Endurskipulagning

Næstu tvo daga (miðvikudag og fimmtudag 11. og 12. febrúar) virðist verða uppi smáendurskipulagning á skítkastinu yfir Norður-Atlantshafi - auðvitað til þess að það geti svo haldið áfram. 

Undanfarna daga höfum við verið í námunda við kjarna heimskautarastarinnar - fyrst í hlýindunum suðaustan hans - svo beint undir honum - og loks í dag í norðvesturjaðrinum. Gengið hefur á með snörpum éljum um landið vestanvert í allhvassri vestanátt. Skortur hefur verið á köldu lofti fyrir norðan okkur þannig að vestanátt háloftanna hefur „náð til jarðar“ - við setjum það í gæsalappir - en það er samt nokkurn veginn þannig. 

Stöðuna í dag (þriðjudag 10. febrúar) má sjá á kortinu að neðan. Það er 300 hPa kort evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18. 

w-blogg110215a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - við erum í kringum 8,5 til 9 km hæð yfir sjávarmáli (merkingin er í dekametrum, 1 dam = 10 metrar). Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða - almennt er heimskautaröstin nokkuð breið - en yfir Íslandi þrengist hún og myndar eindreginn kjarna - sumir segja skotvind - sem litirnir afmarka. Í dekkri bláa litnum er vindhraðinn meiri en 60 m/s. 

Þessi kjarni er smám saman að þokast til austnorðausturs - og út úr kortinu. Við Nýfundnaland er næsta lægðakerfi í undirbúningi - við sjáum tvo (eða þrjá) kjarna. Sá nyrsti er í lægðabeygju, en sá syðri (og lítillega öflugri) er í hæðarbeygju. 

Fyrir tíma tölvuspáa var mjög erfitt að ráða í hvað úr svona nokkru yrði - hvað gerist þegar bylgjur af mismunandi bylgjulengdum og beygjum lenda saman. En þótt þetta sé sérgrein reiknilíkananna vilja þau samt misreikna sig - meira að segja aðeins fáa daga fram í tímann. En hér að neðan má sjá líklegt framhald í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg110215b

Við erum nú komin fram á á fimmtudagsmorgunn kl. 6. Hér má sjá að mjög hefur hert á vindi í nýju lægðinni. Kjarninn orðinn fjólublár - vindhraði 90 m/s - jafnframt er bylgjan orðin býsna kröpp. Það var kennt hér á árum áður að væri rastarkjarni (vindhraðahámark) bakvið (vestan- eða norðanmegin) bylgjuna myndi hún líklega grafa sig niður sem kallað er. Þá er átt við að hún komist aldrei norður á bóginn hjálparlaust.

Sé það rétt í þessu tilviki ætti lægðin sem fylgir bylgjunni aldrei að komast til Íslands. Við myndum þá missa lægðina til austurs eða jafnvel suðausturs og fá einn eða tvo aukadaga í fríi frá skakinu. En reiknimiðstöðvar hafa skakast með þessa ákveðnu lægð fram og til baka í spánum undanfarna daga -.

Rétt er að ræða málið ekki frekar á þessum vettvangi fyrr en fullt samkomulag hefur náðst (eða þagga það í hel - eins og háttur er hérlendis - og furðu oft árangursríkt - þegar vandræði eru annars vegar). En eftir að þessi bylgja er frá virðist vera sátt um að stöðugur og ör lægðagangur haldi áfram svo langt sem séð verður. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 42
  • Sl. sólarhring: 146
  • Sl. viku: 1963
  • Frá upphafi: 2412627

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1716
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 40

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband