Hávetur?

Í pistli fyrir nokkru var minnst á mikla sókn lofts að sunnan norður í Ballarhaf. Fyrst fyrir austan land (rétt fyrir áramót), síðan frá Alaska (nokkrum dögum síðar) og nú síðast vestan Grænlands. Í öllum tilvikum urðu til miklar og hlýjar háloftahæðir á norðurslóðum. 

Atburðarás þessi hefur raskað hefðbundinni framrás lægðabylgja í vestanvindabeltinu á norðlægum breiddarstigum og beint farvegi þeirra sunnar en algengast er - víða um norðurhvel. Hér norðurfrá getur háloftátt jafnvel orðið austlæg eða það sem sjaldgæfast er - norðaustlæg - en líka blásið beint úr norðri eða suðri. Stundum er sagt um þetta „hringrásarfyrirkomulag“ að það sé „lengdarbundið“ - vindar fylgi lengdarbaugum - en vestanáttin hefðbundna er „breiddarbundin“. 

Hlýjar heimskautahæðirnar lifa ekki lengi fái þær ekki aukaskammta af hlýindum að sunnan. Trufluð hringrás er mun líklegri til að útvega þá heldur en hin  hefðbundna. En lítum á meðalspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu 10 daga. Hún er svo sannarlega óvenjuleg. 

w-blogg120116a

Fyrri mynd dagsins sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins næstu tíu daga og vik frá meðaltalinu 1981 til 2010. Vikin yfir Grænlandi eru með allra mesta móti - sést í hvítan blett sem sprengir kvarðann í 400 metra viki - og það í tíu daga. Hér á landi verður meðalvindátt í háloftunum nærri norðnorðvestri - sé að marka spána. 

Síðari myndin sýnir það sama - nema (lituð) þykktarvik eru komin í stað hæðarvikanna - og einnig má ef vel er að gáð sjá jafnþykktarlínur (strikaðar). 

w-blogg120116b

Hlýindin miklu vestan Grænlands sprengja litakvarðann - og þar sem mest er er þykktarvikið 300 metrar - samsvarar 15 stiga hitaviki - en austan við land er gríðarlega mikið neikvætt vik - þar ríkir kuldinn - yfir Finnlandi um -150 metrar þar sem mest er (um -7 stiga vik). Hér er greinilega flest úr skorðum gengið.

Mikill þykktarvikabratti er yfir Íslandi, austast nær neikvæða vikið um -100 metrum, en vestanlands er  það mun minna - ekki nema um -30 metrar við Vestfirði. 

En þykktarvik segja ekki allt um hita í mannheimum. Í veðurlagi sem þessu eru hitavik mest og neikvæðust inn til landsins - en minni við sjávarsíðuna - það á við um alla landshluta. 

Nú er það svo að tíu daga tilvera hæðarinnar miklu byggir á því að hún fái að minnsta kosti einn góðan skammt af sunnanlofti sér til viðhalds á tímabilinu eftir að hafa orðið til. Ekki er neitt samkomulag hjá reiknimiðstöðvum - og ekki einu sinni frá einni spárunu reiknimiðstöðvarinnar til annarrar um að slíkur flutningur muni takast. Sunnansóknin á á koma um helgina - safnspá reiknimiðstöðvarinnar segir að hún muni skila sér til okkar - og Bretlandseyja - en ekki Vestur-Grænlands. Fari svo verða þessi stóru tíudagavik ekki að veruleika. Þau eru eins og oftast áður sýnd veiði en ekki gefin. 

En ástand sem þetta hefur alloft komið upp áður - stundum hefur það flosnað upp á nokkrum dögum og aldrei náð sér fyllilega á strik - en einnig eru dæmi um að það hafi staðið í nokkrar vikur. Skiptir þá miklu máli hvar við nákvæmlega erum í hæðarhryggnum - eins og vikamyndin hér að ofan gefur sterklega til kynna, þykktar- og þar með hitabratti er nefnilega mjög mikill. Auk þess skiptir mjög miklu máli hvort við erum þá undir sífelldri ágjöf lægðardraga úr norðri og norðvestri eða ekki. Norðvestanlægðardrögin eru sérlega leiðinleg viðfangs - algengust reyndar á vorin. En vorið er langt undan.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 116
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2438
  • Frá upphafi: 2413872

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 2251
  • Gestir í dag: 103
  • IP-tölur í dag: 102

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband