á óvart að í febrúar 2009 var hitinn aðeins sjónarmun hærri en nú (-1,45 stig) og ekki mikið hærri 2010 (-1,30 stig). Þessar tölur sýna að vafasamt er gera mikið úr kulda nú. 

En lítum á nokkur meðal- og vikakort mánaðarins - fyrst það sem sýnir loftþrýstinginn og vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010.

w-blogg020316aa

Heildregnu línurnar sýna meðalþrýsting við sjávarmál, en vik eru sýnd í lit. Hæðin yfir Grænlandi var ívið öflugri en að meðallagi, en viðvarandi lágþrýstingur yfir Skandinavíu. Saman bættu þessi kerfi í norðaustanáttina umfram það sem venjulegt er. 

Næsta kort sýnir meðalhæð 500 hPa hæðar og þykktar.

w-blogg020316ab

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - þykkt í lit. Hér má sjá að veikur háloftahryggur hefur stjórnað veðrinu í mánuðinum. Við vorum norðan meginrasta vestanvindabeltisins - þær beindu flestum lægðum til austurs langt fyrir sunnan land. Enda var þetta fremur veðrahægur mánuður - svona miðað við ólætin í fyrra alla vega - og ritstjóranum finnst mesta furða hvað vel rættist úr með allan þennan snjó á jörð. - En hæðarhryggir gerast ekki öllu vægari en þetta - og ekki tókst alveg að halda óhroðanum í skefjum og mánuðurinn var síður en svo illviðralaus. 

En á næsta korti sjást afbrigðin vel. Hér eru heildregnu línurnar þær sömu og áður - hæð 500 hPa-flatarins - en hæðarvik eru sýnd í lit.

w-blogg020316ac

Mikil neikvæð vik eru yfir Bretlandseyjum - en jákvæð yfir Grænlandi. Norðaustanáttarauki er mikill. En jafnframt sjáum við vel að allur þessi auki fór frekar í að drepa niður hina venjubundnu suðvestanátt febrúarmánaðar heldur en að búa til háloftanorðanátt - enn stærri vik hefði þurft til þess. 

Næsta kort sýnir enn jafnhæðarlínur - þær sömu - en litirnir sýna nú þykktarvikin. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.

w-blogg020316b

Neikvæð þykktarvik eru yfir Íslandi - en ekki svo mjög stór. Af kvarðanum má sjá að mörkin milli daufustu bláu litanna eru við -20 metra, markalínan liggur um það bil yfir Reykjavík og Akureyri. Þetta þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hefur verið í kring um -1 stig undir meðallagi áranna 1981 til 1990. Í Reykjavík var hann í raun -0,5 stigum undir meðalhita þess tímabils, en á Akureyri var hann um -2,0 stigum undir. Hægviðri, bjart veður og snjór á jörð hafa greinilega ýkt kuldann fyrir norðan. Sama var reyndar víða á Suðurlandsundirlendinu - þar var kaldara en veðrahvolfshitinn hélt það væri. 

Við skulum líka líta á vikin í 850 hPa-fletinum, hæstu fjöll landsins ná upp fyrir hann. 

w-blogg020316d

Hér sjáum við að kaldast að tiltölu hefur verið í Færeyjum - og líka vestur af Írlandi. Yfir Íslandi eru vik og vikamynstur svipuð því sem var á þykktarkortinu. En ósköp hefur verið hlýtt á Grænlandi. Við getum líka tekið eftir því að neikvæðu vikin teygja sig lengra vestur eftir Atlantshafinu á þessu korti miðað við það fyrra. - Kaldur sjórinn á sjálfsagt sinn þátt í því.

Síðasta kortið sýnir sjávarhitavikin í febrúar miðað við 1981 til 2010. 

w-blogg020316c

Heildregnu línurnar sýna þrýstisviðið, en litir vikin. Hafís er sýndur í bleiku og gráu. Ekki skulum við taka mikið mark á sjávarhitavikum í námunda við hafísbrúnina. Hér má sjá að enn er kalt suður í hafi, stóru vikin suður af Nýfundnalandi stafa af tilviljanakenndum sveigjum Golfstraumsins - en stóra bláa svæðið er í alvöru. Þar er vikið mest um -2,0 stig. Lítið er þar til bjargar, því sennilegast er að kuldinn sé ekki aðeins í yfirborðinu - og það tekur því væntanlega tíma að losna við neikvæðnina. 

En - við skulum þó hafa í huga að töluverður hitabratti er á þessu svæði - ekki þarf miklar hliðranir til að breyta myndinni - t.d. er spurning hvað gerðist ef það kæmu einn til tveir mánuðir með mun minni vestanátt en venjulega (ólíklegt já, en ekki óhugsandi). Með hækkandi sól aukast líka líkur á hlýnandi sjó - en þar sem orkubúskapur yfirborðs sjávar er í reynd býsna flókinn skulum við alveg láta vera að bulla um það. 

Látum hér þessu kortafylleríi lokið - bestu þakkir að venju til Bolla korta- og líkanmeistara á Veðurstofunni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ákaflega fróðlegt og skemmtilegt. Er ekki furðulegt hve kuldinn í hafinu suður af Íslandi er lífseigur, jafnvel í einhverja mánuði? Á sama tíma er sjórinn að hlýna á jörðinni og ekki sýst í norðurhöfum og óvanaleg hlýindi á norðurpólnum. Eru til einhver gögn um hvort svona kuldatímabil hafi komið á þessum slóðum fyrir sunnan Ísland, þ.e. óeðlilega kaldur sjór miðað við sjó annars staðar?

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 2.3.2016 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 43
  • Sl. sólarhring: 146
  • Sl. viku: 1964
  • Frá upphafi: 2412628

Annað

  • Innlit í dag: 43
  • Innlit sl. viku: 1717
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband