Kuldatíð? Af alþjóðavetrinum (desember 2015 til febrúar 2016)

Nú lifir aðeins hlaupársdagur af alþjóðavetrinum 2015 til 2016, en árstíðaskipting alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar telur veturinn ná yfir mánuðina desember, janúar og febrúar. Hér á landi verðum við að telja mars með vetri - en það er samt í lagi að reikna meðaltöl fyrir þann styttri. Það hefur verið gert á hungurdiskum áður.

Alþjóðaveturinn 2015 til 2016 verður að teljast fremur kaldur hér á landi, sérstaklega inn til landsins. Í Reykjavík er meðalhitinn þó nánast sá sami og í fyrra og reyndar líka árið 2000 - nánast í meðallagi áranna 1961 til 1990 en -1,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. 

Á mynd lítur þetta svona út.

Meðalhiti alþjóðavetrarins (desember til febrúar) Reykjavík

Athuganir ná hér aftur til 1866 - langhlýjast var 1964, en einnig mjög hlýtt 2003, 2006 og 2013 - og einnig 1929 og 1934. Þetta er nú heldur dauflegt í ár - en ekki svo mjög í langtímasamhenginu.

Öllu kaldara hefur verið á Akureyri.

Meðalhiti alþjóðavetrarins (desember til febrúar) Akureyri

Þar er nú áberandi kaldara en í fyrra og þarf að fara alveg aftur til 1995 til að finna jafnkaldan alþjóðavetur, þá var aðeins sjónarmun kaldara en nú (og hlaupársdagur á eftir að skila sér í hús þegar þetta er teiknað og reiknað). En talsvert kaldara var 1981. Þessi mynd nær ekki jafnlangt aftur og Reykjavíkurmyndin - aðeins til 1882. Ekki var mælt á Akureyri frostaveturinn mikla 1881 - mælingar frammi í firði benda þó til þess að meðalhiti mánaðanna desember til febrúar hafi þá verið um -10 stig á Akureyri - nokkru kaldara en 1918 - eins og í Reykjavík. 

Meðalhiti alþjóðavetrarins er nú um -1,8 stigum undir meðallaginu 1961 til 1990 á Akureyri og -3,0 undir meðallagi síðustu tíu ára. - En í Grímsey er hiti +1,2 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og ekki nema -0,7 stigum undir meðaltali síðustu tíu ára. Gætir hlýindanna miklu í norðurhöfum í Grímsey? 

En þá er það mars 2016. Hver verður hiti hans? Heldur vikamunur strandar og innsveita sér? Sé að marka spár evrópureiknimiðstöðvarinnar verður enn kalt norðaustanlands næstu tíu daga - en nærri meðallagi á Suðvesturlandi. Spár enn lengra fram í tímann gera ekki ráð fyrir hlýindum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Engin leitnilína á Akureyri foot-in-mouth

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2016 kl. 23:25

2 identicon

Ég finnst nú að þú hefðir alveg getað sleppt spurningarmerkinu, Trausti, og reyna þannig að draga úr kuldatíðinni. Í fyrra var jú kaldasti vetur sem komið hefur hér á höfuðborgarsvæðinu síðan 2000 (og kaldasta árið einnig síðan þá) - og nú er hkuldinn sá hinn sami. Það eru jú 16 ár síðan!!!

Þá er kuldinn á Akureyri sláandi, svipuður kuldi og 1995 sem var eitt kaldasta ár sem kom á síðasta kuldaskeiði (1966-2000), eins og þú bendir sjálfur á!

 

Síðan er auðvitað athyglisvert í þessari færslu það sem kemur fram um marsmánuð. Að hann verði svipaður, a.m.k. framan af, þ.e. að kuldatíðin haldist áfram.

Það ætlar að vora seint í ár, rétt eins og í fyrra.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 29.2.2016 kl. 07:05

3 identicon

Hvað varð eiginlega um meinta óðahlýnun á Íslandi?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.2.2016 kl. 08:34

4 identicon

nú er stararnir komnir í njósnaleiðangur í þakið. gétur verið að tungl skipti máli í sambandi við vorið tungl er ekki altaf í samræmi við dagatalið lígt á við um stjörnumerkinn þegar þau voru hönuð eru þau aðeins búin að færast úr stað í dag.

ps. þakka trausta að bera saman grímsey og vestmannaeyjar. fyrir allnokru síðan. var mjög upplýsandi. vonandi lærði ég eithvað af trausta í starfsskyníngu forðum daga 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 29.2.2016 kl. 11:56

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svona er þetta bara. Það hlýnar og kólnar hér hjá okkur á víxl eins og annars staðar og væntanlega allir hér sammála um það. Hlýnar þó eitthvað þegar til lengri tíma er litið.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.2.2016 kl. 17:42

6 identicon

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með því hvernig hver hitatungan á fætur annarri, sem hefur komið úr vestri að undanförnu, hefur verið kveðin í kútinn af afkvæmum "Stóra-Bola". Spennandi verður að fylgjast með framhaldinu, en eins og Trausti getur um er ekki að sjá nein hlýindi hér á okkar slóðum á næstunni.
Ástæða er til að nefna að í kortum yfir þróun hita á heimsvísu er hafsvæðið hér suður af Íslandi einn af þeim blettum, þar sem veðurfar er kaldara á s.l. ári heldur en víðast hvar annarsstaðar. Man eftir því þegar fyrstu spár um líkur á hlýnun á jörðinni voru birtar á síðari hluta síðustu aldar, þá gerðu spálíkön einmitt ráð fyrir því að hér í nágrenni okkar myndi kólna, þótt hlýnaði víða annarsstaðar.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 29.2.2016 kl. 20:37

7 identicon

Þetta um hlýnun alls staðar annars staðar en hér gæti svo sem vel staðist meðan ekki eru upplýsingar um annað. Hins vegar má alveg benda á að áhrifa frá El Nino gætir núna og er af flestum sérfræðingum talin orsök þess að 2015 er talið með þremur hlýjustu árum frá upphafi mælinga (og eflaust mun lengur). Árið 1998 mun þó enn hafa vinninginn samkvæmt sumum mælingum en þá var El Nino síðast í hámarki.

Áhrif hans eru minni hér en á suðurhveli þar sem eru miklir hitar og þurrkar þessi misserin. Staðan hér gæti því færst yfir önnur svæði er fjær dregur áhrifum EL Nino og þannig komið í ljós svart á hvítu að við erum að fara inn í nýtt 30 ára (?) kuldaskeið eins og Páll Bergþórsson heldur fram. 

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 29.2.2016 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband