Köldum mánuði lokið

Nýliðinn maímánuður var kaldur - á landinu í heild var hann sá kaldasti síðan 1982 - en þá var ómarktækt kaldara en nú. Mun kaldara var hins vegar í maí 1979. Á einstökum veðurstöðvum er röðin önnur - það var að tiltölu kaldara sunnan- og vestanlands heldur en á Austurlandi. En uppgjör fyrir einstakar stöðvar kemur væntanlega frá Veðurstofunni á mánudag eða þriðjudag.

Ritstjóri hungurdiska reiknar landsmeðalhita sér til hugarhægðar - en það má gera á ýmsan hátt og ekki víst að allir aðrir fái nákvæmlega sömu útkomu. Landsmeðalhitareikningurinn telst sæmilega öruggur aftur til 1930 - en í fjarlægari fortíð er hann mun óvissari - og þá almennt rétt að nota stakar stöðvar til samanburðar. 

En látum leikinn ráða og horfum á línurit sem sýnir landsmeðalhitann í maí - allt aftur til 1823.

Landsmeðalhiti í maí 1823 til 2015

Hér má sjá að mikill munur er á hita í maí frá ári til árs - kaldastur reiknast maí 1866 en maí 1935 hlýjastur. Meðalhitinn í maí nú (2015) reiknast 3,35 stig. Kaldari mánuðir eru neðan bláu strikalínunnar - vel sést hversu sérlega kalt var í maí 1979. 

Gráa strikalínan er reiknuð leitni - hún er um 1 stig yfir tímabilið í heild. Oft hefur verið fjallað um það hér á hungurdiskum að október er sá mánuður sem minnst vill vita af hlýnun síðustu áratuga, en maí hefur líka verið tregur í þeim efnum. 

Maí nú var -1,92 stigum undir meðallagi áranna 1931 til 2010 (já). Reyna má að bera vikið nú í maí saman við aðra mánuði ársins með því að spyrja hvenær vikið varð síðast svo neikvætt. Því er fljótsvarað, það var í desember 2011, þá var landsvikið -2,44 stig. En maí og desember keppa ekki alveg á jafnréttisgrundvelli - breytileiki hitans í desember er meiri heldur en í maí. Til að gæta frekara jafnréttis umreiknum við vikin yfir í staðalvik - staðalvik hitans í maí 2015 er -1,42, en í desember 2011 var það -1,48, ekki svo mikill munur. 

Mjög kalt var í júní 2011, þá var vik frá meðallagi -1,49, en staðalvikið -1,65. Þessir þrír mánuðir eru þeir köldustu hingað til á þessum áratug. Á þeim síðasta voru það einungis febrúar 2002 og september 2005 sem voru ámóta kaldir að tiltölu - en október 2005 og 2008 ekki fjarri.

Svo er spurning með framhaldið - við vitum ekkert um það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

AMO búinn að vera í neikvæðum fasa frá 2011, þannig þetta kemur ekki á óvart. Nú hefst 30-40 ára neikvæður AMO fasi með tilheyrandi kulda og köldum sjó hér á landi.

http://www.iflscience.com/environment/atlantic-entering-cool-phase-will-change-world-s-weather

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 1.6.2015 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.5.): 188
 • Sl. sólarhring: 413
 • Sl. viku: 1878
 • Frá upphafi: 2355950

Annað

 • Innlit í dag: 174
 • Innlit sl. viku: 1748
 • Gestir í dag: 172
 • IP-tölur í dag: 168

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband