Byrjar hlákan svona?

Eins og fjallað var um í pistli gærdagsins hlýnar að þessu sinni mun hraðar í háloftunum heldur en hér niðri í mannheimum. Mjög kalt loft liggur í makindum yfir landinu og það hverfur ekki í sólarleysinu heldur þarf vindur annað hvort að hrekja það burt eða blanda því saman við hlýrra loft ofan við. Hvort tveggja gerist væntanlega. 

Síðdegis á morgun (þriðjudag 3. febrúar) er hlýja loftið farið að verða nokkuð aðgangshart og ef marka má hitaspá harmonie-líkansins verður sums staðar orðið alveg frostlaust. En hvar byrjar hlákan?

w-blogg030215a

Litakvarðinn sýnir hitann. Frostlaust er orðið á gulu svæðunum. Sé spáin rétt verður frostlaust í Vestmannaeyjum, jafnvel á Landeyjasandi, utan til á Reykjanesi og fleiri annesjum vestanlands. Hér blæs vindur einfaldlega af hafi - kalda loftið á enga möguleika. 

Frostleysisræma liggur frá Kjalarnesi, framhjá Akranesi og norðvestur í átt til Mýra. Svo eru frostlausir blettir í Ísafjarðardjúpi, á Ströndum, við Vatnsnes og stórt svæði norður af Tröllaskaga og Eyjafirði hefur alveg hreinsast af frosti. Svo er nærri frostlaust nærri Holuhrauni - nei líkanið veit ekkert af gosinu. Þetta er niðurstreymið af Dyngjujökli sem er svona hlýtt.

Miklar bungur af köldu lofti ganga í sjó fram vestan til á Suðurlandi, - og um Reykjavík og víðar. Á þessum stöðum stendur mjög hægur vindur af landi - kuldinn lifir ekki lengi yfir sjónum - en gefur sig þó ekki á stundinni. Víða má sjá athyglisverð smáatriði, t.d. virðist mikill munur vera á hita vestan- og austanmegin á Skjálfandaflóa. 

En byrjar hláka morgundagsins svona? Eða er líkanið of tregt til blöndunar? Það er ekki alveg heiglum hent að blanda lofti í líkani - auðveldara að elta það óblandað. 

Auðvitað má fylgjast með aðsókn hlákunnar og atburðum henni tengdri á vef Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar - spennandi töflu- eða línuritalestur framundan?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg160325a
  • Slide16
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.3.): 260
  • Sl. sólarhring: 506
  • Sl. viku: 1450
  • Frá upphafi: 2453470

Annað

  • Innlit í dag: 253
  • Innlit sl. viku: 1335
  • Gestir í dag: 252
  • IP-tölur í dag: 252

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband