Umræður um loftlagsbreytingar

Flestir (en ekki allir) virðast nú ganga út frá því sem gefnu að miklar loftslagsbreytingar séu yfirvofandi af manna völdum, þó skiptar skoðanir séu um magn og eðli. En eins og algengt er með flókin mál vill umræða stundum fara fram úr sjálfri sér.

Of lítill greinarmunur er gerður á loftslagsbreytingum sem vísindalegu viðfangsefni annars vegar og pólítískum og efnahagslegum aðlögunar- eða mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga hins vegar. Sumum finnst þó augljóst að séu engar loftslagsbreytingar í pípunum sé engra aðgerða þörf vegna þeirra. En er það rétt ályktun?  

Æskilegt er að greinarmunur sé gerður á veðurfarsbreytingum annars vegar og svokölluðum hnattrænum umhverfisbreytingum hins vegar. Þær fyrrnefndu eru aðeins hluti af þeim síðarnefndu. Greinarmun verður einnig að gera á veðurfarsbreytingum almennt og þeim breytingum sem taldar eru vera af manna völdum. Umhverfisbreytingar af manna völdum eru mjög umfangsmiklar, sumar þeirra kunna að hafa áhrif á veðurfar, beint eða óbeint - aðrar ekki. Ekki er almennt samkomulag um hversu stór hlutur mannsins er í þeim breytingum sem þegar hafa orðið og ræður afstaðan til þess oft afstöðu til framtíðarhorfa.

Fjölmargir mótunarþættir ráða loftslagi, bæði staðbundið og á heimsvísu. Einfaldast þykir að kenna auknum gróðurhúsaáhrifum af mannavöldum um hlýnunarhrinu síðustu 35 ára, enda er magn gróðurhúsalofttegunda sá mótunarþáttur varmajafnvægis lofthjúpsins sem mest og reglulegast hefur breyst á þessum tíma. Ef rekja á hlýnunina eftir 1980 eingöngu til náttúrulegra orsaka - en ekki aukningar gróðurhúsaáhrifa - þýðir það jafnframt að næmi veðurkerfisins í heild gagnvart breytingum er ískyggilega mikið.

Og hér byrjar flækjan, alveg ofboðsleg flækja. Flækjustigið stafar ekki síst af því hversu nátengd öll náttúran er, ótrúlegt dæmi sem flestir þekkja er þetta með flúorkolefnin og ósonið. Það magn sem sleppt er af þessum efnum virðist í öllum skilningi sáralítið, en óheft losun þeirra getur samt haft gríðarlegar (óbeinar) afleiðingar í lífríkinu - og reyndar á veðurfar líka. Allir vita að aukið magn koltvísýrings og þar með aukin gróðurhúsaáhrif stafa af inngripi manna í náttúrulega hringrás kolefnis, en minna fer fyrir umræðu um þau stórkostlegu inngrip sem eiga sér einnig stað í hringrás allra annarra efna sem koma við sögu lífsins. Yfirsýn yfir afleiðingar athafna mannsins á t.d. nitur-, brennisteins- og fosfórhringina er af ískyggilega skornum skammti - og umræður utan þröngs hrings sérfræðinga og umhverfisverndarsinna nær engar. 

Því miður vill umræðan um bæði veðurfarsbreytingar og hnattrænar umhverfisbreytingar almennt, oft þrengjast í einn farveg: Hækkun hita af völdum losunar á koltvísýringi, það er það sem málið virðist snúast um. En eru þá umhverfisbreytingar einungis fall af hita? Sennilega sjá flestir að það getur varla verið, fleira hlýtur að koma við sögu. Ef til vill má finna einhverja málamiðlun sem gengur út á það að segja að því meiri sem hitabreytingar verða, því líklegri verði umhverfisbreytingar. En getum við komið í veg fyrir umhverfisbreytingar með því að halda hitaaukningu einni og sér í skefjum? Hversu miklar breytingar komum við í veg fyrir með því að halda hitaaukningu í skefjum? Er leiðin til baka örugglega til minnkandi umhverfisbreytinga eða leiðir hún til enn meiri breytinga, sem ella hefðu ekki orðið? Eða er sú leið að draga úr hita - eða að koma í veg fyrir hugsanlega hækkun hans - einungis friðþæging sem fær okkur til að líta framhjá öllum öðrum breytingum sem e.t.v. eru hættulegri?

Svipaðar vangaveltur koma upp þó við hættum að tala um umhverfisbreytingar, en einbeitum okkur að veðurfarsbreytingunum einum. Fyrsta spurningin er hvort veðurfarsbreytingar séu mælanlegar með einni tölu, svokölluðum meðalhita jarðar eða norðurhvels? Ég held að flestir átti sig á því að svo er ekki. Það er reyndar ekki svo auðvelt að reikna meðalhita jarðar og þeir sem reyna fá út mismunandi tölur.

Allir þeir sem sjá ógn í einhvers konar Golfstraumshiksta átta sig á því að fullgróft er að nota eina tölu fyrir heim allan, svæðisbundið getur þróun hitafars verið með talsvert öðrum hætti en meðaltalið. En þá er aftur komið að því sama, vex svæðisbundinn breytileiki eingilt með hækkandi hita? Er hugsanlegt að einhver ákveðin hitahækkun sé hættulegust hvað hringrás sjávar áhrærir? Það veit auðvitað enginn.

Spurt hefur verið hvers vegna stjórnmálaskoðanir komi við sögu þessa máls. Eru náttúruvísindin ekki laus við stjórnmál, er ekki eitthvað sem heitir bara staðreynd málsins, óháð hægri, vinstri, upp og niður? Í sumum tilvikum innan náttúruvísindanna er það svo, lögmál varmafræðinnar eru t.d. algjörlega ópólítísk. Staðreyndir þessa máls eru þær að á undanförnum árum og áratugum hafa verið skrifaðar hundruð þúsunda greina sem varða veðurfarsbreytingar, sumar eru þokukenndar og aðrar skýrar, en enginn hefur lesið þær allar. Fjölmenn alþjóðanefnd (IPCC) vinnur nótt og dag við það að draga saman niðurstöður rannsókna og tekur saman þykka, loðna- og oft mótsagnakennda doðranta, sem stöku maður les lesa eða flettir.

Er hægt að ætlast til þess að maður finni einfaldan sannleika, já eða nei, í svona miklum skrifum, jafnvel í tveggja síðna útdrætti fyrir stjórnmálamenn og framkvæmdastjóra? Sá sem fær í hendur 5 þúsund síðna bók þar sem sýnt er fram á að 2 plús 2 séu fjórir verður ófær um að dæma það sjálfur. Ég verð að taka stökk og trúa því sem mér finnst og það er fullkomlega eðlilegt að næsti maður komist að annarri niðurstöðu. Ég kemst fyrst og fremst að þeirri niðurstöðu að ég verði að taka ákvörðun sjálfur, allar ákvarðanir í umhverfismálum byrja hjá mér, mér er síðan frjálst að velja mér stjórnmálamenn til að gera mér ákvörðunina bærilega feli hún á annað borð í sér einhverja fórn.

Efnislegt framhald þessa texta verður óhjákvæmilega pólítískt eða siðfræðilegt og lesendur verða því að leita þess annars staðar en hjá þeim sem þetta skrifar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Bestu þakkir fyrir skynsamlegan pistil.

Ágúst H Bjarnason, 2.12.2015 kl. 18:11

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góður pistill, takk.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.12.2015 kl. 19:25

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Öll mengun er slæm, hvort sem um er að ræða mengun í sjó, vötnum, lofti eða á landi.

Því ber að halda henni í skefjum eins og kostur er og minni mengun getur ekki síður aukið hagvöxt en enn meiri mengun.

Gróðurhúsaáhrif eru því ekki aðalatriði málsins.

Takk fyrir góða pistla.

Þorsteinn Briem, 3.12.2015 kl. 02:08

4 identicon

Já, það er ástæða til að efast um hnattræna hlýnun þegar maður lítur út um gluggann eða bregður sér af bæ. Snjódýpt að slá öll met einmitt á því ári sem mesta hnattræna hlýnunin á sér stað!

Árshitatölur vekja einnig efasemdir um hlýnunina. Fyrstu 11 mánuðir ársins var meðalhitinn hér í Reykjavík 5 stig - og kaldasti mánuður ársins eftir. Verður að fara aftur til aldamótaársins 2000 til að sjá svo lágan meðalhita, þ.e. áður en "núverandi" hlýskeið hófst.

Þetta er reyndar annað árið, af þemur síðustu, þar sem meðalhiti ársins fer undir 5 stigin. Því það gerir hann örugglega. Undanfarin ár hefur meðalhiti desembermánaðar rokkað frá -2 stigum upp í +1 stig. Það gerir, framreiknað, milli 4,4-4,6 stiga hita á þessu ári. 

Spárnar benda til að lægri talan verði ofan á, því þýða er ekki í kortunum og spáð allt að -14 stiga frosti um næstu helgi.

Það þýðir að við þurfum ekki lengur að bera okkur saman við kuldatímann 1998-2000 (4,5-4,7 stig) heldur fara aftur til áranna 1992-1995 (4,4 stig hæst árið 1993) til að finna sambærilegan kulda.

Þá er hægt að fara að tala um alvarlega kuldatíð hér á landi þetta árið - og að tilhneigingin í þá átt árið 2013 sé að verða enn meira áberandi eftir þetta ár, 2015.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 3.12.2015 kl. 09:27

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það er margt í þessum pistli þínum sem ástæða væri til að svara - en það er sérstaklega ein málsgrein sem ég vil fá að svara:

"Of lítill greinarmunur er gerður á loftslagsbreytingum sem vísindalegu viðfangsefni annars vegar og pólítískum og efnahagslegum aðlögunar- eða mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga hins vegar. Sumum finnst þó augljóst að séu engar loftslagsbreytingar í pípunum sé engra aðgerða þörf vegna þeirra. En er það rétt ályktun? "

Loftslagsbreytingar sem vísindalegt viðfangsefni er einmitt mjög áhugavert og margslungið. Það hafa þó margir sérfræðingar í þessum fræðum neyðst til að fara út fyrir hinn vísindalega þægindaramma og taka þátt í umræðum þar sem pólitík og efnahagsmál spila inn í - einfaldlega vegna þess að þeir sjá það út úr sínum gögnum að í óefni stefnir. Það er þá í raun orðið siðferðilega rangt hjá þeim að segja ekki frá afleiðingum loftslagsbreytinga og hvetja til þess að dregið verði úr losun.

Varðandi seinni setninguna, þá er svarið: Nei, það er ekki rétt ályktun. Í fyrsta lagi þá eru loftslagsbreytingar í pípunum og ekki bara út frá sjónarhóli loftslagssérfræðinga - heldur líka út frá jarðfræðilegum gögnum. Ég tek oft sem dæmi, þegar menn vilja meina að þetta sé svo flókið og óljóst allt saman, yfirlýsingu frá The Geological Society of London frá árinu 2010 og 2013 (sjáhttp://www.loftslag.is/?p=14484), en þar kemur fram að frekar lítil hækkun í styrki CO2 í lofthjúpnum og þar með hækkun í  hitastigi, veldur töluverðri hækkun í sjávarstöðu – auk þess sem úthöfin verða súrari og súrefnissnauðari. Sambærilegur atburður  í jarðsögunni og stefnir í nú, er PETM (Paleocene-Eocene Thermal Maximum), en sá atburður olli miklum útdauða sjávarlífvera –  það tók lífið á jörðinni um 100 þúsund ár að jafna sig á þeim atburði.
En þó svo færi að ekki yrðu þær loftslagsbreytingar sem 97% loftslagsvísindamanna telja að verði við óhefta losun manna á CO2, þá segir efnafræðin og líffræðin okkur það að sjávardýr margskonar myndu illa þola þá aukningu í sýrustigi sem reiknað er með að verði við áframhaldandi losun manna.

Höskuldur Búi Jónsson, 3.12.2015 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 89
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 1054
  • Frá upphafi: 2420938

Annað

  • Innlit í dag: 82
  • Innlit sl. viku: 931
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband