Enn úr 30-ára meðaltalapyttinum (uppfærsla)

Tíminn líður hratt (klisja). Fyrir rúmum 3 árum var hér fjallað um stöðu 30-ára keðjumeðalhita einstakra almanaksmánaða og samkeppni nútímahlýinda við eldri hlýindi. Hér verður sá pistill uppfærður (eins og það heitir - netið er ein allsherjaruppfærslumartröð). Hér er hitinn í Stykkishólmi til meðferðar og eins og fram kom í nýlegum pistli er 30-ára ársmeðalhiti þar nú hærri en vitað er um áður, +0,09 stigum yfir hæsta 30-ára meðaltali fyrra hlýskeiðs (1932 til 1961).

En ekki standa allir mánuðir sig jafn vel. Janúar hefur að undanförnu verið langhlýjastur að tiltölu, en október lakastur. Þess vegna er 30-ára keðja þessara mánaða sýnd hér að neðan.

w-blogg100216a

Tíminn er á lárétta ásnum, en hiti á þeim lóðréttu. Kvarðinn til vinstri sýnir meðaltal janúar (blár ferill) en sá til hægri októberhitann (rauður ferill). 

Það er með ólíkindum hvað janúar hefur verið hlýr - kominn langt (0,73 stig) fram úr því sem hlýjast var á hlýskeiðinu fyrra. - Þetta getur varla gengið svona öllu lengur - eða hvað? Október er hins vegar ansi aumur að sjá - í samanburðinum. Hann hlýnaði í takti við janúar fram undir 1920 (já, hlýnun var byrjuð svo snemma) - hikaði síðan miðað við janúar - en tók gríðarlegan sprett og náði þeim fyrrnefnda rétt undir lok hlýskeiðsins - en datt svo niður aftur og hefur ekki jafnað sig síðan. Síðustu 30 októbermánuðir hafa verið lítið hlýrri en þeir voru fyrstu 30 ár tuttugustualdarinnar. 

En aðrir mánuðir? Staða þeirra sést vel á myndinni hér að neðan.

w-blogg100216b

Súlurnar (og lóðrétti kvarðinn) sýna mun á 30-ára keðjuhita núverandi og eldra hlýskeiðs. Jákvæðar tölur sýna í hvaða mánuðum nýja skeiðið er hlýrra en það fyrra. 

Hér afhjúpast afbrigði janúarmánaðar mjög vel - og linka október. En mars, maí og nóvember hafa einnig staðið sig laklega, febrúar er rétt alveg að hafa það - og gæti gert það því kaldir febrúarmánuðir munu detta út á næstu árum. Aftur á móti verður meira á brattann að sækja fyrir desember. 

Janúar, apríl, júlí og ágúst eru á toppnum nákvæmlega núna, en júní toppaði 2014. Taki menn meðaltal af súlunum fæst út neikvæð tala (-0,05 stig) - en árið er samt +0,09 stigum ofan hæsta eldra 30-ára meðaltals eins og áður sagði. Þetta „misræmi“ stafar af því að eldri hámörk dreifast á langan tíma - njóta sín ekki alveg saman - en þau nýju gera það (hugsið aðeins um það). 

Eldri pistill um sama efni. (Þar geta þrautþyrstir aðfinnslusinnar fundið prentvillu á annarri myndinni).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort árstíðirnar séu, að færast til, og mannkynið muni lenda, í annari vist.

Sigurjón Jónsson, 10.2.2016 kl. 10:48

2 identicon

Gaman að sjá þetta og spyrja má hvað er að janúar. Núna seinustu árin er desember hvað eftir annað kaldasti mánuður ársins og janúar hlýrri en febrúar. Í mínum kolli var farin að fæðast sú hugmynd að þetta væri einhver viðvarandi breyting á veðurlagi. Að hlýjar lægðir komnar langt úr suðri kæmu alltaf í upphafi árs og sópuðu öllu köldu loft burtu. Síðan hvarf sú hugmynd eins og dögg fyrir sólu í kuldunum í nýliðnum janúar. Sennilega voru þessir hlýju janúar bara tilviljun, eða hvað.

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 10.2.2016 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 1934
  • Frá upphafi: 2412598

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1687
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband